Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
11.09.2013 at 10:10 #378919
Ekki láta nokkurn mann sjá þig skrifa hnitin svona, þetta er kolvitlaust fram sett.
Fyrsta framsetningin rular mig, þetta lítur út fyrir að vera gráður mínútur sekúndur því það eru nógu margar kommur, en það eru bara 60 sekúndur í mínútu þannig að þetta hlýtur að vera gráður mínútur og mínútubrot, sem stemmir við staðsetninguna, meira um það á eftir. Nóg er að gefa upp tvo aukastafi þegar þessi framsetning er notuð, allt umfram það er „overkill“, nákvæmni sem gagnast engum á ferðalagi.
64´6,91,69 N = 21´53,66,73 W á að vera 64°6,91’N / 21°53,66’W eða 64°6,91′ / -21°53,66′
Önnur ætti að skiljast, en eitt vantar til að hafa fá punktinn á réttan stað. Lengdarhnitið (E/W) í baughnitum er alltaf talið frá Greenwitch í Bretlandi, plús til austurs en mínus til vesturs. Þess vegna þarf að taka fram að við séum vestan við Greenwitch og það getum við gert annars vegar með W/V aftan við hnitið eða með mínus tákninu framan við það. Fjórir aukastafir eru meira en nóg, nákvæmni tækjanna er ekki meiri hvort eð er.
64,115283 = 21,894455 væri betri 64,1152°/ -21,8944°
Sú þriðja er út úr kú fyrir evrópubúa en kaninn myndi kannski skilja hvað við er átt. Almennt er „,“ notuð sem brotaskipting hjá okkur og „.“ sem þúsundaskipting. Því ætti
358,997 = 404,599 að vera 358.997 A / 404.599 N. Nógu nákvæmt og þægilegra væri að námunda að næsta tug t.d. 359.000 A / 404600 N
Bestu kveðjur,
Raggi ÞórðarAllt eru þetta hnit úr annað hvort WGS84 eða ISN93, en þau kerfi eru svo nálægt hvoru öðru að það skiptir ekki máli. Fyrstu tvö hnitin sem gefin voru upp voru baughnit, fyrst algengasta formið sem við notum; gráður, mínútur og mínútubrot og svo gráður og gráðubrot sem er ekki eins algengt að nota enda margir aukastafir í runu sem rugla marga og gefa meiri kost á mistökum. Þriðja framsetningin er metratala úr gamla landshnitakerfinu; 1993 Lambertsvörpun í 1993 ISNET hnitakerfinu eða eins og flestir þekkja það ISN93.
Ef ég gat mér rétt til eru þetta hnit norðan við Lund 1, 200 Kópavogi.
Vonandi getur einhver notað þetta til að átta sig betur á tölunum sem tækin geta gefið okkur og einfaldað sér lífið með færri aukastöfum
04.02.2013 at 11:33 #762985Já best væri að allir færu að nota ISN2004 viðmiðunina þar sem hún er réttust, en þar sem QGIS er OpenSource hugbúnaður þyrfti bara einhver snillingurinn hér á landi að taka það að sér að koma öllum fítusunum sem okkur vantar spes fyrir Ísland inn í kóðann, en ISN2004 skilgreiningin hefur legið úti fyrir þá sem vilja á http://www.epsg-registry.org (isn2004 í leit) siðan síðla 2010. Þangað til það er komið inn getið þið notað eftirfarandi í QGIS, undir stillingum veljið Custom CRS, smellið bara á stjörnuna þar og setjið inn nafnið
"ISN 2004 Lambert 2004"
og svo
"+proj=lcc +lat_1=64.25 +lat_2=65.75 +lat_0=65 +lon_0=-19 +x_0=1700000 +y_0=300000 +ellps=GRS80 +units=m +no_defs"
(sleppa gæsalöppum)
Þá ættuð þið að hafa gögnin á réttu viðmiðskerfi og í góðri vörpun ef þau voru sótt sem ISN2004.
En þeir sem nenna ekki að standa í þessu geta notað ISN93 gögnin þar sem fyrir ykkar notkun breytir það engu.
31.01.2013 at 10:10 #762979Sælir félagar. Ragnar Þórðarson heiti ég, er landfræðingur hjá Landmælingum Íslands og hef komið nokkuð að IS 50V gagnagrunninum. Ég fylgist reglulega með f4x4.is síðan ég fékk jeppadelluna fyrir mörgum árum, þó virkni mín á fjöllum hafi verið í dvala seinustu tvö, þrjú ár.
