Forsíða › Forums › Spjallið › Innanfélagsmál › Frelsi
This topic contains 7 replies, has 1 voice, and was last updated by Skúli Haukur Skúlason 18 years, 3 months ago.
-
CreatorTopic
-
12.10.2006 at 00:51 #198712
Íslenskir jeppamenn njóta meira frelsis, bæði til þess að ferðast um landið, og til þess að aðlaga farartækin að þörfum okkar og notkun, heldur en gerist víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Þetta frelsi byggir á miklu leiti á árangursríku starfi þessa félags fyrstu starfsár þess.
Ferðafrelsið á stoð í náttúruverndarlögum sem eru frá því 1999. Samkvæmt þeim megum við aka á vegum og snæviþakinni jörð. Vegir eru ekki skilgreindir í náttúruverndarlögum, eða reglugerðinni sem sett er á grundvelli þeirra. Í núgildandi reglugerð eða lögum eru engar tilvísanir í kort eða merkingar, hugtakið merkt slóð var í eldri reglugerð. Einu lagalegu skilgreininguna á vegum er að finna í umferðarlögum: Vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er til almennrar umferðar
Þessi skilgreining er mjög rúm sem gerir það að verkum að ferðafrelsi okkar er mjög mikið. Það eru til einstaklingar sem vilja skerða þetta frelsi, það hefur mest borið á Árna Bragasyni, forstöðumanni náttúruverndar- og útivistarsviðs umhverfisstofnunar.
Hann hefur reynt ýmsar leiðir, en ekki haft erindi sem erfiði, því eftir því sem ég fæ næst komist, þá hafa kærumál sem farið hafa fyrir dómstóla að hans undirlagi, alltaf endað með sýknu. Það ekki ástæða til þess að ætla að annað verði uppi á teningnum í þeim málum sem nú eru fyrir dómstólum.
Það er hins vegar umhugsunarefni, að aðilar úr okkar hópi hafa tekið undir þann söng að það þurfi að skerða frelsið, með þvi að þrengja skilgreininguna á því hvað telst vegur. Þar hefur mest borið á fyrrverandi formanni klúbbsins, Birni Þorra Viktorssyni, sem ítrekað hefur ráðist á umhverfisnefnd klúbbsins, fyrir að hafa ekki farið í að búa til nákvæmari skilgreiningu á þeim vegum sem við meigum aka eftir. Núverandi skilgreining er nefnilega svo rúm að það er erfit að sjá hvernig hægt að skerpa á reglunum, án þess að það leiði til þrengingar.
Raunar má segja að Björn sé sjálfum sér samkvæmur í þessu efni, því þegar hann var í Tækninefnd klúbbsins, þá barðist hann, sem betur fer án árangurs, fyrir því að reglur um jeppabreytingar yrðu þrengdar, í nafni neytendaverndar.Frelsi fylgja nefninlega ýmsir ókostir, menn þurfa að taka ákvarðanir sjálfir, og að taka afleiðingum gerða sinna. Lífið væri miklu einfaldara ef öllu þessu frelsi hefði ekki verið dembt yfir okkur.
-Einar
-
CreatorTopic
-
AuthorReplies
-
12.10.2006 at 05:35 #563300
Þetta er nokkuð merkileg árátta hjá Einari að hengja sig stanslaust í þessa grein umferðarlaga sem skilgreinir slóð. Í tilfellinu hérna að neðan er hreinlega blásið á þessa skilgreiningu. Þ.a.s um leið og búið var að leggja nýjan veg án þess að viðhalda tengingu við þann gamla , þá skilgreinist hann ekki lengur sem vegur. ( reyndar hélt ég að þá þyrfti að birta það í Lögbirting ). Það er ýmislegt sem vekur furðu að vísu við þennan dóm. T,d hvers vegna verður nýi vegurinn frekar lögleg leið og hefur það eitthvað með það að gera að hann er malbikaður. Það sem ég set spurningarmerki við í þessum dóm er einfaldlega að hluti gamlavegarins er einnig flokkaður sem utanvegaakstur vegna þess að það vantaði tengingu við nýja veginn. Og það að títtnefndur skurður fá þetta mikið vægi. Nú veit maður reyndar ekki alla málavexti eða hvernig aðstæður eru í dag á þessum stað. En þess ber að geta að við nýju vegirnir á virkjunarsvæðinu austanlands þvera ýmsar gamlar slóðir nýju vegina og ef framkvæmdaaðilar hafa gleymt eða ekki tekið eftir gömlu slóðunum, eða hreinlega ekki skipt sér af þeim. Þá vantar við þær tengingar og gæru þær þá samkvæmt skilgreiningu þessari verið aflagðar. Slík minnir mig að hafi gerst við þverum leiðarinnar inn í Lindur upp úr Hrafnkelsdal.
Dómur í væntanlegur málum, meintum utanvegarmálum falla í þessum mánuði og er einar sannfærður um það að þar verði þeir ákærðu sýknaðir. Ég veit ekki hvað Einar hefur fyrir sér í því. En ég er hinsvegar ekki jafn bjartsýnni og einar og reikna ég með því að meintur utanvegarakstur við Hagavatn falli sýslumanni í vil. Þ.a.s að jeppamennirnir þar verði dæmdir fyrir utanvegarakstur. Þetta eru einungis mínar vangaveltur. Málið í Folaldadölum hinsvegar tel ég að get fallið á báða vegu.
