Skálanefndin náði þeim markmiðum sem hún setti sér fyrir þessa vinnuhelgi, þ.e. að klára olíutengingu frá nýja aðaltanknum inn á dagtank ljósavélar og tengja botnrofa í dagtanknum sem drepur á vélinni ef dísilolíu þrýtur, þ.e. áður en tankurinn klárast alveg. Aðalbreytingin fyrir þá sem gista og þurfa að fylla á dagtankinn í lok gistingar er á nú þarf aðeins að þrýsta á hnapp til að fylla á dagtankinn og sér þá rafmagnsdæla um að koma olíunni á tankinn. Þetta tekur mjög skamma stund því að dælan er mjög öflug. Guðmundur skálanefndarmaðúr orðaði þetta reyndar mjög snyrtilega og sagði að „þetta væri eins og að reka niður títuprón með sleggju“. Hin breytingin sem um ræðir er að nú hefur verið tengdur rofi í dagtank sem drepur á vélinni þegar hún er u.þ.b. að verða olíulaus. Þarf þá að dæla olíu á tankinn og endurræsa tölvu vélarinnar með því að slökkva á henni og kveikja aftur eftir stutta stund, þá ræsir tölvan sig aftur og hægt er að gangsetja vélina. Væntanlega verður gerð nánari grein fyrir þessum breytingum á næsta félagsfundi.
Annars er það að frétta af þessari ferð að eftir að hópurinn sem var á leið í skálann komst við illan leik í skála um hálf tólf á laugardagskvöldið. Fólk var fegið að komast í hús og tóku menn til matar og drykkjar. Með í för var ný drifloka í Mussoinn og var hún sett í hann morguninn eftir í brjáluðu veðri, roki og skafrenningi en hafðist allt. Allur hópurinn lagði svo af stað í bæinn um hálf eitt á sunnudeginum í þónokkrum vindi og skafrenningi og var skyggni ekki gott og færi þungt á köflum í byrjun. Var ákveðið athuga með hvort vaðið á Þjórsá við Sóleyjrahöfða væri fært og var ákveðið að fara veglínuna niður að vaði þar sem snjóalög eru ekki enn nógu mikil á svæðinu til að fara stystu leið. En þegar komið var um tvo til þrjá kílómetra frá Setrinu ókum við hins vegar út úr veðrinu og inn í sól og lágarenning, harðfennt færi og tóma hamingju. Ferðin niður að vaði var því fljótfarin og var þá tekinn fram álkarl og athugað með þykktina á ísnum. Eftir þá athugun var áin talin fær og brakaði ekki í ísnum undan þyngstu bílum þegar þeir óku yfir. Ferðin niður í Hrauneyjar gekk svo tíðindalaust, ekið var í rjómaveðri og fallegu útsýni til fjalla.
Skálanefnd vill þakka Samúel Úlfr og Sólmundi fyrir framlag þeirra til rafmagnsmála í þessari framkvæmd og Gisla „Seinagengismanni“ fyrir að redda drifloku í Mussoinn og að vera afburða „húskarl“. Ferðafélögum öðrum þökkum við samfylgdina, sjáumst síðar á fjöllum.
Logi Már. Skálanefnd.