Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
13.08.2003 at 23:39 #475564
Það leka þéttingar í læsingunni, trúlega þéttingin innan í tengihólknum (tveir O-hringir) Ég myndi skoða það sem fyrst því að það gæti bent til að það sé eitthvað að gerast í drifinu. Þarf þó ekki að vera. Annar séns er að rörið sem gengur í gegnum drifkúluna leki að innanverðu á tenginu við drifhúsið, gildir einu þú þarf trúlega að rífa drifið úr.
10.08.2003 at 02:05 #475390Athugaðu vel hvort að lögnin frá túrbínu og að soggrein sé örugglega þétt…. Rifin intercoolerhosa framkallar einmitt þessi einkenni. Vélin fær alltof mikla olíu miðað við loft og reykir því hressilega, og vinnur vitaskuld illa án þrýstings. Þetta getur verið lúmstk, því að stundum sést lítið á hosunum þó að þær séu rifnar.
03.08.2003 at 13:14 #475206Ef ég væri að fara í verslunnarmannahelgarrúntinn hefði ég engar áhyggjur af þessu, olíusmit frá túrbínum er algengur hlutur og það er nánast alltaf eitthvað smit í lögnunum. Ef þú ert farinn að finna olíupolla í lögnunum, eða intercoolernum, þá er e.t.v mál að gera eitthvað. Þegar túrbínan er komin á það stig að upptekningar er þörf. það lýsir sér þannig að bíllinn reykir greinilega dökkum reyk við inngjöf, já eða þegar þú ferð upp eða niður brekkur (olían sullast úr lögnunum og inn á vélina). Harðasta ábendingin er síðan ef bíllinn fer að taka brjálæðisköst vegna smurolíu sem sturtast inn á stimplana. Þau lýsa sér þannig að vélin fer á fullt óháð olíugjöf, vinnur gríðarlega, og reykir að sama skapi. Þetta er eitthvað sem fer ekki framhjá neinum sem í lendir.
23.07.2003 at 16:25 #474970Í klausunni hér að ofan er ég ekki að hrósa aksturslagi jeppamanna, og þaðan af síður að lasta ökulag rútubílstjóra á þórsmerkurleið sem mér virðist að jafnaði til fyrirmyndar!! Bara svo það sá á hreinu
Kv
Óli
22.07.2003 at 02:34 #192736Mig langar bara að fá útrás fyrir gleði mína yfir því hvað jeppamenn almennt eru orðnir góðir bílstjórar og til fyrirmyndar í umferðinni! Tilefnið er einmitt að ég skrapp inn í Þórsmörk um helgina síðustu og naut þar þeirra forréttinda að verða vitni að hæfni þeirrra sem þar voru á ferð…..
Ég man fyrir fáum árum síðan þá var alger plága að fara í Þórsmörk, því eins og allir vita er slóðinn þar sumstaðar þröngur, og lítið pláss fyrir bíla að mætast, sérstaklega ef báðir eru af stærri gerðinni. Í þá gömlu daga voru endalausar tafir á ferðalaginu. T.d stoppaði maður gjarnan við næsta „útskot“ í vegkantinum ef það var að koma bíll á móti því að það var jú aldrei að vita nema klaufinn sem maður var að mæta væri fullur, já eða bara klaufskur. Ég var greinilega ekki einn um þennan ótta því að flestir sem ég mætti stoppuðu líka í vegkantinum ef þeir sáu mig nálgast og gáfu mér gott pláss. Þannig var nú þetta í þá daga….. endalaus stopp sitt á hvað til að víkja fyrir klaufunum, og svo af því að það tók svo langann tíma að mætast þá kinkuðu menn kolli til hvers annars, enda nánast orðnir málkunnugir eftir þann mikla atburð að mætast á Þórsmerkurslóðanum. Þessi ferðamáti var vitaskuld óhagstæður fyrir þjóðarbúið og í raun ferðalanga alla!
