Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
27.04.2007 at 22:49 #589600
Þetta er eitthvað alveg nýtt. Ég man nú þá tíð og þarf ekki langt aftur í tímann til þess, að breiddarljós sem komu original frá USA á t.d. stóra Bronco ofl. bílum voru hreinlega bönnuð af yfirvöldum hér. Nú er spurningin; Er þetta afturvirkt eða gildir þetta einungis um bíla, sem breytt er eftir að reglugerðin tekur gildi? Eða verður eitthvert aðlögunarferli að þessum reglum?
Já, hérna. Alltaf er verið að finna upp eitthvað nýtt. Ætli þetta hafi komið frá Brussell?
20.04.2007 at 21:36 #588888Hérna hér, Ulfr eða einhver annar fróður maður; hvar fæ ég neðsta legginn í SSB HF loftnet, þessa sem hann Siggi okkar Harðar blessaður smíðaði held ég sjálfur á sínu ágæta verkstæði. Ég er að meina legginn á milli spólanna ef þið skiljið hvað ég meina. Þessir leggir voru reyndar misjafnlega langir eftir því hvað hentaði hverjum bíl, en ég held minn sé svona hálft annað fet eða svo. Ég hef verið með stöðina uppsetta í bátnum mínum, en nú er þessi neðsti hluti orðinn svo tærður af ryði, að ég treysti honum ekki lengur til að bera uppi svona þungt loftnet, því það sveiflast talsvert öðruvísi á bát en á bíl og mikið álag á það. Best væri að fá þetta smíðað úr rústfríu efni, en ég veit ekki hvort það hentar upp á afköst loftnetsins. Mig minnir að á einhverjum þræði hér í vetur hafi þetta komið fram en finn það ekki núna. Er ekki einhver sem veit þetta, t.d. þeir radíóamatörarnir Snorri Ing. eða Einar Kj.?
19.04.2007 at 13:56 #588706Man ekki eftir að hafa átt þennan "alvöru" rússa, GAZ 69 eða GAZ 69A, en ég átti einn frambyggðan UAZ
Það varð ekki af Rússajeppunum skafið, að fjaðrabúnaðurinn í þeim virkaði sérlega skemmtilega af flatjárnum að vera. Allur mekanismi í þeim var líka frekar einfaldur og maður gert við ansi margt sjálfur.
Frambyggði rússinn minn var með tveimur tönkum (voru þeir það ekki allir annars?) og ég komst upp á lag með að hafa steinolíu á stærri tanknum og keyrði hann á henni allar lengri leiðir, en skipti yfir á bensínið rétt áður en maður stoppaði svo hann færi nú í gang aftur, blessaður. Í þá daga var steinolían ódýr og enginn skattur á henni. Þar var sumsé enn ódýrara að keyra á henni en diesel, því maður slapp við þungaskattinn!
Nú, betri helmingurinn var að minna mig á að tveir Lada Niva hefðu einhverntíma verið hvor á eftir öðrum á heimilinu. Þeir voru merkilega góðir bílar, þótt lága drifið hafi verið full hátt í þeim.
16.04.2007 at 20:52 #588098Ég er nú svolítið að fara hjá mér yfir því að hafa verið skráður á listann, veit ekki hvort það er nú heiðarlegt af mér sem kemst nú ekki nær því að eiga torfærutæki en vera stoltur eigandi að Massey Ferguson 135 árgerð 1966! Geri hér með grein fyrir þessu augljósa vanhæfi mínu en er auðvitað í hjarta mínu stoltur yfir því að fá að vera með ef það verður leyft!
13.04.2007 at 22:07 #588034Úr þessu á ég ekki von á að geta fengið mér jeppa, en fyrsti bíllinn minn var Jeep Cj2A sem þætti nú ekki merkilegt tæki í dag, en það er önnur saga. Við vorum sammála um það eitt kvöldið í vetur við Óskar Erlings þegar við vorum að dást að hljóðinu í 8 cyl rokknum í Patrolnum hans, að það væri nú eftir allt saman Jeep sem rúlaði! og strukum TJ bílnum hans hátt og lágt, klóruðum honum bak við speglana og brostum aftur fyrir eyru. Eins og ég tek fram á öðrum link hérna á 4×4 vefnum, þá myndi óskabíllinn minn í dag vera Jeep Wrangler Rubicon Unlimited á 38" og með einhverjum góðum aftermarket fjöðrunarbúnaði, svo sem eins og frá Super Lift, Pro Comp eða einhverju öðru góðu fyrirtæki í þeim bransa. – By the way, Óskar; hvar tókstu þessa mynd?
