Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
19.02.2007 at 21:05 #580970
Er ekki upplagt að gefa gulu pressunni kost á að sponsora næstu paraferð. Þeir leggi til allt eldsneyti sem þarf til að komast á áfangastað og kynda ástareldana gegn því að fá að lauma svo sem einum papparazza með í ferðina ?
Bara svona smá hugmynd.
07.02.2007 at 21:16 #579368Var ekki enn ein skoðunarstöð niðri við Sundahöfn ? Er e.t.v. búið að loka henni fyrir löngu eða innlima í aðra hvora hinna stöðvanna ?
07.02.2007 at 21:07 #579466Fínt verð á Súsanum og lítur vel út í samanburðinum. Reyndar vakti einn aukahlutanna furðu mína: Loftkæling – já handvirk. Er það nútíma útgáfa af blævæng eða eiga mennirnir við að hún sé handstýrð ?
03.02.2007 at 20:56 #565604Gæti ekki verið að einhverjum hafi fundist sniðugt að láta stöðina hætta að skanna ef hljóðneminn væri tekinn úr slíðrinu ?
01.02.2007 at 22:00 #578366Fyrst maður hefur verið manaður til að segja álit á því að setja "höfuðrofa" í bíl er best að reyna að hósta upp einhverri meiningu.
Fyrir það fyrsta er mér ekki ljóst hver ávinningurinn á að vera eða í hvaða tilfellum slíkur rofi myndi vera notaður.
Ef nauðsynlegt er að rjúfa allt rafmagn frá rafgeymi, þá hefur flestum dugað að losa aðra hvora rafgeymisleiðsluna og það tekur ekki langa stund. Ef þessi rofi á að aftengja geyminn algjörlega þá þarf rofinn að þola allan þann straum sem startarinn tekur og það getur skipt hundruðum ampera. Þar að auki verður óhjákvæmilega eitthvað auka spennufall, ég tala ekki um ef leitt er að rofanum inn í mælaborð og svo til baka aftur. Það er ekki einungis af sparnaðarástæðum sem bílaframleiðendur leitast við að hafa sveru kaplana milli rafgeymis, startara og vélarblokkar sem allra stysta.
Rafhlutur sem þessi verður undir miklu álagi hvert sinn sem startað er og talsverðar líkur á að hann bili fyrr eða síðar. Ennfremur þarf að hafa í huga að á öllum nýrri bílum er eindregið ráðlegt að rjúfa aldrei samband við rafgeymi meðan bíllinn er í gangi. Það geta komið spennupúlsar á rafkerfið og steikt tölvudraslið í hvelli. Slík staða kemur upp ef einhver fer að fikta í höfuðrofanum meðan bíllinn gengur.
Þetta hljómar vafalaust eins og versta svartsýnisraus, en mér virðist gallarnir við að setja svona rofa í bíl vera verulegir en ávinningurinn í besta falli óljós. Ég myndi reyna að finna eitthvað annað verkefni til að dútla í bílskúrnum.Ágúst
22.01.2007 at 00:12 #576520Ég fékk einhvern tíma ámóta dularfull villuboð þegar ég reyndi að setja eitthvað inn á spjallið.
Þegar ég fjarlægði gæsalappir sem ég hafði notað í textanum þá gekk það án villuboða.
Ég veit ekki hvort þetta sé böggur eða bara eiginleiki í kerfinu, en gæti verið gaman að fá að vita.Ágúst
08.01.2007 at 20:07 #574410Getur verið að þetta sé frumgerðin af Hummer – made in Germany ?
08.01.2007 at 20:07 #574408Getur verið að þetta sé frumgerðin af Hummer – made in Germany ?
24.12.2006 at 16:47 #572218Þótt upphafið að þessum þræði megi rekja til umdeilanlegra ákvarðana Alþingis þá hef ég á tilfinningunni að málið í heild endurspegli ákveðna þróun í fjarskiptamálum landsmanna.
