Nú hefur verið opnað fyrir skráningu í gps-ratleik Litlunefndar sem fer fram laugardaginn 19. mars n.k.
Um er að ræða dagsferð og ekki hægt að segja frá ferðatilhögun, þar sem um ratleik er að ræða. Gera verður ráð fyrir að ferðatilhögun geti breyst frá því sem ákveðið hefur verið, þar með talið að ferðinni verði frestað eða hún felld niður vegna óhagstæðrar veðurspár, eða af öðrum ástæðum, samkvæmt ákvörðun fararstjóra.
Það kostar ekkert að taka þátt og allir eru velkomnir, bæði félagsmenn og aðrir. Litlunefndarferðir miðast við lítið breytta og óbreytta jeppa og eru engar takmarkanir á því svo lengi sem jeppinn hefur hátt og lágt drif. Ákvarðanir fararstjóra um leiðarval og fleira miðast við þetta.
Ekki er nauðsynlegt að vera með gps tæki til að taka þátt í leiknum, en óneitnalega er skemmtilegra fyrir þátttakendur að hafa slíkt tæki til að geta fylgst með.
Undirbúnings og kynningarfundur verður í húsnæði ferðaklúbbsins að Eirhöfða, miðvikudagskvöldið 16, mars, kl. 20:30. Mjög mikilvægt er að allir mæti en á kynningarfundinum verður farið yfir skipulagningu ferðarinnar og helstu öryggisatriði kynnt, auk grunnnámskeiðs í jeppamennsku fyrir þá sem hafa áhuga á því.
Við hittumst á „N64 07.434 W21 48.206“, sem er Shell, Select við Vesturlandsveg á laugardagsmorgninum kl. 8:30. Skipt er í hópa í þessari ferð og ætlum við að senda hópana markvisst af stað með 10 – 15 mínútna millibili, fyrsta hópinn fyrir kl. 9:00. Athugið að þetta er fremur létt ferð og lítið um torfærur, nema það verði búið að snjóa. Við áætlum að vera komin til byggða fyrir kl. 18:00 á laugardagskvöldinu.
Skráning er hafin og lýkur henni miðvikudagskvöldið 16. mars n.k.