Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
14.12.2009 at 17:29 #671560
Ég verð nú að segja alveg eins og er, að fyrst Guðni Sveinsson er farinn að taka sjálfskiptan fram yfir beinskiptan, þá finnst mér ástæða til að hlusta á svoleiðis reynslubolta. Ég hef reyndar aldrei prófað sjálfur að vera á sjálfskiptum bíl í alvöru snjófæri, en mér hefur sýnst að þeir sem eru þokkalega lagnir að aka, nái fljótt upp tækni til þess að rugga bílum úr festum, þótt sjálfskiptir séu. En auðvitað þurfa skiptingarnar að vera nægilega sterkar fyrir þau átök, sem við erum að bjóða bílum upp á og kælingu þarf að mér skilst oftast að endurbæta fyrir stækkuð dekk og akstur í alvöru snjó.
08.12.2009 at 17:30 #670450Ég man ekki betur en einhverjir í Heklu hafi sagt mér, að Toyota hafi á sínum tíma gert samsetningarsamning við VW um þessa upptíninga (pick-up) og það hafi verið innifalið í samningnum að VW fengi að setja slatta á markað í Þýskalandi (hlýtur að hafa verið EU?) undir merkinu Taro. En þeir hafi eingöngu verið án framdrifs, þ.e. bara afturhjóladrifnir. Ég ætla nú ekki að fara að fullyrða að þetta sé rétt, en ég fór að spyrja einhvern þarna á Laugavegi 172 um hvort þeir vissu af hverju að það væru áletranir á þýsku og jafnvel með VW merki á fjöldamörgum componentum í HiLuxinum sem ég átti þá. Þá fullyrtu þeir að hann væri settur saman í Þýskalandi hjá VW, reyndar ekki í Wolfsburg heldur einhverri annarri fabrikku og þessi saga fylgdi með. Reyndar fylgdi sögunni einnig, að eingöngu Double-Cab bílarnir væru settir saman í Þýskalandi, Xtra-Cab bílarnir væru settir saman í Portúgal. Þannig að sé þetta rétt, þá hafa þeir kumpánar VW og Toy verið að digga saman nokkuð lengi, því HiLuxinn minn var árgerð 1989. En ég var að velta fyrir mér hinsvegar lýsingunni á þessum nýja VW pick-up, það er verið að tala um hann sem 1 tonns bíl upp á amerísku, þýðir það að þetta sé ámóta stór bíll og Toyota Tundra og Ford F150?
06.12.2009 at 16:26 #670348Held að þessu sé alveg öfugt farið. Butane-gasið, eins og er yfirleitt í litlu kútunum, svona eins og t.d. Primus og Camping-gaz svo dæmi sé tekið, er alveg vonlaust að nota í frosti. Gasið í t.d. 9 kg og 11 kg kútunum, eins og t.d. er notað við útigrillin, er propane-gas og maður hefur áratuga reynslu fyrir því að það er hægt að nota það í frosti. Já, Kosan-gas er gamalt vörumerki, sem er hætt að nota það best ég veit, en ég nafngreindi það vegna þess að margir kalla enn gas í 11 kg kútunum Kosan-gas.Því setti ég það þarna innan sviga til skýringar.
06.12.2009 at 12:57 #670352Þessir frábæru bílar eru það þungir, að ef þú ætlar að fljóta ofan á einhverjum snjó án þess að vera í stöðugu basli (og mögulegum skemmdum á bílnum), þá þarftu áreiðanlega að vera á 44" – En þú ert öfundsverður af því að eiga svona bíl, líklega hefur verkfræðingum í bílaiðnaði ekki oft tekist jafn vel upp við hönnun eins og þegar LC 100 varð til.
06.12.2009 at 12:54 #670344Sko, það á að vera í lagi með propane-gas (kosangas) þótt frostið sé talsvert.
19.11.2009 at 18:06 #667362Bíðum nú við, það er að vísu svolítið ferkantað á mér höfuðið og ég er oftast lengi að skilja, en ef það er einhver titringur í bílnum hjá þér þegar hann er kyrrstæður, þá þyrfti maður að fá meira að vita – er þetta þá titringur frá vélinni – please???
16.11.2009 at 16:50 #666650http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1519
Eruð þið einhver ykkar búin að skoða þetta og mynda ykkur skoðun á málinu?