Ekki er svo ýkja langt síðan ríkisvaldið einokaði alla fjarskiptastarfsemi á landinu með þrem stofnunum sínum, sem voru Landssími Íslands, Viðtækjaverslun Ríkisins og loks sjálft Ríkisútvarpið.
Hugsanlega má það verða til að varpa smá ljósi á forsöguna ef ég reyni að rifja upp ástand mála fyrir u.þ.b. 50 árum, þegar fyrrnefndar stofnanir réðu öllu í fjarskiptamálum og reyna að bera saman við aðstæður nú. Á þessum tíma var ég unglingur, nýlega byrjaður að fást við rafeindagrúsk og fjarskiptatækni. Þá stjórnuðu Viðtækjaverslunin og Landssíminn öllum innflutningi á rafeindaefni, lömpum, þéttum, mótstöðum, transistorum og öllu því efni. Sama gilti um fullsmíðuð fjarskiptatæki – útvarpsviðtæki meðtalin. Aðrir aðilar sem vildu eða þurftu að flytja slíkt efni inn í landið gátu ekki fengið vöruna afhenta úr tolli nema þeir hefðu fengið til þess uppáskrift frá Viðtækjaversluninni og Landssímanum. Að sjálfsögðu var þess vendilega gætt að afhenda engum óviðkomandi rafeindaefni sem myndi gagnast við smíði senditækja. Þeir einu sem fengu að eiga og starfrækja sendistöðvar voru opinberir aðilar s.s. lögregla og slökkvilið og aðilar í atvinnurekstri s.s. leigubílastöðvar. Að auki var nokkuð byrjað að setja talstöðvar á 2790 kHz í rútubíla og aðra bíla sem voru í atvinnurekstri. Þær stöðvar voru flestar framleiddar af Landssímanum og notuðu styrkleikamótun, AM, sem hefur minni drægni en SSB mótunin. Svo var talstöðvavæðing flugvéla og báta einnig á hröðu skriði og starfsemi radíóamatöra leyfð, en háð talsvert strangara eftirliti og meiri kröfur gerðar þá en nú.
Eina útvarpsstöðin sem var starfrækt fyrir íslendinga var RÚV, gamla gufan og var tónlistarefni fyrir yngra fólk mjög af skornum skammti í dagskránni. Þeir sem vildu hlusta á léttari tónlist gátu þó náð sendingum frá bandarísku herstöðinni í Keflavík, kanaútvarpinu, ef þeir bjuggu á Reykjanesi eða Reykjavíkursvæðinu. Aðrir landsmenn urðu að reiða sig á erlendar stöðvar ef þeim hugnaðist ekki symfóníur og jarðarfarir í beinni útsendingu.
Eitt sinn tóku nokkrir framtakssamir ungir menn sig til, smíðuðu sendistöð og hófu útsendingar á dægurtónlist, sem náðist á drjúgu svæði í miðborg Reykjavíkur. Það leið ekki á löngu áður en fjarskiptaeftirlitsmenn frá Landssímanum höfðu miðað stöðina út og gert hana upptæka. Ef ég man rétt fylgdi þessu dómsmál og refsing.Í dag eru breyttir tímar og frjálsræði hefur aukist. Fjarskipta- og útvarpslögum hefur margsinnis verið breytt og er enn verið að. Efni til rafeindagrúsks fæst í miklu úrvali í a.m.k. tveim verslunum í Reykjavík og fjöldaframleiddar talstöðvar fást á skaplegu verði. Sumar þeirra má starfrækja án þess að þær séu skrásettar eða sótt um leyfi. Fyrir flestar aðrar stöðvar er leyfisöflun lítið annað en formsatriði svo fremi sem starfræksla þeirra stangast ekki á við alþjóðasamþykktir eða sé líkleg til að valda öðrum notendum óeðlilegum truflunum.