13.04.2007 at 21:45 #587892Það er satt, þetta þarf að komast í hundrað pósta múrinn. Ég legg mitt af mörkum!
Jæja, en hvað um það. Satt best að segja held ég að það sé ekki til neitt eitt, rétt svar við spurningunni. Það eru svo ári margar breytur í þessu.
Í fyrsta lagi: Hvernig ætla ég að nota bílinn? Á hann að vera svo til eingöngu til fjallaferða eða á hann líka að vera "daily commuter"? Í öðru lagi: Hvað þarf ég / vil ég hafa bílinn stóran? Og svo framvegis. Þegar maður er búinn að setja óskalistann saman í einn bíl, er fyrst hægt að fara að velta fyrir sér hvernig mótor hentar tækinu. Til viðbótar við það sem Skúli H.Skúlasona segir hér fyrir ofan, þá má benda á, að enn sem komið er er "haldið inni" hluta af þungaskatti í eldsneytisverði á diesel fuel, vegna þess hvað hún er há fyrir skatta. Í fjármálaráðherratíð Geirs norska var ákveðið að setja þennan hluta á ís og ekki hefur verið tekin ákvörðun enn um framhaldið. Ef ég ætti að segja hvað væri óskabíllinn minn um þessar mundir (þ.e.a.s. ef ég hefði efni á bíl!) þá væri það Jeep Wrangler Unlimited Rubicon ( fjögurra dyra útgáfan) með 8 cyl Hemi mótor, hækkaður upp á 38" dekkjum, sem ég held að séu heppileg fyrir þessa bílstærð og eitthvað af þessum frábæru fjöðrunar kitum sem þeir eru að búa til fyrir þessa bíla í ameríkuhreppi. Já, og til viðbótar með blessaða diesel rokkana. Voðalega er ég hræddur um að þessar nýju vélar, sem er búið að peppa upp í einhver ósköp í togi og truntum séu fljótar að brenna upp. 2,5 lítra fourbanger sem er að skila 174 truntum með ótal fídusum, getur ekki verið að hann endist meira en 100.000 km
10.04.2007 at 20:17 #584800Ég tek undir með Þórði hér að ofan, að ég hef fregnað af fleiri en einu tilviki, þar sem svona staða hefur komið upp. Ég er líka sammála Agnari Ben að það þarf að fá þetta alveg á hreint, svo ekki sé verið að níðast á fólki með þessum hætti. Það gengur ekki að vera með stöðugan áróður um að hætta notkun nagladekkja af umhverfisástæðum, ef það getur svo leitt til þess að tryggingafélög bæti ekki tjón vegna þess að þau séu ekki notuð. – Það var nú síðasta vetur, sem heyra mátti á einhverri útvarpsstöð að Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu var einmitt spurður út í þetta, en ég skildi hann þannig að hann væri í fyrsta lagi þeirrar skoðunar að mannslíf væru meira virði en malbik, sem og að þetta hefði áhrif á stöðu bifreiðaeigenda og ökumanna gagnvart tryggingum. Þetta þarf að vera alveg á hreinu.
06.04.2007 at 22:38 #587354….hvernig myndi V6 Vortex GM motor koma út í svona projecti? Það eru víst ekki vandræði að fá slíka vél ásamt með tilheyrandi skiptingu og jafnvel millikössum af fleiri en einni gerð. Af hverju ekki að spyrja Ljónsstaðamenn ráða?
06.04.2007 at 22:33 #549034Nú er ég búinn að eiga Garmin CSx 60 tæki um skeið og notað það allnokkuð. Að mínu mati er þetta tæki hreint raritet og kennsludiskurinn sem maður fær aukreitis hjá seljendum er alveg fyrirtak, enda er það Ríkharður sjálfur sem talar inn á hann og leiðbeinir og þegar kálfar eins og ég geta lært eftir því, eiga allir að geta það. Ekki skemmir fyrir að geta notað þetta sem "street pilot" og ef maður þarf að finna eitthvert hús í nýju hverfunum í Kópavogi, ja, þú vildi ég ekki vera án tækisins!
