Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
09.05.2006 at 06:53 #552172
Einu sinni flutti Bílabúð Benna inn ARB túrbínur fyrir HiLux frá Ástralíu. Þær voru eilítið fyrirferðarmeiri en komu miklu fyrr inn. Kostuðu auðvitað eitthvað en þetta voru asskoti góð tæki.
04.05.2006 at 07:31 #197898Bara svona rifja upp varðandi það sem var hér spjallað um í vetur um símamál utan alfaraleiða. Var ekki einhver að stinga upp á því að klúbburinn eða nefnd á hans vegum myndi beita sér fyrir því að kanna eiginleika þeirra símakerfa, sem boðið væri upp á með gerfihnetti sem tengimiðlun? Man ekki nöfnin á þessum kerfum sem nefnd voru, rámar í Globalstar, Intelsat, Iridium o.s.frv. Er einhver möguleiki á því að 4×4 byði út tiltekinn fjölda síma, sem félagsfólk hefði skrifað sig fyrir þegar niðurstaða væri komin í hvaða kerfi hentaði best? Er slíkt kannski brot á reglum EES? Allavega hlýtur að vera æskilegt fyrir okkur sem félag að kanna þessi mál áður en NMT – kerfið verður lagt niður.
03.05.2006 at 07:40 #549218Var ekki Lýsi hf. einhverntíma að keyra bílana sína á úrgangslýsi, þegar verðið á því var lágt á heimsmarkaði? Skyldu ekki vera einhversstaðar einstaklingar sem þekkja þá sögu af eigin raun? Nú, svo veit ég að loðdýrafóðurstöðvar eru að kaupa rapsolíu til fóðurgerðar í stórum umbúðum og held að það verð gæti verið samkeppnisfært við diesel.
03.05.2006 at 07:34 #551814Út af fyrir sig er það alveg rétt, að okkar jeppabreytingar eru oftar en ekki mjög fallegar og vel gerðar nú orðið. Hinsvegar þarf að hafa ýmislegt í huga varðandi þann mismun, sem er breytingum þeirra westra. Í fyrsta lagi eru þeir alla jafna ekki að breyta bílum fyrir akstur á snjó og jöklum, nema þá í Alaska e.t.v. Í öðru lagi eru þeir yfirleitt að breyta bílunum fyrir "rock climbing" og "mud crawling" en sumar torfærugrindurnar sem menn útbúa hér myndu e.t.v. nýtast við slíkt, trúlega þó með ýmiskonar aðlögun. Í þriðja lagi er manni sagt að í fæstum ríkjum ("states", fylkjum fyrir þá sem það vilja nota) sé leyfilegt að aka bílum sem eru komnir á 38"+ á almennum vegum. Sú mun því vera ástæðan fyrir því að margir þessara bíla eru búnir beisli að framan, og eru þá dregnir aftan í stærri bílum að þeim brautum, þar sem leyft er að nota þá, ellegar þá að þeir eru fluttir á vögnum. Líklega myndu flestir bílar sem breytt er skv. okkar íslensku aðferðum, falla undir kategoriuna "show and shine" þarna fyrir westan!
26.04.2006 at 11:19 #551132Aðal munurinn liggur að manni er sagt í tvennu. Annað er orkuinnihald pr. rúmmálseiningu, sem mun vera hærra í diesel olíu, og hitt er spurning um smurhæfni, sem skiptir máli varðandi eldsneytiskerfið, en það er eingöngu smurt frá eldsneytinu sjálfu. Nú, svo er manni líka sagt að þessar elektronisku stillingar og skynjarar á nýjustu eldsneytiskerfum séu mjög viðkvæmar fyrir breyttri efnasamsetningu eldsneytisins. Sel þetta jafn dýrt og ég keypti sjálfur!
26.04.2006 at 11:14 #550724Sérfræðingar í vélamálum segja mér, að það þurfi aðeins að skoða málið – einkum í vélum sem er búið að keyra eitthvað umtalsvert – með hvort stimplarnir þoli aukið álag sem leiðir af hærri þrýstingi með notkun túrbínu. Stóð sjálfur frammi fyrir svipuðu máli einu sinni, reyndar í HiLux, en það er víst ekki málið með tegundina heldur prinsippið. Títt nefndur Árni Páll er mjög kunnugur þessum málum og óhætt að spyrja hann.
