Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
30.11.2008 at 21:34 #633842
Verðmunurinn pr. lítra nálgast nú þrjátíu krónurnar, svo það er orðið mikið vafamál hvað borgar sig í þessu. Nýjustu bensínvélar eru orðnar ansi sparneytnar miðað við eldri vélar og manni hefur sýnst þessar nýju dieselvélar með mörgum hestöflum séu nú býsna drykkfelldar þegar eitthvert álag er á þær að marki. Ég er t.d. ekkert viss um að góður pikkari eins og F 150 til dæmis með 351 cu.in. vél sé að eyða nokkuð að marki meira en hann myndi gera með diesel vél, sem væri þá nógu öflug til að maður dæi ekki úr leiðindum. Mér skilst að Toy Tundra geti verið tiltölulega hagkvæmur, sem og Tacoma með V6 svo dæmi séu tekin.
30.11.2008 at 08:54 #633762Manni hefur sýnst að þeir eigi ansi fjölbreytt úrval af svona slaglangri fjöðrun í ameríuhreppi og nota þær t.d. í rock-crawling, getur það ekki verið? En varðandi Cruiserana, þá finnst manni algjörlega út úr kú, þegar fólki dettur í hug að láta þá reyna með sér á þennan hátt, að tengja saman framendana. Allir sem tekið hafa í sundur gírkassa vita t.d. að bakkgírinn í flestum þessum kössum er ekki til stórátaka, plús það hvað framdrifinu er hætt, eins og einhver minntist hér á.
28.11.2008 at 21:57 #633568"Einu sinni átti ég hest…….." o.s.frv. Einu sinni átti maður Scout II, sá var reyndar 1972 árgerðin, mér sýnist þessi vera 1973 eða 1974? upprunalega, getur það ekki verið? En bodyið á þessum bílum var ansi ryðsækið. Það var reyndar sjúkdómur sem hrjáði margan góðan bíl þarna á árum olíukreppunnar, því menn voru að spara allan fjandann, m.a. efnisgæði. En það var margt gott í þessum bílum, þótt það færi alltaf í taugarnar á mér hvað vélarlokið var flatt, langt og hátt, miðað við hvar maður sat, þeir voru ekki góðir í skafrenningi, maður sá ekkert nærri bílnum. Ég átti minn í að mig minnir 5 ár og þetta var að mörgu leyti andskoti mikill og góður ferðabíll. Ægir Bjarnason var búinn að fara ýmislegt á þessum meðan hann átti hann (geng út frá að þetta sé sami bíllinn). Mig minnir endilega að hann hafi verið á honum þegar farið var á Hnjúkinn í den tid? Getur ekki verið að það séu komnar aðrar og sterkari hásingar undir hann?
Góðar kveðjur til eigandans og til hamingju með flottan bíl.
24.11.2008 at 18:30 #633424Eftir því sem maður kemst næst varðandi þennan verðmun er ástæðan sú, að við vinnslu á jarðolíu kemur mjög ámóta mikið magn af bensíni og dieselolíu úr hverri rúmmálseiningu af jarðolíunni. Við skulum ekki flækja málið með því að tína til aðrar olíuafurðir, sem falla til við vinnsluna að sinni. Heimsnotkunin á dieselolíu er hinsvegar verulega mikið meiri en notkunin á bensíni að magni til. Bensín er nánast eingöngu notað á létt farartæki, svo sem bíla, bifhjól o.s.frv., en dieselolían er notuð á öll stærri farartæki, flutningabíla, fólksflutningabíla, stóran hluta járnbrautalesta, á vinnuvélar, á stóran hluta skipaflota heimsins, til húsahitunar o.s.frv. Af þessu leiðir að eftirspurn eftir dieselolíu er til muna meiri en eftir bensíni og markaðurinn bregst við með því að hækka verðið. Af því notkunin er meiri hér á norðurhveli jarðar, eykst notkunin og verðið hækkar þegar vetur ríkir norðan miðbaugs. Það leiðir líka til meiri verðmunar á benzíni og dieselolíu. Kerosene eða Jet Fuel er svo millistig milli bensíns og dieselolíu í vinnslunni og svartolía aftur milli dieselolíu og asfalts, en ástæðulaust er að flækja málið með því að orðlengja meira um þessar olíuafurðir. Þessar upplýsingar er reyndar hægt að googla ef maður nennir að lesa sig til um þetta. Varðandi Danmörku, þá segja netupplýsingar manni að nú í október s.l. hafi verð dieselolíu farið upp fyrir verð á bensíni í hinu flatlenda Danaveldi. Er þó skattlagning á eldsneyti talsvert meira dieselolíu í hag en hérlendis. Reyndar er gjaldtaka ríkisins hér á dieselolíu minni en á bensínlítra, þótt munurinn sé minni en í Danmörku og Þýskalandi. Yfirvöld þar hafa haft þá stefnu að hvetja með skattlagningu frekar til þess að dieselolía sé notuð fremur en bensín. Á þetta rætur til þeirra daga þegar bensín var blýblandað og því miklu verra fyrir umhverfið en er þó í dag, þótt nógu slæmt sé. Þetta viðhorf til dieselvéla er þó alls ekki einhlítt þegar skoðað er viðhorf yfirvalda. Í Kaliforníu til dæmis er allt gert til að reyna að koma í veg fyrir að dieselvélar séu notaðar. Þar telja menn að mengun frá dieselvélum sé til muna hættulegri en frá bensínrellunum. hvað svo sem satt er í því efni.
