This topic contains 3 replies, has 1 voice, and was last updated by Eiður Ragnarsson 21 years, 4 months ago.
-
Topic
-
Innlent | Morgunblaðið | 26.9.2003 | 5:30
„FÍ lokar sex fjallaskálum vegna slæmrar umgengni
Ákveðið hefur verið að loka sex skálum Ferðafélags Íslands við svonefndan Laugaveg í vetur vegna slæmrar umgengni um þá, en gæsla er ekki í skálunum að vetri til. Útivist hefur þegar lokað sínum skálum.
Um er að ræða skála FÍ í Landmannalaugum, við Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og Langadal í Þórsmörk. Í hverjum skála verður þó opið neyðarathvarf sem hægt verður að komast í.Elín Björk Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að þau hafi orðið að loka skálunum vegna slæmrar umgengni, auk þess sem fólk noti aðstöðu sem það eigi að borga fyrir án þess að gera það.
Á undanförnum árum hefur umgengni um skála félagsins verið mjög slæm og virðist fara versnandi og miklar skemmdir hafa verið unnar í sumum þeirra.
Engir skálaverðir hafa verið í skálum á veturna það heyrir til undantekninga að þeir sem nýta sér skálana að vetrarlagi, greiði fyrir afnotin. „Það virðist vera til fólk sem telur sér hvorki skylt að virða eignarrétt annarra né að ganga sómasamlega um. Félagið telur sér ekki lengur fært að hafa skála sína opna a.m.k. á meðan ofangreind viðhorf virðast ríkjandi hjá hluta þeirra sem ferðast um hálendið utan gæslutíma. Þeir sem hyggjast nýta sér skálana verða því framvegis að koma á skrifstofu félagsins og fá lykla að skálum sem þeir vilja gista í,“ segir í tilkynningu Ferðafélagsins.
Þolinmæði félagsmanna þrotin
Fram kemur að skálar félagsins við Langjökul og á Kili verði opnir enn um sinn en ef umgengni batni ekki verði þeim einnig læst í náinni framtíð. „Félagið hefur í lengstu lög frestað því að fara þessa leið en nú er svo komið að þolinmæli félagsmanna er þrotin en þeir leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu við nýbyggingar og viðhald skálanna,“ segir ennfremur. „
Jæja, þar kom að því. Það var svo sem auðvitað að FÍ myndi standa frammi fyrir sömu ákvarðanatöku og 4×4 með Setrið. Það má svo sem segja að í því climaxi sem er í þessu þjóðfélagi sé rökrétt að gera ráð fyrir að þar sem ekki er skipuleg innheimta á afnotagjöldum fyrir aðstöðu af þessu tagi, þá greiði menn ekki fyrir afnotin ef þeir komast upp með það. Því er samt ekki að leyna, að manni finnst það nöturleg staðreynd. Maður er líka farinn að hafa áhyggjur af því hvað tekur við þegar sá hópur fólks, sem hefur sinnt þessum málum í sjálfboðastarfi, hverfur af sjónarsviðinu af eðlilegum orsökum. Allavega virðist svo vera, að nýtt fólk vilji ekki taka við. Þá spyr maður sig hvað verði um skála FÍ og annarra svipaðra félaga. Við höfum orðið vör við það hér, þar sem ég bý, að ferðaþjónustuaðilar eru farnir að gera kröfur til að meira sé lagt í aðstöðuna í fjallaskálunum, t.d. hvað varðar klósett með rennandi vatni, helst heita potta og ýmsa þjónustu aðra að maður tali nú ekki um sjoppur! Auðvitað eru slíkir þættir líklegir til að gera staðina aðlaðandi en þetta kostar peninga og kröfugerðaraðilar eru ekki ætíð tilbúnir til að greiða fyrir þjónustuna. Ferðafélög af öllu tagi hafa ekki mikla fjármuni úr að spila, hvorki til fjárfestinga né reksturs og nú er svo komið, að venjulegar fjáröflunarleiðir t.d. félaga innan FÍ duga hvergi nærri til rekstrarkostnaðar, ekki síst þar sem í auknum mæli þarf að kaupa út vinnu til viðhalds og endurnýjunar.
Nóg bullað hjá mér í bili, en ég skora á ykkur hin að ræða málið.
kv.
ólsarinn.
You must be logged in to reply to this topic.