Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
29.12.2003 at 19:52 #482912
Sælt veri fólkið og til hamingju með snjóinn, sem virðist hafa komið fyrir sunnan um leið og ég fór úr mannabyggðum með Kertasníki. Nú, en hvað spotta varðar, þá er ein meginregla, sem ég hef lært af langri reynslu en það er að hafa ALDREI neitt úr málmi á endunum á spottunum nema það sé boltað eða soðið fast í bílinn. Krókar og keðjulásar og jafnvel keðjuspottar eru beinlínis ávísun á slys, því miður. Það er nógu mikill kraftur í spotta sem slitnar eða losnar í þeim miklu átökum, sem fylgja því að "kippa í bíl" til að klippa menn í sundur, bókstaflega tala, brjóta og bramla dauða hluti o.s.frv., þótt ekki sé verið að auka við tjónahættuna með slíku dóti. Hinsvegar er mér orðið meinilla við að toga í bíla sem eru fastir, ég er búinn að fá út úr því brotin drif, brotin gírkassahjól og þar fram eftir götunum. Svo eru það nú blessuð spilin, þótt þau geti verið sannur bjargvættur. Nokkuð margar framfjaðrir fóru hjá manni í slíkum tilvikum. Þetta var þó eingöngu þegar maður var að draga aðra. Jæja, en teygjuspottarnir eru hrein galdratæki og eitthvað það áhrifaríkasta sem maður hefur kynnst við að kippa upp föstum bílum, einkum í krapa. Það verður þó að hafa í huga, að þeir þola ekki teygjuna nema í fá skipti, þá er hún einfaldlega búin. En spottar eru ekki sérlega dýrir, nema maður farí í Dynex. Betra að hafa frekar fleirri en færri. 12 – 20 metra hvert stykki takk. Splæsa á þá lykkjur, a.m.k. í annan endann. Læra svo að hnýta pelastikk og vera fljótur að því!
29.12.2003 at 07:00 #482864Stefán heitir maður og er Jónsson, GSM 894 6233, vélvirki bæði að profession og Guðs náð, fyrrv. form. Skagafjarðardeildar 4×4. Hann er búinn að vera með þessi tæki í höndunum svo árum skiptir, endurbyggja og betrumbæta og ég held að það sem hann veit ekki um þessar vélar sé alls ekki þess virði að vita það. Prófaðu að bjalla í manninn, þetta er öðlingsmaður og viðræðugóður og kann ráð við flestu.
kv.
23.12.2003 at 06:30 #482684Skemmtilegt hjá þér. Það er bara þessi spurning sem velt hefur verið upp hér á spjallþráðunum áður með notkunina á "jeep". Þeir eru víst eitthvað viðkvæmir fyrir því að nota það um aðrar tegundir en "jeep" þarna í ammríkunni, þótt við hér á skerinu notum það sem samheiti, svona svipað og þeir nota SUV. En þetta er auðvitað nokkuð sem þú ræður sjálfur, þetta er þín síða.
23.12.2003 at 06:22 #482670Rosalega kunnið þið mikið í tölvugöldrum félagar!
En, hvað sem því líður:Gleðileg jól, öll saman, félagar góðir, þakka skemmtilegt spjall á árinu 2004 og vonandi verður 2004 gott og farsælt ferðaár hjá okkur öllum með hæfilega miklum og góðum snjó!!!
Jólakveðjur úr Skagafirðinum
(Fer ekki til byggða fyrr en seinna í dag! Verð samferða Kertasníki í bæinn).
22.12.2003 at 18:42 #482672Eitthvað hefur klikkað þarna, svo fann ég þetta ekki á myndasíðunni þinni. Any comments?