Ég verð að vera sammála Birni Þorra í því að ekki sé hægt að lifa á bjartsýninni einni sama og vona ávalt það besta. Nú eru orðin all nokkur ár síðan við Björn annars vegar og ýmsir umhverfisnefndarmenn vorum ekki sammála um ýmis atrið varðandi hvert skildi stefna í þessum málaflokkum. Og vorum við Björn þeir sem voru hvað svartsýnastir og vildum pakka í vörn. Því miður, tel ég að við höfum haft réttar fyrir okkur á þeim tíma og má segja að fljótlega upp úr því, hafi undanhaldið hafist og er hægt að nota tímasetninguna við undanhaldið við reglugerðarsmíði um Snæfelljökulsþjóðgarð sem viðmiðun. Þar voru gerð stór mistök, sem íbúar á Hellisandi eru að átta sig á í dag. Þar er t,d búið að loka vegum sambærilegt og við Eyjabakka, Eysteinsdalsleiðinni. Einsog flestir vita var reglugerð um Snæfelljökulsþjóðgarð copy-paste yfir á Skaftafellsþjóðgarð með miður gáfulegur viðbótum. Og akstursbanni á Öræfajökli og Skeiðarárjökli. Þar töpuðum við algjörlega og hafa ýmsir verði að klóra í bakkann með það að þar hafi unnist varnarsigur fyrir atbeina Samút. Ég man ekki betur en í fyrstu lotu hafi verði tekið tillit til einnar reglugerðarbreytingar af um10-20 athugasemda. Síðar komust einhverjar breytingar í gegn þó ekki nema ein eða tvær. Sem skiptu ekki máli. Enda reglugerðin í sjálfum sér öll hin versta. Því vill ég enn einu sinni minna Einar á það að þjóðgörðum er ætlað að bæta aðgengið að náttúrunni og vernda náttúruna. Það síðarnefnda gæti átt við í vissum tilfellum en þó ekki öllum. Alveg sólklárt er orðið að bætt aðgengi á ekki við og hafa starfsmenn þjóðgarðarins í Snæfellsnesjökulsþjóðgarði sannað það fyrir mér. Einnig mætti benda á það hvort það sé náttúrunni í hag að um hana sé lagðir malbikaðir vegir, merktir göngustígar, upplýsingarskilti og önnur mannvirki. Búfénaður og fólk rekið á brott. Því fyrir fáeinum árum var þetta svæði orginal, þar voru hestar á beit og fólk tjaldaði þarna og fór í berjamó. Ég get bara ekki litið á búpening á beit, sem aðskotahluti, heldur hluta af náttúrunni. Að lokum vill ég bara segja það að, ef klúbburinn og útivistarfólk ætlar alltaf að setja kíkinn fyrir blinda augað og aldrei hafa frumkvæði í neinu né þora að taka afstöðu eða vera leiðandi, þá fer illa. Ég gert verði hjartanlega sammála Einari og Snorra Ingimars og þeirra skoðunum. En ég tel þær einfaldlega ekki ornar raunhæfar í dag. Eftir að á okkur hefur dunið 101 áróður malbiksbarna sem vita ekkert um hálendið annað en það sem þau sjá á RUV. Í ára raðir. Þar sem malbiksbörnin er orðin sannfærð um að allt sé að fara til helvítis á hálendinu vegna utanvegarakstur terrorista á ofurtröllum einsog það var svo smekklega orðað af malbiksbörnunum á ritstjórn Morgunblaðsins. Það mætti einnig benda á það að innan okkar raða er fólk sem stanslaust hrópar úlfur, úlfur og leggur sig svo lágt að básúnast yfir því að menn leggi út í kanti vega.
D Ó M U R
Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 11. október í máli nr. S-25/2006:
Ákæruvaldið
Helgi Jensson sýslumannsfulltrúigegn
A og
Þorsteini Snorra Jónssyni
Hilmar Gunnlaugsson hdl.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. september 2006, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði, útgefinni 9. febrúar 2006 á hendur A, kt. 000000-0000, [heimilisfang], Eskifirði og Þorsteini Snorra Jónssyni, kt. 000000-0000, Bleiksárhlíð 37, Eskifirði, fyrir tilraun til ólögmætra fuglaveiða, með því hafa laugardaginn 15. október 2005, farið á rjúpnaveiðar í Laugarfelli, á Fljótsdalsheiði, Norður-Múlasýslu, á bifreiðinni RM-267, og ekið henni 175 metra utan vega og merktra slóða, upp í hlíð Laugafells, til þess að komast nær veiðislóð.
Og gegn Þorsteini Snorra Jónssyni að auki fyrir brot á lögum um náttúruvernd, með því að hafa í sama skipti, í heimildarleysi, ekið bifreiðinni RM-267, utan vega og merktra slóða, frá þjóðveginum sem liggur vestan við Laugarfell, og um 1030 metra vegalengd upp í Laugarfell, en hluti af þessari leið var ekinn á gróinni, snjólausri og ófrosinni jörð, og valdið með akstrinum hættu á náttúruspjöllum, en greinileg för sáust eftir bifreiðina á snjólausri jörð.
