Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
26.09.2003 at 13:12 #476970
Var ekki Benni að selja svona skjái í hitteðfyrra?
kv.
PS – b.t.w. er koníaksstofan að koma?
26.09.2003 at 11:15 #476952Þau eru náttúrulega mörg. En þú getur prófað að hringja í 567 3444, þar eru menn vanir að breyta jeppum og eiga við breytta jeppa.
26.09.2003 at 11:12 #476838Þetta eru fróðlegar umræður. Ég hef hinsvegar velt því fyrir mér, að fari maður út í að eiga alvöru fjallabíl aftur, hvort ekki væri ráðlegt að koma sér upp samskonar kerfi og er í bátnum hjá manni, þ.e. sér rafgeymi/geyma bara fyrir startið og síðan geymi fyrir almenna notkun, svo sem ljós og aukabúnað af öllu tagi. Hinsvegar er þessa hugmynd með tvo alternatora (rafala) allrar athygli verð og kannski er hægt að sameina þetta tvennt. Bæði fylgir því aukið öryggi í fjallaferðum, þegar verkstæði eru kannski ekki beinlínis aðgengileg í hvelli, og svo gefur þetta möguleikann á að vera með viðbótar rafalann með innbyggðri rafsuðu, en slíkir alternator eru býsna vinsælir westra hjá kollegum okkar í þvísa landi.
26.09.2003 at 11:03 #476898Jæja, þetta eru nú upp til hópa svo mikil prúðmenni í 4×4. Ekki er ég sérfræðingur í Suzuki annð en vita að þetta eru góðir bílar, bila lítið og eyða litlu. Ég hélt í fávisku minni að Sidekick væri Ameríkutýpan (sem líka þekkist sem GEO Tracker og þá kenndur við General Motors) en Vitara í öðrum heimshlutum. Líkt og Pajero heitir Montero í spænskumælandi löndum, en af ástæðum, sem ég ætla ekki að tíunda hér! Menn leiðrétta mig ef þetta er rangt. En ég var búinn að eiga lengi Toyota Double Cab (ekki cap, það er allt annar hlutur, Cab er stytting á Cabin (klefi, skýli)) og mikið rétt, þetta eru ágætis bílar, en að þeir bili eitthvað minna en aðrir hrísgrjónabrennarar, það fellst ég ekki á. Ég er búinn að aka nokkur hundruð þús. km á þremur Mitsubishi Pajero og þeir hafa ekki bilað neitt, greyin. En ég hef svo sem ekki breytt þeim neitt. Alltaf sé ég nú samt gamla, góða Broncoinn í rósrauðum bjarma!
kv.
ólsarinn.
26.09.2003 at 06:53 #192911Innlent | Morgunblaðið | 26.9.2003 | 5:30
„FÍ lokar sex fjallaskálum vegna slæmrar umgengni
Ákveðið hefur verið að loka sex skálum Ferðafélags Íslands við svonefndan Laugaveg í vetur vegna slæmrar umgengni um þá, en gæsla er ekki í skálunum að vetri til. Útivist hefur þegar lokað sínum skálum.
Um er að ræða skála FÍ í Landmannalaugum, við Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og Langadal í Þórsmörk. Í hverjum skála verður þó opið neyðarathvarf sem hægt verður að komast í.Elín Björk Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að þau hafi orðið að loka skálunum vegna slæmrar umgengni, auk þess sem fólk noti aðstöðu sem það eigi að borga fyrir án þess að gera það.
Á undanförnum árum hefur umgengni um skála félagsins verið mjög slæm og virðist fara versnandi og miklar skemmdir hafa verið unnar í sumum þeirra.
