Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
10.02.2006 at 20:13 #542246
Ég hirti afganga af gerfigrasteppi þegar Fylkisvöllurinn var teppaður í fyrra og skellti þeim á gólfið. Gefur góðan fílíng í skottinu hvort sem áhuginn stefnir á fótbolta eða Golf.
Ágúst
07.02.2006 at 21:21 #541816Þetta er greinilega grafalvarlegt mál þegar stríðstrekktur nælonkaðall slitnar eða slítur festingar úr bíl. Lýsingar á þessum þræði og mörgum öðrum eru á þann veg að í mínum huga er ekki spurning hvort heldur hvenær af verður alvarlegt slys.
Verði manntjón í slíku slysi má búast við að opinberar ríkisstofnanir verði settar í að semja boð og bönn við spottanotkun í fjallaferðum. Ég er þess fullviss að ef f4x4 hefur tekið frumkvæði, safnað gögnum, gert tillögur o.s.frv. þá verður fremur hlustað á rök okkar og sjónarmið þannig að niðurstaðan verði okkur betur að skapi.Ég sting upp á að félagsskapurinn f4x4 hefji strax skipulega vinnu til að safna upplýsingum um óhöpp í ferðum á vegum f4x4, meta hættuna og leita leiða til að draga úr henni, t.d. með leiðbeiningum, verklagsreglum, fræðslu eða hverjum öðrum aðferðum sem eru líklegar til að virka.
Mér dettur í hug hvort stjórn ætti ekki að virkja Tækninefnd í þetta, Vann hún ekki stórkostlegt starf við að móta reglur um hjólabúnað o.fl? Er einhver önnur nefnd líklegri til að ráða við þetta ?
Ég vona að einhver viljugur stjórnarmaður lesi þennan þráð og ýti málinu af stað.
Öryggiskveðjur
Ágúst
03.02.2006 at 22:44 #541426Fyrst búið er að opna umræðuna get ég ekki þagað.
Án þess að geta sannað eitt eða neitt þá leyfi ég mér að fullyrða að saltaustur á götur í Reykjavík orsaki miklu meiri skemmdir á malbiki og rykmyndun en nokkur annar þáttur gerir.
Flestir þekkja eitthvað til hitaþenslu og hvernig hún virkar í efnum sem hafa mismunandi þenslustuðla. Annað efnið þenst meira en hitt og sprunga myndast milli þeirra. Svoleiðis er það einmitt með tjöru og grjót. Ef síðan rignir á götuna sem oft gerist í Reykjavík þá rennur vatn í sprungurnar, frýs svo seinna, vatnið þenst út og sprungan víkkar enn meira o.s.frv.
Þetta ferli magnast enn meir ef salt er borið á göturnar því að salt og snjór mynda kuldablöndu og þá er frostið ekki 1 eða 2 stig, heldur oft nálægt -7 og frostskemmdirnar eftir því. Loks má benda á það að salt er efnafræðilega mjög virkt efni, eins og bíleigendur vita vel, og veldur ýmsum fleiri efnahvörfum en ryðmyndun í járni.
Máli mínu til sönnunar gat ég til skamms tíma bent á vegspotta sem aldrei var ekinn með nagladekkjum, en var samt stórskemmdur eftir akstur Strætisvagna. Þetta var útskot við Hlemm, sem nú er búið að malbika yfir og breyta. Því verður smá bið á að nýtt sönnunargagn myndist – en það kemur.
Þótt nagladekkin séu ekki alveg saklaus, held ég að þau bæti umferðaröryggið svo mikið að þau má hvorki banna né skattleggja sérstaklega. Prófið bara að spyrja tryggingafélögin hvort bílar á naglalausum dekkjum séu með óskerta bremsugetu í vetrarfæri.Kveðjur
Ágúst
21.01.2006 at 22:55 #539800Ég get ekki ímyndað mér aðrar orsakir fyrir svona þvingun en þær að annað hvort séu dekkin misslitin eða hlutföllin ekki þau sömu að framan og aftan.
Ertu 100% viss og hefurðu SJÁLFUR mælt eða talið út snúningafjölda á drifsköftunum þegar dekki er snúið t.d. 20 hringi ?
Prófaðu að tjakka upp bæði hjólin öðrum megin og hafðu bílinn í framdrifi. Settu krítarmerki á dekkin og gólfið. Snúðu svo öðru dekkinu og tjékkaðu að merkið á hinu dekkinu fylgi og hitti samtímis á merkið sitt. Ef enginn munur kemur fram eftir 10 hringi né heldur 50 hringi þá eru hlutföllin pottþétt þau sömu.
Næst er að mæla ummálið á dekkjunum með málbandi. Það ætti ekki að muna meira en kannske 1-2 prósentum milli fram- og afturdekkjanna samanlagt.
Hvenær byrjaði bíllinn annars að láta svona ? Geturðu tengt það við eitthvað s.s. dekkjaskipti eða viðgerð á drifbúnaði ?Kv.
Ágúst
19.01.2006 at 19:23 #539596Þú ættir að geta fengið partanúmerið í umboðinu.
