This topic contains 2 replies, has 1 voice, and was last updated by Jón G Snæland 16 years, 10 months ago.
-
Topic
-
Sett hefur verið á stofn Ferlaráð sem hefur það hlutverk að halda utan um vinnu við söfnun á ferlum í tenglsum við samstarf Ferðaklúbbsins 4×4 og Landmælinga.
Undanfarin ár hefur mikil umræða verið um vegi og slóða á hálendinu og hefur sú umræða tæpast farið fram hjá nokkrum áhugamanni um ferðalög á hálendinu. Meðal annars hefur verið rætt um að útrýma þurfi réttaróvissu varðandi utanvegaakstur og því þurfi að vera hægt að úrskurða hvar sé löglegt að aka og hvar ekki. Undanfarin ár hafa stjórnvöld mótað þá stefnu að vegakerfi hálendisins verði sett undir skipulag, en segja má að fram að þessu hafi það verið utan alls skipulags og því ekki hægt að styðjast við nein opinber gögn til að úrskurða um hvar sé ekið á vegi og hvar utan vega. Þetta er talið fela í sér réttaróvissu og gera yfirvöldum erfitt fyrir að framfylgja lögum um náttúruvernd þegar kemur að utanvegaakstri.
Ferðaklúbburinn 4×4 og önnur hagsmunafélög þeirra sem ferðast um landið á vélknúnum farartækjum hafa lagt áherslu á að við skipulagningu vegakerfis á hálendinu sé annars vegar unnið í samráði við félög útivistarfólks og hins vegar sé byggt á gögnum sem sýni alla þá vegi og slóða sem notaðir eru til ferðalaga um hálendið í dag þannig að hægt sé að taka meðvitaðar og upplýstar ákvarðanir. Varðandi síðarnefnda atriðið hefur 4×4 tekið öflugt frumkvæði við söfnun ferla, m.a. með samstarfi við Landmælingar um ferlun slóða. Þannig getur klúbburinn lagt sitt af mörkum til að draga úr hættu á að skipulag hálendisins í framtíðinni setji ferðafólki óþarfa hömlur. Umtalsverðu magni af ferlum hefur þegar verið safnað, en talsverð vinna er óunnin á því sviði.
Innan Ferðaklúbbsins 4×4 hefur ferlasöfnun verið í gangi allt frá síðustu aldamótum en árið 2006 var skipuð sérstök ferlanefnd. Í henni sitja Jón G. Snæland, Óskar Erlingsson, Vilhjálmur Freyr Jónsson og Dagur Bragason. Núna hefur verið sett aukinn kraftur í þetta starf með því að nefndin fær til liðs við sig stóran hóp manna í nýstofnsettu Ferlaráði. Ferlaráði er ætlað að halda utan um ferlasöfnunina og vinna ýmis verkefni í tengslum við það, halda utan um gagnagrunninn, vinna að samstarfi við heimamenn á einstökum svæðum og samskipti við ýmsa aðila sem geta miðlað okkur þekkingu á einstökum svæðum. Auk þess er Ferlaráðið samstarfsvettvangur þeirra aðila sem hagsmuna hafa að gæta og þá sérstaklega aðila innan annarra útivistarfélaga. Þannig geta setið í Ferlaráðið fulltrúar frá öðrum útivistarfélögum og er þar einkum horft til Slóðavina en einnig má sjá fyrir sér að fulltrúar annarra félagasamtaka komi þar að. Með þessu er vonast til að hægt verði að ná til sem flestra og að árangur af starfinu verði sem bestur.
Ferlaráðið
You must be logged in to reply to this topic.