Engir skálaverðir hafa verið í skálum á veturna það heyrir til undantekninga að þeir sem nýta sér skálana að vetrarlagi, greiði fyrir afnotin. „Það virðist vera til fólk sem telur sér hvorki skylt að virða eignarrétt annarra né að ganga sómasamlega um. Félagið telur sér ekki lengur fært að hafa skála sína opna a.m.k. á meðan ofangreind viðhorf virðast ríkjandi hjá hluta þeirra sem ferðast um hálendið utan gæslutíma. Þeir sem hyggjast nýta sér skálana verða því framvegis að koma á skrifstofu félagsins og fá lykla að skálum sem þeir vilja gista í,“ segir í tilkynningu Ferðafélagsins.
Þolinmæði félagsmanna þrotin
Fram kemur að skálar félagsins við Langjökul og á Kili verði opnir enn um sinn en ef umgengni batni ekki verði þeim einnig læst í náinni framtíð. „Félagið hefur í lengstu lög frestað því að fara þessa leið en nú er svo komið að þolinmæli félagsmanna er þrotin en þeir leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu við nýbyggingar og viðhald skálanna,“ segir ennfremur. „
Jæja, þar kom að því. Það var svo sem auðvitað að FÍ myndi standa frammi fyrir sömu ákvarðanatöku og 4×4 með Setrið. Það má svo sem segja að í því climaxi sem er í þessu þjóðfélagi sé rökrétt að gera ráð fyrir að þar sem ekki er skipuleg innheimta á afnotagjöldum fyrir aðstöðu af þessu tagi, þá greiði menn ekki fyrir afnotin ef þeir komast upp með það. Því er samt ekki að leyna, að manni finnst það nöturleg staðreynd. Maður er líka farinn að hafa áhyggjur af því hvað tekur við þegar sá hópur fólks, sem hefur sinnt þessum málum í sjálfboðastarfi, hverfur af sjónarsviðinu af eðlilegum orsökum. Allavega virðist svo vera, að nýtt fólk vilji ekki taka við. Þá spyr maður sig hvað verði um skála FÍ og annarra svipaðra félaga. Við höfum orðið vör við það hér, þar sem ég bý, að ferðaþjónustuaðilar eru farnir að gera kröfur til að meira sé lagt í aðstöðuna í fjallaskálunum, t.d. hvað varðar klósett með rennandi vatni, helst heita potta og ýmsa þjónustu aðra að maður tali nú ekki um sjoppur! Auðvitað eru slíkir þættir líklegir til að gera staðina aðlaðandi en þetta kostar peninga og kröfugerðaraðilar eru ekki ætíð tilbúnir til að greiða fyrir þjónustuna. Ferðafélög af öllu tagi hafa ekki mikla fjármuni úr að spila, hvorki til fjárfestinga né reksturs og nú er svo komið, að venjulegar fjáröflunarleiðir t.d. félaga innan FÍ duga hvergi nærri til rekstrarkostnaðar, ekki síst þar sem í auknum mæli þarf að kaupa út vinnu til viðhalds og endurnýjunar.
Nóg bullað hjá mér í bili, en ég skora á ykkur hin að ræða málið.
kv.
ólsarinn.
25.09.2003 at 14:37 #476886Heyr!
20.09.2003 at 08:49 #476610Þakka þér ágætan pistil, Vals. Ég sé að við erum að tala sama málið, ef svo má segja. Tek undir þetta sem þú segir um afgasið, var reyndar sjálfur að reyna að koma þessu sama á framfæri einhversstaðar í þessu samhengi. Varðandi þetta svokallaða Hi-Clone eða hvað það nú heitir, þá var búið á þessum vettvangi að tengja við ágæta umfjöllun ættaða frá USA um þessi efni, þar sem þetta var allt saman hrakið út í hafsauga á vísindalegan hátt, ásamt nokkrum fleiri svona gullgerðarlistum. Mér sýnist þetta komið á trúarbragðastigið og nenni ekki að taka þátt í umræðu um það.