05.04.2007 at 22:36 #587224Við verðum að hafa í huga að Páll Halldór fékk varla tíma til að svara neinni spurningu, þáttarstjórnandinn nánast leyfði honum það ekki. Ég efa ekki að PHH hefði einmitt á þessu momenti viljað koma einhverju sambærilegu að og Dagur er að benda á, en fékk bara ekki að ljúka máli sínu. Þessi blessaður Runólfur virðist manni af því sem frá honum kemur bæði í mæltu máli og rituðu vera búinn að stilla þeim hluta íslenskra bifreiðaegenda og bifreiðastjóra sem ekur á jeppum, sérstaklega breyttum jeppum, upp sem andstæðingum annarra ökumanna, sem er náttúrulega þvílík steypa. Ég vil nú reyndar leyfa mér að efast um að árekstur við breyttan jeppa á t.d. 38" + dekkjum sé alvarlegri fyrir fólksbíl en t.d. að lenda á amerísku "teppi". Það eru nefnilega mestar líkur á að lenda á uppblásnu gúmmíi ef fólksbíll lendir t.d. á bílnum hans Benedikts formanns. Þáttarstjórnandinn í þessu tilviki er hinsvegar í því sama og aðrir í sama bransa, að reyna að finna eða búa til hasar, helst finna einhvern sem hægt er að stilla upp sem óvini "almennings" og hægt er að leggja í einelti sem óbótamanni. Þau eru að keppa við "Ísland í dag" með áhorf þetta Kastljóslið og í þessum slag er einskis svifist og má einu gilda hvað er rétt og hvað er rangt og hver verður fyrir þeim. En eins og Skúli bendir á hér að ofan, þá er kannski tilefni til þess að fá birta gagnorða blaðagrein, sem geri grein fyrir málefnum og því starfi að öryggismálum í umferðinni, sem unnið er að af hálfu F4x4, og er áreiðanlega umfangsmeira, ábyrgara, faglegra og gagnlegra en fjas og flugeldasýningar sjónvarpsþáttagerðarfólks.
04.04.2007 at 15:13 #587212Ég sný ekki til baka með það gegn minni sannfæringu. Hitt er svo annað mál, að Sigmar þessi er greinilega´haldinn fordómum í garð breyttra jeppa og er líklega með stimuleringu frá Selfossi farinn í einhverja krossferð á móti þeim. Mér fannst nefnilega eins og oft gerist t.d. þegar Jóhanna Vilhjálms er spyrill, að þáttarstjórnandi sé fyrirfram búinn að taka afstöðu með öðrum viðmælandanum en móti hinum og leyfi þeim aðila sem þeim er ekki að skapi helst ekki að komast að með sín rök. Það er því miður alltof mikið um það í íslenskum fjölmiðlum, sjónvarpi sem öðrum, að þáttastjórnendur séu í "trúboði" fyrir eitthvert tiltekið efni og rökfræðin endilega ekki í lagi. Svo er þetta lið búið að setja sig á stall sem einskonar heilagar kýr, sem alls ekki megi kritisera og það telur sig eiga að fella dóma og þeim megi ekki áfrýja. En pointið í þessu öllu saman ætti nú að vera það, að ALLIR bílar eigi að fá vandaða skoðun og þeir eigi að vera útbúnir til að framkvæma það sem til er ætlast, eins og t.d. draga kerrur eins og kemur fram hér að ofan, sem þurfa þá líka að vera öruggar í umferðinni.
03.04.2007 at 21:12 #200065Líklega hefur lögreglan/sýslumannsembættið á Selfossi haft frumkvæði að þessari umræðu í Kastljósi ríkisimbans um „hættulegar breyttar bifreiðar“ í umferðinni. Okkar maður stóð sig náttúrulega vel eins og hans er von og vísa. Það sem olli mér hinsvegar heilabrotum var hvernig stóð á því að fulltrúa FÍB var stillt upp sem einhverskonar „andmælanda“ F4x4 í þessu samhengi. Hver hefur skapað það viðhorf í þessum málum? Manni getur svo sem dottið í hug að við þetta Selfossembætti þykir mönnum að það þurfi að slá keilur og vinna peð í einhverjum meira og minna ímynduðum slag við eigendur 4×4 bifreiða. Er einhver í okkar félagsskap sem skilur þessi mál meira og betur en ég?
