Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
18.01.2004 at 08:29 #484700
Mér hefur verið sagt að þetta sé löglegt í kösturum á flutningabílum en ekki á öðrum bílum, sbr. að við megum ekki nota toppkastara á jeppum á vegum, þótt flutningabílarnir megi það. Mér var sagt þegar ég kom með bíl með toppkastara í skoðun, að ég yrði að hafa hlífar yfir þeim í öllum venjulegum akstri. Kannski er verið að túlka þessar ljósareglur frá Brüssell eitthvað mismunandi eftir skoðunarstöðvum? Það er hinsvegar merkileg fóbía hjá fólki gagnvart þokuljósum. Þau lýsa skemmra og með dreifðara ljós en venjuleg lágljós en samt er sumt fólk að nöldra yfir þeim. Hinsvegar er óþarfi að vera að hafa kveikt á þessum ljósum inni í þéttbýli og annarsstaðar þar sem götulýsing er.
17.01.2004 at 22:47 #484652Það er nú þvílíkt reglugerðafargan frá Brüssell varðandi aukaljós að það hálfa væri nóg. Það virðist einhver hópur fólks hér á landi líka vera haldið fóbíu gagnvart þokuljósum og gestist í einhverju bölvuðu rugli ef það sér slík ljós á bíl. Nú, en varðandi toppljós er ég ekki alveg á sama máli og granigamli varðandi þau. Það er nú þetta með að lýsa upp kófið – aðalljósin á bílnum eru nú duglegust við það. Það er einhvernveginn eins og þegar maður er með augun fyrir neðan aðalgeislann, þá virðist manni sem ljósið getu nýtst betur í skafrenningi og dimmviðri. Flutningabílstjórarnir eru a.m.k. mjög sáttir við þetta fyrirkomulag, en af einhverjum ástæðum er leyft að nota þesskonar ljós við akstur með háljósum á flutningabílum en ekki á jeppum. Drottinn einn má vita af hverju. Okkur ber að hafa hlífar á þeim við venjulegan akstur skv. reglugerðinni. Ég tek hinsvegar undir það með granigamli að til þess að þokuljós nýtist sem best þurfa þau að vera neðarlega. Best finnst mér linsuljós og var einn af þeim sem þótti Hella DE ljós virka vel í dimmviðri meðan þau fengust. "Fiskaugaljós" virka álíka vel, einkum með gullperu. Áþekk ljós komu standard á Pajero 2800 GLS og virka vel að mínu mati. Ég á einhversstaðar í skúrnum tveggja geisla aukaljós frá PIAA, sem voru ansi góð þegar dimmt var á jörð og í fjallaferðum. Ég hef ekki prófað blá aukaljós, en hef heyrt mína kunningja sem hafa prófað þau láta vel af þeim. Þó eru menn ekki á einu máli um hvernig þau virka í skafrenningi.
16.01.2004 at 14:09 #484462Alveg óþarfi að hnýta í Birgi Brynjólfsson, sem telst nú einhver helsti frumherjinn í jeppamennskunni. En varðandi úrhleypibúnaðinn, þá er það rétt að hann er fyrir hendi original í Ural-trukkunum og einnig í AMG HMMWV eða Hummer eins og civilian útgáfan heitir. En ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þetta er fokdýrt og svarar varla kostnaði að mínu mati, því þessu hættir til að fara að leka þegar það slitnar.
kv.
16.01.2004 at 06:23 #484524Hilux, ekki spurning. Auðveldur í meðförum, öll þjónusta fyrir hendi, auðveldur í endursölu, nóg af varahlutum og aukahlutum.