Bara vegna þess að þú getur um að þú vitir ekki hver ég er, þá hefur það aldrei verið neitt leyndarmál að ég heiti Guðbr. Þorkell Guðbrandsson, er fæddur og uppalinn þorpari frá Ólafsvík og kenni mig alltaf við þann stað, þótt ég hafi ekki átt þar heima nema til tvítugs, en ég er núna kominn á sjötugsaldurinn og líklega með þeim eldri sem eru að skrifa á þennan skemmtilega vettvang. En jeppadellan hefur fylgt mér frá því ég var unglingur og batnar sem betur fer ekki. Varð félagi í 4×4 Rvík á sínum tíma, fékk þar númerið 650, og held því enn, en átti þátt í stofnun deildar hér á Sauðárkróki, þar sem ég bý nú. En fjalla- og jeppadellan gengur í ættir, það kannast margir við dætur mínar, sem heita Jóna Bryndís, gift Árna Páli Árnasyni, bifv.virkja, einum af fv. form. 4×4 og hin heitir Harpa Lind og er gift Grími Sigurjónssyni, rekstrarfræðingi, en þau voru í tvö ár veðurathuganamenn á Hveravöllum og hafa verið í afleysingum þar flest sumur síðan. Það er sumsé talað um fjallaferðir og jeppa í fjölskylduboðum og lítið annað!
19.09.2003 at 20:10 #476606Heyrðu hérna Vals, nota Reykvíkingar ekki vegina nokkurn veginn í réttu hlutfalli við mannfjölda líka? Hvernig fara menn t.d. í sumarbústaðina sína uppi í Borgarfirði og austur í Grímsnesi, hvaða leiðir fara menn í gæs og rjúpu (þegar veiði á henni var leyfð) nú eða í laxinn, í sumarfrí og lifa ekki nokkuð margir á höfuðborgarsvæðinu á því að selja okkur dreifurunum sitt lítið af hvoru og nota vegina til að flytja það og svo má lengi telja. Annars eigum við ekki að festa okkur í þessari vitleysu. Við höfum satt að segja ekki efni á því að egna saman þéttbýli og dreifbýli. Þetta er nú ekki svo stórt land að maður tali nú ekki um mannfjöldann; mér dettur í hug ameríkani, sem ég hitti í fyrra, en hann orðaði það svo að "one can´t call you a nation, you are more like að tribe" og það er nú líklega tilfellið. Reyndar átti hvorugur okkar upptökin að þessu, enda á ég öll mín börn og barnabörn í Reykjavík og vil veg hennar því sem mestan.
kv.
19.09.2003 at 14:05 #476596Eiginlega ætti ég sem dieselkall ekki að hafa orð á þessu, en í ameríku, þar sem allt er stærst og best (að þeirra sögn) er mengun einna verst í Kaliforniu. Þar er þeim meinilla við dieselvélar og vegna þess að þær spúa úr sér sótögnum í margfalt meira mæli en bensínvélar, og þessar sótagnir segja þeir krabbameinsvaldandi. Mengun frá bensínvélum hefur minnkað mikið með tilkomu hvarfakútanna (catalytic converters) Samkvæmt þessu er landsbyggðin beinlínis krabbameinsvaldandi með alla flutningabílana og fiskiskipaflotann! Annars er það alveg rétt hjá "Arnari" að þungaskatturinn getur orðið landsbyggðarskattur, ekki síst ef það verður úr, sem manni skilst að sé í frumvarpinu, að 10 kr. sérskattur verði lagður á þunga kg flutningabifreiða, annarra en fólksflutningabifreiða. En varðandi ríkisvegi í þéttbýli, þá er Vesturlandsvegur, Kringlumýrarbraut, Miklabraut, Hringbraut og Reykjanesbraut, svo dæmi séu tekin, þjóðvegir í þéttbýli og því eru þeir og umferðarmannvirki sem þeim tilheyra greidd af vegafé að mestu. Aðrar götur eru svo mál sveitarfélagsins, en þetta gildir líka hér á Sauðárkróki og öðrum krummaskuðum á landsbyggðinni. Þarna er því engin mismunun í gangi. Þungaflutningar um þjóðvegina stafa af því að flestum vörum er skipað um Reykjavíkurhöfn, bæði út og inn og því má segja að þar séu allar okkar vörur skattlagðar í sjóði Reykvíkinga, ef maður vill vera verulega illkvittinn! En svona í alvöru talað, þá er þjóðhagsleg hagkvæmni án efa í því fólgin að dieselbílar séu meira notaðir en bensíntíkur, því dieselvélarnar eru svo miklu nýtnari á eldsneyti og því fara færri lítrar í hvern farþegakílómetra hjá þeim. Það skiptir líklega mestu.