Ég hef lent í því að vera neitað um að fá númerið uppgefið, en eftirfarandi ráð hefur gefist vel:Þú kaupir vöruna, t.d. út á krítarkort og passar vel að tína ekki nótunni. Oftast er partnúmerið auðfundið á umbúðunum, hlutnum sjálfum eða í vörunúmeri á nótunni. Næsta dag skilarðu hlutnum og aurarnir færðir til baka á kortreikninginn. Passaðu bara að hitta ekki á síðasta dag í uppgjörsmánuðinum. Umboðin eru treg til að taka rafmagnsvörur til baka og hugsanlega aðra viðkvæma hluti. Þú ættir að kanna það fyrst svo þú sitjir ekki uppi með hlutinn.
Kv.
Ágúst
15.01.2006 at 16:42 #526294Ég fór fullur bjartsýni með litla GEKO 201 tækið mitt út í morgun og eftir stutta stund gaf það mælingu með 6 metra nákvæmni (að eigin sögn). Á góðum degi fer það reyndar oft niður í 5 metra svo að 6 er ekkert óvenjulegt. Þá fór ég í stillingar á því og kveikti á WAAS ham í von um að sjá enn lægri tölur. Eftir stutta stund var það komið með sömu nákvæmni, 6 metra og fór ekkert lægra.
Er það ekki rétt skilið að tæki sem eru með WAAS virkni eiga líka að taka við EGNOS leiðréttingum án breytinga eða viðbótarbúnaðar ?
Ef tækið er í raun nákvæmt upp á 5-6 metra þá finnst mér það svo sem ljómandi gott, en ég er aðallega að pæla í þessu vegna forvitni.
Hafa einhverjir prófað þetta – og hvaða nákvæmni það er að skila ? Þurfti einhverjar viðbætur við tækin ?Kv.
Ágúst
10.01.2006 at 20:48 #538300Ég geri ráð fyrir að þú eigir við "MR" sensor, sem stendur fyrir MagnetoRestrictive ef ég man rétt. Það er eins konar segulnæmt viðnám og breytist leiðnin (ómafjöldinn) með styrk segulsviðsins sem umlykur skynjarann. Hann hefur aðeins tvo víra og hugsanlega er annar þeirra tengdur í jörð, líkt í hitaskynjurum.
Hall sensor er dálítið öðruvísi, sjálft skynjaraelementið hefur 4 tengingar, plús og mínus mötunarspennu og sitt hvorn skynjunarpól, en milli þeirra kemur fram spennumunur sem fer eftir styrk og stefnu segulsviðsins. Merkið frá þessu tæki er fremur veikt og þess vegna er gjarna sett mögnunarrás í sama kubbinn og þá þarf aðeins 3 tengingar, +, – og útgang.
Vonandi skýrir þetta eitthvað.Kv.
Ágúst
09.01.2006 at 20:00 #538296Þetta er mjög spennandi dæmi og gaman að lesa um það.
Gætir þú, Baldur frætt okkur um eftirfarandi:
Hvar megi finna lesefni um verkefnið, einstaka hluta þess, hönnun og útfærslu og svo hins vegar hvort hliðstæð verkefni séu í gangi fyrir Díselvélar, einhvers konar Common Rail útfærsla sem gæti hentað á eldri vélar ?Kv.
Ágúst
20.12.2005 at 23:31 #536712Ég hef sjálfur pælt í þessu og það hafa fleiri gert. Til dæmis þessir hér http://www.autoenginelube.com/ en þeir bjóða tilbúið sett fyrir innan við 200 Dollara. Ég er sannfærður um að þetta gefur miklu betri vörn gegn vélarsliti en allir vélarhitarar sem bara auðvelda olíunni að renna niður og safnast saman í olíupönnunni. Því miður hefur ekkert enn orðið af framkvæmdum hjá mér, en það er aldrei að vita…
11.12.2005 at 20:35 #535422Ottó. Hringdu í mig í 5670078 eða 6910078.
11.12.2005 at 20:24 #535640Hafa menn ekki reynt að setja rafknúna sogdælu fyrir bremsurnar til að geta notað "venjulega" dælulausa alternatora ?
Þegar ég gúggla eftir Electric Vacuum Pump Kit þá finnst slatti af svona kittum á verðbilinu 250 til 400 dollarar. Kostar nýr alternator með sogdælu ekki heilan helling ?
09.12.2005 at 19:54 #535416Ef þetta er 4D56 dísellinn, 2,5 lítra með túrbó og intercooler þá lét ég Vélaland plana fyrir mig og þrýstiprofa svona hedd fyrir 4 árum síðan. Fyrsta ásetning klikkaði og heddpakkningin marðist, en eftir tilraun tvö hefur allt virkað ljómandi vel.
Ég á einhvers staðar í skúrnum hedd fyrir þessa vél, notað og án ábyrgðar, en það gæti verið falt fyrir mjög gott verð ef ef það gæti bjargað útkulnandi ástarævintýri.Wolf
04.12.2005 at 00:42 #534734Þessi þráður er hrein og tær snilld. Hann opnar hugann fyrir heimspekilegum vangaveltum langt umfram allt annað sem ég hef séð á þessum frábæra spjallvef.
