Nýliðaferð Ferðaklúbbsins 4×4 verður farin helgina 26 – 28 nóvember.
Skráning hefst miðvikudaginn 17. nóvember kl 20:00, einungis skráð hér á vefnum.
Ferðatilhögun:
Farið verður af stað frá Select við Vesturlandsveg í tveimur hópum, sá fyrri kl 16 en sá seinni kl 18 og ekið um Dómadalsleið í Landmannahelli þar sem að haldið verður til um helgina. Á laugardegi verður svo farið í einhverja skemmtilega dagsferð á svæðinu og er þar úr nógu að velja. Sem dæmi um mögulega áfangastaði má nefna Heklu, Hrafntinnusker, Krakatind, Laugar o.m.fl. En þetta verður ákveðið á staðnum í samræmi við veður og snjóalög.
Heimleið verður svo ákveðin á sama hátt og þátttakendur geta ekki reiknað með að vera komnir heim fyrr en seint á sunnudegi.
Þessi ferð er hugsuð fyrir alla nýja félagsmenn í 4×4 sem og þá sem að eru að reyna sig á nýjum bílum eða nýbúnir að breyta. Ef að húsrúm leyfir verður fyllt upp með reyndari mönnum sem vilja koma með.
Þar sem að húsrúm er takmarkað á svæðinu komast einungis 20 bílar með og er hámark einn farþegi í hverjum bíl auk bílstjóra. Einnig er gerð krafa um að allir bílar séu útbúnir til hálendisferða að vetri og séu á nægjanlega stórum dekkjum til að bera þyngd bílsins, VHF og GPS verður að vera í öllum bílum. Ef að einhver er í vafa um hvort að hans bíll sé gjaldgengur þá er bara að senda fyrirspurn á fararstjóra.
Verðið í ferðina er 5.000 kr á haus og er innifalið í því verði gisting í tvær nætur í Landmannahelli og kvöldmatur á laugardagskvöldi.
Fararstjórn er í höndum Túttugengisins og er hægt að senda fyrirspurnir á bm@sk3.is eða með því að hringja í Benna í 898 6561