Skálanefnd hélt fund nýlega þar sem málefni skálans og rekstrargrundvöllur voru meðal annars rædd. Farið var yfir það sem búið er að framkvæma við Setrið í sumar og hvað er óframkvæmt af verkefnalista sumarsins sem sífellt virðist bætast á eftir því sem farið er betur yfir málin. Í framhaldi af því var ákveðið að fara í vinnuferð helgina 27 til 29 ágúst og freista þessa að grynnka eitthvað á listanum. Þetta verður opin vinnuferð og vinnufúsar hendur því velkomnar og vel þegnar. Ljósavélin hefur aðeins verið að hrekkja okkur undanfarið svo sem sést hefur á tilkynningum frá skálanefnd en hefur nú komist í lag á ný og gengur vonandi hrekklaust áfram en eitt af fyrstu verkefnum nýrrar skálanefndar var að leita tilboða í nýja vél og voru tilboðin lögð fyrir stjórn. Þau mál eru nú í athugun og ákvörðunar vonandi að vænta innan tíðar. Í júlí voru skálaverðir til staðar í um vikutíma í skálanum, þau hjónakornin Guðmundur góði og Hulda. Lítil umferð var á þeim tíma sem þau voru þar en þó komu þau tveimur hjólamönnum til aðstoðar þar sem annar hafði fallið og hnjaskast eitthvað og ákváðu þeir að gista eina nótt meðan sá þeirra sem hafði fallið var að jafna sig. Einn tjaldaði utan skálans á þessum tíma og notfærði sér aðstöðu skálans. Undirritaður var svo á staðnum síðustu daga júlímánaðar og kláraði að bera á palla skálans ásamt því að taka aðeins til hendinni á planinu og laga pallinn við Zetuna, negla hann upp og bera á hann. Gísli Þór hefur svo verið með tilfallandi skálavörslu í júlí og ágúst þar sem hann hefur verið mikið á ferðinni á Kerlingarfjallasvæðinu vegna vinnu og hefur hann dittað að ýmsu. Einnig hefur það komið sér mjög vel að á meðan hann hefur haft setu í skálanum hafa allnokkrir gist og nokkuð hefur rukkast inn af skálagjöldum. Aðstoð hans vegna viðgerðar ljósavélarinnar hefur einnig verið vel þegin og þökkuð. Í september hafa tveir hópar bókað gistingu, annars vegar er um tuttugu manna hópur sem gistir aðfaranótt 4. september og hins vegar um 40 manna hópur sem gistir eina nótt helgina 18. -19. september. Von okkar í skálanefnd stendur til þess að eftir næstu vinnuferð verði ástand og aðstaða skálans orðin í það góðu lagi að engum vandkvæðum ætti að vera bundið að gista þar en þó má lengi gera betur.
Með kveðju.
Logi Már / Skálanefnd.