Telst þetta varða við 1. mgr. 17. tl. 9. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með áorðnum breytingum, sbr. 17. tl. 1. mgr. 5. gr., sbr. 10. gr. reglug. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með áorðnum breytingum. Og auk þess varðar háttsemi Þorsteins Snorra Jónssonar við 17. gr. sbr. 75. og 76. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, og 4. gr. sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 528/2005, um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Einnig er þess krafist að ákærðu verði sviptir skotvopnaleyfi og veiðileyfi, skv. 21. gr. laga nr. 64/1994, og 10. gr. reglug. 456/1994.
Af hálfu beggja ákærðu er krafist sýknu og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.
II.
Málavextir
Í frumskýrslu lögreglu dags. 28. október 2005 kemur fram að laugardaginn 15. sama mánaðar hafi lögreglumennirnir Jón Þórarinsson og Sigríður Sigþórsdóttir verið stödd á Snæfellsleið á móts við Laugarfell þegar þau veittu bifreiðinni RM-267 athygli þar sem hún var kyrrstæð í brekku norðvestanmegin við Laugarfell. Fram kemur í skýrslunni að Laugarfellið sé 832 m/ys og staðsett norðaustur af Snæfelli. Meðfram Laugarfelli að vestanverðu liggi vegur að vinnusvæði Arnarfells ehf. við svokallaða Ufsarveitu í Kárahnjúkavirkjun. Meðfram veginum, nær Laugarfelli, liggi aflagður slóði sem grafinn hafi verið í sundur við gatnamót Snæfellsleiðar og vegarins að vinnusvæðinu.
Í skýrslunni segir ennfremur að greinileg för hafi verið í snjó eftir bifreiðina RM-267 þar sem henni hafi verið ekið norður veginn að Ufsarveitu og þar út af veginum. Samkvæmt förunum hafi bifreiðinni verið ekið til norðurs yfir vélgrafinn skurð til austurs og síðan suður aflagða vegslóðann og síðan beygt til vinstri upp í fjallið. Alla leiðina hafi bifreiðinni RM-267 verið ekið á snævi þakinni en ófrosinni jörð. Samkvæmt förum á þeim stað þar sem bifreiðin hefði verið stöðvuð hafi verið greinilegt að ökumaður hefði stigið út úr bifreiðinni ásamt farþega.
Samkvæmt mælingum með Garmin 12 GPS göngutæki hafi reynst vera 60 metrar frá veginum að skurðinum. Þaðan hafi bifreiðinni verið ekið 15 metra á gróinni jörð að vegslóðanum. Bifreiðinni hafi verið ekið 780 metra eftir slóðanum og síðan beygt út af slóðanum og ekið þaðan 175 metra upp í fjallið. Samtals hafi bifreiðinni verið ekið 1030 metra eftir að henni hefði verið ekið út af veginum og að þeim stað þar sem hún hafi verið stöðvuð og henni síðan snúið við.
Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar lögreglumenn hafi gengið vegslóðann hafi þeir séð og heyrt hvar tveir menn hafi verið á veiðum í fjallinu. Annar þeirra hafi gengið að bifreiðinni RM-267, snúið henni og ekið síðan til baka eftir sömu hjólförum og áður. Lögreglumenn hafi gefið ökumanni merki um að stöðva bifreiðina sem hann hafi og gert. Rætt hafi verið við ökumann bifreiðarinnar, ákærða Þorstein Snorra Jónsson, og hann framvísað gildu ökuskírteini, skotvopnaskírteini, veiðikorti og skotvopni. Aðspurður hafi hann sagt að hann hefði ekki vitað að vegurinn væri aflagður og talið sig í fullum rétti til að aka þá leið sem hann ók. Á meðan rætt hafi verið við ökumann hafi hinn veiðimaðurinn, A, gengið til þeirra. Hann hafi og framvísað skotvopnaskírteini, skotvopni og vottorði frá veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar um að hann hefði gilt veiðikort.
Eftir að lögregla hafði rætt við ákærðu hafi ákærði Þorsteinn Snorri ekið bifreiðinni RM-267 sömu leið að þjóðvegi F910 og hann hafði áður komið. Loks kemur fram í skýrslunni að teknar hafi verið myndir á vettvangi.
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum.
Ákærði, Þorsteinn Snorri Jónsson, neitaði sök. Hann sagðist hafa verið á rjúpnaveiðum í Laugarfelli á Fljótsdalsheiði umræddan dag ásamt syni sínum, meðákærða. Ákærði sagðist hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann sagði að meðákærði hefði farið úr bifreiðinni niður við Laugarfellsána (svo)eða við kofa, sem þar sé, og ætlað að ganga upp í Laugarfellið austan megin og hitta ákærða síðar í eða við fjallið. Þetta hefði verið áður en ákærði ók út af aðalveginum og inn á gamla vegslóðann. Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu hefði hann sagt að eftir að hann lagði bifreiðinni hefði hann tekið skotvopn sitt og haldið til veiða, en með honum hefði verið sonur hans, meðákærði í máli þessu. Sagði ákærði þá að rétt væri að meðákærði hefði verið með honum á veiðunum en að hann hefði verið farinn út úr bifreiðinni áður. Ennfremur var honum bent á að í frumskýrslu lögreglu kæmi fram að við bifreið ákærða hefðu verið greinileg fótspor eftir ökumann og farþega, sem stigið hefðu úr bifreiðinni. Sagði ákærði þá að þessi fótspor væru eftir sig, en hann hefði verið lagður af stað frá bifreiðinni þegar hann hefði áttað sig á því að hann hefði gleymt talstöð og bakpoka í bifreiðinni og því gengið til baka að bifreiðinni farþegamegin til að ná í umrædda hluti. Ákærði var spurður hvort hann hefði þá gengið aftur á bak að bifreiðinni. Ákærði neitaði því, en sagðist hafa gengið aftur frá bifreiðinni farþegamegin.