01.11.2009 at 08:07 #487100Hitakertin í Pajero 2,8 endast ekki vel í snatti, það er satt. Lýsingin á gangsetningarvandamálum hér að ofan bendir eindregið til þess að eitt eða fleiri kerti séu að fúska. Mín reynsla segir mér líka að kaupa kertin í Heklu, þótt þau séu dýrari, þau einfaldlega passa og endast betur. – Varðandi breytingar á Pajero, þá er hann Rúnar M. Jónsson, sem í mörg ár var helsti Pajero-sérfræðingur Heklu, hér norður á Sauðárkróki núna og það á að vera hægt að ná í hann í síma 455 4574 – Rúnar er einn af aðal mönnunum í 4×4 deildinni hérna og það sem hann ekki veit um Pajero, er ekki þess virði að vita það. Hann er sjálfur á 2,8 Pajero og er með hann á 44" og breytti honum sjálfur – að sjálfsögðu. Ef ég ætti 2,8 Pajero og hefði í hyggju að breyta honum, myndi ég reyna að fá 3,2 vél á einhverri partasölu til að setja í hann, ég held hún komist fyrir ef bíllinn er bodyhækkaður. Pajero með nýja bodyinu held ég að ég myndi ekki reyna að breyta, fjaðrabúnaðurinn að aftan þolir það ekki frekar en að draga hestakerrur!
31.10.2009 at 20:25 #664498Til hamingju félagi! Það er ekki oft sem maður er jafn ánægður með sambærilegar tilnefningar og þessa.
31.10.2009 at 15:16 #664340Ef þið eruð í alvöru að pæla í Volvo með Zenith carburetor og fá hann til að ganga eðlilega, þá veit ég að Árni Hrafn Árnason á Eldshöfða 15 veit allt um þessar vélar og margreyndur í að temja þær.
30.10.2009 at 20:00 #664326Ég veit lítið um Suzuki, alltof lítið. En mér er spurn; passar ekki V6 vélin frá Suzuki, sem er t.d. í Vitara við kúplingshúsið á þessum bíl?
24.10.2009 at 21:13 #663590Ég er nú svo déskoti illa að mér, að ég þekki ekkert inn á mismunandi gerðir af Xenon ljósum. Við erum með bíl hér á heimilinu af árgerð 2008, sem kom með xenon í lágu ljósunum, og okkur finnst þessi ljós gefa afar góða birtu, ekki síst í dimmviðri. En hvaða typa þetta er af Xenon hef ég enga hugmynd um 😮
Nú er verið að auglýsa Philips Quartz Halogen perur. Hafa einhverjir þekkingu og skoðun á þeim perum?PS: Hef notað og þekki þessi tveggja geisla aukaljós, sem B.Rich. er að tala um. En maður má víst ekki nota þau úti á vegum, nema maður sé á flutningabíl!!
14.10.2009 at 05:08 #661952Einhverntíma var til í gamla Bílanausti efni á þrýstibrúsum, sem ég hreinlega man ekki hvað var kallað, og var ætlað til þess að bjarga sér ef slöngulaus dekk yrðu loftlaus. Menn voru hinsvegar ekki allir sammála um hvaða áhrif þetta efni hefði á dekkin til langframa, en ef dekkin eru orðin léleg allavega, er líklega ekki miklu hætt. Því miður er ég búinn að gleyma hvað þetta efni hét, minnir að brúsarnir hafi verið hvítir og slanga á þeim með búnaði til að skrúfa hana upp á ventilinn. Ef ég man rétt var efni þetta frekar dýrt.
13.10.2009 at 18:08 #661776Ekki veit ég til þess að það sé nokkurt svar af viti til við þessari spurningu. Þarna þarf samhliða að gera sér grein fyrir allmörgum forsendum. Í fyrsta lagi vitum við aldrei fyrirfram hvernig veðráttan verður hvern vetur að hausti. Í öðru lagi skiptir máli hvar maður býr á landinu. Í þriðja lagi þarf að liggja fyrir hvernig viðkomandi bíll verður notaður og svo framvegis. Þess utan er það nú víst þannig, hvað sem okkur kann að finnast um það, að þótt við finnum dekkjagerð (nagladekk þar með talin) sem hentar okkur að meðaltali best, þá koma alltaf og alstaðar upp aðstæður, þar sem það getur skipt sköpum hvaða og hvernig dekk eru undir bílnum, þ.e.a.s. þá einhver önnur er í raun eru.