Okkur hjá LMÍ finnst frábært að sjá svona mikinn áhuga sýndan á gögnunum okkar, enda erum við mjög stolt af ávexti erfiðis okkar.
En varðandi gögn LMÍ þá er það algengur misskilningur að gögnin í grunninum séu kort, þetta eru svokallaðar landupplýsingar sem notaðar eru við gerð korta, ýmsar landfræðilegar greiningar og þess háttar og almennt ekki notuð óbreytt heima í stofu við undirbúning ferða. Til að nota þau þarf einhverja, ekki endilega mikla, þekkingu á landupplýsingakerfum (e. GIS) eins og QGIS (Quantum GIS) eða GRASS GIS sem eru gjaldfrjálsir pakkar eða ArcGIS frá ESRI sem greitt er fyrir.
Satt er það að við getum ekki farið að breyta gögnunum þannig að það henti mismunandi notendahópum en þar koma fyrirtæki og einstaklingar á einkamarkaðinum inn í myndina.
„Markmiðið með því að gera stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls er að almenningi á Íslandi sé tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um umhverfi og náttúru landsins. Einnig er markmiðið að hvetja til aukinnar notkunnar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og í menntakerfinu.“ Eins og segir í fréttatilkynningu frá LMÍ á heimasíðunni okkar, http://www.lmi.is/stafraen-kort-og-land … aldfrjals/.
Við hjá LMÍ notum ArcGIS hugbúnaðinn, því eru gögnin á ShapeFile (SHP) og File Geodatabase (GDB) forsniði, en einnig á DWG sem svokölluð CAD hönnunarforrit styðja. Flest gjaldfrjálsu forritin eins og QGIS lesa SHP skrárnar vandræðalaust og má finna ítarlegar leiðbeiningar um vinnslu gagna milli forsniða á heimasíðum forritana. Algengast fyrir ykkar notkun er verið að breyta úr SHP í GPX forsnið, en þar sem gögnin þekja allt landið getur það tekið óratíma og er mælt með því að „skera“ landið í svæði sem hentar í hvert skiptið. Því miður get ég ekki farið í tæknilegri skýringar en vonandi kemur þetta ykkur á sporið.
Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar varðandi gögn LMÍ, hafið þá samband við mig á ragnar (hjá) lmi.is og ég mun sjá til þess að ykkur verði svarað eins flótt og auðið er.
08.11.2011 at 14:24 #221128Sælir félagar.
Veit einhver hvernig færðin er á Kaldadalnum? Er þetta bara easy-peasy eða eru einhverjir skaflar og drullupyttir?
08.11.2011 at 13:54 #732989Fór þetta fyrir nokkrum árum á 35" Trooper, mátti ekkert vera lægri. Mæli ekki með að fara þetta nema með vel niðurgíraðan bíl annars verður kúplingin ansi heit eftir daginn. Gríðarlega stórgrýtt og djúp hjólför víða – og utanvegaakstur framhjá hindrunum er náttúrulega ekki inni í myndinni, er það nokkuð?
22.03.2011 at 12:04 #724140Ég er opinn fyrir því að vetni geti virkað eftir nokkra áratugi þegar búið er að þróa tæknina það mikið að orkan sem fer í að umbreyta vatni í vetni sé ekki meiri en sú orka sem vetnið skilar í bílinn.
Ég er hins vega ekki um borð í vetnislestinni, og hef engan áhuga á að knýja mitt farartæki áfram af vetni.
Ég er aftur á móti virkilega spenntur fyrir metanbreytingu og metanbílum. Og hér er ástæðan: Tvö af helstu vandamálum mannkyns er mengun af völdum farartækja og losun sorps og úrgangs. Með metannýtingu getum við splæst þessum vandamálum saman í eina lausn – virkjað metanið sem losnar af sorpi og úrgangi til að knýja áfram farartækin. Á wiki segir að [i:2pacyi5w]"Umhverfislegur sparnaður af metanbílum er mikill. Það er 90% minni útblástur koldíoxíðs úr metanvél samanborið við bensínvél. [10]Einnig er 60% minna köfnunarefnisoxíð sem losnar við bruna metans en við bruna koldíoxíðs. Sót og ryk er 80% minna úr metanvél en dísilvél."[/i:2pacyi5w] (sel það ekki dýrara en ég keypti það) Vestrænu ríkin geta nýtt sitt sorp til að sinna hluta af eftirspurninni en af því að við erum með svo mikið af sorpi sem ekki myndar metan dugar sú framleiðsla aldrei fyrir hinn vestræna heim. Þá kemur rúsínan í pulsuendanum. Þróunarlönd, eins og t.d. Bangladesh, skila geygvænlegu magni af lífrænu sorpi – heilu fjöllunum – sem mynda metan við rotnun. Með því að nýta það metan gætu þessi lönd vænkað hag sinn og unnið á sorpfjöllunum sem eru orðin mikið vandamál þar í dag. Þetta yrði líka til þess að vestrænu ríkin væru líklegri til að nota meira af niðurbrjótanlegum afurðum, pokum og svoleiðis, gæti gerst.