13.01.2004 at 14:46 #484066Já, því ekki það JÞJ? Ég hef nú reyndar verið svo gæfusamur sjálfur að þurfa ekki að standa í þeim sporum að lenda í sjávarháska og þurfa að bíða eftir þyrlunni eða einhverri annarri björgun og þakka fyrir meðan ég slepp. Held að ég sé ekki mikill glanni á sjó, en maður ræður ekki við allar kringumstæður. En sumt af þessu hefur verið ansi nálægt manni. Held að við sem erum eitthvað nærri sjósókn séum allir því marki brenndir að okkur blöskrar þegar menn vilja fara að spara akkúrat þetta. Góðar kveðjur til þín JÞJ
13.01.2004 at 14:40 #483916Nú líkar mér betur við þig. Ég held nefnilega að þú sért ekkert svo mjög mikið á annarri bylgjulengd en við Jón Snæland og SkúliH svo einhverjir séu nefndir. Nú er það svo, að ég sem búandi hér nyrðra er e.t.v. ekki með Setrið sérstaklega í huga, þótt sömu lögmálin (eða áþekk) gildi að sjálfsögðu þar. Það er nefnilega svo, að ég hef verið þátttakandi í öðru félagi á ferðasviðinu alveg frá því það var stofnað seint á sjöunda áratugnum, en það er Ferðafélag Skagfirðinga, sem er deild í FÍ. Kom upphaflega inn í það vegna þess að ég var búinn að vera félagi í FÍ en það er önnur saga. (Maður á ekki að vera halda því of mikið á lofti hvað maður er orðinn andsk… gamall!) Hvað um það, frá því FFS reisti Ingólfsskála við Lambahraun hefur það verið með ólíkindum, hvað lítið hefur komið þar inn af viðveru- og gistitekjum miðað t.d. við hver ósköp hafa farið þar af gasi á ári hverju. Eitthvað hlýtur að valda því. Umgengni er svo eitt mál enn. Oft er það svo að skyldurækið hirðufólk kemur að skálunum öllum í drasli, en vegna þess að það vill ekki láta kenna sér um slíka umgengni, þá þrífur það skálana eftir sóðana líka. Við getum held ég verið sammála um að það sé eðlilegt að þessu fólki sárni.
Nú, Ferðafélagið hér hefur látið gíróseðla liggja í sínum skálum, sem hægt er að greiða í hvaða banka sem er, og líka heimabönkum ef út í það er farið. Ekki virðist það duga nema takamrkað til að auðvelda fólki að greiða gistingu. Skiptabakkaskáli okkar 4×4 fólks er reyndar miklu minna í leiðinni fyrir flesta og því mun minni "gegnumgangandi" umferð þar en í alfaraleið, eins og reyndin með Ingólfsskála Ferðafélagsins er. Það má því segja að enn sem komið er sé reynslan af innheimtu gistigjalda þar ekki marktæk. Enn sem komið er hefur þessum skálum ekki verið lokað og vonandi kemur ekki til þess. En mikið væri gaman ef fleiri tækju á sig sinn hluta kostnaðarins með greiðslu viðveru- og gistigjalda, þótt ekki standi rukkari við hverjar dyr. Það myndi viðhalda ferðafrelsinu meira en flest annað.
13.01.2004 at 12:26 #483910Lestu pistilinn hans SkúlaH (nr. 517) hér að ofan. Hann segir eiginlega allt sem segja þarf. Ef þú ert með allt þitt á hreinu, þá er það bara gott mál. Þá þarft þú ekkert að taka til þín af því sem ég eða aðrir hafa sagt. Þetta með frelstið vísaði beint til þess sem fram kom hér ofar, þar sem því var lýst hvað það væri yndislegt að geta rekið inn nefið þar sem manni sýndist, þegar manni sýndist. Annað í þínu skeyti elti ég ekki ólar við.
13.01.2004 at 06:12 #483902Í fyrsta lagi þá eru sumir aldeilis sérlega flinkir við að finna afsakanir eftir á og mér sýnist í fljótu bragði án þess að þekkja nokkuð til viðkomandi, að þarna séu listamenn á því sviði á ferð.
Í öðru lagi, þá er ég áreiðanlega ekki einn um að hafa lent í því að hafa pantað gistingu í skálum en þegar að þeim var komið voru þeir fullir af fólki sem ekki hafði pantað. Yfirleitt er þetta fólk ekki tilbúið til sveigjanleika og ofbeldið oftast notað. Frelsið er yndislegt, jú mikið rétt, en þitt frelsi endar þar sem nefið á mér byrjar.
12.01.2004 at 21:35 #193439Bara svona láta vita af því góðir hálsar, að það er þessi indælis snjókoma hérna á Húnaflóasvæðinu a.m.k. – Það er talsvert hvasst, líklega ekki undir 20 m/s hér, svo það er ekki gott að átta sig á hvað uppsöfnuð úrkoma er mikil, en giska á að síðustu þrjá klukkutímana hafi það ekki verið undir sem svara 25 cm af jafnföllnum snjó, eða 25 mm í mæli. Ef þetta er að skila sér inna á hálendið og nægilega hvasst er, þá ætti að koma út úr þessu hin dægilegasta snjóþekja. Allavega lítur þetta mun skár út en í fyrra! Vona bara að það verði ekki snjóflóð í byggð samfara þessu.
