Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
03.08.2003 at 18:59 #475210
Ég á Pajero 1990 með 2,5 vélinni. Hjá mér er öndunarloft frá vélarblokkinni (ventlaloki) tengt inn á soggreinina (framan við túrbínuna) og það dropar alltaf dálítið úr rörinu, olíublandað sótugt vatn og hvað nú kann að blásast niður meðfram stimplunum. Ef þinn bíll er með svona tengingu geturðu prófað að losa hana frá og kanna innihaldið. Það gæti verið skýringin á þessu olíusmiti þínu. Sennilega er allt í besta lagi hjá þér.
Kveðjur
Ágúst
25.07.2003 at 22:06 #192747Sælir félagar.
Ég er að velta því fyrir mér að fjárfesta í VHF talstöð í pæju gömlu. Getur einhver frætt mig á því hvort einhver árgjöld eða leyfisgjöld fylgi slíku dæmi og þá hversu há þau séu, fyrir hvað greitt og hver innheimtir.
Ennfremur hvort stöðin sé þá skráð á tiltekinn bíl eða tiltekinn notanda og hvernig tekið sé á því að flytja stöðina milli bíla (ég keyri sjaldan marga bíla í einu).
Með kveðjum
Ágúst (Wolf)
R2980
03.06.2003 at 19:54 #474012Mig minnir að spindilkúla heiti Ball Joint eða e-ð svoleiðis. Bushing merkir hólk eða fóðringu og örugglega ekki spindilkúlu.
Kv.
Ágúst
10.05.2003 at 19:19 #473254Bolli; hvaða gerð er þessi VHF stöð ?
Uppfyllir hún allar kröfur hér ?Ágúst
20.04.2003 at 20:24 #192512Sælir.
Nýlega var smágrein í Mogganum um Comtec/FuelStar brennsluhvatann, sem eftir öllu að dæma er nú að slá í gegn eftir að hugvitsmaðurinn flutti af klakanum til Bretlands.
Ég prófaði að leita á vefnum eftir „FuelStar“ og þar finnst slatti af vefsíðum með upplýsingum um ágæti þessarar græju, t.d. http://www.fuelstar.com/.
Nú langar mig til að vita hvort einhverjir hafi prófað svona græjur og geti sagt frá eigin reynslu af henni.Eða er þetta bara enn ein tálsýnin (too good to be true)?
Kveðjur
Wolf
12.04.2003 at 23:06 #472206Alveg er ferlegt hvað þetta hyski er orðið bíræfið.
Ég held að ég fari að huga að því að setja leynirofa í bílinn minn. Það var einfalt í gamla Willys, einn aukavír í platínurnar og rofi til jarðar. Þegar rofinn gaf samband var enginn neisti og steindauð vél.
Hvernig er það með Díselbílana er ekki yfirleitt segulspóla eða rafstýring í díselverkinu (ádrepari) sem væri einfalt að tengja svona þjófavarnarrofa við ?
Á Pajerónum mínum er 4 eða 6 víra raftengi á díselverkinu. Veit einhver hvaða rafboð fara þar um ?Kv.
Wolf
09.04.2003 at 23:16 #472224Ég lenti í basli við að losa trissuboltann á mínum Pajero. Eftir mikil átök datt mér í hug að hann hefði verið límdur svo að ég prófaði að velgja hann aðeins með gasi. Þá losnaði hann og kom út með límklessur í gengjunum.
Þegar ég setti aftur saman herti ég samkvæmt Pajero bókum, en nokkrum mánuðum seinna var boltinn laus og trissan farin að skrölta. Hljóðið er mjög pirrandi og heyrist mest í tómagangi sem högg stál í stál.
Þá setti ég gengjulím á boltann og herti eins og ég þorði. Nú eru liðnir 6 mánuðir og ekki farið að skrölta enn.
7 – 9 – 13.
Ég hef síðar heyrt af dæmum þar sem trissan hefur hreinlega yfirgefið sveifarásinn og allt í skrall. Mæli þá frekar með gengjulíminu.Wolf
07.04.2003 at 22:33 #472116Samkvæmt handbók fyrir Hitachi alternator (reyndar fyrir Subaru Legacy) eru 4 pólar í kringlótta tenginu:
L: Hleðsluljós. Hinn póll perunnar fer í jörð.
S: Skynjun á hleðsluspennu, beint frá + pól geymis.
I: +14 Volt frá svissi (til að segulmagna og knýja gumsið)
C: Ónotaður.Wolf
05.04.2003 at 00:37 #472078Minn er 1990 og á gormum.
Wolf
05.04.2003 at 00:34 #471876Forboðið eður ei.
Þeir sem halda að þeir geti verndað samskiptarásir fyrir hlerun "óviðkomandi aðila" með því að halda tíðniúthlutunum leyndum ættu að hugsa sín mál upp á nýtt. Hvort sem það varðar við lög eða ekki þá eru staðreyndirnar þessar:
Til er fjöldi viðtækja sem nota má til að hlusta á rásir VHF sviðsins.
Fyrir áhugamenn og radíóamatöra er tiltölulega einfalt að smíða viðtæki fyrir hvaða VHF tíðni sem er.