Mikill hluti þess metans sem notað er í dag úti í hinum stóra heimi er jarðgas, þ.e.a.s. það er borað eftir því, en það sem við erum með hérna heima er yfirborðsgas sem myndi annars fara út í andrúmsloftið, það er því talið "hreinna" en jarðgasið því það er hrein viðbót við andrúmsloftið. Ef sorp yrði nýtt um allan heim gæti þetta orðið svona lítil og nett alþjóðalausn. Eftirspurn eftir olíu og bensíni myndi minnka og fyrst eftirspurn ræður verðinu þá gætum við jeppadelluliðið fyllt á 300 lítra tankana okkar fyrir 10.000 kall eða svo, en eftirspurn eftir bensíni og olíu mun mjög seint þverra alveg eða kannski aldrei fyrr en olíulindirnar klárast.Það er gaman að spekúlera svona en góðir hlutir gerast hægt og það að ætla að þetta muni gerast á mínu æviskeiði er bjartsýni.
Ég er búinn að melta þetta lengi með mér svo endilega komið með ykkar pælingar eða sjónarhorn á þessu.
07.03.2011 at 16:03 #722440Ok ég á eftir að fá svo mikinn haturspóst núna…
Náttúran á Íslandi er viðkvæm, með stuttan vaxtartíma á hverju ári og því þarf að vernda hana gífurlega vel. Ef það þýðir að við hlunkum okkur niður á fyrirfram ákveðnum tjaldstæðum í stað þess að stoppa þar sem við viljum held ég að við getum öll verið sammála um að það er ásættanlegt til að börnin okkar og barnabörnin fái að sjá fegurðina sem við fáum að njóta. Þetta er ekki okkar að skemma. En ég veit líka að það er ekki allstaðar svona viðkvæmt og þá mega þeir sem vilja búa til frumvarp um undanþágur um nákvæmlega afmörkuð svæði, en þetta er núna orðið að þjóðgarði og þá gilda ákveðnar reglur sem eru settar af ráðamönnum sem hafa því miður ekki allir vit á þessum málaflokki.
Og hérna kemur haturpóstsefnið.
Óskar ég finn til með þér og konunni þinni að geta ekki notið landsins og lífsins á sama hátt og við fullfríska fólkið eins og við erum flokkuð. Ég hef ekki reynslu af þessari stöðu og ætla mér ekki að reyna að segja að ég skilji ykkur því ég gæti það ekki nema að hafa reynt það.
Það sem er vandamálið í þessari stöðu er siðfræðilegs eða jafnvel heimspekilegs efnis. Eigum við einhvern meðfæddan rétt á að ferðast um náttúrunnar eða eigum við að njóta þess sem gjöf að fá þann heiður að ferðast?
Ef við sjáum þetta sem rétt geri ég ráð fyrir að þið viljið berjast fyrir hjólastólaaðgengi upp á Herðubreið, yfir Fimmvörðuháls og Laugaveg, jafnvel lyftur upp helstu fjallaperlur landsins? Eða er það fáránlegt dæmi? Eiga bara þeir sem geta gengið pínulítið að fá aðgengi, þeir sem geta gengið við stuðning eða á þetta að ná alveg til fjölfatlaðra í hökustýrðum hjólastól? Ef þið segið að þetta eigi að enda einhverstaðar eruð þið bara að hugsa um eigin aðstöðu.. hvert kemst ég. Og að hugsa þannig er að vera með hræsni, afsakið orðalagið.
