Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
11.04.2006 at 00:05 #548974
Sælir. Það er trúlega rétt að vaðið sjálft sé áþurru en lónið lokar allavega leiðinni . Ég kom að Tangavaði 1963 þega Halldór Eyjólfsson var að ferja jeppa þar yfir á Reo Studebaker trukk og mér sýndist vatnið um það bil yfir hjólin .Ég hef heyrt að áin hafi verið þarna 300 metra breið . Einn ónefndur maður sjóðrakur á Austin Gypsy jeppa nennti ekki að bíða eftir flutningi og breiddi Álafossteppi yfir vélina og keyrði svo yfir og hrakti töluvert undan straum og kom í land nokkru neðan við réttan stað . Það var myndskeið frá þessari ferjumennsku í sjónvarpsmynd eftir Svisslending í sjónvarpinu í haust eða vetur. Kv. Olgeir
10.04.2006 at 23:33 #548970Sæll Árni. Ekki ætla ég að kalla mig sérstakan vatnamann . Þekki best Jökulgilskvíslina en ég hef gaman af svona ýmsum fróðleik um vöð og margt fleira sem tengist hálendinu. Bjallavað fannst á síðasta áratug 19. aldar og tíndist þegar Hófsvað fannst. Væri vissulega gaman að kanna það að vori eða hausti þegar lítið er í ánni . Kvíslarvað var notað um aldir og notuðu "Vatnakarlar " það í Veiðivatnaferðum fram yfir aldamót. Nú er það komið undir lónið. Sveinn Pálsson læknir fór það á heimleið í leiðangrinum til Vatna 1795 en hann fór Tangavað á leið innúr og svo Trippavað en þar skall næstum yfir hestana. Guðmundur Jónasson fór fyrst yfir á Tangavaði á Vatnaljót sínum 1949 held ég ,en nú er það komið undir Sultartangalónið .
Sigurður frá Laug og félagar ferjuðu svo Gamla Ford á bát yfir ána í Haldinu 1932 þegar þeir voru að undirbúa Sprengisandsferðina og keyrðu svo inn að Helliskvísl í heimleiðinni fyrstur bíla . Svo fóru þeir norður Sprengisand á bílnum 1933. Sveinn Pálsson segir að hafi verið vað með klapparbotni austan undir Snjóöldu en þeir höfðu ekki tíma til að fara þar. Þegar Þorvaldur Thoroddsen fór þar yfir um öld seinna var þar bullandi sandbleytaog illfært.
Þegar línan frá Sigöldu austur á Síðu var sett upp 1983 var búið til vað á Tungnaá austan við Ljótapoll og þar fóru menn á bílum og vinnuvélum til að stytta sér leið og var slóð að vaðinu frá brúnni á Jökulgilskvíslinni út eftir aurunum og þar var hætta á sandbleytu .Þarna fóru fjallmenn í 2. leit haustið 1983 yfir á Hilux og Willis á leiðinni að smala við Veiðivötnin og gekk vel .Ég á myndir af þeim í ánni og set þær inn þegar ég er búinn að læra það . Árið eftir var þarna 1.80 m. djúpt og alófært. Þetta er nú orðið gott að sinni . Kv. Olgeir
09.04.2006 at 23:33 #548790Sæll Hlynur. Þín skilgreining á vaði er greinilega eitthvað sérstök . Bátarnir komu ekki að ánni fyr en sá fyrri 1934 og hinn 1936 . Menn riðu ána þarna á Bjallavaði áratugum saman en áður fyr var notað Kvíslarvað sem menn vita varla nákvæmlega hvar var enda komið undir Krókslónið . Þar fór Sveinn Pálsson læknir þegar hann kom úr rannsóknarferðinni til Veiðivatna 1793. Guðmundur í Múla sem skrifar um Landmannaafrétt í Göngum og réttum sem kom út 1948 segir að aðeins tvisvar á síðustu 50 árum hafi þurft að snúa frá ánni vegna vatnavaxta og reka féð út á Þóristungur og fá féð ferjað yfir þar.
Hvað með öll vöðin á ám landsins sem er buið að nota frá ómunatíð . Heitir engin gata í Norðlingaholtinu Hófsvað .? Með góðri kveðju Olgeir.
09.04.2006 at 22:40 #548786Mér líst afar illa á að fara að virkja við Bjallana .Ég tók þátt í ferð yfir Hófsvað haustið 2004 meðal annars til að viðhalda þekkingu á vaðinu. Við byrjuðum á að líta á aðstæður við Bjallavað sem var notað af mönnum sem fóru ríðandi til Veiðivatna til veiða smalamennsku og fl.þangað til Hófsvað fannst sumarið 1950 .Bjallavað er nokkuð fyrir neðan bátaskýlin sem eru báðum megin arinnar og voru hlaðin um 1938 . Við ræddum um að gera aðra ferð til að kanna Bjallavað en gallinn er að varla er nokkur enn á lífi sem hefur farið það.
