Litlanefndin heldur í dagsferð laugardaginn 23. október n.k. Farið verður malbikið að Keldum, austan Hellu, en þegar malbikinu sleppir verður mýkt í dekkjum fyrir áframhaldið. Við stefnum á að fara eftir fyrri hluta Fjallabaksleiðar Syðri, norður fyrir Laufafell. Þaðan förum við í Hrafntinnusker. Frá Hrafntinnuskeri förum við upp og yfir þúsundmetrahólinn og þá niður Pokahrygg yfir á Landmannaleið. Við fylgjum svo Landmannaleið á Landveg, þar sem ferðinni verður slitið.
Gera verður ráð fyrir að ferðatilhögun geti breyst, þar með talið að ferðinni verði frestað eða hún felld niður vegna óhagstæðrar veðurspár eða af öðrum ástæðum, samkvæmt ákvörðun fararstjóra.
Skráning er hafin og lýkur henni miðvikudagskvöldið 20. október n.k.