Farið var með olíubíl þann 24. sept. upp í Setur. Fyllt var á báða tankana + dagtankana á ljósavélinni og olíufíringunni. Ferðin gekk vel og menn ánægðir með dagsverkið.
Hér koma nokkrar myndir:
FERÐAKLÚBBURINN 4X4 |
||||
Menu |
Farið var með olíubíl þann 24. sept. upp í Setur. Fyllt var á báða tankana + dagtankana á ljósavélinni og olíufíringunni. Ferðin gekk vel og menn ánægðir með dagsverkið.
Hér koma nokkrar myndir:
Skálanefndin hittist til að ræða verkefni Setursins.
Rætt var um GSM opnunarkerfið, hvernig status á viðgerð gekk og er nú búið að laga kerfið, farið verður með það uppeftir í næstu vinnuferð.
Svo var rætt um olíumál skálans og reynt að finna út hvað ljósavélin eyddi (skiptar skoðanir á því)
Svo ræddum við um pantanir á Setrinu og hvernig við getum haldið utan um það þar sem pantanir fyrir stóra hópa hafa verið margar í sumar.
Svo var áætluð vinnuferð 1-3 okt en urðum að falla frá þeirri ferð.
Næsta vinnuferð ákveðin síðar.
Kv. Skálanefnd
Vinnuferð var farin á vegum skálanefndar Seturs helgina 28. til 29. ágúst sl. Til hennar mættu á endanum fjórir frá skálanefnd ásamt þremur fullorðum, einum ungling og einu barni. Á föstudagskvöldinu gistu með okkur í skálanum sex hjólamenn og yfirgáfu þeir skálann á laugardagsmorgninum og létu vel af húsakosti og vist. Tekið var vel til hendinni þessa helgi. Grafið var fyrir pallaundirstöðum framan við skálann og steyptir niður staurar og smíðaður pallur fyrir framan klósettin og að inngangi norðanmegin og mun það gera allt aðgengi að skálanum mun betra. Eftir er að klæða dekkið á pallinn og verður það gert í ferð sem áformuð er í lok setember. Bráðabirgðaklæðning var sett á pallinn sunnanmegin þar sem alltaf er gengið inn á sumrin og er því aðgengið gott þeim megin en óklætt er norðanmegin og eru þeir sem eru á ferðinni þarna beðnir um að taka tillit til þess. Ráðist var í þakmálningu, náðist að skrapa þakið á skálanum og grunna í blettina en ekki náðist að mála endanlega þar sem rigning setti strik í reikninginn. Ekki er því víst að málningarvinna klárist fyrir veturinn úr því sem komið er. Rennsli í klósettkassana virðist nú komið í lag eftir að formaður skálanefndar fór hamförum inni á klósettunum og reif allt í tætlur, boraði, græjaði og gerði og tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að klúðra öllu saman aftur þannig að það virkaði. Einnig var tekið til í kringum skálann og er nú aðkoma að honum þokkaleg. Tveir gluggar í risi gamla skálans sem eftir var að mála að utan voru síðan skrapaðir og málaðir. Afrek helgarinnar hlýtur samt að teljast sú framkvæmd að klára þakkant hússins, sem hefur verið ófrágegninn síðan klósettviðbyggingin var byggð og er nú ásjóna hússins allt önnur og fallegri. Ekki má gleyma að nefna að yngsti þáttakandinn í ferðinni, hún Herdís Ásta tók sig til og málaði nokkra steina á planinu af miklum dugnaði. Á laugardagskvöldinu var svo grillað að hætti skálanefndar og tóku menn vel til matar og hóflega til drykkjar. Í heildina séð höldum við í skálanefnd að húsið sé nú að verða þokkalega búið fyrir veturinn og ætti hverjum þeim sem telja sig til fjallamanna ekki að vera nokkur vorkunn að gista þar. Skálanefnd vill þakka þeim ofvirku einstaklingum sem tóku þátt í þessari vinnuferð fyrir frábært framlag til skálans og vonast til að njóta krafta þeirra seinna meir.
F.h. skálanefndar, Logi Már.
Skálanefnd hélt fund nýlega þar sem málefni skálans og rekstrargrundvöllur voru meðal annars rædd. Farið var yfir það sem búið er að framkvæma við Setrið í sumar og hvað er óframkvæmt af verkefnalista sumarsins sem sífellt virðist bætast á eftir því sem farið er betur yfir málin. Í framhaldi af því var ákveðið að fara í vinnuferð helgina 27 til 29 ágúst og freista þessa að grynnka eitthvað á listanum. Þetta verður opin vinnuferð og vinnufúsar hendur því velkomnar og vel þegnar. Ljósavélin hefur aðeins verið að hrekkja okkur undanfarið svo sem sést hefur á tilkynningum frá skálanefnd en hefur nú komist í lag á ný og gengur vonandi hrekklaust áfram en eitt af fyrstu verkefnum nýrrar skálanefndar var að leita tilboða í nýja vél og voru tilboðin lögð fyrir stjórn. Þau mál eru nú í athugun og ákvörðunar vonandi að vænta innan tíðar. Í júlí voru skálaverðir til staðar í um vikutíma í skálanum, þau hjónakornin Guðmundur góði og Hulda. Lítil umferð var á þeim tíma sem þau voru þar en þó komu þau tveimur hjólamönnum til aðstoðar þar sem annar hafði fallið og hnjaskast eitthvað og ákváðu þeir að gista eina nótt meðan sá þeirra sem hafði fallið var að jafna sig. Einn tjaldaði utan skálans á þessum tíma og notfærði sér aðstöðu skálans. Undirritaður var svo á staðnum síðustu daga júlímánaðar og kláraði að bera á palla skálans ásamt því að taka aðeins til hendinni á planinu og laga pallinn við Zetuna, negla hann upp og bera á hann. Gísli Þór hefur svo verið með tilfallandi skálavörslu í júlí og ágúst þar sem hann hefur verið mikið á ferðinni á Kerlingarfjallasvæðinu vegna vinnu og hefur hann dittað að ýmsu. Einnig hefur það komið sér mjög vel að á meðan hann hefur haft setu í skálanum hafa allnokkrir gist og nokkuð hefur rukkast inn af skálagjöldum. Aðstoð hans vegna viðgerðar ljósavélarinnar hefur einnig verið vel þegin og þökkuð. Í september hafa tveir hópar bókað gistingu, annars vegar er um tuttugu manna hópur sem gistir aðfaranótt 4. september og hins vegar um 40 manna hópur sem gistir eina nótt helgina 18. -19. september. Von okkar í skálanefnd stendur til þess að eftir næstu vinnuferð verði ástand og aðstaða skálans orðin í það góðu lagi að engum vandkvæðum ætti að vera bundið að gista þar en þó má lengi gera betur.