12.01.2004 at 21:25 #484056Maður væri nú ekki alvöru Ólsari ef hjarta manns slægi ekki með sjómönnum þessa lands (sem gerir mann líklega bullandi vanhæfan eins og P. Blöndal!) En ég verð að segja eins og fleiri hér, að í þessum lið má bara alls ekki beita niðurskurðarhnífnum. Það er svo undarlegt að þyrlusveit Gæslunnar er alltaf í sama flokki og ræstingafólkið í Seðlabankanum þegar á að fara að spara. Manni dettur nú fyrst í hug utanríkis"þjónustan" sem er líklega eitthvert fáránlegasta dæmið um flottræfilshátt ráðamanna þjóðarinnar. Eru ekki einhverjir þátttakendur í þessum pósti með fjárlögin tiltæk til að fletta upp á því hvað það ráðuneyti kostar þjóðina? Væri ekki hægt að spara þar? Mig minnir að kostnaðaraukning þar milli áranna 2003 og 2004 sé áætluð slík, að bara hluti af því dygði til að reka þyrlusveitina með óbreyttu sniði, svo maður fari nú ekki fram á víðtækari þjónustu við sjómenn þessa lands og aðra er notið hafa og munu njóta þeirrar vösku og fórnfúsu sveitar. Ef einhver hópur manna er þjóðhetjur í augum almennings eru það starfsmenn sveitarinnar. Örugglega ekki professional cocktailglasaklingjarar utanríkisþjónustunnar.
12.01.2004 at 15:52 #483886Eiginlega finnst mér þetta ein besta tillagan sem Góli endar á; þ.e. að þessi félög, sem hafa eignast skála á hálendinu komi sér saman um aðferð. Kannski er þetta ómögulegt – íslendingar og einstaklingshyggja þeirra o.s.frv. Nei, er ekki rétt að prófa? Jafnvel að þau hafi eitthvert samband/samráð sín í milli vegna bókana? Mig grunar að flestir skálar sem máli skipta séu innan þjónustusvæðis Tetra-kerfisins, en eru einhverjir hér með það á hreinu? Man ekki í svipinn hvort þetta kemur fram í bókinni góðu hans Jóns Snæ? Eitthvað er um að fólk sé í fleiru en einu þessara félaga sem starfa á landsvísu, þ.e. 4×4, JÖRFÍ, FÍ og Útivistar. Gangnamannaskálarnir eru svolítið annað mál, því í langflestum tilvikum eru þeir þeirra, sem ekki eru í vetrarumsjón 4×4 félaga/deilda, varla mjög eftirsóttir til gistingar. Skálar í einkaeign eru svo allt önnur ella. Kannski kemur nú eitthvað gott út úr þessu spjalli.
12.01.2004 at 06:39 #483922Mér finnst þetta vera lýsing á bílnum hans Ástvaldar Guðmundssonar – Valda rakara – sem er óhætt að telja "veteran" á þessu sviði, enda í hópi þeirra allra fyrstu, sem náður árangri á þessu sviði. He is still going strong og að því ég best veit enn á Hi-Lux, með rör á báðum endum!!!!!
11.01.2004 at 18:57 #483832Það er það skemmtilega við klúbb eins og 4×4 að innan hans er að finna félaga með mjög fjölbreyttan bakgrunn og þekkingarsvið. Snorri verkfræðingur Ingimarsson veltir þarna upp ýmsum hugmyndum, sem venjulegum fótgönguliðum dyttu líklega seint í hug en eru vafalaust framkvæmanlegar. Treysti því að Snorri viti sem fyrr hvað hann syngur, enda býr hann að meiri reynslu í þessu fjallaflakki til viðbótar við tækniþekkingu sína, en flestir okkar meðaljónanna. En vandinn er talsverður, bæði tæknilega, fjárhagslega og ekki síst siðferðislega. Manni finnst að klúbbur á borð við þennan og einstakir félagar hans, eigi að leggja metnað sinn í að ganga vel og heiðarlega fram í öllu sem lýtur að félagsþroska og samábyrgð. En getur klúbburinn notað þær aðferðir, sem notaðar eru á Grímsfjalli? Er ekki komin nokkuð góð regla á þau mál? Er mr. Kjartansson nokkuð að lesa þetta og vill hann segja okkur hvernig hann hefur skikk á þeim ágæta stað og öðrum skálum, er JÖRFÍ er með?
kv.