Ákærði sagði að snjór hefði verið yfir öllu þegar hann ók upp í Laugarfellið um morguninn og að hann hefði ekki séð skurðinn, sem rætt væri um í skýrslu lögreglu. Hann sagði að það hefði byrjað að rigna um hádegi þennan dag og þá hefði sest krapi í skurðinn, en hann hefði hins vegar ekki sést þegar hann ók yfir hann um morguninn. Ákærða voru sýndar framlagðar ljósmyndir, sem lögregla tók á vettvangi. Hann kannaðist við um væri að ræða bílför eftir hann á mynd nr. 2, 3, 4, 5 og 7. Hann sagðist hins vegar ekki vera viss um að bílför á myndum 6 og 8 væru eftir hann. Hann sagði að á svæðinu hefðu verið bílför út um allt eftir aðra. Ákærði sagðist hafa vitað að bannað væri að nota vélknúin farartæki við veiðar utan vega og merktra vegslóða. Að því er varðaði þá 175 metra, sem honum væri gefið að sök að hafa ekið upp í hlíðar Laugarfells sagði ákærði að vegurinn hefði verið horfinn á þessum kafla vegna snjóalaga og hann hefði því ekki gert sér grein fyrir hversu langt hann ók út fyrir veginn. Sagðist hann hafa haldið að hann væri að beygja inn á slóða, sem væri þarna utan í Laugarfellinu. Ákærði sagðist einnig hafa vitað að samkvæmt náttúruverndarlögum væri bannað væri að aka utan vega nema jörð væri snævi þakin og frosin, enda hefði hann talið aðstæður væru með þeim hætti í greint sinn. Það hefði hins vegar gert þýðu og farið að rigna á meðan þeir voru á veiðum í fjóra til fimm tíma í Laugarfellinu. Aðspurður sagði hann að þeir meðákærði hefðu farið af stað að heiman um kl. 6.30 um morguninn og verið komnir á svæðið í birtingu. Ákærði sagðist hafa talið sig vera að aka á vegi í umrætt sinn, enda hefði hann ekið þennan slóða oft í gegnum árin. Þá hefði hann talið sig vera að leggja bifreiðinni aðeins fyrir utan veg á snjó. Hann sagði að gamli slóðinn sem hann hefði ekið eftir lægi inn að Eyjabökkum og hefði hann verið farinn áður en nýi vegurinn að Ufsarveitu kom. Aðspurður sagðist ákærði ekkert hafa veitt í ferðinni.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. desember 2005, sem er í megindráttum í samræmi við skýrslu hans hér fyrir dómi. Þar segist ákærði þó hafa ekið út af gamla vegslóðanum á fönn og lagt bifreið sinni á snjónum aðeins utan við veginn.
Ákærði, A, neitaði sök. Hann sagðist hafa farið á rjúpnaveiðar með meðákærða á Fljótsdalsheiði strax í birtingu umræddan dag. Sagðist hann hafa farið úr bifreiðinni við Laugarfellsá (svo), en meðákærði ekið áfram. Þeir hefðu ákveðið að ganga á fjallið sitt úr hvorri áttinni og hittast síðan að loknum veiðum niður við veg eða á svipuðum slóðum og þar sem lögregla hafði afskipti af þeim. Þeir hefðu verið með talstöðvar meðferðis og því getað ræðst við á veiðunum. Ákærði sagðist ekkert hafa veitt í ferðinni, en fundið eina dauða rjúpu. Ákærði sagðist hafa komið að bifreiðinni aftur á gamla vegslóðanum þar sem lögregla hefði haft afskipti af þeim.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu í gegnum síma 9. janúar 2006.
Vitnið Sigríður Sigþórsdóttir lögreglumaður sagði að hún og Jón Þórarinsson lögreglumaður hefðu farið frá Egilsstöðum upp á Fljótsdalsheiði umræddan dag og þegar þau hefðu verið komin að Laugarfelli hefðu þau tekið eftir ljósri jeppabifreið uppi í fellinu. Þau hefðu fyrst athugað hvaða leið bifreiðin hefði komið að umræddum stað og í fyrstu talið að bifreiðin hefði komið hinum megin frá og því ekið inn fyrir Laugarfellið. Þau hefðu þá séð för eftir bifreið sem ekið hefði verið áfram eftir olíuborna veginum niður að vinnusvæði Arnarfells, en þá verið snúið við og ekið til baka. Bifreiðinni hefði síðan verið ekið út af olíuborna veginum og yfir, að því er þau hafi þá talið, vélgrafinn skurð og síðan inn á gamla vegslóðann. Þau hafi síðan gengið eftir vegslóðanum í átt að bifreiðinni. Á leiðinni hefðu þau heyrt skothvelli í fellinu og síðan séð ökumann bifreiðarinnar, ákærði Þorstein Snorra, koma niður fellið og þau mætt honum á bílnum á leiðinni. Á meðan þau ræddu við ákærða hefði meðákærði, A, komið gangandi að bifreiðinni. Aðspurð sagði hún að ákærði Þorsteinn Snorri hefði komið Snæfellsmegin úr fellinu, en ákærði A úr sömu átt og laugin sé eins og vitnið orðaði það.
