Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
05.09.2006 at 13:52 #559306
Ég átti eitt sinn 9000 lbs Ramsey rafmagnsspil. Relayið sem stjórnar rafmagninu inn á spilmótorinn, vildi hrekkja mig og virkaði stundum ekki þegar verst gegndi. Vitrir menn sögðu mér að þetta væri fyrst og fremst vegna þess hvað ég notaði spilið sjaldan. Má vel vera. En nú væri gaman að vita hvort félagar hafi prófað MileMarker vökvaspilin, sem eru að því mér skilst oftast knúin af stýrisdælunni. Eru stýrisdælur nægilega öflugar fyrir þetta álag? Er e.t.v. eingöngu óhætt að nota þetta á bandarískum bílum? Annars þekkti maður í eldgamla daga þegar ég var ungur fyrst og fremst spil, sem knúin voru frá aflúrtaki á gírkassa. Sitthvað vildi nú hrökkva í þeim, enda voru menn stundum að gera óraunsæjar kröfur til þeirra.
04.09.2006 at 14:21 #559218Jæja, er þá loksins búið að dagsetja ferðina. Er búið að fá leyfi til að skjóta upp flugeldum?
31.08.2006 at 09:09 #559020Þetta er reyndar þekkt dæmi skilst mér í 2,5 vélinni frá Mitsubishi. Ég kann ekki að segja frá því, en ástæðan minnir mig að hafa heyrt að sé að vegna þess að á einhverjum krítiskum stað í olíukerfinu geti það dregið loft. Þetta byrjar víst oft á að lýsa sér með því að það þarf að starta helling þegar bíllinn er gangsettur, því meðan vélin gengur ekki, veldur þessi óþéttleiki því að hlutar kerfisins tæmast. En það er ekki ráðlegt fyrir aðra en kunnáttumenn með rétt verkfæri að fikta í olíuverkum, svo ég tek undir með vals og öðrum sem hér hafa "pistlað" að láta kíkja á þetta á góðu verkstæði sem sérhæfir sig í olíukerfum.
31.08.2006 at 09:04 #559038Við erum nokkrir félagar með FINI – loftdælur og þær hafa reynst vel. Maður þarf reyndar að hafa í huga að til þess að dæla svona miklu lofti og ná upp þeim þrýstingi, sem þessi dæla nær, þarf talsverða orku, og því má passa sig á því að hafa bílinn helst í gangi meðan verið er að dæla, því annars getur hún tæmt rafgeyminn, ekki síst ef hann er nú eitthvað farinn að slappast. Hef heyrt af þessum dælum sem þeir eru að selja á Akureyri og þær eru víst mjög afkastamiklar og geta gengið látlaust.
29.08.2006 at 15:03 #558880Er hann utan tugthúss þessi sem var í svona verkefnum í vetur?
29.08.2006 at 15:03 #558878Er hann utan tugthúss þessi sem var í svona verkefnum í vetur?
25.08.2006 at 10:53 #558570Þetta með þjóðlendurnar er mál sem hefur margar hliðar. Skúli H. Skúlason talar um þegar auðkýfingar, innlendir eða erlendir, eru að kaupa jarðir hér út um allt land, breytist margt. Dæmin um það eru ansi mörg til, t.d. kunna Snæfellingar og Mýramenn nokkrar slíkar sögur og sjálfsagt fleiri. Það var nú meðal annars hugsunin að því ég held hjá þeim þingmönnum, sem komu að lagasetningu um þjóðlendumálin á sínum tíma, að það yrði að tryggja að t.d. miðhálendið yrði ekki féþúfa fáeinna businessmanna á grundvelli oft óljósra eignarheimilda. Meiningin var ekki að koma þessum svæðum í frjálsa ráðstöfun Landsvirkjunar, þótt sumir vilji nú túlka þetta þannig.
24.08.2006 at 09:25 #558552Áreiðanlega eru margir betur að sér en undirritaður í að finna lög, en ef maður fer inn á vef Alþingis, althingi.is þá er þar leitarvél og ef maður slær t.d. inn leitarorðið "girðingar" þá fær maður fullt af tilvísunum sem nýtast varðandi það sem Ofsi er að geta um, svo sem vatnalögin, girðingalögin ofl. ofl.
