This topic contains 5 replies, has 1 voice, and was last updated by Anonymous 21 years, 10 months ago.
-
Topic
-
Sælir félagar.
Mig langar að vekja athygli ykkar á grein/frétt á síðu 9 í Mbl. í dag.
Þar heldur Jón nokkur Stefánsson, varaformaður bifreiðastjórafélagsins Átaks, fram ýmsum athyglisverðum fullyrðingum sem mér sýnist að séu ekki beinlínis vel rökstuddar. Svo virðist af málflutningi hans, að honum finnist að leigubílar eigi að aka túristum að óbyggðavegum og þar sé fólkinu skipt yfir í jeppana…
Umfjöllun um tjónatíðni í greininni finnst mér einnig mjög athyglisverð. Hvernig er það fengið út að jeppabifreiðir séu með 100% hærri tjónatíðni en leigubílar skv. skýrslu Umferðarráðs fyrir árið 2000??? Er maðurinn ekki á hálum ís þarna? Getur verið að hann fái út þessa tölu með því að miða við alla „jeppa“ á landinu sem eru mörg þúsund vs. leigubíla sem eru einungis nokkur hundruð? Getur verið að maðurinn sé viljandi að sleppa því að bera saman tjón og slys á fólki í ferðum með jeppum vs. leigubílum?
Ég verð að játa að mér hitnaði nokkuð í hamsi við lestur þessarar greinar/fréttar, sérstaklega í ljósi þess hve jákvæðar niðurstöður voru úr hinni málefnalegu og vönduðu skýrslu verkfræðistofunnar Orion, varðandi tjón og tjónatíðni breyttra jeppabifreiða.
Er þetta ekki annars bara týpískt væl frá stétt manna sem hefur lifað of lengi í vernduðu umhverfi sem byggist á einkaleyfum, bitlingum og fríðindum, án þess að nokkrar konkret skyldur komi þar í staðinn. Skoðum til gamans kaflann um starfsskyldur leigubílstjóra í 9. gr. laga nr. 134/2001 sem tóku tildi 15. mars í fyrra, en með þeim lögum varð heilmikil lagfæring á þessum málum, sem voru áður í afleitu horfi. Skoðið sérstaklega til gamans síðustu málsgreinina….
Hvet hér með hagsmunaaðila í jeppaferðamnnesku til að bera hönd fyrir höfuð sér og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Ferðakveðja,
BÞV
9. gr. Nýting atvinnuleyfis.
Leyfishafi skal hafa leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu. Þó má víkja frá því skilyrði á svæðum þar sem íbúar eru færri en 10.000.
Veita má leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna:
1. orlofs, þ.m.t. fæðingar- og foreldraorlofs, veikinda eða annarra forfalla,
2. vaktaskipta á álagstímum,
3. viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.
Samgönguráðherra setur nánari reglur um undanþágur skv. 2. mgr. að fengnum tillögum Vegagerðarinnar og félaga leigubifreiðastjóra. Leigubifreiðastöðvar geta annast veitingu undanþágna á grundvelli upplýsinga í gagnagrunni sem Vegagerðin heldur og hefur að geyma upplýsingar um leyfishafa, undanþágur til þeirra, forfallabílstjóra og annað sem nauðsynlegt þykir í þessu skyni, sbr. 2. gr. Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða gjald fyrir afgreiðslu veittra undanþágna.
Vegagerðin getur heimilað að félög leigubifreiðastjóra annist afgreiðslu undanþágna, sbr. 3. mgr., standist þau kröfur hennar.
Leigubifreiðastjóra sem öðlast atvinnuleyfi ber að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi og að nýta það samfellt í tvö ár áður en til fyrstu innlagnar kemur. Að öðrum kosti fellur atvinnuleyfi úr gildi.
Vegagerðin setur reglur um heimildir til tímabundinna innlagna atvinnuleyfa.
Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leigubifreiðaakstur. Nánar má kveða á um þessi atriði í reglugerð.
Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst leyfið fyrir aldurs sakir ef hann hefði lifað, þó aldrei skemur en tólf mánuði. Þegar maki er ekki til staðar er dánarbúi leyfishafa heimilt að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjá mánuði eftir andlát leyfishafa en þó ekki eftir lok búskipta.
You must be logged in to reply to this topic.