11.01.2004 at 14:41 #483822Já, þetta virðist vera sama sagan, hvaða skáli sem í hlut á. Ásókn í Skiptabakka er enn sem komið er ekki það mikil af öðrum en "deildarfólki" hér að þetta sé stórt vandamál þar, en þó fer aðsókn annarra vaxandi. Hinsvegar þekki ég vel til mála hjá Ferðafélagsdeildinni hér, sem rekur fjóra skála, þar af einn í félagi með öðrum. Þessir skálar eru; Ingólfsskáli við Hofsjökul, Hildarsel í Austurdal (ásamt félagsskap gangnamanna), Þúfnavellir á Víðidal í Staðarfjöllum og Trölli við Tröllabotna. Það eiga þessir skálar allir sammerkt, að umgengni um þá er mismunandi og skil á skálagjöldum einnig. Líklega eru skil á skálagjöldum þó lökust í Ingólfsskála, að því ég best veit. Í Ferðafélagi Skagfirðinga hefur til þessa ekki verið vilji til þess að læsa Ingólfsskála, það kom til umræðu að hafa bara forstofuna opna og leigja svo lykla að skálanum sjálfum, en menn sáu fram á að það yrði einfaldlega til þess að ferðafólk myndi bara brjóta upp dyrnar og fara inn ef það ætlaði það og umgengnin þar með enn verri og viðhaldið dýrara. – Ferðafélögin hafa mun minna úr að spila til að halda við og reka skála sína en þó 4×4 klúbburinn hefur, því í félagsgjaldi þeirra er árbókin innifalin, en hún er eðli málsins samkvæmt talsverður hluti þess. Viðhald skálanna er því að verða félaginu ofviða, því bæði þurfa skálarnir vaxandi viðhald eftir því sem þeir eldast, og svo hafa viðhaldsvörur, svo sem málning, fúavarnaefni og gas,svo eitthvað sé nefnt, hækkað hin síðari ár í verði svo miklu munar. Þótt fram til þessa hafi fengist fólk til að vinna að viðhaldi skálanna í sjálfboðaliðsstarfi, þá er aldarandinn nú einhvernveginn þannig, að sífellt örðugra er að fá fólk til sjálfboðaliðsvinnu. – Það má einnig segja að sú harðdrægni nútímans í öllum samskiptum fólks og vex með ógnarhraða, setji hér mark sitt. Fólk fer eins langt og það kemst og helst oggulítið lengra. Komist það upp með að greiða ekki það sem það á að greiða, þá er óþarfi að gera það. Engum dettur í hug að leggja metnað sinn í heiðarleik í samskiptum við aðra. Það er einfaldlega talið veikleikamerki að sýna sanngirni, kurteisi og réttsýni í viðskiptum. Kannski eru víkingarnir bara svona í eðli sínu? En mér og fleirum er ráðgáta hvaða skilaboð eigi að lesa úr athöfnum fólks, sem getur eytt góðum hluta af dvalartíma sínum í Ingólfsskála, svo dæmi sé tekið, til þess að rífa ný gluggatjöld niður í ræmur!
kv. gþg
09.01.2004 at 06:01 #483678Er hann Hlöðver í Japönskum vélum í Hafnarfirði ekki ennþá í business? Það er alveg pottþéttur maður.
08.01.2004 at 15:38 #483420PHH, sendu mér mail á thorkellg@hotmail.com um hvað það gæti kostað að breyta honum Grána mínum miðað við það sem þú þekkir.
kv.