24.08.2006 at 07:49 #558548Af því Ofsi talar um Ódáðahraun, þá hef ég grun um að stórir hlutar þess teljist í einkaeign nú þegar, t.d. má minna á land Reykjahlíðar, sem tengdafaðir Björgólfs Thors á. En þarna er maður líklega kominn inn á jarðsprengjusvæði, sem ekki borgar sig að ganga mikið á!!!!!
24.08.2006 at 07:47 #558546"Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör" segir í Brekkukotsannál. Við sumum af spurningum Ofsa eru til svör í lagabálkum, við öðrum líklega ekki. Varðandi girðingar þá eru til sérstök girðingalög, en ég man ekki betur en í þeim séu sérstök ákvæði sem hindra að girt sé með þeim hætti meðfram ám og vötnum að það hindri eðlilega umferð, sem og sé þar komið inn á takmörkun heimilda til að loka fyrir leiðir, sem notaðar hafa verið til samgangna af öllu tagi. Sömuleiðis munu vatnalög skilgreina ábyrgð landeigenda varðandi flóðvatn. Enn munu ákvæði Jónsbókar í fullu gildi varðandi umferð ferðafólks og t.d. berjatínslu, svo eitthvað sé nefnt. Mig rámar í, – er þó langt frá því viss – að eitthvert mál varðandi það að landeigandi sléttaði fyrir girðingarstæði með jarðýtu, hafi komið upp ekki alls fyrir löngu. Þá hafi komið í ljós að sækja þurfi um leyfi yfirvalda til að gera slíkar ráðstafanir og meta þurfi í því sambandi, hvort slíkt verði til áberandi umhverfislýta, hvort það geti leitt til umhverfisskemmda, svo sem úrrennslis o.s.frv.
Mig langar til að bæta einni spurningu við það sem Jón telur upp, en það er hvort það geti ekki verið háð mati á umhverfisáhrifum, ef farið er út í verulegar breytingar á gróðurfari með stórfelldri sáningu trjáa og jurta. Þarna er ég ekki að tala um aðgerðir til að hefta uppblástur og sandfok, heldur t.d. þegar lúpínu er sáð í svæði með mólendis- lyng- og kjarrgróðri og svo e.t.v. þegar tekist hefur að eyða þessum innlenda gróðri er þessu fylgt eftir með því að gróðursetja innfluttar trjátegundir af einhverju tagi. – Ég vona að þetta frumkvæði Jóns Snælands veki upp þarfar umræður líkt og kvöldmessan hans fyrir stuttu.
23.08.2006 at 13:05 #558446Þekkir einhver ykkar þá bíla? Virðist vera með nokkuð öflugri vél, ef marka má auglýsingar. Hef ekki átt þess kost að prófa þessa tegund og veit því ekkert um þá. – En kemur ekki blessaður Hi-Luxinn með stærri vélinni næsta vetur? Ef skriffinnarnir í Brussell gefa grænt ljós á þá vél, þá er náttúrulega engin spurning með að kaupa Hi-Lux.
23.08.2006 at 13:01 #558472Vönduðustu kerrur sem ég hef séð smíðar Óskar Halldórsson í Hjólbarðaþjónustu Óskars. Sérstaklega hafa sleðakerrurnar frá honum verið vinsælar. sími 453 6474 netfang: oskarha@simnet.is
22.08.2006 at 14:46 #557992Get tekið undir allt sem Snorri segir, við megum heldur ekki týna okkur í deilum um aukaatriði og keisarans skegg eins og mér finnst sumum hætta til að gera. Það verður aldrei neitt gert af viti í þessum málum nema okkar félag taki frumkvæðið í þessu efni og knýi á um viðunandi lausnir og taki fullan þátt í að smíða þær samskiptareglur, sem verða í gildi. Eins og Snorri bendir á, hættir embættismönnum, sem hafa þar til viðbótar sjaldnast nægilega þekkingu og skilning á svona viðfangsefnum, til þess að "leysa" málin með total bönnum og reglum. Þarna bætist við sú móðursýki, sem heltekur þjóðina stundum varðandi mörg svona mál. Svo koma allskonar besserwisserar og blaðra um hluti sem þeir hafa ekkert vit á. Ég sá núna fyrir fáum dögum grein eftir fyrrverandi alþingismann, nokkuð við aldur, sem vildi fá helstu hálendisleiðir uppbyggðar og malbikaðar á grundvelli jafnréttissjónarmiða, sem stundum hefur nú heyrst áður. Hann hafði ætlað Arnarvatnsheiði, en verið snúið við af starfsstúlku í sjoppu í Reykholti. Slík umræða hefur nú heyrst áður.