Til er í landinu umtalsverður fjöldi af VHF-skönnum og sáraeinfalt að kaupa þá erlendis.
Tæknilega er ógjörningur að þefa uppi viðtæki og greina með fullri vissu hvort útgeislun frá því kemur til vegna hlustunar á FM-útvarp, sjónvarp eða einhverja forboðna samskiptarás.Allt sem við segjum í síma, talstöð eða sendum frá okkur með tölvupósti getur hæglega komist í hendur óviðkomandi og reyndar eru margir sem fullyrða að stóri bróðir, njósnakerfið Eschelon, fylgist vendilega með öllu saman.
Því skulið þið bara …
… aldrei segja neitt í talstöð eða síma sem alls ekki má vitnast.
… aldrei skrifa neitt í tölvupóstskeyti sem ekki má vitnast. Gildir einnig um SMS boð.
… hætta að telja ykkur trú um að það felist eitthvað öryggi í því að fara með tíðniúthlutanir sem leyndarmál.
… hætta að velta fyrir ykkur ímynduðu öryggi við það að löggiltir aðilar setji "rásir" í talstöðvar.Kveðjur
Wolf
29.03.2003 at 22:25 #471126Mér leikur forvitni á að vita hvort menn hafi tekið eftir auknu flökti á GPS mælingum nýlega eða öðrum truflunum sem má tengja við lætin í Írak.
Kv.
Ágúst
18.03.2003 at 01:10 #470922Fyrst hér eru hafin uppbyggileg skoðanaskipti um aðgangsmál að vefsíðu félagsins þá vil ég einnig leggja orð í belg.
Vefsíður f4x4 eru alveg frábær kynning og ég veit að það hefði ekki hvarflað að mér að ganga í félagið ef ég hefði ekki rekist á þær og byrjað að fylgjast með spjallinu. Ég vil halda þeim opnum fyrir alla.
Vonandi fer auglýsingaflóði um brettakanta að linna áður en einhver fer að auglýsa stinningarlyf og tippalengingarkúra. Ruslpóstauglýsingar eru tímaskekkja og verka öfugt á flesta. Væri ekki hægt að hafa samband við manninn og selja honum fasta auglýsingu á vefnum fyrir sanngjarnt verð ?
Auglýsingar á spjallsvæðinu mega gjarna eyðast sjálfkrafa eftir hæfilegan tíma, t.d. 1-2 mánuði.
Svæði fyrir myndir finnst mér hins vegar að ætti að vera lokað þannig að engir nema meðlimir geti vistað myndir, þó allir megi skoða þær. Ef félagsmann langar að setja þar myndir af frúarbílnum – eða frúnni – þá finnst mér það í besta lagi. Ritskoðun á að vera í lágmarki og einungis til að halda síðunni löglegri og innan almennra velsæmismarka.
Loks legg ég til við blessaðan vefstjórann okkar að bæta við þriðju spjallrásinni, "Sandkassanum", til að menn geti híað hver á annan og skipst á eiturpillum í friði fyrir þeim sem vilja halda uppi jarðbundnari umræðum. Þar mætti t.d. raða inn skeytum þannig að heiðursætið efst á listanum falli í skaut þess sem mest og oftast hefur bullað o.s.frv. Að sjálfsögðu myndu fullgildir skuldlausir félagar ganga fyrir öðrum í röðinni.
Kveðjur
Wolf
02.03.2003 at 20:56 #469756Ertu búinn að ganga úr skugga um einföldu atriðin:
1. Heldur geymirinn fullri spennu undir álagi, t.d. með aðalljósin kveikt og einnig meðan startað er ?
2. Eru geymistengin í lagi og jarðsambandið frá geyminum inn í vélarblokkina pottþétt ?
Ef þessi atriði eru bæði OK þá skaltu mæla spennuna milli plúspóls á geyminum og plúspóls á startarapungnum. Þar áttu að mæla núll volt og ekki nema brot úr volti meðan startað er.
Mældu svo milli plúspóls á geymi og plúspóls á startanum (kraftleiðsluna). Meðan ekki er startað ætti að sýna ca 12 volt, en um leið og startað er á hún að detta niður í núll eða brot úr volti.
Ef þetta er allt eðlilegt skaltu tjékka spennumuninn milli mínuspóls á geymi og vélarblokkar. Hann á aldrei að verða meiri en brot úr volti (líka meðan startað er).Ef geymirinn er í lagi og allar tengingar og leiðslur líka þá fara böndin að berast að startaranum.
Varðandi spennuna á háspennukeflinu þá dettur mér í hug að þú sért með kveikjukerfi með 6 volta kefli og mótstöðu. Þegar vélinni er startað er tengt beint fram hjá mótstöðunni og full geymisspenna notuð í neistaframleiðslu.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að ekki komi góður neisti, en ef það eru platínur sem gefa neistann þá ættirðu að athuga platínurnar, bilið og að þær séu hreinar og svo að sjálfsögðu þéttinn sem er tengdur yfir þær.Good luck.