Ef við horfum frá hinu sjónarhorninu, að þetta sé gjöf en ekki réttur (eins og ég sé hlutina því ég er fullfrískur) þá lítur það þannig út að maður segi bara "tough luck" og gefi skít í aðra. Ég hef þá stefnu hjá mér að njóta íslenskrar náttúru þar til ég get það ekki lengur, það er auðvelt að segja þetta núna og við verðum bara að sjá til hvort afstaðan mín breytist með tímanum.Ég er enginn til að segja hverjir mega fara hvert en ég hef mínar skoðanir sem því miður hugnast ekki öllum, ég biðst velvirðingar á því.
07.03.2011 at 11:54 #722432Ég er nú jafnmikill jeppakall og sá næsti og birsti mig við hvern þann sem vegur að jeppamenningu Íslands, að við séum svona og svona… En núna þarf ég að taka upp hanskann fyrir náttúrunna, því miður gegn mínu eigin fólki!
Vandamálið er ekki náttúruverndin eða göngufólkið… vandamálið eru svörtu sauðirnir sem hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að hún spillir fyrir okkur hinum sem ferðumst með skynsemi og nátturuvernd efst í huga. Einmitt þeir sem keyra þessa tíu metra út í móa til að koma 15kg fjölskyldutjaldinu, borðinu, stólunum, gashellunni, kæliboxinu og restinni af 500kg farangrinum að tjaldstæðinu eru ástæðan fyrir svona reglugerðum. Það eru til svo margir latir og lélegir jeppamenn, eflaust fleiri en við teljum, sem eru aktíft að skemma fyrir okkur hinum. Sjáið bara Arnarvatnsheiðina, menn nenna ekki einu sinni að skilja bílana sína eftir á stæðum eða við veginn heldur er komið moldarsvað sem hægt er að lesa úr hin og þessi hjólbarðamunstur alveg niður að vatnsborði. Ég hef séð fituhlunk sitja á tail-gatinu á 38" hiluxinum sínum meter frá vatnsborðinu, eftir að hafa bakkað tugi metra frá næsta vegi yfir gróið land, með stöngina í annarri og bjórinn í hinni! Og þá skiptir holdafar, bíltegund eða dekkjastærð engu máli fyrir þá sem ætla að æsa sig yfir orðalaginu.
Það að göngufólk sem ber max 20-25 kg bakpoka með helstu nauðsynjum fái að njóta þeirra hygglinda að tjalda skv. almannarétti innan friðlands er ekki mismunun, bara skynsemi. Það fólk skilur ekki eftir sig moldarsvað eftir næturgistingu eða hjólför sem sjást þegar barnabarnabarnabörn þeirra ferðast um þetta svæði. Það eru auðvitað svartir sauðir í þeim hópi sem öðrum og þeir mega vel við því að líta í eigin barm.
Við þurfum bara að taka okkur saman í andlitinu, hætta að grenja yfir þeim lögum og reglum sem hefur þurft að setja á okkur út af slóðaskap svörtu sauðanna og vinna með ríkinu og sveitarfélögum til að gera jeppamennsku aftur skemmtilega en ekki litna hornauga.
Það hefur verið frábært að sjá hvað klúbburinn hefur verið virkur í landgræðslu, stikun og annarri náttúruvernd og skömm að ríki og sveitafélög skuli ekki leggja meira til í þessari vinnu, en það skiptir litlu máli hvað klúbburinn og kjarni hans gerir ef meirihluti jeppamanna á Íslandi, félagar eða ekki, aka um landið með öllum sínum litlu (stundum stóru) undartekningum á hvar má og hvar má ekki aka pínulítið utanvegar. Við þurfum öll að taka þátt í þessari nátturuvernd og gera okkar til að við öðlumst aftur traust sem náttúruunnendur.Það að við gætum þurft að ganga svo sem eina dagleið til að sjá perlur sem áður var hægt að skoða frá hlýju bílsins er ekki heimsendir, við gætum jafnvel komist í betra form, annað en þetta kúluform sem einkennir marga jeppamenn
Svo höfum við vetrarríkið nánast út af fyrir okkur og engir göngugarpar að þvælast fyrir.
Og fyrir þá sem vilja gera eitthvað spin-off af þessu þá vinsamlegast sleppið því, ég er bara að taka fyrir "fjölskyldan á heimilisbílnum sem má ekki tjalda nema á merktum tjaldstæðum í þjóðgarði Vs. Göngufólkið sem má tjalda skv. almannarétti í þjóðgarði".
//Rétt áður en ég sendi kom gott komment frá Skúla… Þetta er þá ágætis spark í rassinn á stjórnvöldum sem bera ábyrgð á þessu svæði að koma upp sómasamlegri aðstöðu víðar… er það ekki?//
07.04.2010 at 09:12 #689574Tek hjartanlega undir þetta með þér. Og ný afstaðin leit þar sem um 270 menn og konur tóku þátt ætti ekki að gleymast þegar kemur að því að kaupa flugelda næst.
