Eins og félagsmenn hafa heyrt varð skelfilegt slys á Langjökli laugardaginn 30. janúar síðastliðinn þar sem kona og 7 ára drengur féllu niður í sprungu með þeim hörmulegu afleiðingum að konan lést. Þarna var um að ræða eiginkonu Kristjáns Gunnarssonar, stjórnarmanns í Ferðaklúbbnum 4×4, Halldóru Benediktsdóttir ásamt sjö ára gömlum syni þeirra hjóna. Eins og fyrr segir lést eiginkona Kristjáns, en sonur þeirra lifði slysið af og er nú á batavegi á Landspítalanum, hann er kominn af gjörgæslu og dvelur á Barnadeild Landsspítalans.
Þau hjónin voru þarna á ferð með hópi vinafólks og var ferðinni heitið inn að íshelli á slóð sem oft er ekin þegar þangað er farið. Sökum minni snjóalaga en í venjulegu árferði hafði verið tekin sú ákvörðun að halda sig ofar í jökullinum og fara áður farna leið niður að íshellunum enda ferðahópurinn þekktur fyrir að gæta varúðar á ferðalögum sem þessum.
Þetta sýnir okkur öllum að slysin gera ekki boð á undan sér. Sendum við Kristjáni og hans fjölskyldu, ásamt öðrum þeim sem um sárt eiga að binda, okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Kristján hefur beðið um að komið verði á framfæri innilegu þakklæti til björgunarsveitarfólks, lækna og hjúkrunarfólks og er þeim óskum hér með komið til skila.
Stjórn F4x4.