Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
12.04.2011 at 23:54 #727261
Síðast er ég fór þarna um, fyrir kannski 2 – 3 árum þá var loklokoglæs, en vegurinn mjög vel gangfær. Það er reyndar mjög flott og vel þess virði að fara upp.
Ingi
05.04.2011 at 08:19 #725859Félagi góður,
færðin breytist trúlega álíka oft og þú skiptir um naríur, – það kemur bloti og verður hábölvað, eða þá grjóthart og það er rennifæri dögum saman…Ingi
30.03.2011 at 23:15 #725387Hef reyndar ekki farið í Langadal nýlega, en það er ófært öllum venjulegum rútum inn úr nema leiðin hafi verið löguð nú í vikunni. Vegurinn var víða illa skorinn, við Langanes og á Hvannáraurum.
Þess fyrir utan er Krossá nánast ófær í augnablikinu á móts við Engidal og neðan við Stakk, þar eð hún hefur flæmst gegnum varnargarð og að suðurhlíðunum, í töluðum orðum er hún ansi vatnsmikil.Ingi
19.03.2011 at 12:12 #218044Félagar,
þekkir einhver til örnefna á Eyjafjallajökli, og þá á ég hvað helst við Goðastein, Guðnastein og Hámund. Það virðist vera mjög á reiki á kortum hvar hvað er og gjarnan haft eitt örnefni og annað innan sviga.
Það væri mjög áhugavert að heyra í heimamönnum eða korta- og örnefnagrúskurum um þetta!Bestu kveðjur,
Ingi
09.02.2010 at 09:54 #682222Sælir félagar góðir,
mig langar aðeins til að deila með ykkur þeim umræðum og hugmyndum og framkvæmdum sem upp hafa komið hjá okkur Jeppavinum, sem eru jú hagsmunasamtök súperjeppaeigenda í ferðaþjónustu.Sl. vor héldum við skyndihjálparnámskeið og sprungubjörgunarnámskeið og gerðum gangskör í að endurbæta sjúkrakassana í bílunum.
Umræða hefur verið um að fá loftmyndir af helstu ferðajöklum að hausti og fá fagfólk til að draga hringi um þau svæði sem óörugg geti talist, -ekki þannig þó að önnur svæði séu endilega skotheld.
Í vinnslu er að setja saman útbúnaðarlista yfir helsta öryggisbúnað sem þarf að vera í bílum, en við gerum okkur líka grein fyrir því að það þarf að kunna á búnaðinn.
Helstu áhættuþættir í fjallaferðunum eru að mínu mati bílveltur og fall í sprungur. Á síðustu árum hafa orðið allt of mörg óhöpp þar sem fólk og /eða tæki hafa farið í sprungur, en sem betur fer oftar en ekki án stórslysa eða dauðsfalla. Látum þá sem eiga um sárt að binda finna að ætlum okkur að draga lærdóm af orðnum slysum.
Ekki gera ekki neitt,
Ingi
22.11.2009 at 11:22 #667672Elsku besta, láttu Helga ekki slá þig út af laginu.
Las "ekkifréttirnar" þínar yfir og hafði bara gaman af. Vel að verki staðið hjá fjarritara nýliðaferðarinnar, og bráðgaman og nauðsynlegt að fylgjast með framvindu ferða sem þessarar. Bullið og bullyrðingar lengi lifi,
Ingi
06.11.2009 at 10:37 #665502Ég vil bara þakka þér og öðrum þeim sem fylgjast með gangi mála fyrir það senda inn linka á greinar sem þessar. Annars er hætt við að þær færu fram hjá fleirum en mér. Er búinn að senda þetta áfram á alla Jeppavini.
Kveðjur,
Ingi
20.10.2009 at 08:04 #207552Farangurskerran var í vari við bílaplan v/Nesveg í R.vík-sett þar vegna hvassviðris 9 okt.
Átti að notast nú 16 okt-en þá var hún horfin (hægt að kenna um trassaskap okkar eigendanna).
Kerran var þarna vegna notkunar starfsmanns okkar-Trausta Gunnarssonar til heimilis Sörlaskjóli 90-,101 Reykjavík.
Kerran var hvítmáluð-með opnun að aftan-láskrækjur á efra+neðra vinstri horni-kassastærð125×125 cm hæð/breidd og lengd 200 cm.
Beislistöng beint framúr grind.
Kerran frekar léttbyggð,en vönduð smíð- með svörtum plastbrettum yfir utanástæðum hjólum (svartar felgur-15”).
Kerran var smíðuð fyrir okkur af Bílaklæðningu Ragnars Valssonar í Kópavogi.