Hún sagði að bifreiðin hefði verið farin þegar þau komu að staðnum þar sem henni hafði verið lagt. Þau hefðu skoðað fótsporin í kringum bifreiðina og samkvæmt förunum hefði verið stigið út úr bifreiðinni frá báðum framdyrum sitt hvoru megin og að fótspor eftir tvo menn hefðu legið frá bifreiðinni, en spor eftir einn mann að henni að afturhurð farþegamegin. Þá hefðu einhver spor verið í kringum bifreiðina. Greinilegt hefði hins vegar verið að stigið hefði verið út úr bifreiðinni úr báðum framdyrunum. Hún sagðist ekki muna eftir hvort komið hefði fram á vettvangi að ákærði, A, hefði haldið til veiða á öðrum stað en meðákærði. Hún sagði að Jón Þórarinsson lögreglumaður hefði stikað leiðina frá aflagða vegslóðanum að staðnum þar sem bifreiðinni var lagt í hlíðinni og hefði hann farið eftir hjólförunum. Nokkrum dögum síðar hefðu þau farið með staðsetningartæki á staðinn og staðreynt vegalengdina. Þá hefðu förin ekki verið sjáanleg nema á nokkrum stöðum. Hún sagði að ekki hefði verið mikill snjór á svæðinu og greinilega hefði verið ekið á auðri jörð að hluta til. Þá hefði snjórinn verið mjög blautur og jörð ófrosin. Þetta sæist vel á mynd nr. 2, 4 og 5. Bílför á ófrosinni jörð hefðu verið greinileg bæði þar sem beygt hafði verið út af olíuborna veginum og inn á gamla vegslóðann og einnig þar sem beygt hafði verið út af vegslóðanum og upp í fjallshlíðina. Hún sagðist halda að hitastigið hafi verið á bilinu 0-5 stig og snjórinn blautur. Hún staðfesti að ákærði, Þorsteinn Snorri, hefði fest jeppann á leiðinni til baka og verið dreginn upp af starfsmönnum Impregilo.
Vitnið Jón Þórarinsson lögreglumaður sagðist minna að tilkynnt hefði verið um veiðimenn og utanvegaakstur á Fljótsdalsheiði umræddan dag. Þau Sigríður Sigþórsdóttir hefðu farið á vettvang. Þau hefðu séð bifreið upp í Laugarfellinu og gengið áleiðis í áttina að honum. Á leiðinni hefðu þau mætt bifreiðinni og þau haft tal af ökumanni. Á meðan hefði hinn veiðimaðurinn komið gangandi að bifreiðinni og hefði hann komið úr austri eða norðaustri. Að því loknu hefðu þau farið eftir bílslóðinni og að þeim stað þar sem bifreiðinni hafði verið lagt. Hann sagði að greinileg för hefðu verið eftir bifreiðina þar sem henni hefði verið ekið út af aðalveginum og einnig þar sem henni hafði verið þverbeygt af gamla vegslóðanum og upp í Laugarfellið. Hann sagðist hafa stikað þá leið og einnig hefði vegalengdin verið mæld með staðsetningartæki. Hann sagði að bifreiðinni hefði verið lagt á fönn og snúið að fjallinu. Hann sagði að greinileg fótspor hefðu verið að og frá bílnum ökumannsmegin, en farþegamegin hefði aðeins verið slóð frá bílnum og upp í fjallið. Hann sagði að þau Sigríður hefðu skoðað þetta alveg sérstaklega. Engin önnur för hefðu verð við bifreiðina. Hann kannaðist ekki við að fram hefði komið á vettvangi að ákærði, A, hefði farið úr bifreiðina við Laugarfellsá (svo) og gengið þaðan upp í fellið. Vitnið sagðist aðspurt hafa tekið framlagðar ljósmyndir. Hann sagði að mynd nr. 4 væri tekin áður en ákærði Þorsteinn Snorri ók til baka, en á bakaleiðinni hefði hann fest bílinn á þessum sama stað. Hann sagðist ekki geta fullyrt hvar mynd nr. 8 var tekin, en sagðist telja að hún væri tekin nálægt skurðinum við aðalveginn.
III.
Niðurstaða
Ákærðu hafa báðir borið hér fyrir dómi að ákærði A hafi farið út úr bifreiðinni á þjóðveginum við Laugarfellsá (á að vera Laugará) og að ákærði Þorsteinn Snorri Jónsson hafi síðan ekið áfram uns hann beygði út af þjóðveginum við Laugarfell.