Með kveðju.
Logi Már / Skálanefnd.
Skálanefnd stóð fyrir vinnuferð í Setrið um liðna helgi. Því miður kvarnaðist nokkuð úr hópnum sem búist var við að tæki þátt en þar sem þeir sem eftir stóðu voru harðsnúinn hópur manna þá gengu hlutirnir þrátt fyrir það vel fyrir sig og margt vannst í þessari ferð. Ómar skálanefndarmaður og Biggi málari fóru uppeftir á fimmtudagseftirmiðdegi og hófust handa við undirbúning málningar á þaki og sóttist þeim verkið vel, náðu þeir að skrapa og grunna allnokkuð og fullmála einn þakhlutann á föstudeginum áður en veðurfarið setti varanlegt strik í reikninginn þessa helgina og varð ekki meira að gert í þeim efnum. Var því farið í það að einbeita sér að innri málum skálans og voru gluggar í eldri hluta byggingarinnar slípaðir og olíubornir. Allar gardínur voru teknar niður og eru í þessum skrifuðum orðum í þvottavélinni hjá undirrituðum og verða hengdar upp við fyrsta tækifæri. Gólfin í eldri hluta skálans voru síðan slípuð og lökkuð og eru sem ný og ætti að vera auðveldara og skemmtilegra að halda þeim hreinum eftir þessa aðgerð. Stóraðgerð var gerð í eldhússkápum, hreinsað var út úr þeim öllum og þrifið, grisjað var í búnaði og reynt að meta hvað mátti missa sín. Gert var við hlera fyrir útihurðum og klárað að loka undir rúmstæði á svefnlofti. Farið var í stóraðgerð á gámnum, öllu hent út úr honum og til að gera langa sögu stutta þá er langur vegur frá því að allt sem fór út úr honum hafi farið inn í hann aftur. (Hljómsveitin Hættir gæti sennilega haldið ball í honum núna.) Grillað var á laugardagkvöldinu og fóru menn að týnast heim seinnipartinn á sunnudeginum utan undirritaðs og sonar hans sem urðu eftir til að klára gólfin og komust ekki í bæinn fyrr en undir morgun á mánudeginum. Skálanefnd vill þakka þeim sem lögðu hönd á plóg þessa helgina fyrir félagsskapinn og vinnuframlagið og vonast til að njóta krafta þeirra síðar í sumar þegar kallað verður til frekari vinnuferða.
Logi Már. Formaður Skálanefndar.
https://old.f4x4.is/g2/main.php?g2_view=core.DownloadItem&g2_itemId=283687&g2_serialNumber=2
Farin verður vinnuferð skálanefndar 9-11 júlí. Óskum við eftir vinnufúsum höndum í þau margvíslegu verkefni sem eru á döfinni. Fyrirhugað er að leggja af stað seinnipart föstudags og koma heim sunnudagskvöld. Þeir sem hafa áhuga á skrái sig á spjallþræði, en einnig má hringja í síma skálanefndar, 844-5010 til að fá nánari upplýsingar. Skálanefnd.
Við ætlum að reyna að hafa skálavörslu í Setrinu eins og síðasta sumar. Tímabilið verður frá því að hálendið opnareða frá ca. mánaðarmótunum júní-júlí þar til í enda ágúst og er um sjálboðavinnu að ræða. Áhugasamir sendi póst á skalanefnd@f4x4.is og taki fram hvaða tímabil viðkomandi vill vera.
Skálanefnd
Eins og svo margir vita þá erum við að setja upp GSM kerfi í Setrinu. Það er verið að ganga frá kerfinu og á meðan hefur verið skipt um lykla.Tilkynning um fyrirkomulag á opnun hefur verið hengd upp í anddyri Setursins. Ef nánari upplýsinga er þörf, hafið þá samband við Skálanefnd.
Kveðja, Skálanefnd
Skálanefnd hefur fengið nýtt símanúmer, 844-5010. Í því númeri er undantekningalítið hægt að ná sambandi við Skálanefnd. Gistipantanir í Setri skulu fara í gegnum Kára Þórisson, sími 892-4675. Lyklar að Setrinu fást afhentir hjá honum eða skrifstofu ferðaklúbbsins. Félagsmenn á leið til gistingar í Setri eru vinsamlegast beðnir að tilkynna sig og fjölda gesta í annaðhvort símanúmerið.