Kerruna mætti þekkja vegna tæringar á ytra birði neðantil á hliðum (held að tæringin sé vegna járnklæðningar yfir ál- grind(eða öfugt).
Okkur er þetta sár missir og gott ef hún finnst.
Bestu þakkir-Gunnar Gunnarsson-Sunnuflöt 3 Garðabæ.gsm 897 6357 (eða Trausti 863 1066).
Eigandi kerru er fyrirtæki okkar=Radius ehf kt 661192-2759
Sendi þessa orðsendingu inn fyrir kerrueigendur,
Ingi
28.09.2009 at 08:03 #659004Já, en, -hvernig var veðrið Tómas Þröstur? Var ekki bara éljagangur, eða gekk ekki bara á með éljum? Hríðarbyl þekkjum við borgarbörnin varla nema af afspurn! Snjó- eða hríðarbylur er í mínum huga eitthvað stærra fyrirbæri en svo í tíma og rúmi, að hægt sé að tala um byl í fleirtölu einn og sama daginn! En svo má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér…
25.09.2009 at 09:35 #658064Góðir félagar,
hef að sjálfsögðu fylgst með þessari umræðu.En veit einhver HVERS VEGNA þeir Áshreppingar vilja loka þessum vegum og slóðum?
Hafa þeir lögsögu um málið?
Er þá ekki öll umferð bönnuð, gangandi og ríðandi líka?
Hvað réttlætir umferð veiðimanna eða smala, eða þá Landsvirjunar- og Orkustofnunarstarfsmanna um þessi svæði sem önnur (og ekki bara á troðnum slóðum) umfram hins almenna ferðamanns?
Bændur eru aðeins um 2% þjóðarinnar, ráða þeir yfir 70% landsins?
Gæti Kópavogur t.d. bannað fólki að aka um götur bæjarins?Fyrir upphaf vega var allur akstur samkvæmt eðli málsins utanvegaakstur. Á þá ekki t.d. að fara í mál við Pál Arason, hann er enn á lífi, einn þessara brautryðjenda. En, hefðu þeir ekki rutt brautina, hvar værum við stödd nú?
Núverandi kerfi slóða og vega fullnægir nánast þörfum ferðamanna, þó má enn betrumbæta á nokkrum stöðum, lagfæra eða flytja til eða leggja nýja styttinga. Leið sem er þekkt og merkt á kortum kemur í veg fyrir megnið af utanvegaakstri.Það að mega ekki ferðast um eigið land, í sátt við landið og ibúana,það er aumt! Þurfum við að þola það að mega aðeins fara um landið eftir línu- og virkjanavegum?
Ingi
01.09.2009 at 21:54 #652390Já, -nei Skúli, þarna ferð þú villur vega að mínu mati. Vissulega er til fjöldi nafnlausra fossa, en það er aðeins til einn og bara einn "Nafnlausi foss"!
Ingi
01.09.2009 at 07:34 #652382Nafnlausi foss, einhver skemmtilegasta og leyndardómsfyllsta nafngift á nokkru örnefni á Íslandi. Einhvern tímann hef ég heyrt Dalakofa nefndan Rudolfsskála, eða var það einhver annar skáli, -alveg tilvalið til að koma á nafnarugli. Foss á Síðu, þurfum við ekki líka að ónefna hann?
Ingi
31.08.2009 at 22:21 #652374Bið ykkur félagar góðir að vera ekki að rugla með nafngiftir á fossi þessum eða öðrum örnefnum. Hann hefur verið nefndur/kallaður Nafnlausi fossinn með stórum eða litlum staf svo lengi sem ég man, ég kom trúlega þarna fyrst fyrir einhverjum 40 árum, og síðast núna í dag. Ein af skemmtilegri nafngiftum eða ónefnum á fossi, -má hann ekki bara vera það sem hann er!!!
En svona í framhjáhlaupi, hvað líður/tefur uppbyggingu Dalakofa, verður hitaveita, hver mun fara með lyklavöld, er búið að vinna í því að koma honum austur yfir Markarfljót þannig að hann sé rétt staðsettur skv. of mörgum kortum?
Ingi
25.08.2009 at 21:00 #654970Þakka þér Ofsi, þann tíma og fyrirhöfn sem þú notar í okkar allra þágu.
Það sem einu sinni voru kallaðar leiðir brautryðjenda eru nú hálendisvegir, mis mikið notaðir. Flestir hafa þeir upphaf og endi og tilgang. Enn í dag þyrfti að gera nokkra nýja há- og láglendisvegi, þá helst sem tengivegi og þá ekki síst fyrir túristaaksturinn!