25.04.2006 at 13:11 #550708Tek undir með Sveini, Árni Páll er búinn að breyta mörgum svona og þar af a.m.k. tveimur fyrir sjálfan sig. Held hann eigi meira að segja tilsniðið það sem til þarf í gormabreytinguna. Síminn hjá honum er 567 3444
25.04.2006 at 13:04 #551098Sennilega getur enginn – ekki einu sinni Vegagerðin, svarað því hvort þetta verður orðið fært um Jónsmessu. Leiðin af Sprengisandsleið ofan í Skagafjörð eru venjulega opnuð til muna síðar en aðalleiðin. Sprengisandsleið sjálf hefur oft verið opnuð talsvert seinna en t.d. Kjalvegur, og núna er lítið farið að vora á hálendinu. En sé Vegagerðin á annað borð búin að lýsa leiðina opna, þá er þetta fært nánast hvaða jeppa sem er. Að sjálfsögðu þarf að hafa aðgæslu við eins og alstaðar þar sem fara þarf yfir óbrúaðar ár. Komið hafa snemmsumars mikil skot í ár eins og t.d. Bergvatnskvíslina í úrkomu og/eða hlýindum, og er dæmi um slæmt slys þar af þeim völdum. Helstu ár sem þarf að fara yfir á vaði eru auk Nýjadalskvíslar og Hagakvísla, Bergvatnskvísl, sem áður er nefnd, Laugafellskvísl, Hnjúkskvísl og Strangilækur. Á venjulegum degi eru þessar ár ekki sérlega erfiðar, nema kannski þá Hnjúkskvíslin, því í hana geta komið skot fyrri hluta sumars. Sum þeirra eru sögð stafa af því að lón við jökulrönd tæmi sig í kvíslina. Annars er þetta að mörgu leyti skemmtileg leið og talsvert fjölfarin yfir sumarmánuðina.
25.04.2006 at 12:54 #551106Oddgeir Sæmundsson, tjónaskoðunarmann hjá Sjóvá, hann er nýbúinn að fara veginn þarna og veit alveg hvernig hann er. Það eru þarna úrrennsli og fleira til að varast, sem hann getur sjálfsagt sagt þér enda einn af vanari ferðamönnum
23.04.2006 at 10:39 #550608Skoðum nú málið aðeins. Klúbburinn hefur nokkrum sinnum haft sínar eigin sýningar og stundum meira að segja haft einhverja aura út úr þeim. Erum við nokkuð að rýra okkar möguleika í því efni með þessu. Þátttaka klúbbsins þarna kemur væntanlega til með að kosta hann peninga? Ekki meiningin að vera neikvæður, bara að velta upp öllum hliðum!
23.04.2006 at 10:23 #550604Segir maður ekki "húnvetnskar" – ég hélt að þetta hétu Húnavatnssýslur en ekki Húnaverssýslur? Annars er hugmyndin frábær. Við vorum eitthvað að byrja að kíkja á svona mál hér, en víðátturnar eru náttúrulega ekki nema svipur hjá sjón miðað við húnvetnsku heiðalöndin.
23.04.2006 at 00:27 #550434Mig langar til að taka undir með Rofustoppurobba og Eyþóri hér að ofan með andstyggð á viðhorfi og framkomu starfsmanna fjármálaráðuneytisins gagnvart björgunarsveitunum. Í okkar félagsskap eru fjölmargir, sem jafnframt eru starfandi í björgunarsveitunum og geta staðfest og vitnað um tiltekin dæmi í þessu sambandi. Skattlagningargleði þeirra er með ólíkindum. Sannast sagna eru sum atriðin svo ótrúleg að það þýðir líklega ekkert að segja frá þeim, því fólk sem ekki þekkir til mun hreinlega ekki trúa því. Manni dettur nú í hug sem dæmi frá því þegar fyrst var farið að nota vélsleða sem hjálpartæki við leit og björgun. Það fékkst afsláttur af söluskatti (forvera virðisaukaskattsins) og tollum af sleðum til björgunarsveita. Það var síðan á tímabili afturkallað vegna þess, að það þótti sannað að menn notuðu þessi tæki til æfinga! Drottinn minn dýri, hvernig áttu björgunarsveitarmenn að geta notað þessi tæki þegar til alvörunnar kæmi ef þeir mættu ekki nota þau til leitaræfinga? Svo mætti lengi halda áfram. Þannig að það kemur ekki á óvart, þótt sveitunum hafi verið synjað um leyfi til að nota litaða olíu, Sei sei nei.