22.12.2003 at 14:33 #193324Eiginlega er ekkert frekara sem þarf að segja. Satt að segja finnst manni eitthvað mikið vanta í daignn ef maður kemst ekki inn á síðuna. Ég segi nú bara fyrir mig, hreinræktaðan dreifara, að maður er bara alltaf að læra hérna á spjallinu og mér er alvara með það. Innan hópsins eru nefnilega menn, sem eru búnir að prófa svo margt, lesa sig til og kanna „hina ýmsustu hluti“ svo maður sletti akureyrsku, að það er hægt að fræðast um flest er þessu sporti viðkemur með því að bera sig eftir því hér á spjallinu. Maður er mjög þakklátur þeim sem vita og þekkja þegar þeir miðla af sínum fróðleik til okkar hinna, sem minna vitum. Enn og aftur, mikið líður manni vel þegar spjallið er komið í lag.
12.12.2003 at 07:14 #482584Varðandi vélar í Toy, hefurðu talað við hann Hlöðver í Japönskum Vélum? Þetta er pottþéttur maður og ágætur í samskiptum.
11.12.2003 at 20:28 #482554Nú er mér ljóst að það er annað að halda en vita. Mig uggir samt, að til þess að geta nýtt þessa auknu nákvæmni þurfi aðgang að einhverri tiltekinni tækni og grunar mann að slíkt fáist ekki ókeypis ef það er á vegum EU. Væntanlega er gjald fyrir tæki og afnot annarskonar momentum í flugrekstri í atvinnuskyni en skemmtiferðum á torfærubifreiðum. En það verður gaman og fróðlegt að fylgjast með framvindunni.
11.12.2003 at 14:37 #468524Vona að það verði ekki tekið illa upp, en ég leyfði mér að copy/paste allann þennan þráð og vista hjá mér, því þetta er orðinn þvílíkur gagnabanki um túrbínur og tilheyrandi að það hálfa væri nóg. Flott að hafa þetta svona á einum stað í Q/A stíl. Takk fyrir fróðleiksmenn og ég meina það!
10.12.2003 at 16:32 #482396Jæja, það var gaman að sjá rafvirkja lesa þessa pósta!
Satt best að segja er líklega best að vera með hvorttveggja, voltmæli og ampermæli. Það getur svo margt orðið til þess að alternator (rafali) hætti að framleiða rafmagnm stundum þarf ekki annað en bleytu og/eða ís á reiminni eða þá að hún sé of slök. Reyndar láta þær nú oftast í sér heyra þegar þær eru orðnar slakar og slitnar. En ampermælirinn sýnir þér hvort rafalinn er að framleiða orku inn á kerfið eða ekki. Ef hleðslan er mikil og viðvarandi getur það þýtt að geymarnir séu orðnir lélegir og taki endalaust við EÐA að hleðslustillirinn sé orðinn ónýtur og setji alltaf hleðslu inn á geymana, óháð stöðu þeirra og það eyðileggur þá á mjög skömmum tíma. Ofhleðsla er nefnilega mjög slæm fyrir geymana. Voltmælirinn segir þér hinsvegar til um spennuna á kerfinu. Ef kerfið er í lagi á spennan ekki að fara mikið yfir 13,7 – 13,8 volt þegar vélin gengur nægilega hratt til að alternatorinn hlaði. Ef vélin er hinsvegar ekki í gangi, á spennan helst ekki að fara niður fyrir 12,4 volt og ef hún fer niður fyrir 12 voltin eru geymarnir annað hvort að verða tómir eða ónýtir nema hvorttveggja sé. Rafkerfið þarf sumsé helst að vera í jafnvægi, þá er allt í góðum gír. Hinsvegar þurfum við að muna það sem mósi segir, að oflesta ekki kerfið. Sumir hafa afskaplega mikinn metnað fyrir að hafa kastara með stórum perum og láta helst loga á þeim öllum í einu. Það þarf öflugt kerfi til að ráða við tvo 210W kastara á toppnum, tvo 130W kastar á stuðaragrindinni plús svo tvö venjuleg háljós á 100W stykkið. Svo bætast kannski við á nýjustu bílunum lágljósin, sem loga með háljósunum og fleira og fleira. Nefni nú ekki gömlu Gufunesstöðvarnar, sem tóku afspyrnu mikinn straum í sendingu.