Besta leiðin til að koma í veg fyrir landspjallandi utanvegaakstur er að merkja leiðir og koma þeim inn á kort, þar með þurfa menn ekki að leita nýrra leiða. Hringsól bílaleigubíla og alls konar bullakstur utan vega er helst hægt að koma í veg fyrir með betri upplýsingum og sektaráróðri.
Jeppaferðamennska er að engu leyti ómerkilegri en gangandi, ríðandi eða hjólandi, oft trufla hófför og fótspor og hjólför mig þar sem mér finnst óvarlega hafa verið farið, og tel ég mig nokkuð dómbær á þetta. Tel mig einnig nokkuð vita hvenær óhætt er að fara um land og hvenær ekki. En grátlegt þykir mér oft að sjá svæði þar sem maður hefur gætt sín að skilja ekki markað land eftir sig; þar er síðan rutt upp vegi eða hverju öðru mannvirki sem aldrei fellur eins vel inn í landið og falleg jeppaslóð eða gönguslóð eða kindagata.
Ég tel að friður og sátt megi vera um leið undir Hofsjökli ef sveit manna fer þar um (ríðandi þá ef ekki betur vill, -eða þá á jeppum á frosinni jörðu) og velji bestu jeppaleiðina, -í gegnum Múlana eða þá undir þeim, grófstiki hana og fastsetji í GPS. Gerð sé krafa um að ferðast sé eftir GPSi um slóðir sem þessar að þannig að villuslóðar og villur almennt verði þar með úr sögunni.
Baráttukveðjur,
Ingi
22.08.2009 at 08:14 #654786Frábært, -orð í tíma töluð!
Skilti mætti líka setja sem fyrst við Merkurafleggjarann, -þangað er jú talsverð traffík bílaleigubíla. Ég hef einmitt gert dálítið af því í sumar ef mikið er í vötnum að stoppa bílaleigubílana og spyrja fólkið hvert það ætli; "Pórsmörk" svarar það og brosir út í bæði. Ráðlegg þeim að snúa við, og þeir svara bara "Si, si" eða eitthvað í þeim dúr. Þarna eru ansi klénar upplýsingar um vafasöm vöð. Bílaleigubílarnir eru reyndar á ferðinni upp um allar trissur á öllum tímum árs, -kannski aðallega fyrir vanþekkingar sakir.
Getum við 4×4 félagarnir verið meira "á vaktinni" -við erum jú alltaf á ferðinni, talað við þetta fólk á förnum vegum og kannski rétt þeim einhvern gagnlegan bækling. Beinn áróður!!! Ekki þannig að við séum komin með löggukaskeiti, en oft stoppar þetta bílaleigufólk mann og er að spyrja ráða varðandi vegi og vöð.
Ingi
20.08.2009 at 23:10 #205927Góðir félagar,
enn vil ég vekja máls á nokkru sem ég tel geta orðið klúbbnum til sóma, -mögulegt samstarf okkar og þá væntanlega Umhverfisstofnunar um að lagfæra skemmdir eftir utanvegaakstur.
Alltaf ber nokkuð á ljótum ummerkjum um utanvegaakstur bíla á litlum/mjóum dekkjum á hálendinu, og tel þau að mestu tengjast óbreyttum bílaleigubílum þar sem ökumenn gera sér vísast ekki grein fyrir alvarleika málsins. Hef ég leyft mér nokkrum sinnum á fullvöxnum jeppa, utan þjóðgarða sem innan, að aka inn á þessi hjólför til að pressa niður barmana og þar með að loka sárinu. Þetta getur hreinlega svínvirkað, sérstaklega á viðkvæmustu svæðunum.
Vil ég hvetja Umhverfisnefnd 4×4 til að vekja máls á þessu og blása til skipulagðra framkvæmda áður en hausta tekur fyrir alvöru.
Baráttukveðjur,
Ingi
13.05.2009 at 09:06 #647204Sælir félagar,
vil benda ykkur á að fremsti spíss á 2.8 vélinni gefur tímamerki inn á olíuverkið um það hvenær innsprautun fer fram. Komi merki á röngum tíma þá verður vélin treg í gang.