Af ríkisstofnunum er það að frétta að Viðtækjaverslun ríkisins er fyrir löngu niður lögð og Síminn hefur verið seldur. Það eina af þessu sem enn lifir auk RÚV er eftirlits- og úthlutunarhlutverkið sem nú er á höndum Póst- og Fjarskiptaeftirlitsins, P&F. Eitt af hlutverkum þeirrar stofnunar er að skipuleggja notkun fjarskiptarása þannig að sérhver rás nýtist sem best þeim sem þurfa eða vilja nota hana. Líkja má fjarskiptarásinni við auðlind, sem þó ekki eyðist þótt hún sé notuð. Til þess að hún nýtist vel þarf einhver aðili að sjá um úthlutun og skipulagningu á notkun hennar þannig að rásin komi notendunum að gagni og ekki verði truflanir milli notendahópa. Þar kemur til kasta P&F. Þetta starf hlýtur að verða stundum eins konar lögreglustarf því að óprúttnir aðilar kunna að ásælast rásir sem aðrir hafa fengið úthlutað. Ég er þeirrar skoðunar að P&F beri að annast eftirlit með slíku athæfi og stöðva það á einhvern hátt. Um sjálfa framkvæmdina vil ég ekki tjá mig og ekkert að marka þótt ég sjái ekki lausnina, það hafa vafalaust margir mér færari menn spáð í þetta og fundið ljósið. Að sjálfsögðu þarf P&F á rekstrarfé að halda og aflar þess m.a. með leyfisgjöldum fyrir fjarskiptarásir.Sem félagsmaður í f4x4 er ég alls ekki sáttur við það að P&F fái beinan aðgang að sameiginlegum sjóðum félagsins á þann hátt sem nú er reynt. En ef gjaldkeri okkar finnur enga haldgóða leið til að komast undan greiðslu reikningsins þá legg ég til að formaður panti fund með forstöðumanni P&F og inni hann eftir því hvaða þjónustu P&F muni veita f4x4 ef reikningurinn verður greiddur og ennfremur hvaða viðurlög okkar bíði verði reikningurinn ekki greiddur. Ennfremur þarf sjálfsagt að ræða forsendur fyrir þeirri fjárhæð sem rukkað er fyrir, fjölda notenda o.fl. o.fl. Ekki myndi saka að hafa lögfræðing félagsins með á fundinum og aðra stjórnarmenn. Að því loknu ætti stjórn f4x4 að skoða málið og leggja fyrir almennan félagsfund ef hún telur ástæðu til.
Kveðjur til þeirra sem nenntu að lesa þennan langhund.
Ágúst Ú Sigurðsson
23.12.2006 at 22:35 #572200Ég er einn þeirra sem hafa verið að skrifa í þennan þráð. Ef það skyldi skipta máli, þá á ég stöð af gerðinni Kenwood TM261 og flutti hana inn sem amatörstöð, enda hef ég fullgilt amatörleyfi.
Auk þess að virka á 2 metra amatörsviðinu (144-146 MHz) get ég m.a. notað hana til fjarskipta á öllum VHF rásum f4x4. Ég hef til þessa ekki notað hana til fjarskipta á öðrum tíðnum en amatörtíðnunum, en það kann að breytast ef einhver hluti úr ársgjaldi mínu í f4x4 fer að renna beint til P&F. Fæ ég þá ekki sjálfkrafa heimild til þess meðan ég borga árgjald ?Ágúst Ú Sigurðsson
TF3AU
22.12.2006 at 20:12 #572178Hvernig væri að svara þessari rukkun P&F með formlegri kröfu til baka um að á móti hafi p&F eftirlit og gæti þess að engir óviðkomandi séu að nota rásirnar sem rukkað er fyrir ?
Ef ég tek íbúð á leigu þá er það á ábyrgð leigusalans að tæma íbúðina og koma öðrum leigjendum út áður en ég flyt inn.
