This topic contains 4 replies, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 18 years, 5 months ago.
-
Topic
-
Thomsensbíllinn 1904
Fyrra bréf Ditlevs Thomsens kaupmanns í Reykjavík til Stjórnarráðs Íslands þar sem lýst er reynslunni af fyrstu bifreiðinni sem flutt var til Íslands.
Reykjavík þ. 10. septbr. 1904
Samkvæmt tilmælum frá fjárlaganefnd neðri deildar alþingis 1903 hefi jeg keypt mjer mótórvagn og reynt hann á vegunum hjer.
Leyfi jeg mjer hjermeð virðingarfylltst að láta hinu háa stjórnarráði í tje nokkrar upplýsingar hjer að lútandi.
Mótórvagnar hafa venjulega 4-5 hesta afl og pláss fyrir 2 menn, en þessi, sem jeg hef keypt, hefur 7½ hesta afl og pláss fyrir 5-6 farþega. Skýli (Kaloche) er á honum, sem má draga upp í slæmu veðri. Vagninn má nota til flutninga á farþegum, pósti og ljettum vörum.
Vagninn hefur verið talsvert reyndur í sumar, í smáferðir til Hafnarfjarðar, Elliðaánna, Miðdals og Lækjarbotna, og einusinni í lengri ferð, austur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Reynsla sú, sem fengist hefur með þessum tilraunum, er einkum falin í eftirfylgjandi atriðum.
Hestar fælast lítið sem ekkert fyrir mótórvagninum.
Vegir eru yfirleitt nógu breiðir fyrir mótórvagn, er várúðar er gætt, þegar vagninn mætir lestum eða hestavögnum. Ofaníburður er einnig vel hentugur fyrir mótórvagn víðast hvar, þar sem viðhald er gott á vegunum, en sumsstaðar eru lautir og holur, og þar reynir mjög mikið á lofthringina í vagnhjólunum. Rjett fyrri ofan Lækjarbotna er klettur í miðjum veginum, sem vjelin skall á, þegar vagninn fór yfir hann, og fyrir ofan Elliðaárnar er ofaníburðurinn svo gljúpur, að lítt mögulegt er að koma vögnum upp brekkuna, hvort sem það eru mótórvagnar eða hestvagnar. Á Laugaveginum og þjóðveginum innfyrir verksmiðjuna Mjölnir er færðin mjög slæm, bæði mótórvagnar og aðrir vagnar geta skemmst til muna, ef þessir fjölförnu vegir eru látnir eins afskiptalausir hvað viðhald snertir, eins og var nú í sumar.
Hallinn á vegunum er víða svo mikill, að mótórvagn með 4-5 hesta afli mundi ekki komast upp brekkurnar, vagninn minn á fullörðugt með að komast yfir, þar sem brattast er, og þyrfti helst að hafa meiri afl, en hann hefur.
Verð á mótórvagni til pósts- og farþegaflutninga hjer á landi, af sömu stærð og minn, en með 15 hesta afli, mun nema um 10-12000 krónur; litlir vagnar með sætum fyrir 2 menn og 4½ hesta afli fást fyrri 3000 krónur. Vagninn minn kostaði nýr 6000 krónur.
Kostnaður við að hafa mótorvagn í ferðum er talsvert mikill. Vjelastjóra þarf með hverjum vagni og munu varla fást fyrir minna en 120 krónur á mánuði. Viðhaldsleysið á vegunum gerir það að verkum, að ákaflega mikið reynir á vjelina í hvert skipti, sem vagninn er brúkaður, en allar viðgerðir á þesskonar vjelum eru mjög dýrar. Hreyfingarafl mótórsins er benzín og kostar það á mínum vagni hjer um bil 75 aura fyrir hverja mílu. Alls hefur brúkunin á mótórvagninum í sumar kostað mig yfir 700 krónur.
Þar sem jeg þykist hafa gjört mitt ýtrasta til að framkvæma þær tilraunir, sem alþingið óskaði eptir, leyfi jeg mjer hjermeð virðingarfyllst að beiðast þess, að mjer verði ávísaðar þær 2000 krónur, sem mjer eru veittar á fjárlögunum til að kaupa og reyna mótórvagn á vegunum hjer.
Virðingarfyllst
D.Thomsen
You must be logged in to reply to this topic.