Ingi
13.05.2009 at 08:55 #646294Og allt ber þetta að sama brunni, margar tengileiðir okkar inn á hálendisbrún eru hálfónýtar. Niðurgrafnir vegslóðar sem lokast snemma á haustin og opnast seint á vorin. Maimánuður er oftlega einhver bjartasti og skemmtilegasti ferðamánuðurinn, mökksnjór víða inni á hálendinu. En, það er bara bannað að fara þangað vegna þess að það er bannað að nota vegslóðana sem eru oft illfærir vegna þess að þeir fá lítið sem ekkert uppbyggilegt viðhald! Afraksturinn er utanvegaakstur lítillra og vanbúinna jeppa fyrst og fremst, og akstur um fjallvegi á lokunartímabilum.
Því vil ég beina því til stjórnar 4×4 og umhverfisnefndar að farið verði yfir fjallvegamálin með samgönguyfirvöldum þannig að unnið verði í því að gera vegabætur á helstu fjallvegum okkar sem tengjast hálendisbrún til að auðvelda okkur öllum (túristabílstjórum líka, sem flestir eru félagar í 4×4) aðgengi að hálendinu á öllum tímum ársins.
Ingi
11.05.2009 at 20:42 #646262Ég vil hnykkja á því sem ég áður tíundaði, að ég sé bara engan mun á fjallvegunum eftir fyrstu heflun í sumarbyrjun hvort hrært hafi verið í drullunni vorlangt eða ekki. Því er að mínu mati ekki um vegskemmdir að ræða sem nokkru nemur. Það sem helst veldur utanvegaakstri (sem við túristabílstjórarnir stundum ekki) eru þessir illfæru niðurgröfnu vegir. Vildi ég gjarnan að við 4×4 félagarnir og við Jeppavinirnir (hagsmunasamtök súperjeppaútgerðarmanna) snérum bökum saman og stofnuðum nefnd/fjelag um að þrýsta á Vegagerðina að hefjast handa nú í vor að hreinsa burt leirdrulluna á þessum afmörkuðu vegköflum, og keyra skárra efni í alla vegina þannig að vegstæðið sléttfyllist. Þannig má koma í veg fyrir mestallan utanvegaakstur meðfram vegunum.
Ónefndur túristabílstjóri óhlýddist lokunum Vegagerðarinnar sl. viku og fór Syðra – Fjallabak inn fyrir Hafrafell, -þaðan austur og norður fyrir Heklu og niður í Skjólkvíar. Hvergi markaði í veginn undan bílnum, og mestan hlutann var ekið á snjó. Vissulega var vegurinn lokaður en aurbleyta var engin. Ber okkur virkilega að leggja af heilbrigða skynsemi og opinbera forheimsku okkar?
Ingi
11.05.2009 at 02:16 #646250Góðir félagar,
ég fagna þessari tímabæru umræðu um fjallvegi landsins.
Ég er eflaust einn af þessum ónefndu ferðaþjónustuaðilum sem eru að nota fjallvegina allt árið um kring. Búinn að keyra t.d Kjalveg sunnanverðan og Kaldadal alveg sundur og saman í alls konar aur og drullu, og hef bara aldrei séð neinar vegskemmdir vegna þess. Því meira sem hrært er upp í drullunni, þeim mun betra! Vont er ef fáir keyra og það frýs aftur eða þornar um þegar vegurinn er skorinn, en annars þá hnoðast hann bara út með meiri akstri! Það eru sumir vegkaflar verri en aðrir, og þar ætti Vegagerðin að sjá sóma sinn í að skrapa mesta leirinn upp og koma betra efni í vegstæðið, -og að öðru leiti að sléttfylla alla helstu hálendisvegina sem ekki hefur verið viðhaldið að nokkru marki síðustu 50 árin. Þannig mætti lengja opnunartíma þeirra fyrir alla umferð um nokkra mánuði á ári. Alveg ömurlegt þegar í fyrstu snjóum vegirnir kjaftfyllast, og síðan situr snjórinn, vatnið og drullan í vegstæðinu langt fram á sumar.
Það ætti að veita ábyrgum Jeppamönnum á súperjeppum (félögum í 4x4og Jeppavinum) undanþágu til að að aka þessa vegi allt árið um kring enda stundum við ekki náttúruspjöll!
Á vef Vegagerðarinnar undir : Ástand á hálendisleiðum – Ástand fjallvega -er kort þar sem berlega kemur í ljós hvaða svæði eru lokuð. Þar segir líka: …kortið gefur til kynna hvar umferð er heimil eða óheimil vegna aurbleytu. Það hlýtur að túlkast svo að ef ekki er aurbleyta þá sé umferð heimil???
Að lokum, við skulum gæta þess að helsta ástæða fyrir utanvegaakstri er hið bágborna ástand fjallvega.
Bestu kveðjur,
Ingi
-
AuthorReplies