17.08.2006 at 06:36 #557966Góðan og blessaðan daginn. Það er líklega rétt að byrja daginn eins og hann endaði: á messu!
En þetta var nokkuð góður pistill hjá Ofsa og mörgu velt upp sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér og ræða. Ég er sammála honum um að það þarf endilega að klára það mál að skilgreina leyfilega slóða og/eða óleyfilega. Það mál er allt í skötulíki og óviðunandi í réttarríki (er annars Ísland réttarríki?) að það geti verið háð geðþótta og dagsformi einstakra löggæslumanna hvort menn séu lögbrjótar eða ekki. Hinsvegar mega menn heldur ekki falla í þá gryfju að vilja hafa slóða út um allt og tilvist viðurkenndra slóða þarf að byggjast á einhverri skilgreiningu, sem allur fjöldinn (nema náttúrulega stöku verkfræðingur) geta verið sammála um. Annars er það nú svo, talandi um verkfræðinga, að mestu umhverfissóðarnir á hálendinu eru ekki jeppamenn, heldur þeir sem annast rannsóknir fyrir Landsvirkjun eða aðrar opinberar stofnanir. Fyrir nær tuttugu árum voru t.d. flokkar manna við svokallaðar undirbúningsrannsóknir hér á Hofsafrétt, annarsvegar vegna könnunar á möguleikum á virkjunum Jökulsánna sem falla hér ofan í Skagafjörð og að hinu leytinu vegna mögulegs flutnings ánna, þ.e. vestari árinnar til Blönduvirkjunar og hinnar eystri suður í Þjórsá. Hvorir tveggja vatnaflutningarnir eru tæknilega tiltölulega einfaldar framkvæmdir. En þessir flokkar fóru hér út um allt, mynduðu slóða vítt og breitt, út og suður, grófu holur og boruðu, en hvergi hef ég orðið var við að þeir hafi nokkursstaðar lagað til eftir sig, uppmoksturshrúgur og plön fyrir bora eru enn eins og þeir fóru frá þeim. Ekki veit ég til að þessar rannsóknir hafi nokkru sinni verið bornar undir nokkurn mann, hvorki þá sem telja sig landeigendur þarna ellegar sveitarfélög og þeirra stofnanir, né skipulags- og náttúruverndaryfirvöld ríksins. – Hvað varðar uppbyggða vegi, þá er nú eins og Ofsi þekkir búið að byggja upp Kjalveg hér að norðanverðu innundir Dúfunefsmela og byrjað á vegarbyggingu sunnan frá, þar sem meira er haft við og hann lagður bundnu slitlagi. Enda skilst mér að áætlanir Vegagerðarinnar hljóði upp á að stefnt sé að vegi með bundnu slitlagi norður af fyrir árið 2015 í síðasta lagi. Þetta barst einu sinni í tal við yfirmann hjá Vegagerðinni svo ég heyrði hvort það væri rétt að gera þessa vegi sambærilega við þjóðvegi í byggð og þá svaraði þessi maður að það ætti ekki að vera forréttindi þeirra sem ættu "stóra trukka" að aka þessa leið. Eigendur smábíla ættu sama rétt. "Ætlið þið þá ekki að malbika í Grímsvötn og leggja hjólastólabraut upp á Hvannadalshnjúk?" spurði þá viðmælandinn. Læt hér staðar numið að sinni. kv.