10.10.2009 at 17:18 #661316Hérna í eina tíð var til siðs að geta komið loftinntakinu þannig fyrir, að það gæti t.d. í stórhríðum tekið loft innan úr farþegarými bílsins. En það þýddi hinsvegar bölvaðan hávaða. Líklega vita nú flestir 4×4 félagar hversu alvarlegt mál að fá vatn inn á vél í gegn um loftinntak, svo ég ræði það ekki frekar. Síðast þegar ég sá bíl, sem lent hafði í þessu, var um að ræða LandRover Defender (svona eins og Heimsveldið hans Skúla Skúla) í eigum einhverra Hollendinga, sem hafði ekið út í kvíslina vestan við Ingólfsskála eitt sumarið þegar hún var í flóði. Blokkin hafði brotnað svo rækilega í látunum að stimplarnir lágu úti! Kannski má ég bæta við hér, úr því ég er farinn að tala um þessa kvísl, að það hendir að í hana koma hlaupskot, sem ég veit ekki af hverju stafa, gæti verið vegna þess að bræðsluvatn frá jarðhitasvæði undir jöklinum safnaðist saman og hlypi svo út við einhver tiltekin skilyrði, en það er oft brennisteinsfnykur af kvíslinni þegar þetta gerist. Hvað um það, þessi litla og oft sakleysislega kvísl getur sem sagt stundum verið bölvaður farartálmi.
10.10.2009 at 17:09 #661328Karl, mig minnir að hægt sé að nálgast þessa reglugerð á heimasíðu Umferðarstofu, us.is
30.09.2009 at 20:48 #658968Þetta hefur verið góður túr, það er augljóst. Þeir mega nú ekki vera alltof auðveldir. Minnisstæðustu ferðirnar eru síst þær þegar allt gekk smurt! – Að lokum, ég þakkaði þér víst aldrei fyrir, Skúli minn, að bjóða mér sæti í heimsveldinu. Ég var því miður búinn að lofa að gera annað þessa daga, en mikið djö…. langaði mig!
27.09.2009 at 09:29 #656344http://www.visir.is/article/20090926/FR … 7539725/-1
Var að lesa þessa frétt, sem að vísu er ekki mjög skýr. Það er svo sem óljóst hvað forsætisráðfrúin er að fara, þegar hún talar um orkuskatta. En í mínum huga er enginn vafi að meðal þess, sem verður skattlagt enn meira, er eldsneyti á bíla eða akstur og notkun þeirra með einhverjum hætti. Spurningin er kannski hvaða leið verður farin til þess. Fjórhjóladrifsskattur mun þegar vera til í Noregi, eftir því sem manni er sagt, og gæti jafnvel verið í Svíþjóð. Ég held að við ættum að vera í startholunum og fylgjast vel með.
25.09.2009 at 19:55 #658632Það er orðið déskoti lítið gagn af þessum radarvörum, segja menn mér. Því minna gagn sem umferðin er minni. En mig langar til að benda mönnum á annað. Góður kunningi minn sagði mér að yrði ég tekinn – sem ég hef sloppið við enn allavega – og ég væri ekki sáttur við mælinguna, að krefjast þess að fá að sjá klukkan hvað hraðinn hefði verið læstur inn. Það er víst ekki dæmalaust að sama hraðalæsingin sé notuð til að sekta nokkra bíla í röð. Ekki sel ég þetta dýrara en ég keypti, en ástæðulaust annað en hafa þetta í huga. Ég allavega hef hugsað mér að hafa þetta í huga, því ég er svo dæmalaus þverhaus að í mínum huga eru reglur til þess að fara eftir þeim.
19.09.2009 at 15:05 #657990Þetta er greinilega verk spunameistaranna. Koma kostnaði og fyrirhöfn yfir á sveitarfélögin og yppta síðan öxlum og segja:"það þýðir ekkert að tala við mig". Maður óttast að brátt komi að því að málum verði þannig fyrir komið, að aðeins verði leyfð umferð á tilteknum vegum eins og Kjalvegi, Sprengisandsleið, nyrðri Fjallabaknum og Öskjuleið frá Mývatnsöræfum. Kynntist þessu viðhorfi mætavel á þeim árum þegar ég sat í nefnd um Svæðisskipulag Miðhálendisins. Tilteknir aðilar voru sannfærðir um að ekki ætti að leyfa ökutækjum að fara um aðrar leiðir en þær, sem hvaða bíll sem væri kæmist. Enginn ætti að hafa rétt á að fara tilteknar leiðir á þeirri forsendu að hann væri á öflugra ökutæki en hinn. Síðustu daga hefur maður einmitt orðið var við að hafinn ere sterkur áróður fyrir þessu. Eingöngu verði leyfð umferð um fáa vegi og þeir malbikaðir. Nema náttúrulega þá og þegar Landsvirkjun eða ámóta aðilum þóknaðist að drulla niður virkjun ofan í einhverri náttúruperlu.
-
AuthorReplies