Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
10.09.2008 at 16:48 #628858
Þeir eru svosem til sem réttlæta Hálslón með auknum túristastraumi að Kárahnjúkum. En það er hundalógík.
Ég tel það algert grundvallaratriði í þeirri skipulagsvinnu sem unnin er uppá hvern dag af yfirvöldum að menn gaumgæfi hvern fermetra í landnýtingu.
Svo geta menn deilt um það af hverju lagfæringar á vegaslóða eru ekki umhverfismatsskyldar o.s.frv.
Það þarf að umhverfismeta breytingu á suðurlandsvegi í 2X2 en ekki ef menn breyta honum í 2×1 veg!
Skaði á hrauni er alltaf skaði á hrauni hvort sem menn gera 7 metra slóð eða 15 metra. Mín niðurstaða var sú að þarna væri um ásættanlegustu fórnina að ræða miðað við þá námukosti sem til staðar voru og hægt er að skoða á umhverfismats-samantektinni sem ég setti í færslu hér ofanvið. En fórn er það, ég fer ekki í grafgötur með það og geri ekki lítið úr áhyggjum manna og fyrirvörum.
Ég hef hins vegar verið sannfærður um að þegar þessum framkvæmdum er lokið verður gengið vel frá svæðinu og fossinn verður ekki fyrir hnjaski.
Annars þakka ég góðar umræður hér. Sé ykkur á fjöllum.
09.09.2008 at 13:38 #628846Allar upplýsingar um Landeyjahöfn og framkvæmdirnar þar er að finna á slóðinni sem ég setti í síðasta innlegg. Þar er jafnframt linkur á síðu samgönguráðuneytis um Landeyjahöfn.
Þarna eru birtar niðurstöður sjólagsrannsókna innlendra sem erlendra sérfræðinga. Fjallað um dýpkunarframkvæmdir sem nauðsynlegar verða fyrstu 5-6 árin eftir að starfsemi við höfnina hefst. Um djúpristu ferjunnar, mögulegar frátafir, nýtingu Þorlákshafnar sem varahafnar. Það myndi æra óstöðugan að ég færi að þylja uppúr mér slíkum upplýsingum hér.
Mér finnst bara mikilvægt að því sé haldið til haga að þarna er ekki verið að vinna skemmdarverk og þarna er ekki um ólögmætar framkvæmdir að ræða. Það er slíkur málflutningur sem eyðileggur málstað þeirra sem er annt um landið okkar og vilja geta notið þess sem mest og best.
Við erum t.d. flest sammála um að halda landinu öllu í byggð. Til þess þarf öflugar samgöngur. Þá þarf betri vegi, styttri vegalengdir, nýjar hafnir, lengri flugbrautir. Allt kallar þetta á nýtingu lands með einum eða öðrum hætti. Þetta er ekki bara svart og hvítt. Það er eins og það sé búið að skipta umræðunni uppí að vera annaðhvort fylgjandi eða andvígur náttúrunni. Ég er t.d. fylgjandi gerð vegar um Gjábakka, hann eykur umferðaröryggi og styttir vegalengdir fyrir íbúa og t.d. skólabörn í Bláskógabyggð. Ég er algerlega mótfallinn Bjallavirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá og hef efasemdir um tvær næstu ætluðu virkjanir þar fyrir ofan. Tel þá efstu koma til greina. Ég tel álver í Helguvík óþarft en er fylgjandi því á Bakka fyrir norðan.
Það er vel hægt að móta sér ígrundaða skoðun á hverri framkvæmd fyrir sig og ofureinföldun að vera annaðhvort andvígur öllum framkvæmdum eða fylgjandi öllum.
09.09.2008 at 11:52 #628836Gott fólk,
Umræðan um þessa framkvæmd er svolítið ofsafengin eins og gjarnan verður um umhverfismál. Ég sit í stýrihópi um Landeyjahöfn og þekki því nokkuð vel til. Ég hvet ykkur til að lesa umhverfismatið sem er hér á þessari slóð:
http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir-o … la/nr/1709Vegslóðin upp að námunni verður það eina sem sést af þessari framkvæmd frá þjóðveginum, og þá þarf maður góða sjón eins ljósmynd hér á þessum þræði sannar. Frá fossstæðinu sjálfu sjást engin merki um framkvæmdirnar á heiðinni. Veglínunni er aðeins breytt til þess að gera hana betri fyrir flutninganna. Það var gert í samráði við fornleifavernd og umhverfisstofnun. Vegurinn verður 13-15 metra breiður en svo mjókkaður aftur eftir að framkvæmdum lýkur og sáð í beggja vegna.
Áin verður þveruð ofar í heiðinni og á þeim 2-3 dögum sem þær framkvæmdir standa verður einhver moldarlitur á henni. Sem svo hverfur aftur.
Ég hef spurt allra þeirra spurninga sem mér hefur dottið í hug í þessu ferli til þess að tryggja að fossinn verði ekki skemmdur á nokkurn hátt. Það hefur algerlega verið farið að öllum lögum um skipulag og umhverfismat og fullyrðingar um annað eru einfaldlega rangar.
Áhyggjur manna af þessu eru hins vegar mjög skiljanlegar enda Seljalandsfoss meðal helstu náttúrgersema suðurlands og ber að umgangast af mikilli varúð.
Ég teldi hins vegar kröftum okkar betur varið í að tryggja að ekkert verði af hugmyndum um Bjallavirkjun. Þar þurfa menn að vera vel á verði og nýta alla fyrirvara. Það er alltof oft sem maður verður var við það að allir kærufrestir eru liðnir, að búið er að fullnægja öllum formsatriðum, þá kemur fólk fram og mótmælir. En þá er það orðið of seint.
Góðar kveðjur,
Róbert Marshall
-
AuthorReplies