19.09.2003 at 10:43 #476556Ég held þarna sé smá misskilningur í gangi. Lærðir vélstjórar, sem eru hér á Íslandi með MJÖG góða menntun (nánast tæknifræðingar) kalla AFGAS útblástursloftið frá vélinni, hverju svo sem hún brennir. Theoretiskt er allt loft gas. Hitt er svo annað mál, að afgangshiti er í sjálfu sér ekki órökrétt hugtak. En þetta orð, afgashiti, er bara hrá þýðing á enska heitinu "Exhaust Gas Temperature".
19.09.2003 at 10:34 #476492Einn ágætur vélstjóri sagði mér, að millikælirinn breytti ekki svo miklu með afgashitann, tilgangurinn væri fyrst og fremst sá að hafa fleiri súrefnissamsætur í hverri rúmtakseiningu af lofti, sem inn á vélina færi. Það þýddi einfaldlega betri nýtingu á eldsneytinu. Hinsvegar sagði hann mér, að það væri gott mál að setja EGT mæli á afgasið, svona eins og er í flugvélum með bensínhreyfli (bulluhreyfli) og þeir þekkja sem hafa lært flug. Hann sýnir afgashitann, (Exhaust Gas Temperature) og í flugvélinni reynir maður að fá hann sem hagstæðastan með stillingu á styrk eldsneytisblöndunnar. Það er nú yfirleitt ekki hægt í dieselvélunum, en maður getur hinsvegar haft hemil á álaginu á vélina. Mælirinn gerir því fyrst og fremst gagn í að hjálpa manni til að ofbjóða henni ekki. En varðandi túrbínur, þá setti ég á sínum tíma við 2,8 Toy Hi-lux vélina ARB túrbínu með lágum þrýstingi, sem kom inn nánast strax og það var ekkert "turbine-lag" á þeirri vél. Hún hefur reynst vel, því ég hef frétt að það sé ekkert farið að hreyfa við þeirri vél enn og búið að aka bílnum um 500.000 km að mér er sagt. Þekki reyndar ekki til núverandi eiganda og hef þetta eftir millilið. Millikælirinn í þeim bíl var hinsvegar úr Iveco og kannski full stór. Það var ekki laust við að honum hætti til að "svelta" kælikerfið ef farið var hægt og t.d. vindurinn í bakið. Það lagaðist hinsvegar þegar Oddgeir, sem keypti af mér, tvöfaldaði vatnskassann.
19.09.2003 at 10:18 #476586Ég er nú búinn að aka svo lengi í þungaskattskerfinu að maður kann ekkert annað. Hvorumegin hryggjar sem réttlætið liggur, þá minnist ég hinsvegar útvarpsviðtals við einhvern náunga úr tekjudeild fjármálaráðuneytisins um það leyti sem fyrra frumvarpið var lagt fram (þetta sem dagaði uppi), og sá vildi meina, að þegar þungaskattur yrði felldur inn í olíulítrann, þá yrði (svo vitnað sé beint í hans orð) "..að hafa gjaldið það hátt, að verðið á olíulítranum yrði alltaf jafnhátt og bensínlítrinn, því það er auðvitað engin sanngirni í því gagnvart þeim, sem vilja fremur aka á bílum með bensínvél að hafa þarna mismun á. Eigendur dieselvélanna eiga ekki rétt á að njóta hagræðis í formi ódýrara eldsneytis til viðbotar því hagræði sem felst í sparneytni dieselvélanna" og fréttamaðurinn samþykkti náttúrulega þetta um leið, alveg andaktugur enda báðir opinberir starfsmenn!