22.11.2008 at 09:48 #633168Þetta er nú hreint ekki sjaldgæft, sumir láta sér nægja að rispa og beygla "auðvaldsbíla". Það er búið að æsa pshycopathana upp í að það sé leiðin til að ná í "spillingarliðið" að skemma bílana, en eins og kunnugt er, þá er "spillingarliðið" allt á upphækkuðum dieseljeppum, eða þannig! Hefna sín á helvítunum. Ég er sjálfur búinn að vera áheyrandi að því að fólk, ekkert síður konur en karlar, er að hrósa sér af því að hafa "bankað" fína jeppa á plönunum hjá stórverslununum með innkaupakerru. Því miður er þetta í flestum tilvikum misskilningur, hið eiginlega spillingarlið verslar ekki í Bónus og er flest með lífverði til að passa bílana sína.
20.11.2008 at 21:15 #633132Reyndar heitir "Lappinn" eitthvað allt annað hjá Volvo, held að enginn noti þetta heiti nema við mörlandar. Hvað um það; Ertu að leita að einhverjum hömsum af svona bíl? Ég hef séð einn nokkuð heillegan standa hér í hesthúsahverfinu á Sauðárkróki, og gæti reynt að komast að því hver á hann, ef þú ert að fiska eftir einhverju þess háttar. Reyndar á Vegagerðin hér einn slíkan, sem þeir nota sem "stáss" og ég hef ekki trú á að hann sé til sölu.
16.11.2008 at 11:20 #203211Góðan daginn, gott fólk og takk fyrir síðast félagar hér í Skagafjarðardeild. Í gærkvöldi var árshátíð deildarinnar haldinn á veitingastaðnum Mælifelli á Sauðárkróki. Gríðarlega vel heppnuð samkoma, frábær matur og „skemmtanastjórarnir“ Jóhann og Valdimar sáu til þess að fólk veltist um af hlátri í nánast hvert skipti sem þeir opnuðu munninn. Nokkrir félagar tóku myndir sem ég efa ekki að þeir setji hér hinn þegar þeir vakna! Við gömlu hjónin þökkum kærlega fyrir okkur og erum strax farin að hlakka til árshátíðar að ári.
15.11.2008 at 17:04 #632908Sæll vertu. Einkum er það nú tvennt, sem stendur upp úr hvað varðar Pajero Sport og Pajero fyrir 2000 árgerðina. Nýju Pajero bílarnir eru svo allt önnur Ella. – En þetta tvennt er ;
a) Millikassinn
b) Innrétting og þá aðallega sæti.Millikassinn í Pajero Sport er það best ég veit sá sami og í L200 PickUp, þ.e. ekki með þessum sídrifs fídus, sem stóru Pajero bílarnir eru með. Svo eru sætin og innréttingin að öðru leyti miklu líkari því sem er í skúffubílnum. Þú situr sumsé ekki eins vel og í stóra bílnum. Svo held ég að afturdrifið a.m.k. sé ekki eins öflugt og í stóra bilnum, það er níu tommu drif í þeim stóra. Svo má fara í miklu meiri samanburð, en ég læt þetta duga.
13.11.2008 at 16:53 #632574Það er andskotinn engin velgja að gagni frá þessum ljósum. Frúin á bíl með original xenon ljósum og mér finnst að þau bræði voðalega illa af sér ef þannig veður er.
12.11.2008 at 17:41 #632684Ætlarðu bara á Hveravelli eða alla leið norður af?
09.11.2008 at 18:03 #632488Ohhhhh…………………………. Those were the days!
09.11.2008 at 17:58 #632504Ertu búinn að skoða kosti loftpúða að aftan?
05.11.2008 at 20:16 #632272Þakka ykkur, ágæta ritnefnd, fyrir ykkar framtak. Þekki svona störf af eigin raun og tel mig vita um hvað þetta snýst og hvað það eru margar vinnustundir og fyrirhöfn fólgin í hverri einustu síðu af svona riti. Blaðið á sinn góða þátt í að tengja okkur öll saman, hvar sem við erum búsett eða stödd hverju sinni. Aftur, þakka ykkur fyrir.