Engin vitni eru að því þegar bifreiðinni var beygt út af þjóðveginum og ekið upp í hlíðar Laugarfells. Þá voru engin vitni að því er bifreiðinni var lagt þar og ökumaður sté út úr henni. Ákærðu eru því einir til frásagnar um það hvort ákærði A var með meðákærða, föður sínum, í bifreiðinni í umrætt sinn. Þá þykja ekki verða dregnar ályktanir af fótsporum þeim, sem lögregla sá á þeim stað þar sem bifreiðinni hafði verið lagt, en bifreiðinni hafði verið ekið í burtu þegar lögreglumenn komu þar að. Einnig hefur ákærði Þorsteinn Snorri Jónsson borið að hann hafi verið lagður af stað frá bifreiðinni þegar hann áttaði sig á því að hann hefði gleymt talstöð og fleiru í bifreiðinni og því snúið við og gengið til baka að bifreiðinni farþegamegin til að ná í þessa hluti og haldið síðan af stað aftur til fjalls. Þá ber lögreglumönnunum Sigríði og Jóni ekki að öllu leyti saman um það hvernig sporin lágu að og frá bifreiðinni. Loks voru fótsporin ekki rannsökuð til hlítar, t.d. með því að bera þau saman við skó þá sem ákærðu voru með fótunum umrætt sinn. Þá er með öllu ósannað að ákærðu hafi sammælst um það að ákærði Þorsteinn Snorri legði bifreiðinni á umræddum stað. Með vísan til alls framangreinds er ósannað að ákærði A hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru málsins ber því að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Verður þá vikið að þætti ákærða Þorsteins Snorra Jónssonar í málinu og fyrst fjallað um ætlað brot hans gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Í 17. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum kemur fram að við veiðar á landi sé óheimilt að nota vélknúin farartæki. Vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, megi þó nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum.
Ákærði Þorsteinn Snorri Jónsson hefur viðurkennt að hafa ekið upp í hlíðar Laugarfells í greint sinn til þess að halda þaðan til rjúpnaveiða. Hann hefur hins vegar borið að vegna snjóalaga hafi hann ekki getað gert sér grein fyrir hversu langt hann ók út fyrir gamla vegslóðann. Jafnframt að hann hafi haldið að hann væri að beygja inn á slóða sem þarna væri utan í Laugarfellinu. Síðar í skýrslunni sagði ákærði að hann hefði talið sig vera að leggja bifreiðinni aðeins fyrir utan veg á snjó. Hjá lögreglu bar ákærði einnig að hann hefði í greint sinn ekið út af gamla vegslóðanum á fönn og lagt bifreið sinni á snjónum rétt fyrir utan veginn.
Af framlögðum ljósmyndum og athugun á vettvangi er ljóst að enginn vegur eða vegslóði er á þeirri 175 metra leið, sem ákærði er sakaður um að hafa ekið frá gamla vegslóðanum og upp í fjallshlíðina. Er því ljóst að ákærði ók út fyrir vegi og merkta vegslóða í umrætt sinn. Af ljósmyndum og framburði lögreglumannanna Sigríðar Sigþórsdóttur og Jóns Þórarinssonar er ljóst að ekki var mikill snjór á jörðu umræddan dag. Þá hafa báðir lögreglumennirnir borið um það að greinileg ummerki hafi verið um það að bifreiðinni hefði verið þverbeygt af gamla vegslóðanum og upp í hlíðina á Laugarfelli. Með vísan til framangreinds og framburðar ákærða hér fyrir dómi þykir sannað að ákærði hafi gert sér grein fyrir að akstur hans var utan vega í greint sinn. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa ætlað að rjúpnaveiðar. Þykir því sannað að ákærði hafi gerst sekur um tilraun til ólögmætra fuglaveiða eins og nánar greinir í fyrri hluta ákærunnar.
Verður þá vikið að ætluðu broti ákærða gegn lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd.
Í 17. gr. náttúrverndarlaganna segir að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó sé heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð sé snævi þaki og frosin.
Kemur þá fyrst til skoðunar hvort leið sú, sem ákærði ók í umrætt sinn, sé vegur í skilningi náttúrverndarlaganna. Í greinargerð með 17. gr. laganna er um skilgreiningu á vegi skírskotað til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, en í umferðarlögunum sé vegur skilgreindur sem vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað sé til almennrar umferðar. Í 3. gr. reglugerðar nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands er hugtakið vegur skilgreint þannig að um sé að ræða varanlegan veg, götu, götuslóða, stíg, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað sé að staðaldri til umferðar.