31.03.2007 at 17:57 #586646Getum við ekki sammælst um að ef fólk vill nota bíla sem leikföng eða keppnistæki, sé hin almenna umferð ekki rétti vettvangurinn fyrir það. Best er að til séu sérstök svæði í því skyni. Er ekki eðlilegt að áhugamannasamtök í þeim greinum útvegi sér land til þess og komi sér upp aðstöðu til þeirra hluta með eða án aðkomu sveitarfélaga. Kannski gæti það orðið þáttur í því að auka umsvif í einhverju sveitarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins að bjóða land til slíkra nota? – Í sambandi við hraðamörk eru sektir og ökuleyfis- eða ökutækjasvipting ekki kannski markmið í sjálfu sér heldur hitt, að hægt sé að koma á sem almennastri viðhorfsbreytingu gagnvart áhættuhegðun í akstri. Sem betur fer er allur fjöldinn þannig stemmdur að vilja fara eftir skynsamlegum reglum varðandi umferð og umferðarhraða. Það er hinsvegar hættulegur minnihluti, sem þarf alltaf að fara út á ystu brúnir í sinni hegðun, í umferð sem annarsstaðar í mannlegu samfélagi. Gagnvart þeim gilda vafalaust ekki önnur úrræði en stórar sektir og sviping ökuleyfis og jafnvel ökutækis í sumum tilvikum. Lagákvæði um slíkt þurfa þó að vera mjög ströng og ekki gripið til slíks nema í alverstu tilvikum. – Hinsvegar er alveg augljóst að sá stóri meirihluti, sem alla jafna ekur með viðeigandi gætni og fyrirhyggju er ekki mjög sáttur við smámunasemi við umferðareftirlit og hraðasektir. Það er líka óþolandi, að litið sé á umferðarsektir sem tekjulind og í raun andstætt öllum almennum reglum um mannréttindi sem í gildi eru í okkar heimshluta. Hvað þá ef hraðasektir eru notaðar sem tekjuauki fyrir löggæslumenn. Slíkt ætti ekki að þekkjast, þótt svo kunni að vera tíðkað einhversstaðar.
31.03.2007 at 08:26 #586602Ég hef nú í sjálfu sér litlu við það að bæta sem Jón Ofsi segir hér fyrir ofan, enda sammála honum að flestu leyti (eins og venjulega!). Hitt er svo nokkuð, sem mætti bæta við, að lögreglan hér hefur ekki sama í höndunum eins og starfsbræður þeirra víða erlendis. Í fyrsta lagi þá er alltaf verið að spara við kaup á lögreglubílum hér vegna niðurskurðaráráttu pólitíkusa á þessu sviði. Þegar kaup á lögreglubílum eru boðin út erlendis, eru skilmálar talsvert strangir, m.a. þurfa þessir bílar að vera sérstyrktir m.a. svo hægt sé að aka þeim á meiri hraða yfir ójöfnur, sem og sérstyrkt "body" sem þarna skipti máli, þegar nota þarf lögreglubílana beinlínis sem "barrier" þegar stöðva þarf ruglað fólk. Mér skilst að það sé litið þannig á það hjá bifreiðadeild Ríkislögreglustjóra, að lögreglubílana megi ekki nota til að stöðva ofsaakstur nema í einhverjum undantekningartilvikum og fari lögreglumennirnir ekki eftir því, sé hart tekið á því. Nú, erlendis hefur lögreglan líka ýmsan búnað í þessu skyni, t.d. naglamottur og sérsmíðaðar hindranir sem stöðva flóttabíla með sem minnstri áhættu fyrir þá sem í þeim eru og umhverfið. En þið megið vera alveg viss um það, að innan lögreglunnar er farið yfir öll svona mál eftirá til að læra það sem læra má af þeim upp á framtíðina.
25.03.2007 at 17:13 #585910Fúslega viðurkennt hér með að hafa ekki séð þessi blöð sem Þorvarður Ingi kallar svo skemmtilega "lakkrísblöð". Þetta verður maður bara að prófa!
24.03.2007 at 20:05 #585928Búið að vera déskoti hvasst af SV þarna í dag.