07.01.2004 at 20:40 #478252Eins og Hlynur segir, þá er þetta mál víst komið á ís eina ferðina enn. Þungaviktarmenn stjórnarliðsins úr landsbyggðarkjördæmunum, svo sem eins og Sturla, Einar Kr, Valgerður Sv., Halldór Blö., Jón Kristj. og einhverjir fleirri þora víst ekki (af hræðslu við háttvirt atkvæðin sín) að samþykkja gjaldið vegna þeirrar hækkunar, sem það ylli á flutningskostnaði á vörum út á land. Eins og fram kemur hér að ofan, þá myndi eftirlit með notkun á litaðri/ólitaðri olíu trúlega verða ansi umfangsmikið og þykir mörgum nóg komið með kostnað við eftirlitsiðnaðinn, en efalítið myndi sá kostnaður koma út sem hærra gjald á notkunina. Eins og einhver nefndi hér ofar, þá er það líklega mesta vandamálið við olíugjald það mikla magn af dieselolíu, sem notað er á öðrum sviðum en í akstri bifreiða. Þótt sveiflur í verði á dieselolíu annarsvegar og bensíns hinsvegar á alþjóðlegum mörkuðum séu ekki nákvæmlega í takt, þá er grunnverðið á þessum tveimur olíuvörum ekki svo ólíkt að meðaltali að því fróðir menn segja manni. Það myndi því þýða að útsöluverð yrði áþekkt ef skattlagning pr. lítra væri sú sama. Hagræðið yrði því fyrst og fremst í betri orkunýtingu dieselvéla, en sá munur hefur reyndar farið hratt minnkandi hin síðari ár. Munurinn er samt það mikill, að t.d. þjóðverjar telja það þjóðhagslega hagkvæmara að hvetja til notkunar dieselvéla fremur en bensínvéla með lægri skattlagningu. Það kosti sem sagt færri lítra af dieselolíu að koma x þunga frá a til b en af bensíni. Viðhorfið er náttúrulega allt annað hjá ríkjum eins og Saudi-Arabíu og Noregi t.d. sem framleiða olíuna sjálf og því áhrifin á deficit önnur þar. Svo kemur einnig til að hlutfallið milli notkunar bíla annarsvegar og "annarrar notkunar" hinsvegar er svo gjörólíkt hér á landi í fámenninu eða í nokkru öðru landi. Ja, hérna.
07.01.2004 at 06:44 #482980Mig langar til að taka undir það, sem Baldurg segir hér á undan um að menn gæti sín á spottunum þegar verið er að draga/kippa í bíla. Því miður hafa orðið óhöpp og slys út af þessu. Margir gamlir hundar í "faginu" hafa þann sið að henda einhverri druslu á miðjan spottann, svo sem eins og flík eða annarri kaðalhönk til að minnka hættuna á að spottinn skjótist langar leiðir ef hann slitnar eða skreppur af festingu.
kv.
06.01.2004 at 07:28 #483392Tek að mörgu leyti undir með það sem sagt hefur verið um Farið, sumar myndirnar eru skemmtilegar en alls ekki ljóst með alltof margar myndir hvaða erindi þær eiga á prent í svona bók. Fyrir nú utan óvandaðan prófarkalestur. Hinsvegar finnst mér bókin hans Ofsa alveg ágæt. Helst vildi ég fá síðurnar í henni plastaðar, svo þær þoli betur það hnjask, sem bókin verður fyrir ef maður notar hana eins og manni finnst maður þurfa, þ.e. hafa hana í bílum á ferðalögum og þá er maður ekki alltaf þurr og hreinn á fingrunum!
06.01.2004 at 07:23 #483358Dekkjasérfræðingurinn sem ég tek mark á (hann er bara einn) setur alltaf aluslip á felgubolta. Hann fullyrðir að rétt hertur felgubolti losni ekki af sjálfsdáðum en þetta tryggi að það sé alltaf hægt að losa boltana, því þeir geti annars bitið sig ansi mikið fasta og orðið erfitt að losa þá úti á þjóðvegi með venjulegum felgulykli, því maður er nú ekki alltaf staddur rétt hjá dekkjaverkstæði þegar dekk verður loftlaust hjá manni. Hinsvegar er hann með fyrirvara gagnvart því að nota venjulega feiti á boltana, því í hana vilji setjast óhreinindi. Aluslip (og copaslip) fylgi minni hætta í því efni. Best sé að nota grafít. Ég held þetta komi bifreiðategundum ekkert við, ég er búinn að eiga Willys, Scout, LandRover, UAZ Rússa, Lada Niva, Bronco, Toyota og Mitsubishi (gleymi vafalaust einhverjum) og ég held það sé enginn merkjanlegur munur hvað þetta snertir. Konan mín hefur ekið á hinum ýmsu afbrigðum Volkswagen frá 1966 og þar er þetta jafnvel enn brýnna, þar sem boltinn skrúfast inn í bremsuskálina/flangsinn.
kv.
-
AuthorReplies