En sem betur fer er komin betri tíð með blóm í haga, það varð ég áþreyfanlega var við á s.l sunnudag þegar ég álpaðist inn í mörk á móti umferðinni. Fyrirfram var ég svolítið kvíðinn yfir því að vera að þvælast þetta, enda væri líklegt að ég myndi tefja önnum kafna ferðalanga á heimleið með því að mæta þeim á leiðinni, sá ótti reyndist sem betur fer algerlega ástæðulaus. Það er alveg greinilegt að það hefur orðið bylting í aksturshæfileikum ísl. jeppamanna. Svo mikil að hreinum undrum sætir! Af þeim c.a 50 jeppum sem ég mætti þurfti aðeins einn þeirra að stoppa í kantinum til að hleypa mér framhjá, það var líka greinilegt á honum að hann var hálf sofandi því að þegar hann lagði af stað eftir mætinguna keyrði hann óeðlilega hægt.
Á eftir mér var 50 manna rúta, og á hennar ferðalagi sá maður muninn á hæfileikum jeppamanna og síðan rútubílstjóra, sem gætu greinilega margt af okkur lært!! Vissulega þurfti rútan að mæta þessum 50 jeppum rétt eins og ég, en hann var auðsjáanlega meiri klaufi en jafnvel ég, því að hann stoppaði nánast við hvern einasta bíl sem hann mætti, ég þurfti ekki að stoppa alveg svo oft, enda jeppamaður, þó ólaginn sé. En gaman var að sjá kappana sem mættu okkur þegar þeir renndu framhjá rútunni án þess að slá af og skildu hann eftir í kantinum með nokkra vel valda steina í grillinu eins og svona vesalingar eiga jú skilið fyrir að vera að þvælast þetta á mun stærri bíl en þeir ráða við.
Það var til dæmis unun á að horfa þegar ég mætti laglegum jeppa með fellihýsi í eftirdragi. Klaufinn ég missti kjarkinn þegar ég sá hann nálgast og stoppaði í kantinum og þvældist í leiðinni upp á stóra steina sem voru í kantinum mín megin, og varð því að stoppa á endanum. Hann tók aftur á móti gott svig eftir miðjunni og rann léttilega framhjá mér áreynslulaust og blikkaði ekki auga. Þegar ég sá hornið á fellihýsinu hans snerta drullusokkinn á mínum bíl án þess að taka brettakantinn hjá mér, var ekki laust við að ég öfundaði kappann. Ekki hefði ég þorað þessu á 40 km hraða og líka í símanum!!!
Það eina sem ég velti fyrir mér núna er hvar ég kemst á námskeið í ökuleikni, er það bara Miklabrautin kannski?
17.07.2003 at 12:46 #474898Nú er ég ekki alveg viss hvernig IH telur röðina, líklegast er þó að þetta sé sama kerfi og t.d í small block chevy, enda sama röð gefin upp þar. Þá er fyrsti cyl sá fremsti í vinstra heddinu, og #2 sá fremsti í því hægra.. þannig að vinstra megin eru 1-3-5-7 og hægra 2-4-6-8.
Gangi þér vel
17.07.2003 at 12:38 #47489624.05.2003 at 05:14 #473526Kærar þakkir félagar fyrir upplýsandi og málefnalega umræðu. Hér er hægt að vera sammála svo mörgu að flokksþing kínverska kommonistaflokksins koma í hug!
Þessi mál snúast um hvernig klúbburinn skal nálgast það viðfangsefni að tryggja hagsmuni okkar jeppafólks í dag og um komandi daga. Mér sýnist í fljótu bragði að áherslumunurinn liggi milli manna hér liggi einfaldlega í hvaða taktík henti best. Vitaskuld erum við sammála um að öfgar henta ekki, og betra er að nálgast þá aðila sem höndla þessi mál með vinsemd og virðingu. Í dag virkar bærilega sú aðferð sem ég les úr skrifum SkulaH (fyrirfefðu skúli ef ég geng of langt í túlkun). Sem sagt að velvild og skynsemi þeirra sem ráða ferðinni dugi til að tryggja t.d aðgang að snæfellsjökli, og vonandi jöklum landisns. Þrátt fyrir að reglurnar! Ég verð hinsvegar að vera sammála Birni í því að reglurnar eru ekki okkur í hag, að það standi skrifað að umferð sé bönnuð á Snæfellsjökli nema með leyfi þjóðgarðsvarðar er óásættanlegt að mínu viti. Hér að ofan er margbúið að rekja það allt saman. Ég kysi að sjá ákvæðið þannig að umferð sé leyfð, en að þjóðgarðsvörður geti bannað umferð undir sérstökum kringumstæðum, og þá hvaða kringumstæðum.