01.02.2010 at 11:44 #679612Takk fyrir það, athuga málið.
31.01.2010 at 17:08 #679608Það er heldur hátt verð, hærra en hjá leigunum Lalli. En takk fyrir innleggið.
29.01.2010 at 10:40 #679604Því mér finnst óþarfi að borga fyrir eitthvað sem ég þarf ekki að kaupa, ef þú ert að tala um ykkur túristakeyrarana, og mér finnst óþarfi að borga morðfjár fyrir eitthvað sem ætti ekki að kosta svona mikið ef þú ert að tala um bílaleigurnar. Ég fer nú ekki að setja mönnum einhverja tölu, bara sé til hvort einhverjir komi með gott verð ef þeir vilja.
Ekki samt taka því þannig að ég hafi nokkuð á móti ykkur túristakeyrurunum, alls ekki, þetta er mjög flott hjá ykkur.
27.01.2010 at 10:35 #210250Sælir félagar.
Mig vantar 38″ eða meira breittan jeppa leigðan eða lánaðan í apríl. Það eru erlendir vinir að koma í heimsókn og þar sem ég er nýlega búinn að selja gripinn minn vantar mig fararskjóta til að sýna þeim landið örlítið, þetta er ekki í neina svakalega ferð bara rétt aðeins inn að Skjaldbreið og eitthvað í þá áttina. Þyrfti bílinn eina helgi, mögulega viku. Ef þú ert með bíl á sölu sem þig langar að fá smá leigupening fyrir máttu hafa samband.
Ef þú átt góðan Ford væri það snilld þar sem þetta eru miklir Ford aðdáendur en auðvitað þigg ég nánast hvað sem er sem hrynur ekki í sundur þegar komið er í snjó.
Hef skoðað leigurnar, eins og Ísak og CheapJeep en þær er í stífari kantinum verðskrárnar þeirra fyrir Íslendinga.Þið getið haft samband við mig í síma 694-9658 eða í raggi.thordar@gmail.com.
14.01.2010 at 14:00 #674624Trooperinn er með diskalæsingu að aftan, original. Ef hún virkar ekki er líklega röng olía á afturdrifinu, þarf að vera LS olía.
Hann þarf að ná smurþrýstingi á vél áður en hann hleypir dísel að. Smurþrýstingur fer upp um leið og startarinn er farinn af stað, búinn að snúa vélinni 2-10 sinnum, fer eftir hitastigi.
Hann er nánast með kraft á við hárþurrku þegar hann er ekki búinn að ná vinnsluhita (skilst það sé gert til að vernda vélina, very smart!). Það getur verið pirrandi en þú ert allavega ekki að stúta vélinni á meðan.Bara svona að taka saman það sem hefur verið kastað hér á milli.
12.01.2010 at 09:02 #674590Ég verð nú að vera sammála seinasta ræðumanni. Þú heyrir hryllingssögur af öllum tegundum og þegar menn hafa átt einn bíl sem bilar ekki þá eru það orðin trúarbrögð hjá viðkomandi. Ég átti 2000 Trooper á 35" sem reyndist mér mjög vel, ekkert mál að skipta um glóðarkertin, túrbínan var til friðs, kúplingin eins og best verður á kosið og svo var skipt um spíssa og einhver lúm í innköllun hjá IH. Gæti ekki beðið um betri jeppa fyrir mig, 12 Lítrar innanbæjar, gott tork og vel rúmgóður. Trooperinn er svo langt frá því að vera eftirlíking af Pajero, sem eru líka góðir jeppar, en ég var einnig á svoleiðis bíl um nokkurt skeið. Ég myndi segja að Trooperinn sé mjög áreiðanlegur bíll, sérstaklega beinskiptur, en eins og með alla bíla er hætta á að lenda á mánudagseintaki, og þau gefa allri tegundinni slæmt orðspor. Fyrir snjóakstur veit ég að trooperinn er mjög góður á 35" því fulllestaður og ferðbúinn er hann 50-100 kg þyngri að framan en að aftan, sem er mjög góð þyngdardreifing. Ég þekki ekki Pajeroinn að þessu leiti.
Trooperinn er aðeins bilanatík hjá þeim sem hugsa illa um bílana sína og þá eru þeir allir bilanatíkur.
