This topic contains 0 replies, has 1 voice, and was last updated by Guðbrandur Þorkell Guðbra 14 years, 3 months ago.
-
Topic
-
Sælt verið fólkið.
Hér í eina tíð voru miðbylgjutalstöðvar (Gufunesstöðvar) nánast eini fjarskiptamátinn, sem nothæfur var á fjöllum. Þær voru raunar í fárra höndum fyrst, t.d. á sjötta áratugnum, en á viðreisnarárunum fjölgaði þeim verulega, einkum eftir að leyft var að nota innfluttar stöðvar, þ.e. aðrar en þær sem settar voru saman á verkstæði Landssímans. Landssímastöðvarnar voru reyndar alls ekki slæm tæki, en voru hinsvegar, einkum framan af, ansi fyrirferðarmiklar en þar kom að sjálfsögðu til að þær voru á þeim tíma með lömpum, en allt lagaðist það með transistortækninni og þá minnkaði umfang stöðvanna einnig og rekstraröryggið jókst. Ég ætla ekki að rekja sögu þessara stöðva, en við sem byrjuðum okkar ökumannsferil með þessar stöðvar suðandi einhversstaðar í bílnum, minnumst þeirra með mismiklum söknuði. Auðvitað höfðu þær sína galla, þær urðu oft nær gagnslausar í éljaveðri og sólblettatímabilin höfðu einnig slæm áhrif á notagildi þeirra. En í það heila tekið voru þær að talsverðu gagni sem öryggistæki og voru mörgum ferðalangnum hjálplegar við hin ýmsu tækifæri. Svo komu símarnir, fyrst handvirku símarnir og síðan NMT sjálfvirku símarnir. Þeir náðu reyndar aldrei sömu „dekkun“ og talstöðvarnar, en voru þó ansi drjúgir sem öryggis- og samskiptatæki. Nú hefur það kerfi verið lagt niður af ýmsum ástæðum, en önnur kerfi komið í staðinn, mismunandi gagnleg, en gagnleg eigi að síður. En gagnleg fyrir hverja? Því miður er ljóst að á þessari stundu a.m.k. er „dekkun“ þeirra ekki eins mikil og NMT og fráleitt jafn mikil og VHF-stöðva og endurvarpakerfisins. Hvað þá ef við miðuðum við „gömlu“ miðbylgjustöðvarnar. Þessi mál hafa reyndar öll verið marg rædd hér á vettvangi f4x4 og fróðir menn veitt okkur miklar upplýsingar og þótt maður verði að fara varlega í að nefna nöfn, er ekki á neinn hallað þótt nefndir séu Snorri Ingimarsson, verkfræðingur, og svo hann Sigurður okkar Harðarson, rafeindavirkjameistari. Snorri hefur kynnt okkur, að stöðvar sem radioamatörum er leyft að nota, gætu komið að miklu gagni á ferðum um jökla og aðrar óbyggðir og tiltölulega lítið mál að fá leyfi til að nota slíka stöð með því að sækja námskeið, og stöðvar séu á verði, sem sé tiltölulega viðráðanlegt miðað við margt annað, sem við erum að kaupa og nota. Við höfum kannski gegn um tíðina látið plata okkur til að hætta að nota talstöðvar og fært okkur í of miklum mæli yfir á símana m.a. vegna þess, að við höfum ekki varað okkur á því að það er símafyrirtækjunum mjög í hag að við notum síma en ekki stöðvar. Símafélögin fá nefnilega litlar sem engar tekjur af talstöðvanotkun okkar. Ég held að við þurfum aðeins að hugsa þessi mál útfrá þessum sjónarhóli. Það er ef til vill nauðsynlegt að horfa á kosti þess og galla að hafa samskipti í opnu kerfi eins og talstöðvunum, sem allir geta hlustað á. Kannski er að bera í bakkafullan lækinn að byrja þessa umræðu einu sinni enn, nú þá svara menn þessu bara ekki neitt!
You must be logged in to reply to this topic.