Ég veit ekki hvernig P&F gæti framkvæmt slíkt eftirlit, en væri ekki góður biðleikur að fara fram á þetta og óska upplýsinga frá þeim um framkvæmd þess ? Á meðan beðið væri eftir viðunandi svari myndi gjaldkeri f4x4 sitja á öllum reikningum óborguðum.
15.12.2006 at 18:43 #571628Ef þetta er hárnálargat eða lítil sprunga sem ekki er líkleg til að opna sig meira myndi ég klastra Sikaflex yfir. Ég hef sannreynt að það þolir díselolíu ágætlega og sömuleiðis P70 boddýplastið. Bæði efnin þarf að hreinsa mjög vel undir, þvo með þynni og strjúka vel með sandpappír.
Ágúst
24.11.2006 at 20:41 #569392Fyrst hann er ekki læstur þá skaltu bara tjakka annað afturhjólið upp og telja hringina sem drifskaftið snýst meðan lausa hjólið fer tvo hringi.
19.11.2006 at 15:09 #568636Gamli Pajeróinn minn hefur ekki verið í mikilli notkun upp á síðkastið og ég hef ekki tekið á hann díselolíu síðan einhvern tíma í sumar. Í gær reyndi ég að setja hann í gang í 16 stiga frosti. Svolítið líf var í vélinni fyrstu hringina sem ég startaði, en síðan fjaraði það út þótt rafmagnið væri nóg og startarinn þeytti vélinni hring eftir hring. Í dag var frostið komið niður fyrir 5 gráður og mér datt í hug að reyna aftur. Bingó. Minn rauk í gang í fyrsta starti eins og hann á að sér. Ég renndi út á bensínstöð og bætti góðum slatta af ferskri vetrarolíu á tankinn.
Nú er ég með blöndu af sumar- og vetrarolíu á tankinum og er að velta fyrir mér hvort útkoman sé olía sem þolir eitthvað í hlutfalli við blönduhlutföllin eða hvort lélegri olían ráði. Veit þetta einhver ?
02.11.2006 at 23:21 #565928Það er alveg ófært ef lögreglumenn eru að týnast svona og löngu tímabært að kalla út leitarflokkana. Þegar ég sagði kunningja mínum frá þessum týnda bifhjólamanni þá sagði hann mér frá áþekku atviki þegar hópur bifhjólamanna var mældur yfir hámarkshraða á Keflavíkurvegi. Það náðist radarmæling á alla í hópnum nema einn, en hann er að sögn sonur háttsetts lögreglumanns á suðurnesjum. Vonandi er sagan ekki sönn, en vegna svona yfirhylminga verða sögur eins og þessi margfalt trúlegri.
01.11.2006 at 22:12 #566222Getur einhver frætt mig um hvað í ósköpunum átt er við með þrepaskiptum ökuleyfisréttingum eins og segir í frétt Morgunblaðsins sem Andri V. vísar til ofarlega í þessum þræði.
Ég hélt að ég kynni Íslenskuna sæmilega vel, en nú er ég algjörlega mát.
01.11.2006 at 22:10 #566220?
25.10.2006 at 22:15 #565098Ég verð að játa að ég veit ekki um neinn sem hefur svona kerfi í gangi, en fræðilega gengur dæmið alveg upp.
Í venjulegu 24 Volta kerfi (t.d. með tveim 12 Volta raðtengdum geymum) þá er augljóst að sami straumur fer um báða geymana, bæði við hleðslu og afhleðslu. Geymarnir fylgjast því alltaf að og eru í jafnvægi innbyrðis.