Nóg í bili.
kv.
10.12.2003 at 16:16 #482472Hefurðu prófað að fara inn í Part við Eldshöfðann og tala við hann Viðar?
09.12.2003 at 07:00 #482286Þessir geymar hjá Stillingu heita Delphi og er arftaki gamla Delco, sem var dótturfyrirtæki General Motors en þeir seldu á einhverjum blankheitatíma til að sættast við bankana sína. Það eru tveir aðilar að flytja þessa geyma inn, þ.e. Stilling og Bílabúð KS hér á Króknum. Þeir fást líka í Parti á Eldshöfðanum. Ég hef góða reynslu af þessum geymum, bæði í bíl og bát.
kv.
07.12.2003 at 18:58 #482198Það er nú kannski ekki viðeigandi í þessu samhengi að nefna þennan nýja Nissan Titan, sem er verið að marketera í USA núna. Þetta virðist vera bíl á stærð við F150, en fékk betri dóma hjá Four Wheeler en Fordinn og var kjörinn picku-up truck ársins 2004. Toyota Tundra var í þriðja sæti.
07.12.2003 at 18:52 #482180Svo ég bæti nú við það sem SkúliH er að benda á, þá höfum við flestir sem höfum langan feril að baki lent í því, a.m.k. í lengri ferðum, að veður hefur breyst, oftast ófyrirséð, meðan á ferð stendur. Þá getur maður í stöku tilviki lent í því að þurfa að koma sér á slóðir og troðninga með því að aka á snjólausu landi. Menn geta nú líka lent í slíku á mottunum og líklega mun algengara. Það er nú svo merkilegt með þær, að ef þeim er á annað borð ekið á auðu, að maður tali nú ekki um á ófrosnu landi, þá skemma þær oft mun meira en bílarnir. Annars eru nú torfæruhjólin verst og ég verð að vera hreinskilinn með það, að ég hef áhyggjur af þeim landspjöllum sem maður sér nánast daglega eftir það lið. Einkum á vetrum eins og um þessar mundir, þar sem land er autt og blautt lengst af. Ég var einmitt fyrr í dag að horfa á svartar slóðir eftir svona hjól á grónu landi. Hræddur er ég um að óvitaskapur þessara einstaklinga eigi eftir að hafa slæmar afleiðingar og þá á ég ekki síst við það, að það takmarkaða ferðafrelsi, sem við enn höfum, verði skert frekar eða jafnvel afnumið með öllu.
07.12.2003 at 14:27 #482062Hef verið að fylgjast með þessum pælingum um hlutföll í HiLux. Einhvernveginn held ég að þegar menn eru ekki með aukamillikassa (lóló) þá verði 2,4 lítra mótorinn heldur slappur við flestar aðstæður í alvöru snjó. Gamli Hiluxinn sem ég átti var hinsvegar með 2,8 vél (heitir 3L hjá Toyota) og 5,29 hentaði honum ágætlega. Það er sjónarmunur á því hvað pinion úr 5,29 er gildari en úr 5,71 og tekur betur saman við kambinn. Hinsvegar hef ég séð að lagnir bílstjórar geta alveg ent 5,71 drif yfir 100.000 km án nokkurra vandkvæða. Það er bara einfaldlega þannig að sumir brjóta alla hluti, bæði drif og annað. En tek undir það sem komið hefur fram hjá mörgum hér að framan, að það er grundvallaratriði að fá góðan fagmann til að stilla inn ný drif. Ekki að horfa í einhvern tíuþúsundkall í því efni.