Nefndar hafa verið aðferðir til að klippa út íslandskortið og finna þyngdarmiðjuna með prjóni. Þetta er er að mínu viti allt of mikil einföldum á raunveruleikanum. Engum getur dulist að há og glæsileg fjöll eins og Esjan og Keilir á Reykjanesi hljóta að vikta miklu meira á alvöru korti en afdalir og skvompur norðan heiða og austan. Sé tekið tillit til raunþyngdar landsins þá hlýtur hinn eðlisfræðilegi þyngdarpunktur að vera á suðvesturlandi, ekki langt frá útmörkum Reykjavíkur. Þegar tekið er tillit til eðlisþyngdar alvöru grjóts annars vegar og vatns og margsprunginna jökulmola hins vegar þá er munurinn enn augljósari.
Sé nú vikið aðeins frá eðlisfræðinni má finna ýmsa aðra "þyngdarpunkta" t.d. út frá vegakerfinu, lengd vega, fjárveitingum til reksturs þess og jarðgangagerðar. Ekki er víst að þeir séu allir í nánd við Esjuna.
Aðrir möguleikar til að finna þyngdarpunkt eða nafla Íslands eru ótæmandi. Fjöldi-jeppa-naflinn. Fjárveitinga-til-vegamála-naflinn, Bensínstöðvanaflinn, Framsóknarmannanaflinn. Toyotanaflinn, Díselnaflinn og svo framvegis.
Eins og sjá má þá opna svona umræður fyrir frjóa og þroskandi hugsun. Þegar niðurstaða þráðarins liggur fyrir um staðsetningu hins eina og sanna og endanlega miðpunkts Íslands þá legg ég til að stjórn klúbbsins hefji strax undirbúning að því að reisa skála á þeim stað. Hann gæti fengið nafnið "Nafli Íslands" eða e.t.v. bara Naflinn á virkum dögum.
Kveðjur, Wolf
30.11.2005 at 19:11 #534328Landvélar í Kópavoginum smíða líka bæði rör og bremsuslöngur eftir máli.
27.11.2005 at 20:52 #534110Takk Agnar, þetta virkaði. Nú geta allir skoðað Lappana hans Óla mágs án þess að ruglast á þeim og japanska dótinu mínu.
Annars finnst mér að mætti safna saman svona leiðbeininganammi í FAQ síðu eða alvöru hjálparsíður ef einhver nennir.Kv.
Ágúst
27.11.2005 at 19:03 #196723Eru einhvers staðar leiðbeiningar um það hvernig skuli stofnuð ný albúm ?
Ég fékk myndir frá mági mínum sem býr í Svíþjóð af sex hjóla Lapplanderum sem hann keypti nýlega- og vildi skella þeim á f4x4 vefinn. Þar sem mér fannst þær ekki eiga heima í Pajeróalbúminu mínu vildi ég opna nýtt, en fann enga aðra leið en að troða þeim í gamla albúmið.
Ég leitaði árangurslaust að þræði um þetta (vanda)mál, en fann engan. Einnig svipaðist ég eftir hjálparsíðum, en fann ekki heldur.Kveðjur
20.11.2005 at 11:49 #532678Fyrir þá sem hafa gaman af gömlu véladóti vil ég benda á að í Science Museum í London er til ótrúlegt úrval af flugvélamótorum, stórum og smáum auk margar annarra skemmtilegra hluta. Það er t.d. frábært að kíkja þangað meðan konan fer í búðir.
Wolf
19.11.2005 at 01:04 #196673Ég hef grun um að pústkerfið á Gallopernum mínum (2,5 lítra turbo Dísel, árgerð 2001) eigi ekki mjög langt ólifað og langar til að beina eftirfarandi spurningum til reynsluboltanna í f4x4 sem vita svo margt:
1. Eru pústkerfi úr ryðfríu stáli góður kostur undir svona bíl eða bara peningaeyðsla ?
2. Hvar er hagkvæmast að kaupa eða fá smíðuð pústkerfi úr ryðfríu ? Innan lands eða erlendis ??
3. Er opið kerfi án kúta í lagi undir svona bíl ?? Of hávært, aðfinnslur við skoðun, annað ??
4. Hvaða rörsverleika myndirðu velja í opið pústkerfi ?
5. Verðdæmi. Hvað er best og hverju þarf helst að vara sig á ??Kveðjur
Wolf
17.11.2005 at 21:38 #532666Ég hélt fyrst að þetta væri þráður um einhverjar sparneytnar bíltíkur, en eftir að hafa skoðað myndirnar sé ég ljósið.
13.11.2005 at 00:04 #532134Þú ættir að prófa hvort boddíið hafi misst raftengingu við hækkunina. Ef það hefur áður fengið jarðtengingu gegn um grindina en nú eru komnir einangrandi nylonklossar á milli….
Tengdu sveran vír frá mínuspól á geyminum í sjálft boddíið og prófaðu hvort draugaganginum linnir.Ágúst
-
AuthorReplies