This topic contains 1 reply, has 2 voices, and was last updated by Sveinbjörn Halldórsson 9 years, 3 months ago.
-
Topic
-
Góðan dag, hér er lítil ferðasaga af fjöllum. Mér finnst reyndar að fólk mætti vera duglegra að setja inn ferða- og reynslusögur
Við hjónin fórum á litla fjallajeppanum (Suzuki GV á 30″, sem sagt breyttur jeppi) nokkrar leiðir núna í ágúst:
1. Suður sprengisand. Beygðum út af hinni hefðbundnu leið við Kistuöldu og ókum vestur fyrir Kvíslavatn og suður í Þúfuver þar sem við tjölduðum í 16° hita nálægt Þjórsá en hitinn í Nýjadal var ekki nema 7°. Ætluðum að skoða Sóleyjarhöfðavað en nenntum ekki á skrönglast í stórgrýtinu.
Daginn eftir héldum við áfram suður fyrir Kvíslavatn og ætluðum stystu leið niður á Búðarháls en urðum að snúa við vegna sandbleytu þar sem slóðin hvarf á talsverðum kafla ofan í talsvert stórt leysingavatn. Þar var greinilegt að einhver hafði fest sig nokkrum dögum áður, líklega stór og þungur bíll á mjóum dekkjum. Merkilegt hvað sumum reynist viðsnúningur erfiður. Við fórum því frá suðurenda Kvíslavatns yfir á Sprengisandsleið og strax út af henni aftur til suðurs að slóðamótum, þar sem m.a. var hægt að velja um slóða niður í Klifhagavalladal eða til Kjalvatna, sem við fórum. Þar var stutt vað syðst í Kjalvötnum og setti ég í lága drifið og lét vaða og brá okkur dálítið þegar litli fjallajeppinn stakkst niður í pollinn á vaðinu. Muna að vaða næst Þessi pollur gæti verið of djúpur fyrir minnstu jeppana eða ef loftinntakið er mjög neðarlega. Ókum síðan suður Búðarhálsinn. Þetta var skemmtileg leið og tilbreyting frá hinni hefðbundnu leið.
2. Króksleið eða Tindfjallaleið. Ég var búinn að sjá myndband á Youtube af akstri um þessa leið og taldi að litli fjallajeppinn mundi geta þetta, enda á hann góðan bílstjóra. Við fórum frá Mosum við Markarfljótsbrú og sem leið lá gegnum gilið og þrengingarnar þar. Þá kom brekkan. Litli fjallajeppinn fór upp á topp á 30″ 28 punda dekkjunum gegnum hliðarhallann og allt án þess að spóla Þegar upp var komið sáum við aðra brekku talsvert langt framundan, sem okkur sýndist amk jafn brött og sú fyrri með jafnvel sundurskornari slóðum. Þá ákváðum við að snúa við af því að við vorum einbíla og vildu ekki lenda í hugsanlegri sjálfheldu. Við fórum svo hina leiðina austan gilsins til baka en mig langar til að spyrja hvort seinni brekkan sé að ykkar mati léttari eða erfiðari en sú fyrri.
3. Við ætluðum að fara Leppistungur til baka en þær voru enn ekki opnar á heimferðardag (búið að opna þær í dag einmitt þegar maður er kominn heim) þannig að við völdum Sprengisand aftur en nú með öðrum krókaleiðum:
Botnaversleið austan Þórisvatns. Nokkuð auðveld leið fyrir litla fjallajeppa en mætti stika. Hraunið og urðin til Þórisóss frekar seinleg. Er hægt að aka frá Þórisósi til norðurs og þar inn á Sprengisand?
Þegar komið var yfir Svartá var beygt til vesturs og skömmu síðar til norðurs að Kvíslavatni, þar sem bróðir minn var að veiða. Stoppuðum stutt þar en héldum svo áfram sama slóða til norðurs og ætluðum inn á Sprengisandsleið ofar en snerum við við vað á lítilli á þar þar sem við tók brekka með miklum hliðarhalla.
Gistum í Nýjadal og tókum svo krókinn í Laugafell og svo Dragaleið aftur á Sprengisand. Fengum fínt veður og frábært útsýni til austurs yfir til Herðubreiðar, Dyngjufjalla, Snæfells, Trölladyngju, Kverkfjalla, Bárðarbungu og Tungnafellsjökuls.
Niðurstaða: Skemmtilegar leiðir utan hinnar hefðbundnu Sprengisandsleiðar en mætti merkja stika betur.
You must be logged in to reply to this topic.