Laugardaginn 15. október s.l. gerði Litlanefndin aðra tilraun til að komast í Hrafntinnusker. Lagt var frá Stöðinni við Vesturlandsveg í leiðinda veðri, rigningu og hvössu. Farið var á Hvolsvöll og síðan inn á Fjallabaksleið syðri hjá Keldum, en þar var einnig mýkt í dekkjum. Fyrst var blautt í veginum en fljótlega fór að koma snjór sem jókst eftir því sem ofar dró.
Síðasta ferð breyttist vegna gríðarlegrar hálku og nú var það sama uppi á teningnum. Til stóð að skipta hópnum í tvennt, þannig að hluti færi niður að Nafnlausa fossinum (eða hvað menn vilja kalla hann) og hluti að Dalakofanum. Þegar komið var að Laufafelli var svo blint og það mikil hálka að ákveðið var að allur hópurinn færi að Dalakofanum. Þar var nesti snætt og hópstjórar ákváðu framhaldið. Ákvörðun var tekin um að skoða það að fara austan Heklu yfir á Landmannaleið.
Ekið var inn á leiðina um Krakatind, þaðan um sanda og hraun að Heklurótum. Á allri þeirri leið, yfir að Rauðuskál og brekkubrúninni við Trölla var góður snjór yfir öllu og þungir skaflar inn á milli. Fljótt varð mikil hálka og var krefjandi að fara um brekkur og hvörf þar sem þess þurfti. Brekkan Trölli var erfið, fljótt breyttist snjórinn í glerhálku og rann einn bíll til og þurfti að spila hann lausan. Þó stökk af stað hópur manna með skóflur og dreifði sandi yfir hálkuna. Þar með varð leiðin greið og gekk öllum vel að komast niður. Þessar aðgerðir tóku sinn tíma og héldu fyrstu bílar heim á leið, en aðrir biðu eftir að allir væru komnir niður. Hópurinn tók þá svolítinn aukahring, inn í Landmannahelli og hringinn í kring um Sátu. Þar var mjög góður snjór og skemmtilegt að sprauta eftir ókeyrðum veginum. Þessi aukahringur gekk án vandræða og allir komust niður að snjólausum gatnamótum Landmannaleiðar og Landvegar þar sem ferðinni var slitið og pumpað í dekk.
Myndakvöld verður í félagsheimili F4x4 á opnu húsi, fimmtudagskvöldið 20. október n.k.
Hér eru nokkur myndasöfn úr ferðinni:
Pétur F. Þórðarson myndasafn
Ólafur Magnússon
myndasafn 1
myndasafn 2