24.03.2007 at 20:01 #585906Tek nú undir með þetta að vera ekki að hita rúðuna óþarflega mikið þegar veðrið er slæmt. Hérna í den tid (ég orðinn svo andskoti gamall!) voru margir bílar nánast miðstöðvalausir miðað við það sem algengast er í dag. Willy’s jepparnir fyrstu voru t.d. ekki nándar nærri allir með mistöð og þótt eitthvað slíkt hefði verið mixað í, þá blésu þær í fæstum tilfellum neitt upp á rúðu. Fyrsti jeppinn sem ég var á eitthvað að ráði var einmitt Willy’s CJ2A árg 1946 eða 1947 og þar varð maður nánast aldrei var við þetta vandamál, enda enginn hiti á rúðunni. Merc. Benz vörubílarnir sem framleiddir voru á sjötta áratugnum og fram eftir þeim sjöunda voru með afspyrnu lélegar miðstöðvar, t.d. 322 og 327 typurnar (síðar 1113 og 1413) og þar var best að láta miðstöðvarnar blása sem mest niður og var mönnum þó yfirleitt alltaf kalt á löppunum í þessum typum í vondum veðrum að vetri til, miðstöðvarnar voru svo andskoti lélegar. En þá var klakasöfnunin ekkert til að tala um á rúðunni. En hvað um það, gúmmíklæddu þurrkublöðin eru alltaf betri en þessi venjulegu að vetri til, finnst mér allavega. Annars er annað, sem manni finnst bölvað við suma nýju bílana, en það er þegar þurrkurnar ganga ofan í eitthvert "hólf" aftan við vélarlokið að manni skilst til að þær fari úr augsýn og myndi ekki "drag". Þetta rými fyllist af snjó, bæði þegar bílarnir standa og svo þegar þeir eru á ferð í skafrenningi og hríðarveðri. Svo ýta þurrkurnar blautu slabbinu af heitri framrúðu þarna niður og allt fer í klaka og óþverra. Hefur einhver fundið gott ráð við þessu, t.d. að fá þurrkurnar til að "parkera" ofar og fara ekki þarna niður?
17.03.2007 at 21:20 #584780AF því fólk er farið að tala um starfsaðferðir tryggingafélaga hér á þessari slóð, þá dettur mér eitt í hug sem snertir nagladekkja- og svifryks umræðuna í tengslum við ökutækjatryggingar. Nú skulum við setja dæmið upp þannig, að þau heiðurshjónin Gunna og Jón hafi tekið boðskap umhverfissinna og gatnamálastjóri alvarlega og ákveðið að nota ekki nagladekk undir bílinn sinn í vetur. Ansi marga daga er heldur ekkert með nagladekk að gera, en svo koma nokkrir morgnar, sem það er glerhált á morgnana í íbúðagötunni þar sem þau búa uppi í Norðlingaholti, og þarna liggja botnlangagötur til beggja handa og hægri reglan sem gildir. Einn slíkan morgun kemur illa vaknaður ökumaður akandi á Golfinum sínum,orðinn of
seinn í vinnuna en á negldum vetrardekkjum. Hann gleymir hægri reglunni og ekur beint á bílinn hjá henni Gunnu, sem er að fara með krakkana í leikskólann og er grandalaus fyrir þessu en ætti að vera í fullum rétti. Rétti? segir tryggingafélagið, ekki nú aldeilis, þú ert sko ekki í neinum rétti, bíllinn þinn er ekki rétt búinn til vetraraksturs, þú ert sko í órétti frú mín góð og verður sjálf að standa undir þínu tjóni!
Gleymdi ekki einhver einhverju?
15.03.2007 at 21:05 #584162Nú er greinilega eitthvað að gerast í málunum. Mikið déskoti grunar mig að þarna séuð þið að detta inn á svið, sem gæti leyst mörg vandamál til frambúðar, þ.e.a.s. ef einhverjum reglugerðarpáfum í einhverjum ráðuneytum (nú eða Bruxelles!) dettur ekki í hug að stoppa þetta af eða setja á eitthvert himinhrópandi gjald. Væri ekki tilvalið að skoða þetta skipulega, að einhverjum þremur snjöllum kunnáttumönnum yrði falið að gera yfirlit um möguleika sem til greina koma og það yrði kynnt annað hvort hér á þessum vettvangi eða á fundum félagsins?
13.03.2007 at 21:15 #584292Bara ætla að taka fram, að ég ætla ekki að taka þátt í könnuninni, aðallega vegna þess að ég geri ráð fyrir að fara að hætta í félaginu. Nú þarf maður að fara að lifa af ellilífeyrinum og þá neyðist maður til að skera niður allt sem hægt er að skera niður og þar koma félagsgjöld í áhugamannafélögum því miður ofarlega á listann. Ég er þegar hættur í sleðamannafélaginu og ætli þetta verði ekki næst. Því finnst mér ekki rétt af mér að merkja við einhverja krónutölu í könnuninni. En hitt er auðvitað deginum ljósara, að kröfur til félagsins aukast sífellt og umfang starfseminnar eykst og ekki sanngjarnt að gera þá kröfu til nokkurs manns að sinna því öllu í sjálfboðaliðsstarfi. Svo þegar við bætist ófyrirséður útgjaldaliður eins og þessi VHF-mál, þá er sjálfsagt ekki um margt annað að ræða en hækka gjaldið.
-
AuthorReplies