23.04.2006 at 00:11 #550586Landinn hefur gríðarlega marga kosti. Það sem mér fannst lakast við minn var a) hvað hurðirnar voru leiðinlegar og b) hvernig pedalarnir voru staðsettir. Sannarlega eitthvað sem hægt er að lifa með. Öxlarnir eru víst enn í dag veikur hlekkur, en það er skárra að snúa í sundur öxla en eitthvað annað, sérstaklega þegar bílarnir eru nú með fljótandi öxla og fljótlegt að skipta um. Discovery þekki ég nákvæmlega ekki neitt. En þessir bílar þola ýmislegt og eru ekkert sérlega viðkvæmir fyrir því að vera notaðir. Svo má nú bæta við að fjöðrunin í þessum bílum er sérlega vel heppnuð til aksturs við erfið skilyrði. Ég er eiginlega mest hissa á því að ekki skuli vera búið að breyta miklu fleiri LandRover bílum.
21.04.2006 at 13:43 #197812Fólk sem var á ferðinni á Kjalvegi um páskana sagði mér af slæmu úrrennsli við ræsi norðan við Bláfellið, svona miðja vegu milli Bláfellskvíslarinnar og Hvítárbrúarinnar. Þetta úrrennsli sæist afar illa fyrr en rétt í þann mund að komið væri að því, að maður tali nú ekki um í myrkri eða rökkri. Væri gott ef þeir sem kunna að leggja leið sína um þetta svæði núna um helgina hefðu þetta í huga.
19.04.2006 at 21:50 #549990Á þeim (mörgu) árum sem undirritaður var munstraður í björgunarsveit, þurftu menn að fara í gegn um skyndihjálparnámskeið a.m.k. einu sinni á ári. Náttúrulega þurfa þeir sem gefa sig í starf með sveitunum að vera með þetta allt á hreinu, en maður finnur núna, þá sjaldan maður þarf á kunnáttunni að halda, hvað þetta er allt saman fljótt að ryðga í huga manns (kannski er það bara elli hvað mig snertir!). En hvernig var það, fyrir nokkuð löngu gaf klúbburinn út handbók jeppamannsins, handhægt kver, sem fór vel hvort sem var í vasa eða hanskahólfi. Hvernig væri að það væri eitthvert inntökugjald í klúbbinn, sem meðal annars stæði undir því að nýir félagar fengju slíka handbók og e.t.v. eitthvað smálegt og gagnlegt til viðbótar?
19.04.2006 at 21:40 #550070fyrir þessa punkta, GísliÓ. Nú vaknar sú spurning, hvort hægt er að stofna til "banka" hér á vefnum, þar sem þetta yrði aðgengilegt í einum "link" ásamt því sem kann að bætast við í þennan sjóð, sem og náttúrulega því sem kann að hafa komið inn á hina ýmsu spjallþræði í tengslum við spjall um talstöðvar eða eitthvað annað sem leitt hefur hugann að fjarskiptum. Hvernig slær þessi hugmynd fólk almennt?