Ef við gerum nú það sem er bannað, og tengjum eitthvað 12 V tæki inn á miðpólinn á rafgeymasettinu þá fer fer klárlega að tæmast meira af neðri geyminum en þeim efri. Alternatorinn sem er stilltur á 28,4 Volta hleðsluspennu reynir að viðhalda henni, en jafnvægi milli geymanna fer úr skorðum. Smám saman tæmist neðri geymirinn en sá efri eyðilegt vegna ofhleðslu.Lækningin við þessu er 12 Volta alternatorinn sem við tengjum nú inn á fyrrnefndan miðpól á geymasettinu. Þar skilar hann neðri geyminum allri þeirri viðbótarhleðslu sem þarf til að halda honum í réttri spennu, sem er 14,2 V. Efri geymirinn fær sína hleðslu alla frá 24 V alternatornum og er spennan yfir hann þá 28,4 V – 14,2V = 14,2 V. Hvor geymir fyrir sig fær rétta hleðsluspennu eða 14,2 Volt og báðir haldast fullhlaðnir.
Þetta virkar vel á pappírnum og ef maður er á annað borð að mixa 24V bíl niður í 12 Volt þá er enginn aukakostnaður við að prófa þetta, en hins vegar talsverður sparnaður með því að nýta sama startarann og glóðarkertadótið áfram. Ég myndi ekki hika við að prófa þetta ef ég væri sjálfur í svona dæmi. Auk þess býður svona kerfi upp á ýmsa möguleika til að nota öflug 24 Volta tæki s.s. rafmagnsspil ef menn kjósa það umfram 12 Volta tækin.
25.10.2006 at 18:28 #565086Ef það er nægilegt pláss í vélasalnum fyrir auka alternator og tvo 12 volta rafgeyma þá myndi ég raðtengja geymana þannig að ég hafi 12 volt frá miðúttakinu fyrir almenna rafkerfið, en 24 volt frá efri plúspólnum fyrir startarann.
24 volta alternatorinn hleður þá inn á efri plúspólinn og þar með í raun báða geymana, en þar sem 12 volta raftækin nota einungis straum af neðri geyminum þarf að bæta það upp með 12 Volta alternatornum, sem er að sjálfsögðu tengdur inn á neðri plúspólinn.Með þessu móti geturðu haldið gamla startaranum og vakúmdælunni inni á 24 volta tornum. Sama gildir um hitt rafmagnsdótið sem hangir á vélinni, hitara og glóðarkerti.
Eru ekki flestir alvöru jeppar hvort eð er með tvo geyma ?
24.10.2006 at 15:46 #564604Mér finnst áhugaverðar hugmyndir sem hafa komið fram hér á spjallinu um hlustun á gömlu bílabylgjunni, 2790, með VOIP-tengingu inn á internetið þannig að þeir sem heima sitja geti hlustað á netinu.
Það ætti að vera fljótlegt að setja upp einfalt og ódýrt kerfi til að prófa aðferðina. T.d. mætti nota Skype hugbúnaðinn, stilla hann á sjálfvirka svörun (Auto answer) og leiða hljóðið frá viðtækinu sem hlustað er með inn á hljóðkort tölvunnar.
Þetta krefst að sjálfsögðu SSB viðtækis á 2790, tengt loftneti og straumgjafa auk tölvu með ADSL-sambærilegri tengingu. Allir netverjar sem hafa Skype uppsett geta þá hringt inn að kostnaðarlausu og hlustað að vild.
Skype hugbúnaðurinn er ókeypis og einstaklega auðvelt að fá hann til að virka. Ég efast reyndar um að hann ráði við að fleiri en einn geti hlustað í einu, en tilraunin myndi gefa tilfinningu fyrir því hvort prinsippið með VOIP-nethlustun eða webcast dæmi sé áhugavert.
Ef fleiri deildir eða einstakir meðlimir í F4x4 á dreif um landið setja svona nethlustun upp hjá sér mætti nota það til að bera saman hlustunarskilyrði á ýmsum stöðum, bæði á 2790 og VHF rásunum sem gæti verið mjög hagnýtt að þekkja ef F4x4 fer út í að velja eða þróa eigin fjarskiptalausnir.Ágúst
-
AuthorReplies