This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Stefán Baldvinsson 19 years ago.
-
Topic
-
FJALLAFRÐIN ÓGURLEGA.
Sá maður sem þekktur er sem ofsalegur fjallamaður, er sem flestir aðrir merkir menn, sonur manns og konu. Sá maður þóttist víða hafa farið um fjöll og dali landsins á afburðar jeppa UAZ frambyggðum rússneskum að att og sá vanur fjöllum frá fyrri tíð í eigu Orkustofnunar. Þóttist faðir þess ofsalega nær því hafa lokið könnun hálendisins og reyndi stundum að segja syni sínum til. Drengurinn sem hafði þvælst um landið hátt og lágt, jafnvel í vöggu, og verða ekki hér raktar þær ferðir sem hann fór um landið í lífrænum umbúðum foreldra sinna, varð svo nátengdur landinu til sjávar, sveita og fjalla og einkanlega fjalla að hann hefur sjálfur trúað því að við foreldrarnir höfum fundið sig í einhverjum fjalladal. Við höfum ekki reynt að fá hann ofan af þessari ( vissu ) sinni. Þegar fram liðu stundir og honum óx aldur til tók hann bílpróf og hefur sem mörgum er kunnugt ekki gengið síðan. Hann eignaðist marga góða bíla og gekk frá þeim öllum uns hann náði með brögðum í afburðar Toyotu og kom henni á 44 tommu dekk. Öllum bílum sínum hefur hann beitt óspart á fjöll og fyrnindi. Þar sem drengurinn á ættir að rekja til blekbullara var honum ekki rótt að koma ekki hinni merkilegu reynslu sinni fyrir almenningssjónir og hefur komið á tvær bækur reynslu sinni. Hin fyrri heiti Ranglað um reginfjöll og sú síðari, ekið um snjó og mjöll. Vinir hans og velunnarar vonast til þess að senn komi út hin síðasta og þá undir nafninu Sagan öll. Þessi ofsalega skrifóði piltur hafði lengi alið þá ósk í brjósti sér að fara með föðurmyndina á fjöll á alvörujeppa svona til þess að kveða í kútinn frægðarsögur pabba gamla af ferðum á rússajeppanum-nema hvað. Því verður tæpast með orðum lýst, gleði drengsins þegar pabbinn bar með hægð fram þá ósk að hann færi með sig og tvo vini upp um Hlöðufell og þaðan austur um og upp að Farinu. Óskin var borin upp við besta haustfæri um þurra og frosna vegi. Drengurinn brást svo ofsalega við í gleði sinni að hann ( að venju ) efndi til leiðangurs með vinum sínum í Rottugenginu 4×4 klúbbsins og með því varð pláss fyrir gamla manninn auk fjögurra félaga hans. Sá gamli og félagar hans eru bæði aldnir og öryrkjar. Aldurs vegna eru sumir þeirra hárlitlir að ekki sé nú bætt við tannlausir og þess vegna munu Rotturnar hafa valið í ferðaflokkinn þá félaga sína sem einnig eru hárlitlir, hvort sem það er eftir langa dvöl í holræsunum eða ellimörk. Þeir gömlu sem allir eru félagar í Vinaflokknum KGB 1995 voru af tillitsemi Rottanna hinsvegar leyndir því að Rotturnar munu hafa samið við Landsbjörgu um fjallabúinn sjúkrabíl og ekki nóg með það heldur barst út með krókaskeyti að austan að Rotturnar fengu líka lánaðan rússneska Úrusinn sem björgunarsveitin á Fáskrúðsfirði fékk og sem er útbúinn með skurðstofu. Svo elskulegar voru Rotturnar að þeir leyndu þessum bílum fyrir gamalmennunum svo vel að við sáum þá aldrei í ferðinni. Nema hvað.