17.09.2003 at 19:54 #476474Þessar áætlanir um flutning Skjálfandafljóts, eða öllu heldur upptakakvísla þess, eru ekki þær einu, sem LV hefur haft á prjónunum. Meðal annars eru þeir að ég held með leyfi frá því fyrir lögin um mat á umhverfisáhrifum um að flytja s.n. Jökulsá vestri, sem fellur hér ofan í Skagafjörð, vestur um Eyvindarstaðaheiði og í Blöndulónið. Hina Jökulsána, þá austari,(eins og þeir segja hér) voru þeir búnir að ætla sér að flytja suður yfir og í Þjórsá, til að auka vatnsmegin hennar og afkastagetu. Þetta var bara til á einhverjum teikniborðum það best ég veit. Hinsvegar var búið að frumhanna tvær virkjanir í þessum sprænum hér ofan í byggð, aðra kennda við Villinganes og er fremur lítil virkjun, en hina ofar, kennda við Skatastaði, og til muna stærri. Þá voru þeir aftur á móti með hugmyndir um að flytja vestari ána í miðlunarlón Skatastaðavirkjunar. Íslendingar eru nefnilega svo stórhuga, eða þannig!
10.09.2003 at 18:38 #476232Það er held ég engin spurning, klafarnir eru MIKLU betra iron þegar verið er að nota jeppana sem JEPPA en ekki einhverjar andskotans drossíur. Og þegar þeir eru nú komnir með klafa að aftan líka, já, mér er sama þótt okkar ágæti Björn Þorri móðgist, – það getur aldrei orðið alvöru jeppi. En ameríska dótið er nú alltaf sterkast og best. Dana 60 aftan og framan, það er eitthvað sem mér þykir traustvekjandi. NP205 og 203 tengdir saman til að fá low-low gearing og svo ekki lægri hlutföll en 1:4,63 eða eitthvað í líkingu við það. Mig dreymir dag og nótt um F250 með 6,0 Power Stroke o.s.frv., o.s.frv. …………….
10.09.2003 at 18:31 #476332Kemur því miður ekki á óvart. Enda mun fyrirtækið vera í greiðslustöðvun. – Þekki því miður nokkur dæmi um hreinan dónaskap frá þessum manni, Runólfur Oddsson, held ég hann heiti (hálfbróðir þekkts manns með sama föðurnafni)
08.09.2003 at 21:23 #476082Nú veit maður ekki hvort einhverjir sem hér skrifa eru sjálfir fagmenn. Manni sýnist að minnsta kosti sumir hafa notadrjúga þekkingu í bílarafmagni. En frá sjónarhóli þess sem lítið kann annað en reynsluna er boðskapurinn sára einfaldur. Það er betra að láta góðan fagmann vinna verkið en vera með eitthvert fúsk í rafkerfinu, þótt það kosti eitthvað meira. Það er of oft búið að kvikna í bílum fyrir utan annarskonar vandræði út af lélegum frágangi á rafleiðslum að aukabúnaði. Því eru það mín ráð ef menn eru ekki því betur að sér í þessu: verslið þið við Inga í Aukaraf þótt það kosti eitthvað. Hans búnaður er þrautreyndur og virkar. Punktur.
08.09.2003 at 21:16 #476154Þeir félagar í Þvert Á Leið voru inni á stóra skafli um helgina, fóru upp úr Vonarskarði (of all places) og á Grímsfjall og kíktu líka í Kverkfjöll. Snjóaði ágætlega á þá eftir því sem mér skilst. Efnilegt.