16.08.2006 at 10:44 #557930Af því að þetta varðar þessa tilteknu bifreiðategund, þá get ég staðfest að brettakantar eru þeir sömu fyrir 33" og 35" á eldra body Pajero. Lét breyta honum Grána mínum sem ég seldi reyndar í fyrra fyrir 35", en setti svo aldrei aðra stærð en 33" undir hann, mest vegna þess að dekkin sem ég átti entust svo skrambi vel! Það er ekki fyrr en út í alvöruna er komið, þ.e. 38" + sem þarf að gera einhverjar verulegar breytingar á gamla Pajero (1999 og eldri) Þá þarf að færa afturhásinguna aftar o.s.frv.
15.08.2006 at 13:22 #557864Manni sýnist á bílaauglýsingum að það megi fá marga þokkalega bíla af árgerðunum 1996 til og með 2000 á verði sem samræmist þínum hugmyndum. Því miður hef ég ekki persónulega reynslu af neinni þeirra tegunda sem þú telur upp og mér sýnist þess utan að þú sért ekki að leita að pick-up. Ég sé hinsvegar að þú minnist hvorki á Land Cruiser né Pajero sem möguleika og auðvitað er það nú svo að þokkalegur LandCruiser er líklega ekki fáanlegur á því verðbili sem þú ert að nefna. Hinsvegar er vafalaust hægt að ná í 1995 – 1998 model af Pajero á þessu verði. Kosturinn við þá er vel hönnuð og smíðuð vél og skemmtilegur millikassi. Ég er svolítið hræddur um að Discovery sé vart fáanlegur á verðbilinu sem þú nefnir, en ég hef heyrt vel af þeim látið. AF þessu sem þú nefnir líst mér best á 4Runner með diesel, en þeir eru reyndar ekkert óskaplega margir til.
13.08.2006 at 21:51 #557746Eiríkur, ég hef aldrei heyrt þetta nafn á kvíslinni við Ingólfsskála. Strangakvísl heitir aftur jökulkvísl á Eyvindarstaðaheiði, sem kemur upp nálægt Sátu (undan Sátujökli) og rennur til vesturs og í Blöndu rétt sunnan við þar sem lónið nær lengst til suðurs.
13.08.2006 at 21:46 #557744Í fyrsta lagi – sunnlendingar tala um afrétt í karlkyni, norðlendingar í kvenkyni. Ég var nokkuð lengi að læra þetta!
Í öðru lagi. Það er hárrétt hjá Jóni Ofsa, að Skálakvíslarnafnið er nýlegt, höfundur þess var Friðrik heitinn Jónsson á Sauðárkróki, sem manna mest vann að byggingu Ingólfsskála, eiginlega talsvert meira en Ingólfur föðurbróðir hans sem skálinn er kenndur við. Þessi kvísl hafði ýmis nöfn og ég ætla svo sem ekkert að fullyrða í þessu efni, en þó nokkrir af þeim heimildarmönnum, sem ég tek mest mark á, kenna hana við Austari-Krók. Svo er talað um Miðkvíslar af gangnamönnum, en sprænan sem rennur um Eyfirðingahóla og vestan í Jökultungu er ýmist kölluð Vesturkvísl eða Hólakvísl. Hún rennur ekki í Vestari-Jökulsá fyrr en rétt norðan Skiptabakka. Miðhlutarkvísl kannast ég ekki við að hafa heyrt nefnda, en í svonefndu Miðhlutarstykki, sem er norðaustur af Þröngagili, austan árinnar sumsé, kemur upp mjög vatnsmikil lindaá sem heitir Miðhlutará. Hún fellur í Vestari-Jökulsá rétt norðan við hið eiginlega Þröngagil. Nokkru norðan við hana er svo talsvert vatnsmikill lindalækur sem heitir Kvikindislækur og fellur einnig í Vestari-Jökulsá en hann kemur að miklu leyti þar sem heita Ósabotnar suður af Sauðafelli, sem er upp af Hofi í Vesturdal. Nokkrir smálækir falla einnig úr vestri þarna á Goðdaladalnum, þekktastur er Hraunlækur, en þeir eru mun vatnsminni. Miðhlutarstykkið er dalverpi, talsvert vel gróið. Spurning hvort hálendisbrúnin sunnan þess gæti verið mörk kvarterra og tertíerra berglaga, eða hvort þetta er hraunbrún frá hlýskeiði ísaldar, veit ég náttúrulega alls ekki. En bestu heimildarmenn sem ég þekki af núlifandi mönnum um Hofsafrétt tel ég að séu þeir Hjálmar Guðjónsson bóndi á Tunguhálsi II og gangnaforingi til áratuga á Hofsafrétt og svo Borgar Símonarson í Goðdölum, en hann er manna kunnugastur á Goðdalafjalla og sunnarverðri austurheiðinni.
