This topic contains 0 replies, has 1 voice, and was last updated by Jökull Einarsson 11 years, 11 months ago.
-
Topic
-
Þorrablótsferð
Þorrablót Jeppavinafélags Suðurnesja (Suðurnesjadeildar 4×4) var haldið í Kerlingarfjöllum helgina 1. – 3. febrúar 2013. Sumir tóku reyndar forskot á sæluna og lögðu af stað á fimmtudegi, þann 31. janúar og notuðu föstudaginn til að „leika sér“ í snjónum á Langjökli. Þegar ekið var um suðurlandið var lítill snjór, en víða hálka á vegum. Notuðum við tækifærið og stoppuðum við Gullfoss og skoðuðum hann í klakaböndum. Var það alveg mögnuð sjón. Þegar áfram var haldið upp á Bláfellsháls fórum við að heyra í jeppamönnum á leið í ýmis þorrablót á fjöllum, svo og félögum okkar sem greinilega skemmtu sér konunglega á jöklinum.
Á leiðinni í blótið vorum við í sambandi við grænlensk hjón sem langaði til að kynnast jeppamenningu Íslendinga með von um að skapa tengsl milli landanna á þessu sviði. Voru þau komin til landsins og lögð af stað til fjalla á leigðum jeppa og ætluðu sér að ná í skála fyrir kvöldið. Þótti okkur sem við bærum svolitla ábyrgð á þeim að þau kæmust heilu og höldnu á áfangastað. Reyndust þau vera duglegir ökumenn og kunnu ágætlega til verka í akstri í snjó og komust örugg á áfangastað með SMS leiðbeiningum og GPS í símanum sínum.
Vorum við komin í Kerlingarfjöll um fimmleytið í björtu og fallegu veðri og eins fallegt á Kili og hugsast getur, þó ekki hafi verið mikill snjór og næstum hægt að aka alla leið í fullpumpuðum dekkjum. Þegar leið á föstudagskvöldið fjölgaði smátt og smátt í skálanum og voru þeir síðustu að koma í skála þegar farið var að líða á laugardagsnóttina. Margt var spjallað og rifjaðar upp gamlar ferða- og frægðarsögur eins og jeppakörlum einum er lagið. Þar komumst við líka að því að grænlensku hjónin voru á Íslandi í síðbúinni brúðkaupsferð og þótti íslenskum jeppakörlum það merkilegt og sannarlega til eftirbreytni ef íslenskar konur væru fáanlegar til að slá saman brúðkaupsferð og hópferð á jeppum!
Laugardagurinn rann upp og var verðrið þá orðið heldur verra en kvöldið áður. Komið hávaða rok og snjókoma og varla hundi út sigandi. Samt komu jeppamenn sem voru með þorrablót í Gíslaskála í heimsókn í Kerlingarfjöll upp úr hádeginu og kíktu við í spjall við kunningja. Ekki hefur skyggni verið mikið í þeirri ferð, en GPS bjargar slíkum smámunum. Flestir Kerlingafjallamenn voru hins vegar innipúkar framan af degi, en nokkrir kjarkmenn (konur og karlar) fóru út að ganga og leika sér í snjónum á skíðum og sleðum þegar veðrið fór að ganga niður um miðjan daginn. Svona til að hafa einhverja lyst á matnum sem ferðin snerist jú um. Einhverjir skruppu líka út að aka og einn sem hafði gleymt felguboltum deginum áður þegar græja þurfti dekkjaskipti 20 km frá skálanum fór og sótti þá, og fann þá liggjandi á sínum stað… Hafði hann sett inn GPS punkt þar sem bilaði og ekki klikkaði tækið.
Þorrablótið hófst svo stundvíslega þegar matur var á borð borinn, mikill og góður og eiga þeir Menu-menn hrós skilið fyrir hann. Hákarlinn og hvalurinn alveg sérstaklega ljúffengir. Var mikið borðað, drukkið, spjallað og hlegið fram eftir nóttu. Var eins og sumir þeirra eldri hefðu kastað ellibelgnum og gáfu þeim yngri ekkert eftir við djammið.
Á sunnudagsmorgun vöknuðu blótsgestir í góðu og nokkuð björtu veðri en köldu. Enn var dálítið hvasst en ekki til vandræða í byrjun. Farið var að gera sig klára fyrir heimferð. Hluti hópsins ákvað að fara yfir Langjökul heim og lagði sá hluti hópsins af stað nokkru á undan hinum. Einn bíll fór Kjalveg en þeir sem eftir voru fóru austan við Hvítá, svokallaða Leppistunguleið niður Hrunamannaafrétt, var hún greiðfær og talsvert meiri snjór þar en á Kili. Gekk vel á heimleiðinni, en veðrið fór þó versnandi þegar á daginn leið. Hvessti, fór að snjóa og skafa. Þegar Leppistunguleiðangurinn var kominn til Selfoss fengum við fréttir af Langjökulsförum að þeir hefðu orðið að snúa við vegna erfiðs færis á jöklinum og versnandi veðurs. Voru þeir því komnir seint heim. Margir kusu að aka Suðurstrandarveg heim, en rétt eins og á Hellisheiði var mikil blinda á leiðinni og lítið skyggni. Allir komust þó heilir heim.
Er frábærum ferðafélögum þökkuð skemmtileg helgi og gott þorrablót.
Björg og Jökull
You must be logged in to reply to this topic.