17.04.2006 at 17:43 #549720Nú finnst manni að það sé ekki neitt svo óskaplega langt síðan þessi frægi túr var farinn, en það er víst farið að tikka á annan áratug, svo mann þarf ekki að undra að hér séu menn sem muni ekki eftir þessu. Déskoti æðir tíminn áfram! En lengi vel var hægt að fá keypt myndband um þennan túr í bílabúð Benna, en fyrir þá sem eru of ungir til að muna, þá voru þeir bræður höfuðpaurar ferðarinnar. Þarna komu reyndar við sögu flestir reyndustu jeppa- og fjallamenn þess tíma og ansi fróðlegt að skoða myndirnar af þeim þarna og bera saman við nútímann og sjá hvernig þeir hafa breyst!
16.04.2006 at 18:43 #549536Langar til að taka undir með King-1 þar sem hann minnist á að þegar menn eru komnir á vissa stærð af jeppum, ég reikna með að hann eigi þá t.d. við einhverja tiltekna dekkjastærð og upp úr, þurfi menn að hafa einhverskonar hæfnispróf "undir belti" eins og hann orðar það svo skemmtilega. Hann minnist einnig á þá grunnþekkingu í siglingafræði, sem menn læra t.d. í pungaprófinu og ég ar alveg sammála honum að nýtist manni vel í fjallaferðum jafnt sem sjóferðum. Flestir björgunarsveitarmeðlimir hafa einmitt fengið samskonar kennslu (auk margs annars) og í þeim er nú reyndar fortakslaust notuð sú aðferð að menn fara fyrst með vönu fólki og læra "trixin". Ekki hefði ég viljað missa af þeirri kennslu, sem maður fékk með þeim hætti, reyndar fyrir svo mörgum árum að ég þori ekki að nefna það fyrir mitt litla líf! En ég hef áður látið í ljósi þá skoðun hér á þessum vettvangi, að akstur á jeppum (þá er ég ekki að meina slyddara) er það mikið frábrugðinn akstri fólksbifreiða, að það ætti fortakslaust að láta menn taka sérstakt hæfnispróf áður en þeir fara að aka þeim. Við vitum það öll, sem erum vön bifreiðum sem falla undir skilgreininguna "jeppi" að þeir bregðast svo allt öðru vísi bæði við stjórntökum og ýmsum afbrigðum í færi og vegyfirborði en fólksbifreiðar, að til þess er að leita orsaka margra vondra slysa. Fólk hefur einfaldlega ekki ráðið við aðstæður og hefur skort þjálfun og reynslu til að bregðast við þeim.
16.04.2006 at 09:55 #549526og ekki að ástæðulausu. Við vorum einmitt að spjalla saman tveir félagar seinast í gær, hvernig stæði á því hvað óskaplega væri mikið um að fólk væri á ferðinni kunnáttu- og getulaust til að bjarga sér sjálft. Við spurðum hvorn annan: Hvernig fórum við að? Við höfðum báðir lent í því oftar en við höfðum tölu á að við hefðum ekki getað haldið áætlun. Stundum, líklega oftast, gátum við látið vita og kannski var munurinn helstur sá, að þá vorum við með gömlu, góðu millibylgjutalstöðvarnar – "Gufunessstöðvarnar" sem sjaldan brugðust. En kannski var mesti munurinn sá, að við og líklega ekki síst þeir sem kenndu okkur, kunnu að umgangast náttúruna og umfram allt, að bera virðingu fyrir henni og þeim öfgum, sem einkenna hana hér á landi. Eins og fram kom hér að ofan, er alltof mikið um að fólk telji sig ekki þurfa neinar leiðbeiningar, nóg sé að hafa öflug tæki og fín merki. En það er ekki nóg að hafa fína útgáfu af GPS – tæki ef maður hefur ekki lært að nota það. Sú kunnátta kemur heldur ekki á einu fjögurra tíma námskeiði.
16.04.2006 at 09:39 #549026Hef reynslu af Magellan – handtæki, sem ég átti um tíma. Þetta er að mínu mati bölvað drasl, sem stenst engan samanburð við Garmin. Félagar mínir sem eiga Garmin – tæki ljúka upp einum munni um ágæti þeirra, sem ég hef reyndar átt þess kost að kynnast persónulega og tek undir með þeim. Gildir í raun sama um stærri tæki, sem ætluð eru í bíla, báta og sleða.
-
AuthorReplies