04.11.2008 at 18:42 #632028Það er kannski óþarfi að velta fyrir sér hvernig Bandaríkjamenn hafa þetta, enda eru reglur þar mismunandi eftir ríkjum/fylkjum eða hvað menn vilja kalla stjórnsýslueiningarnar sem Bandaríkin eru mynduð af. En þar er víðast hvar ekki leyft að aka á breyttum jeppum á almennum vegum, heldur verður að flytja þá á vögnum á þau svæði, þar sem notkun þeirra er leyfð. Hef grun að einhverjar ámóta reglur gildi a.m.k. sumstaðar í EU. En eins og Skúli bendir á, þarf bara að skoða þessa hluti með faglegum hætti og kosta þá því til sem þarf. Ýmis innlend samtök eru að vinna að því að skoða stöðu sína við inngöngu í EU og það er því ekkert öðruvísi með okkur en aðra hagsmunahópa.
02.11.2008 at 07:57 #631980Því miður fara svona hlutir, þ.e. elektronisk tæki eins og dvd-spilarar, gps-tæki, 3G símar ofl. þess háttar, sjaldnast á "markað" hérlendis. Þetta eru þrælskipulagðir þjófnaðir og afraksturinn fer nær undantekningarlaust sem fragt til Litháen.
28.10.2008 at 20:52 #631860http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html
Þessi er náttúrulega í ansi stórum skala, en mér hefur virst hún gefa nokkuð góða hugmynd um megindrætti veðurs næstu 9 sólarhringana. En þeir þarna á Grensásveginum eru með ágæta framsetningu, en Veðurstofan okkar gamla og góða hefur verið að bæta mjög mikið grafíska framsetningu veðurspáa að undanförnu – finnst mér allavega.
25.10.2008 at 21:04 #631684Mér verður stundum hugsað til gamla "Ólsarans" Toyota HiLux 1989, sem brást mér aldrei í nær 220.000 km akstri. Númerið á honum var KT 376, og hann var með 2,8 tjúnaðri Toyota (Yanmar) vél og á 1:5,29 drifum. Hef ekki hugmynd um hvort hann er ennþá "alive and kickin´", en það væri vissulega gaman að frétta af því ef einhver hefur séð hann. Síðast þegar ég frétti var hann orðinn blár og átti heima í Hafnarfirði.
25.10.2008 at 16:19 #631678Endilega held ég að þú hafir ætlað að segja eitthvað fleira, gamli félagi!
18.10.2008 at 20:24 #630922Lásuð þið grein Andra Snæs Magnasonar í dag? Þótt ég hafi nú ekki verið neinn sérstakur aðdáandi þessa manns, þá verð ég að viðurkenna að margt í þessari grein vakti athygli mína og stenst röksemdafærsla hans í mörgum atriðum býsna vel. Til dæmis um þær ívilnanir, sem Alcan voru veittar með gjöld vegna lóðar ofl., hvernig skattlagningu arðs er hátta og að maður tali nú ekki um raforkuverðið. En mesta athygli mína vakti þó skilgreining ASM á því hvaða vikt útflutningsverðmæti verksmiðjunnar hefur í raun í íslensku samfélagi. Hvað það er í raun lítill hluti, sem fer til samfélagsins hér á landi. Það er ekki að undra þótt svona arðránsfyrirtæki séu tilbúin til að koma hingað og setja upp fabrikkur sínar ef "samningar" sem íslensk stjórnvöld gera eru með þessum hætti. Verstur andskotinn að íslenskur almenningur trúir frekar reyksprengjum stjórnvalda en sannleikanum.
16.10.2008 at 20:06 #203073Sé að FFA er að auglýsa á forsíðunni lokun á skálum í vetur. Það best ég veit er Ingólfsskáli einnig áfram lokaður, eins og verið hefur undanfarin ár. Stjórnarmenn í FFS segja að helsta ástæðan sé að skálagjöld skili sér bara alls ekki, auk þess sem umgengni hefur verið nokkuð ábótavant. Þessi skálamál frjálsra félagasamtaka til fjalla geta orðið ansi erfið viðfangs í framtíðinni. Það er afleitt ef tiltölulega lítill hópur fjallafara eyðileggur með samviskuleysi og kæruleysi fyrir þeim stóra meirihluta, sem gengur vel um og greiðir fyrir sín afnot af þessum þægindum. Þetta er auðvitað marg rætt mál innan okkar félagsskapar og því miður ansi misjafnt hvaða augum menn líta það að taka þátt í kostnaðinum við tilvist og rekstur fjallaskálanna. Kannski er tilgangslaust að taka þessa umræðu einu sinni enn; það er harðsnúinn hópur sem telur gistigjöld óþarfa íhlutun í sína ferðamennsku. En á þessu eru fjölmörg sjónarhorn. Það er áleitin spurning t.d. innan Ferðafélags Íslands, hvort og að hvaða leyti félagsmenn þar vilja standa með sínum félagsgjöldum undir byggingarkostnaði og rekstri á skálum, sem kannski fæstir félagar nýta sjálfir. Fleira mætti að sjálfsögðu nefna, en okkur í 4×4 stendur auðvitað næst að ræða okkar skála og þeirra rekstur. Læt hér staðar numið í bili.
-
AuthorReplies