Ferðin hófst að venju, 4×4 hjá Selekt við Vesturlandsveg og þar tóku menn eldsneyti drykkjarföng og meðlæti. Leiðangursstjórinn var ofsalega mikið að flýta sér og þar sem bensín rennur hraðar en díselolía þá tók hann bara bensín á jeppann. Síðan var haldið af stað og stansað stutt á Þingvöllum en þar bættist við jeppi úr Hveragerði og var þá leiðangurinn fullskipaður alls 7 bílar og 14 manns. Uppi á Lyngdalsheiði var tekin stefnan á Hlöðufell og skömmu síðar stansaði leiðangursstjórinn. Í ljós kom að þótt bensínið rynni hraðar á tank Toyotunnar þá flökraði díselvélinni við slíkum góðgerðum. Blandan mun hafa verið 50/50 og voru nú góð ráð ódýr. Fyllt var á tankinn díselolíu einsog hægt var og bætt útí hana um líter af sjálfskiptivökva. Flökraði nú vélinni ekki meir og hröðuðu menn ferð sinni. Var á köflum sem um rallý væri að ræða, vegurinn svo ósléttur að þakka mátti fyrir þegar tvö hjól snertu veginn. Með því að hlusta með leynd á viðræður Rottanna fengum við gamlingjarnir skýringar á loftköstunum. Jú semsé 44 tommu dekkin eru afar dýr og til þess að spara þau er akstursmátinn sá að þau komi sem sjaldnast niður á veginn. Tókst bílstjórunum þetta býsna vel, reyndar svo vel að spurningin er hvort Rotturnar þurfa ekki að hafa samband við flugumsjón áður en lagt er upp í svona flugferð. Eftir að hafa flogið fremur lágt austur með Tindaskaga um Langadal og fyrir Skriðu og um Hlöðuvelli komum við að skála Ferðafélagsins sunnan undir fellinu. Þar var áð og etið en ekki sketið. Síðan austan með Hlöðufelli á línuveg og austur hann fram á heiðarbrún við Mosaskarðsfjall. Þar af línuvegi til vinstri, inn með Fagradalsfjalli vestanverðu og þá Brekknafjöllum alla leið inn með Hagavatni og loks stansað með framhjól fremsta jeppans nánast á klapparbrún Farsins. Áin rann þar út í vatnið undir ísskör og skafl en gusaðist svo fram í gljúfrið nokkrum metrum framar en þar hafði úði fossins myndað fögur grýlukerti og ísbólstra. Dvöldum við þar um stund við skoðun og myndatöku en Rotturnar gættu þess að gamalmennin færu sér ekki að voða. Frá þessum stórkostlega stað ókum við vestur miklar leirur fyrir Hagafell og upp á Vestari Hagafellsjökul. Var þar greið leið en örlitlar sprungur á trafala, Einn svelg sáum við og sneiddum hjá af alkunni snilld Rottnanna. Við ókum norðan við Klakkinn og steyptum loks flokknum niður að vélsleðabækistöðinni upp af Geitlandshrauni. Þar fundu Rotturnar loks hæfilegan snjó til að festa smá í og reyna á teygjukaðlana. Varð af þessu besta skemmtan. Þegar nóg var komið héldu menn niður á Kaldadalsveg og hugðu á hraða ferð til Reykjarvíkur. Þar reyndist þá færið slíkt að fyrri skemmtun við spól og festur hafði reynst óþörf. Nokkrar festur varða glíma við og reyndist Kaldidalur tafsamari en búist var við. Eftir þá glímu var slegið í um Sandkluftavatn og Mosfellsheiði. Eftir nærri tólf tíma ferð eða flug komu allir glaðir og sælir í bæinn. Þeir gömlu svo ánægðir að núna fjórum dögum síðar brosa þeir enn hringinn. Einn mikilvæg niðurstaða fékkst í þessum túr, semsé sú að hin ofsalega Toyota leiðangursstjórans eyðir heldur minna bensíni en díselolíu. Faðir Ofsans þakkar fyrir hönd gamalmennanna, Rottunum ofsalega vel fyrir þessa fróðlegu og skemmtilegu ferð.
K.Sn.
You must be logged in to reply to this topic.