03.12.2003 at 22:04 #481978Mæl þú manna heilastur! Hvað sem BÞV segir nú um "þróaðan fjaðrabúnað" þá er þetta setup þrautreynt og virkar. Flest stóru breytingafyrirtækin í USA framleiða hækkunar- og breytingapakka fyrir þessa bíla, en ég er ekki nógu viss um að það henti okkur, þeir eru oftast nær að hækka þá of mikið upp. En með nýju PowerStroke vélinni og tölvukubbi er þetta náttúrulega draumatæki. Svo er hægt að fá þá í King Ranch útfærslu, sem þýðir mikinn lúxus nú og svo kemur á næsta ári s.k. Harley Davidson pakki, sem er meira fyrir töffarana. En fyrstur manna til að breyta svona bíl á 44" var held ég Aðalsteinn Símonarson og eins og mín kynslóð í 4×4 man eftir, þá var hann einn af brautryðjendum í jeppabreytingum. Þessi bíll er náttúrulega farinn að sleikja 3 tonnin, en menn hafa nú farið á fjöll á Econoline, sbr. Gunna Icecool og fleiri að ógleymdum Hafþóri heitnum Ferdinandssyni. Ekki eru þeir léttari og þá var PowerStroke ekki komin til sögunnar. En Ingimar Baldvinsson hefur verið að ná þessum bílum í gegn um Canada á alveg bærilegu verði. En, talaðu við Gunna Icecool ellegar Ljónsstaðabræður, þessir karlar vita allt um ameríska bíla. Nú – ekki gleyma JÖRFÍ, sem er með svona bíl!
01.12.2003 at 12:02 #481768Mig minnir að Pro Comp framleiði svona. Gái að því í hádeginu.
kv.
gþg
01.12.2003 at 09:08 #481722KREMLI – tókstu virkilega ekki eftir því að þungaskattur dieselbíla á að hækka um 8% um áramótin? Lifi hin sósíalíska bylting eða hvað?
30.11.2003 at 15:29 #481710Við skulum nú halda okkur við efnið, kæru félagar. Tilefnið er nefnilega ærið sem hér var fitjað upp á. Aðal málið er, að nú ætlar ríkisvaldið að fara að hækka álögur sínar á umferðina í landinu. Hvað varðar bensínverðið, þá hækkar gjaldið um 4 kr. pr. lítra en 8% hækkun verður á þungaskatti dieselbíla. Nú myndi ég eins og málshefjandi að þessum þræði spyrja eftir tillögum um aðgerðir af okkar hálfu, hvað sem FÍB eða önnur félagasamtök gera. Hvað getum VIÐ sem félag gert? Vinstri-grænir segja sjálfsagt að við eigum ekkert að rífa kjaft, notið bara strætó, gott fólk, eða gangið og hjólið og hættið þessu mengandi fjallaflandri. Samfylkingin segir að það þurfi meiri peninga í samfélagslegu verkefnin, þ.e.a.s. heilbrigðismálin og allt það bix og því sé réttlátt að skattleggja "lúxus", Sjálfstæðismenn segja að það þurfi að slá á þensluna, og framsókn glottir ofan í klofið á sér eins og venjulega. En málið er einfaldlega það, að þjóðfélagið er þannig skipulagt, að við komumst ekki hjá því að nota einkabílinn við okkar daglegu þarfir. Við þurfum að fara með krakkana í skóla, leikskóla, tónlistarskóla, íþróttaæfingar og hvað nú heitir, svo þurfum við flest að fara í vinnuna og mörg okkar nota bílinn beinlínis í tengslum við starfið, því það vill nú svo til að margir vilja fá þjónustuna til sín og þurfa þess reyndar eðlis hennar vegna. Almenningssamgöngurnar passa nefnilega sjaldnast við okkar tímasetningar og þarfir og hætt við að einhver yrði seinn einhversstaðar ef nota ætti strætó í alla snúningana.
28.11.2003 at 16:06 #481636En Skúli, þá kom annað í staðinn með Mudderinn, þ.e.a.s. þetta með að þau springi í hliðunum rétt upp við felgu.
-
AuthorReplies