Með vísan til þess sem að ofan greinir er ljóst að 175 metra langur kafli frá gamla vegslóðanum og upp hlíðar Laugarfells er ekki vegur í skilningi náttúruverndarlaga nr. 44/1999, sbr. skilgreiningu á vegi í umferðarlögum nr. 50/1987 og reglugerð nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, enda er þar hvorki unnt að greina veg né vegslóða. Sömu sögu er að segja um 60 metra langan kafla frá þjóðveginum að skurði, sem ákærði ók yfir og 15 metra langan kafla frá skurðinum að gamla vegslóðanum. Skoðun á vettvangi og skoðun framlagðra ljósmynda af vettvangi leiðir í ljós að enginn vegur eða vegslóði er á þessum kafla í skilningi fyrrgreindra laga. Loks ók ákærði 780 metra eftir gömlum og greinilegum vegslóða, sem liggur inn að Eyjabökkum. Fram hefur komið að vegslóði þessi sé nú aflagður eftir að nýr og olíuborinn vegur var lagður að Ufsarveitu. Sjá mátti við skoðun á vettvangi að gamli vegslóðinn hefur verið grafinn í sundur við gatnamót hans og nýja vegarins að Ufsarveitu. Þetta má einnig sjá á framlögðum ljósmyndum. Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að vegslóði þessi er ekki lengur til almennrar umferðar eða umferðar að staðaldri, enda varð ákærði að aka um 75 metra langan kafla utan vegar áður en hann komst inn á slóðann. Í ljósi framangreinds þykir ljóst að akstur ákærða eftir umræddum vegslóða hafi verið utan vega í skilningi 17. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 og reglugerðar nr. 528/2005.
Samkvæmt framlögðum veðurkortum á dskj. nr. 3 var eins stigs frost á hádegi á Egilsstöðum 11. október 2005, eins stigs hiti dagana 12 og 13. október, 0 gráður 14. október og suðvestanátt og 12 stiga hiti kl. 12.00 á hádegi 15. október. Lögreglumaðurinn Sigríður Sigþórsdóttir bar hér fyrir dómi að jörð hefði umræddan dag verið ófrosin, snjórinn blautur og hitastig á bilinu 0-5 stiga hiti. Sjá má einnig af framlögðum ljósmyndum af vettvangi, sérstaklega á ljósmyndum nr. 2, 4, 5 og 8 að ekið hefur verið á ófrosinni jörð og að snjórinn er blautur. Ennfremur má sjá að víða sér í auða jörð á leiðinni og að greinileg ummerki eru eftir akstur ákærða um gróið og viðkvæmt landsvæði. Verður því ekki fallist á að aðstæður hafi verið með þeim hætti í umrætt sinn að undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 528/2005 um að heimilt sé að aka vélknúnum ökutækjum ef jörð er snævi þakin og frosin geti átt við í máli þessu.
Með vísan til framangreinds þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn lögum nr. 44/1999 um náttúrvernd með akstri utan vega og merktra vegslóða.
Niðurstaða málsins er því sú að sannað þykir að ákærði Þorsteinn Snorri Jónsson hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði A er hins vegar sýkn af kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Ákærði Þorsteinn Snorri Jónsson hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé.
Refsing hans þykir hæfilega ákveðin sekt að fjárhæð 70.000 krónur, sem greiða ber til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ella sæti ákærði fangelsi í 6 daga.
Ákvæði 21. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eru fortakslaus um það að brot gegn þeim varði sviptingu skotvopna- og veiðileyfis. Með vísan til þess ber að svipta ákærða, Þorstein Snorra Jónsson, skotvopnaleyfi og veiðileyfi í eitt ár frá uppkvaðningu dómsins.
Ákærði, Þorsteinn Snorri Jónsson, greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Gunnlaugssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin samtals að fjárhæð 283.487 krónur og er þ.m.t. virðisaukaskattur, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði. Annar sakarkostnaður hefur ekki hlotist af málinu.
Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, A, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Ákærði, Þorsteinn Snorri Jónsson, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í 6 daga.
Ákærði, Þorsteinn Snorri Jónsson, er sviptur skotvopna- og veiðileyfi í eitt ár frá uppkvaðningu dómsins.
Ákærði, Þorsteinn Snorri Jónsson, greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Gunnlaugssonar hdl., samtals að fjárhæð 283.487 krónur, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Bragadóttir
12.10.2006 at 09:00 #563302Það er nú ýmislegt athyglisvert í þessum dómsorðum, m.a. vísbending um það hvernig megi greina hvort slóð sé til staðar eða ekki Þarna segir: ‘…enda er þar hvorki unnt að greina veg né vegslóða.’ Vettvangsathugun semsagt leiðir í ljós að þarna er ekki hægt að sjá neinn slóða og þess vegna er úrskurðað að ekið sé utan vega á 175 metra kaflanum upp í hlíðina. Þarna er semsagt aðeins horft til þess atriðis, ekki hvort slóðinn sé á korti, ekki hvort hann sé merktur með einhverjum hætti, ekki hvort hann sé samþykktur af sveitarfélaginu, ekki hvort hann sé F-merktur, heldur einfaldlega hvort hann sé greinanlegur. Þetta er betra en svartsýnustu raddir hafa óttast.
Svo er aftur á móti með þennan aflagða slóða. Svo virðist sem hann hafi verið grafinn í sundur til þess að loka fyrir akstur og því beinlínis tekin ákvörðun um að loka honum. Það væri reyndar forvitnilegt að vita hvernig sú ákvörðun hefur verið tekin, hvort það hafi verið skipulagsyfirvöld eða kannski bara framkvæmdaraðilar á svæðinu. Dómurinn virðist líta svo á að með þessu megi ljóst vera að þessi slóð sé ekki til almennrar umferðar eins og það er orðað í skilgreiningunni sem Eik vitnar til hér að ofan. Það hlýtur þá að þýða að slóð sem þú kemur að og það er ekkert sem sýnir klárlega að hún sé ekki til almennrar umferðar, þá sé réttmætt að aka hana. Hugsanlega hefur það ekki verið ákveðið með löggildum hætti og auglýst, þá væri það væntanlega málsvörn í málinu, en á hinn bóginn kemur fram að ekki er hægt að komast inn á hann af aðalveginum nema aka yfir gróið land.