Trooperinn er vissulega ódýrari en aðrir jeppar í sama flokki en þú ert bara að fá meiri bíl fyrir minni pening. Pajero er aftur á móti vel ofmetinn í verði, mætti taka svona 20% af verðmiðanum til að það sé gott verð fyrir bílinn. En allir hafa sína skoðun.Trooper plús++
14.10.2009 at 18:26 #661792Já trúarbrögð vissulega. Ég er á höfuðborgarsvæðinu og finnst ekkert sniðugt að hafa bílinn hálfgriplausan á nöglum 80% af vetrinum þegar göturnar eru auðar. Ég á Trooper og setti undir hann 35" Dick Cepek FC-II frá Sólningu (Arctic Trucks), míkróskorin. Þau eru millibil milli grófs og fíns munsturs. Ég er mjög sáttur við þau, grip, flot og allt, m.a.s. hljóðlát miðað við jeppadekk.
En ég er sammála BjarnaG að hafa nagla á suðurlandi (hef reynslu af vetrum þar) og mögulega annars staðar á landsbyggðinni, klakabrynjan þar er ekki skemmtileg nema á nöglum.
Minn dómur, nagladekk ef þú gerir ráð fyrir klaka, míkróskorin og VEL HREIN ef þú gerir frekar ráð fyrir auðum götum.
Og nú er bara að velja úr öllum þessum mismunandi ráðum
Getur séð mynd af dekkjunum hérna:
[img:wma3ojcw]http://www.f4x4.is/g2/main.php?g2_view=core.DownloadItem&g2_itemId=238118&g2_serialNumber=1[/img:wma3ojcw]
07.10.2009 at 14:50 #660876Spurning hvort maður þurfi ekki bara að bæta dótastuðulinn og setja klippur í bílinn. Farinn að hallast að því.
06.10.2009 at 09:48 #660294Strákar, ætti þetta ekki heima undir öðrum flokki en þeim sem er opinn almenningi? Bara spurning.
03.10.2009 at 20:43 #207012Sælir félagar.
Ég fór hring á Hellisheiðinni í dag og sá að menn eru meta aðstæður mjög illa og taka slæmar ákvarðanir. Það er rétt svo kominn snjór á jörðina og menn halda að þeir geti keyrt um vegleysur án þess að hugsa. Á mörgum stöðum hafa menn farið niður úr snjónum og ofan í mjúka vatnssósa jörðina og brekkan sem sést til SA þegar komið er niður að Hengladalsá er orðin hálf brún eftir jeppana sem hafa verið að djöflast upp á glænýjum snjónum með engu undirlagi. Og það er ekki bara þar sem menn fara niður í svaðið heldur líka á svæðum sem eru með deigum jarðvegi sem ekki er nægilega frosinn, það munu koma í ljós hjólför þegar snjóa leysir og þá mun fólk halda að jeppamenn séu að keyra utan vega í snjóleysu. Þegar maður sér svona skammast maður sín dálítið fyrir að vera talinn í hópi með þessum böðlum sem kalla sig jeppamenn. Við verðum að hugsa betur um náttúruna en þetta. Þetta kemur allt undan snjónum á endanum og hvernig verður þá alhæft um okkur hina. Flestir hafa lent í því að valda jarðraski óviljandi en þá er líka að koma sér úr þeim aðstæðum sem fyrst og með sem minnstu viðbótarraski, og gera sitt besta til að bæta fyrir, ekki bara ýta eldsneytisgjöfinni lengra inn og loka augunum!
Þið vitið alveg hverjir þið eruð sem spóluðuð upp jarðveginum í brekkunni, eða hvar sem er annarsstaðar, og þið vitið líka að þið eigið að vita betur en að aka svona.
Ég vona bara að menn sjái að sér með þetta og haldi aðeins aftur af sér þar til snjóalög eru orðin það góð að ekki verður skaði af utanvegaakstri. Og ég vona líka að menn geri það afþví það er það rétta en ekki bara til að við hinir fáum ekki slæmt orð á okkur.Hef pistilinn ekki lengri að sinni, en endilega segið ykkar skoðun.
Kv. Raggi Þórðar
30.09.2009 at 13:33 #659518[url:13vbdzf8]http://www.atbilar.is[/url:13vbdzf8]
Þú ættir að finna hann þar, náði sambandi við fyrirtækið fyrir stuttu þannig að það hlýtur að vera í bissness ennþá.
-
AuthorReplies