08.09.2003 at 08:15 #476110Hvernig er það, er ekki einhver búinn að setja 36" eða 38" undir XL7 Vitara? Engan þekki ég sem ekki viðurkennir að Súkkurnar eru afbragðs bílar, bila lítið og eru ódýrir í rekstri. Mörgum hefur bara þótt þeir of litlir til þessa, en XL7 bíllinn er þægileg stærð og sennilega hæfilega þungur. Maður hefur líka heyrt að hann sé væntanlegur með dieselrokk í haust eða vetur. Svo er verðið ekki að fæla menn frá. Er satt að segja að horfa alvarlega á þennan kost þegar diesel vélin er komin til skjalanna, því það er nú með mig eins og B.Rich. að ég geng bara á diesel fuel!
kv.
ólsarinn.
08.09.2003 at 08:09 #192849Aftan á októberhefti Four Wheeler er Nitto að auglýsa nýjan fjölskyldumeðlim í Grappler – seríunni og heitir sá Mud Grappler. Ansi sterklegt dekk að sjá á mynd. Er ekki einhver umboðsaðili fyrir Nitto ennþá hér á landi? Man að fyrir nokkrum árum – kannski áratugum (!) – voru Nitto talsvert keypt undir vörubíla og líkuðu vel. Er ekki einhver af oss sem veit meira um þetta?
kv. ólsarinn.
31.08.2003 at 22:01 #475952Eins og "ofsi" minntist á, þá settu björgunarsveitirnar hérna á Norðurlandi vestra upp þessi umræddu skilti fyrir allmörgum árum. Minn hlutur í þessu var nú fyrst og fremst í undirbúningsvinnu, fá hæft fólk til að semja texta o.s.frv. Skiltin hafa greinilega ekki dugað þarna. Núna á mánudaginn í verslunarmannahelgi skrapp ég (einn) upp í Ingólfsskála og þá var þar vænn hópur Hollendinga, ég held þau hafi sagst vera 27 talsins á 9 Land Rover bílum, og í sjálfu sér ágætlega vel búið fólk til fjallaferða hvað klæðnað snerti og annan persónulegan búnað. Skálakvíslin var snarvitlaus eins og hún er búin að vera í allt sumar. Þau höfðu samt reynt við hana, tveir bílar komust yfir en sá þriðji stoppaði í miðri á. Sem betur fer höfðu þau haft vit á að hafa tóg á milli bíla og gátu dregið hann til sama lands. Ég kíkti aðeins ofan í vélarsalinn á þessum LR sem strandaði í ánni og mín litla vélfræðiþekking sagði mér að hann hefði tekið inn á sig vatn (var ekki með snorkel) og eyðilagt vélina. Hún gekk allavega ekki. Hópurinn vildi sem minnst við mig tala og þótt ég byði þeim upp á að hafa samband við Land Rover menn sem ég þekki til, þá var það eins og að tala við grjótið í Lambahrauninu, í þeirra augum var ekki til neitt alvöru Land Rover verkstæði á Íslandi, en hinsvegar vissu þau af manni í Reykjavík, sem hefði einhvern aðgang að varahlutum. Mér var sagt að vera ekki að skipta mér af því sem mér kæmi ekki við, enda vissum við Íslendingar ekkert um vélar og bíla og allra síst Land Rover. Ég spurði þau hverskonar fjarskipti þau hefðu og jú, þau voru með CB stöðvar í öllum bílunum. Ég var kominn í minn local-patriot húmor og sagði þeim að við hér á landi teldum þær ágætis leikföng handa krökkum en til annars væru CB stöðvar ekki nýtar. Þeir horfðu á mig með fyrirlitningu og einn sagði um leið og hann sneri í mig óæðri endanum "Icelanders have not heard of Marconi yet" og hinum fannst þetta góður brandari. Þá fór ég, en minnti þá á að þeim bæri að greiða fyrir afnot af skálanum. Þá var fyrst hlegið hátt! En bílarnir tveir, sem drusluðust yfir, voru á leiðinni upp í Austari – Krókinn, meðfram kvíslinni og stefndu upp á jökul. Af þessu liði hef ég ekki frétt síðan, en líklega hafa þau einhvern veginn komist yfir og niður til byggða.
kveðja
ólsarinn.
-
AuthorReplies