Ég er því ekki sammála Ofsa um að það sé blásið á þessa skilgreiningu í umferðalögum, heldur þvert á móti sé hún notuð í dómnum. Það hefði hins vegar verið mun meira áhyggjuefni ef einhver önnur viðmið væru notuð þarna. Þetta hlýtur líka að þýða að hafi bílarnir við Hagavatn verið staddir á slóðanum þegar þeir voru teknir, þá hljóti þeir að verða sýknaðir því sá slóði er vel greinanlegur og það er ekkert sem þarna sýnir að hann sé ekki ætlaður til almennrar umferðar. Sakfelling í því máli getur því ekki byggt á því að slóðinn sem slíkur sé eitthvað óréttmætari en aðrir slóðar.
Kv – Skúli
12.10.2006 at 09:14 #563304Tek undir með Skúla. Ekki endilega slæmur dómur.
12.10.2006 at 10:00 #563306Ofsi minn, ástæðan fyrir því að ég vitna í þessa skilgreiningu umferðarlaga, er þetta er sú skilgreining sem er í gildandi lögum.
Tilvísanir í kort og merkingar geta nýst til að leiða rök að því að tiltekinn vegur sé notaður til almennrar umferðar, en hafa ekki sjálfstætt lagalegt gildi í þessu samhengi. Það sem mér finnst hinsvegar mjög varhugavert, er sú hugmynd að slík kort geti orðið tæmandi listi yfir þær leiðir sem heimilt er að fara. Það yrði í mínum huga stórt skref aftur á bak.Varðandi dóminn fyrir austan, þá sýnist mér margt benda til þess að viðkomandi hafi brotið reglur og valdið spjöllum. Það að hann hann skyldi festa sig, og þurfa aðstoð frá Impregilo til að losna, er ekki góðs viti.
En ég get tekið undir það að ég er ekki sáttur við það ef dómarinn telur það brot á náttúrverndarlögum að aka eftir vegi, bara vegna þess að búið er að þvera hann með nýrri vegi. Ég myndi hins vegar ekki leggja of mikið uppúr þessu hér, vegna þess að þetta atriði skiptir ekki sköpum varðandi sakfellingu.
Annars eru aðstæður á Fljótsdalsheiðinni sérkennilegar að því leiti að þar hefur verið unnið að framkvæmdum og undirbúningi þeirra í a.m.k 4 lotum, síðustu 40 árin, með hléum á milli. Í hvert skipti virðist hafa verið byrjað á gera vegi, sam lagðir voru án tillits til þeirra vega og slóða sem fyrir voru. Þannig liggja þessir misgömlu vegir þvers og krus yfir hvern annan.
-Einar
12.10.2006 at 10:14 #563308sælir
Við búum við skrýtinn raunveruleika í dag. Þarna var maður dæmdur fyrir brot á náttúruverndarlögum án þess að valda nokkrum náttúrspjöllum (hann festi sig væntanlega í skurðinum á leiðinni til baka) en við upphaf slóðans hefur (utan vegar skv dómsorði) hefur verið grafinn skurður og 60 metra frá er malbikaður vegur. Er ekki augljóst hver framdi hin raunverulegu náttúruspjöllin í þessu tilviki ??
kv
A
12.10.2006 at 12:40 #563310Daginn
Ég las út úr dómnum allt annan hlut en þið eruð búnir að ræða hér.
Þarna voru menn ákærðir fyrir utanvegaakstur á veiðum. Slíkt er bannað og í raun bannaðara en að ferðast eins og jeppamenn gera gjarnan.
Skv. einhverjum náttúruverndarlögum eða lögum um veiðar á villtum spendýrum er akstur utan vega bannaður óháð snjóalögum eða frosti í jörð. S.s. er bannað að keyra á snjó, sama hversu þykkur hann er, eða klaka svo fremi sem hann sé ekki á vegi.
Jeppamenn geta ekki tekið dóma sem falla um utanvegaakstur á veiðum sér til athugunar.
Hinsvega féll dómur á Héraði þar sem hreindýraeftirlitsmaður var kærður fyrir utanvegaakstur á fjórhjóli, þegar hann ók eftir vegi sem sést ekki nema sumsstaðar, vegna þess að hann ók þessa leið dagin eftir að dýrið var fellt og héraðsdómur komst að því að þá voru þeir ekki á veiðum þegar fjórhjólinu var ekið umrædda leið.
Reyndar fylgdi það þessum dómi að þeir höfðu fengið leyfi landeigenda til að aka þessa leið á hjólunum.
Kv Izan
12.10.2006 at 14:30 #563312Ákæran er tvíþætt, annars vegar er ákært fyrir brot á lögum um veiðar og hins vegar brot á náttúruverndarlögum vegna utanvegaaksturs. Dómurinn tekur afstöðu til hvors atriðis fyrir sig sérstaklega.
Kv – Skúli
-
AuthorReplies
You must be logged in to reply to this topic.