Þarna mun einu sinni hafa verið farið yfir á jeppa en ekki komst hann yfir Bjallana. Líkt og með Hófsvað verður að fara eftir kúnstarinnar reglum ,en með okkur var einn maður sem hafði nokkurn vegin lýsingu á vaðinu en hafði aldrei farið það sjálfur . Bjallavað var ófært á hestum þegar mikið var í ánni og einu sinni hrakti lamb úr rekstri og komst á klett neðar í ánni þar sem ófært var að því. Ég myndi halda að hæðarmunur á Krókslóninu og Hófsvaði væri 45-50m. Fallhæðin í fyrirhugaðri Búðarhálsvirkjun er 40 eða 42 m . Með von um að þetta verði aldrei . Kv. Olgeir
07.04.2006 at 12:41 #548518Sælir. Ég set hér tíðnir á nokkrum helstu rásum. Á ekki skanner til að mynda skrána.
Rás 1 er á 26965 MHZ og rás 40 er á 27405 MHZ.
Rás 6 kallrás FR 27025 . Rás 7 er 27035 MHZ.
Rás 19 er 27185 MHZ. Rás 9 er 27065.
Fíbertoppurinn sem er búinn að vera á Weaponinum hjá mér síðan um 1980 er 2.45 m og er það nærri réttri lengd á fíbertopp . Hann er festur á plastkubb sem seldir voru á þeim tíma .
Ég á nokkra toppa sem ég gæti hjálpað einhverjum um . Kv. Olgeir
06.04.2006 at 23:21 #548504Ef loftnetið er fest á hægra afturhorn bílsins er sendingin sterkust út frá vinstra framhorni og svo öfugt ef netið er vinstra megin .
Á bíl með blæju eða plasthúsi myndi ég festa loftnetið eins ofarlega á skúffuna og hægt er. Ég hef meira að segja prófað að með handstöð er betra að snúa baki í þann sem talað er við . Þetta er alveg þveröfugt við það sem ég hélt fyrst og sama á við um bílana. Sending aftur fyrir bíl með loftnetið aftaná er mun kraftminni .Þetta prófuðum við allt á sínum tíma þegar menn voru með mæla á stöðvunum . Fyrst Hrafnkell er búinn að vera lengi í loftinu er gaman að geta þess að um 1980 var ég sem oftar með litla labb rabb cb stöð að smala upp á Löðmundi á Landmannaafrétti í um 1000 m hæð og heyrði í mörgum rúmerum sem ég kannaðist ekki við og þegar ég fór að gá í félagatalið sá ég að þeir voru í Borgarnesi og víðar á því svæði. Ég reyndi ekki að kalla í þá en ég talaði að Hellu með stöðinni sem er bara 0.2 wött . Með kveðju Olgeir
06.04.2006 at 13:13 #548484Enn er verið að tala um að Cb stöðvar séu nánast gagnslausar nema hæsta lagi milli bíla . Við sem höfum notað cb í áratugi vitum betur . Málið er að talstöð er aldrei betri en loftnetið sem notað er. Ég held að þau loftnet sem mest eru notuð í seinni tí ð séu afar slöpp . Fíbertopparnir sem við notuðum fyrir löngu og líka stáltoppar klipptir í rétta lengd voru að virka mjög vel .Svo vildu menn ekki hafa langan topp og stuttir toppar með spólum og slíku fóru að verða allsráðandi .Ég hef reynslu af svona stuttum spólutopp og ég gat ekki talað til Keflavíkur með hann á bílnum.
Cb er reyndar nánast ónothæft þegar sólblettatímabilin eru að ganga yfir á 10-11 ára fresti. Gömlu stöðvarnar voru yfirleitt bara með AM en svo fóru að koma stöðvar með Fm mótum .Þá verður að sqelsa af suðið en sendingin er hreinni og sterkari mótun en á móti kemur að mjög daufar sendingar sqelsast af. Kv. Olgeir
03.04.2006 at 20:30 #548102Nágranni minn sem vann við byggingu Búrfellsvirkjunar á sjöunda áratugnum sagði að dísilolian á öll tæki hefði verið blönduð með30% af steinolíu yfir veturinn. Kv Olgeir
26.03.2006 at 17:51 #545024Ég á heima í Holtunum í um 50 km. fjarlægð frá Eyjafjallajökli og hef verið horfa þangað í dag í stjörnukíki og sé vel slóðina upp og marga bíla á ferð. Hlýtur að vera nokkur lausasnjór fyrst að slóðin sést svona vel . Sé örugglega komment á það þegar menn fara að setja inn myndir eftir helgina .Kv Olgeir
04.03.2006 at 23:37 #545646Hér er sniðug limra eftir Ingvar Gíslason úr Nýju Limrubókinni .
