This topic contains 6 replies, has 1 voice, and was last updated by Jón Hörður Guðjónsson 20 years, 9 months ago.
-
Topic
-
Það er greinilegt að sumir þeirra sem eru mótfallnir breytingum á innheimtu gjalds á díselolíu eru eitthvað ósáttir við að önnur sjónarmið komi fram í þeim þræði.
Þessvegna set ég mínar hugleiðingar í sér þráð.
Ég held að margir velti því fyrir sér hvort að klúbburinn eigi að taka opinbera afstöðu. Ég er algjörlega á móti því að klúbburinn geri það. Hinsvegar gæti hann barist fyrir lækkun gjalda á eldsneyti almennt (bensín og dísel).
Það væri ekki úr vegi að hafa annan hátt á að innheimta gjald af vöru- og fólksflutningabílum en það er ekki endilega mál 4×4 klúbbins.
Ef við veltum sanngirni fyrir okkur (útfrá jeppum) þá er það kerfi sem verið hefur mjög einkennilegt. Þeir sem keyra mikið fá mikinn afslátt á opinberum gjöldum.
Ég man ekki í svipinn eftir öðru dæmi í innheimtu opinberra gjalda þar sem að gjöld lækka eða falla niður eftir að ákveðnum gjaldstofni er náð.
Nú eru díselmenn oft að hreykja sér af því hve þeirra bílar eyði litlu. Dísel á jú að nýta orkuna betur og þú kemst lengra á hverjum lítra. Þar að auki skilst mér á öðrum þráðum að dísellinn eigi að vera um 12% ódýrari en sopinn af bensíni.
Dísellinn ætti því ennþá að hafa mikið forskot á bensínið, bæði minni eyðsla og ódýrari sopi. Getur það talist ósanngjarnt? Það stórefast ég um.
Ósanngirnin í sköttum á eldsneyti felst ekki í díselmálinu heldur skattlagningu á allt eldsneyti. Ef klúbburinn fer að beita sér sérstaklega til að dísellinn verði enn ódýrari eða að fyrra kerfi verði viðhaldið þá held ég að við eigum það á hættu að missa trúverðuleika.
Við lítum þá út fyrir að berjast fyrir að halda áfram sérhagsmunamáli fárra, halda við kerfi sem er í raun ósanngjarnt.
Ég ítreka að þetta á við jeppamenn en ekki áhrif sem þetta hefur á vöruverð á landsbyggðinni, en það er mál sem er nauðsynlegt að leysa óháð okkur.
Ég legg því til að ef 4×4 klúbburinn vill beita sér í þessu máli þá geri hann það á breiðum grundvelli, þ.e. beiti sér fyrir lækkun á gjöldum af öllu eldsneyti!
JHG
You must be logged in to reply to this topic.