Ágúst
01.03.2003 at 19:35 #469292Hvað meinið þið með að skrúfa upp olíuverkið, breyta tímanum eða hvað ? Á ventlalokinu á mínum er límmiði þar sem stendur 7 gráður eftir toppstöðu. Hafa menn verið að flýta þessu og skilar það einhverju öðru en vandræðum ?
Varla hjálpar að bæta við olíumagnið nema upp að vissu marki.
Kv.
Wolf
16.02.2003 at 11:55 #192189Sælir.
Hversu mikið er mælt með að herða felgubolta á álfelgum ?Ágúst
07.02.2003 at 13:10 #468070Eru svona tölvur ekki lausnin í stað venjulegra Laptop ?
http://h18020.www1.hp.com/newsroom/presspaq/TabletPC/
Wolf
06.02.2003 at 22:22 #467982Sæll Skuggi.
Ég átti Sportara í 2 eða 3 ár en var ekki mikið á honum utan vega þótt hann væri upphækkaður. Helstu kostirnir við hann voru fjöðrunin og svo verðið að sjálfsögðu, þar með talið verð á varahlutum, sem oft var aðeins brotabrot af sömu hlutum í japönsku bílana. Nú eru B&L ekki lengur með umboðið og ég veit ekki hvernig er að fá varahluti í dag.
Hins vegar hefur bíllinn galla og finnst mér tveir stærstir og verstir:
Fyrst er það að vegna þess hve stutt er milli fram- og afturhjóla er hann stórvarasamur í lausamöl og hálku. Ef hann byrjar að skrika til þá gerast hlutirnir hratt. Endalok bílsins urðu einmitt velta í hálku þar sem lítt reyndur bílstjóri var ekki nógu snöggur að rétta stýrið af eftir hliðarskrik.
Hinn gallinn er vélin. Minn var með 1600 vél með blöndungi. Þá vél skorti illilega tork og bara til að mjaka bílnum af stað í fyrsta þurfti að þeyta vélinni á talsverðan snúning. Þá kemur hið fræga Lada hljóð: Súúúmmmmmmmm Einnig var vélin mjög gjörn á að koka þegar henni var gefið snögglega. Þá myndaðist hinn frægi Lada-rykkur: Fyrst kastast maður fram í sætinu og svo aftur og svo aftur fram og svo …. Vegna máttleysis í vélinni var fimmti gírinn einungis nothæfur til að fara niður brekkur og undan vindi. Á jafnsléttu hélt hann hærri ferð í 4. en 5. gír!
Kannske er 1700 vélin með beinni innspýtingu eitthvað skárri.
Einhver skrifaði hér að þyrfti sérverkfæri til að skipta um framhjólalegur. Það er ekki rétt. Ég gat skipt um þær með venjulegum bílskúrstólum vandræðalaust. Yfirleitt var einstaklega einfalt og auðvelt að gera við allt sem bilaði – það var líka eins gott því það var margt sem bilaði.
Þrátt fyrir þetta er ég ekki viss um að Bronco sé betri kostur. Þeir komu hingað í stríðum straumum kringum 1975 til 1980 og ótrúlega margir þeirra enduðu í veltum. Kannske er Bronco2 skárri. Ég hef ekki átt Bronco sjálfur, en ef ég væri að velja milli þessara tveggja tegunda myndi ég sennilega veðja á Broncoinn þó ekki væri nema bara til að hafa prófað.Vonandi ruglar þetta þig ekki allt of mikið.
Kveðjur
Wolf
01.02.2003 at 21:46 #467524Ég þakka ábendingar um legufeiti.
Á dagskrá hjá mér er nefnilega að skipta út gömlu misslitnu bremsudiskunum og ef ég skil málin rétt þá neyðist ég til að opna leguhúsin og taka nöfin fram af til að geta skipt út diskunum, sem tæplega telst til neinna stórmála.
Þið sem endurnýjið feitina meira og minna reglulega megið gjarna segja mér hvort þið fjarlægið alla gamla feiti og þvoið hana burt eða hvort þið bara skafið stærstu klessurnar af og smyrjið nýju feitinni á áður en þið setjið saman.
Kv.
Wolf
(já ég var skírður Ágúst Úlfar)
01.02.2003 at 11:00 #192091Sælir félagar.
Mig langar að vita hvaða feiti menn mæla með að nota á framhjólalegur, hvort menn smyrji þær reglulega eða láta þær bara eiga sig þar til þær fara að kvarta ?
Kveðjur
Wolf
30.01.2003 at 00:22 #467154Hvernig verður það ef Bush fer að bomba Saddam Hussein – haldið þið að hann fari ekki að rugla GPS kerfið um leið ?
Þið munið væntanlega að GPS kerfið var haft ruglað þar til gamli Bush fór að reka Saddam úr Kúveit og komst að því að skortur var á GPS tækjum með afruglun. Til að bjarga málunum hættu þeir að rugla og allir fengu venjuleg Garmin og Magellan – og þeir sem kunnu á tækin rötuðu heim.
Er þetta ekki nóg ástæða til að f4x4 fari í mótmælaaðgerðir ?
Wolf
-
AuthorReplies