Léttlynda Gunna á Glerá
giftist samt Jóni á Þverá
Nú hoppar um húsin
hálft annað dúsín
af krökkum sem enginn veit hver á.
Svo setti ég saman þessa áðan en hún hefur ekkert með meting að gera en liggur betur fyrir en að Patti togi í Toyotu.
Ef Toyota togar í Patta
þá tekst sumum ekki að fatta
að sælt er að draga
ef til verður saga
um hver bestur sé bíllinn í bratta.
Kv. Olgeir
04.03.2006 at 22:33 #545636Limrur eiga að vera sniðugar og helst að enda óvænt. Hrólfur Sveinsson íslenskaði fræga limru svona :Hann Bárður í Svalvogum brosti
á bjarndýri reið hann í frosti
Þó endar sú saga
í mjög hlýjum maga
Og þá var það bangsi sem brosti.
Kv Olgeir
22.02.2006 at 22:38 #543918Þakka svörin .Ég er vís til að ganga á Löðmund í sumar og sannreyna þetta .Þar er hægt að ganga beint upp snarbratta hlíðina og útsýnið svíkur ekki .Kv. Olgeir
22.02.2006 at 16:25 #543910Ég hef gaman af svona pælingum og langar að vita þetta nákvæmlega. Mér hefur fundist GPS tækið hjá mér sýna aðeins of lága tölu milli Landmannahellis og Lauganna enda nokkrar brekkur á þeirri leið . Fæ vonandi svar við tækifæri. Kv. Olgeir
22.02.2006 at 10:45 #543904Er það ekki rétt hjá mér að GPS tækið mæli miðað við láréttan flöt þannig að yfir fjallvegi sýni tækið aðeins lægri tölu .Fyrirgefið fáviskuna. Kveðja Olgeir
18.01.2006 at 21:23 #539468Dekkin og felgurnar undan Hiluxinum sem fór framaf voru sett beint undir annan rauðan Hilux sem keyptur var í staðinn fyrir þann sem hrapaði.Þetta sögðu mér Páll Einarsson og menn sem voru hér við rannsóknir nokkru síðar Kveðja Olgeir
22.12.2005 at 00:36 #536728Ég las einu sinni um sænska rannsókn sem sýndi að ræsing á bílvél í 25 stiga frosti sleit vél jafnt og 800 km. akstur . Ég heyrði líka nýlega Leó M Jónsson segja frá vísindalegri rannsókn á smurolíum þar sem mjög margir leigubílar í USA voru fengnir til að nota hver sína tegundina af smurolíu í ákveðinn tíma , man ekki hvað marga km. Skilyrði var að skifta um olíu eftir ákveðnu skipulagi og munurinn var enginn . Kv. Olgeir
20.12.2005 at 09:37 #536646Sæll Alexander. Ég ráðlegg þér að tala við Sigurgeir skólastjóra á Hellu hann á mjög sprækan Rússa sem er með einhverja 8 sílindra vél .Alger þota . Kv Olgeir
18.12.2005 at 15:17 #536538Ég held að ef allir færu eftir reglunum um ökuhraða yrði skelfilegt ástand til dæmis á leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss . það yrðu stöðugar bílalestir sem ómögulegt er að komast framúr fyrir þá sem mega fara hraðar eða neyðar akstur. Best gengur umferðin ef sem flestir eru á sama hraða og þá skapast síður hætta af ótímabærum framúrakstri . Ég kemst ekki með góðu yfir 70 km.hraða á mínum gamla Weapon en ég safna ekki lest á þjóðvegi á svo litlum hraða en hann nýtur sín betur á fjallvegum . Kv Olgeir
10.12.2005 at 17:32 #535600Mér voru einu sinni gefin dekk sóluð H78x16 og voru þau 84 eða 85 cm .há sem er um 33 ".Kv Olgeir
09.12.2005 at 15:50 #535430Ég held að nóttina sem þetta skeði hafi Guðmundur Guðmundsson í Hvolsvelli verið með fjölskylduna í tjaldi Fljótshlíðarmegin innan við Þórsmörkina . Eldsnemma ,milli kl. 5 og 6 vaknaði hann og fannst hann verða að keyra niður með Markarfljóti og kom þá að þessum jeppa á kafi . Hefur svo líklega kallað á Dagrenningarmenn til aðstoðar því að mér sýnist bíll þeirra vera á bakkanum
á einni myndinni. Guðmundur hefur áður fengið svona hugboð vegna óhappa. Guðmundur er alinn upp í Fljótshlíðinni og þekkir vel árnar. Kv. Olgeir
-
AuthorReplies