kv.
13.08.2006 at 21:32 #557722….aðal manneskjunni, frú Þórunni. Það er náttúrulega bersýnilegt að sú Þórunn, dóttir Jóns biskups, sem kunnust er úr sögum hefur ekki getað staðið fyrir svona ferð, í hvorugri plágunni á 15. öld. Nú má maður auðvitað gæta sín að verða ekki of tilgátuglaður, en það má svo sem gefa sér, að forfeður okkar og-mæður hafi kannski ekki alltaf verið með tímasetningar á hreinu og vísindalegar sagnfræðiaðferðir þeim lítt kunnar. Það er því ekki vitlausari tilgáta en eitthvað annað, að sökum þess að Þórunn Jónsdóttir hefur vafalaust verið sveipuð einhverjum hetjuljóma í hugum alþýðu vegna framgöngu sinnar við að hefna föður síns og bræðra, sem og kjarks hennar að bjóða voldugu, erlendu hervaldi svo freklega byrginn, hefur sá kjarkur og sú kænska, sem einhver önnur kvenhetja þó fyrr væri á dögum sýndi með því að fara með hyski sitt á fjöll upp til að forðast drepsótt, verið tengd hennar nafni þegar frá leið. Hvað um það, einhverntíma verðum við að hittast, Jón Ofsi, og spjalla saman um forn eyðibýli og byggðarminjar og bera saman bækur okkar í bókstaflegum skilningi. Þetta er svo skratti skemmtilegt viðfangsefni!
13.08.2006 at 21:08 #557720Þakka ykkur báðum fyrir síðast, Jón og Skúli. Það var góð stund að hitta ykkur þótt hún væri stutt. Það eru eins og þú drepur á Jón Ofsi, margir búnir að spá í Hafursstaðahlíðina og Krókdalinn og einn þeirra er Jón Gauti Jónsson, landfræðingur og sagnfræðingur, en hann er sonur Jóns heitins Sigurgeirssonar frá Helluvaði í Mývatnssveit, en þeir feðgar ásamt fleirum unnu gríðarmikið þrekvirki við að finna Biskupaleiðina svokölluðu, sem líklega hefur legið um þetta svæði. Jón Gauti bjó hér á Sauðárkróki í nokkur ár og vorum við allvel kunnugir þá. (Jón Sigurgeirsson var einn í liði Þorsteins Þorsteinssonar á Akureyri þegar Geysisslysið varð á Bárðarbungu.) Þú minnist líka á tóftina eða byrgið fyrir innan Tröllið við Tungnaá. Einhversstaðar las ég haft eftir einhverjum fræðingi að trúlega hefði þetta verið veiðibyrgi. Ekki veit hann ég, en gaman væri að heyra frá honum Olgeiri okkar Engilbertssyni Weapon um þetta atriði. Skemmtilegt að Einar Kárason, rithöfundur, lætur eina sögupersónu sína nota þetta húsaskjól! Sú sögupersóna (Ljótur) hittir m.a. Eyvind og Höllu á Arnarvatnsheiði!
Vonast til að hitta ykkur félaga fljótlega aftur við gott tækifæri.
-
AuthorReplies