Ég vil benda á þórðargleði manna yfir því að hestaumferð sé bönnuð í þjóðgarðinum, ég efast um að það hestafólk sem ferðast um eitt og sér með tvo til reiðar sé sátt við þá niðurstöðu. Ég hef aldrei séð flag eftir slíkann ferðamáta. Hér er það gamla sagan, mínir hagsmunir og hinna sem koma mér ekki við. Kannski eiga jeppamenn að líta sér nær þegar talað er um hættur öfgafólks og alhæfingar?
Markmið klúbbsins ætti ávallt að vera að stuðla að sem mestu frelsi félaga hans og gjarnan framtíðarsýn í ferðamálum. Vissulega með ábyrga og "sjálfbæra" ferðamennsku að leiðarljósi. Látum aðra um að þrengja að okkur, það eru nógir um það. Með allt þetta frábæra hæfileikafólk innanborðs hefur klúbburinn bolmagn til að vera umsagnaraðili þegar kemur að stofnun þjóðgarða. Við eigum undir högg að sækja þegar kemur að tali um mengun jeppanna t.d mér segir svo hugur að tæknimenn í klúbbnum gætu leitt fólki það fyrir sjónir að sú mengun sem stafar af okkar ferðamennsku er innan velsæmismarka sé hún sett í "rétt" samhengi.
Ég efast um að það sé okkar málstað til framdráttar að hafa skoðanir á heitum málum varðandi nýtingu hálendisins, og er aftur sammála Birni þar. Sem betur fer er nægt úrval af félagasamtökum þar sem fólk getur fengið útrás skoðanna sinna á þeim vettvangi. Ferðaklúbbur hlýtur að hafa það að markmiði að tryggja félögum sínum aðgang að landinu, þannig að þeir geti skoðað það án þess að spor þeirra sjáist. Ekki að ákveða hvernig það skal líta út áður en lagt er af stað, eða hvað??
Kv Óli "jeppamaður" sem skv lýsingu hér að ofan er ekta jeppamaður. Feitur af hreyfingarleysi, með vindil, stundum skítugur upp fyrir haus og mein illa við að ganga það sem hægt er að fara akandi.
14.04.2003 at 22:11 #472470Þú nefnir nýjann smurpung, ég geri þá ráð fyrir að þú hafir skipt þeim gamla út til að sjá hvort að hann hafi verið vandamálið?
Sá eitthvað á gömlu legunum sem benti til skorts á olíuflæði til þeirra? Tókstu sveifarásinn úr og blést göngin, eða skiptir þú um legurnar án þess?
Hefur þú brugðið almennilegum mæli á vélina til að sjá hver þrýstingurinn er í raun og hvað hann fer langt niður í hægaganginum?
Einhver dæmi eru um að smurgöng í sveifarásum þessara vélua hafi stíflast, þannig að vissar legur hafi ekki fengið olíu.. Ég man reyndar ekki glöggt hvað var málið, en á tímabili fór slatti af þessum vélum, gæti hafa verið af þessum árgerðum. Aðrir félagar hér geta vafalaust frætt okkur á því hvað þar var á ferðinni.
Kv
Óli
13.04.2003 at 02:38 #472372Húðun tanka er sniðug þar sem hún á við, síðan er bara spurningin hvar hún á við, og til hvers er verið að húða tankana. Húðin sem slík er raunar þykk kvoða sem sett er inn í tankinn eftir hreinsun, honum er líklega velt á alla kanta til að kvoðan dreifist sem jafnast innan á hann.
Bensíntankar tærast gjarnan að innan ef það situr vatn í þeim. Tankar sem standa langtímum saman hálftómir slaga talsvert og vatn þéttist inni í þeim. Það má trúlega redda gömlum tönkum sem eru orðnir tærðir eitthvað með húðun. Samt hefur mér sýnst að tankarnir haldi bara áfram að tærast undir húðinni og því sé um gálgafrest að ræða.
Ef smíðaður er nýr bensíntankur úr t.d rafgalvanseruðu járni þá er hætt við tæringu í botni, og í kringum suður. Slíka tanka er e.t.v sniðugt að húða. Hitt er svo annað mál að bensíntanka ætti þá bara að smíða úr ryðfríju efni þar sem sú lausn er ódýrari en járntankur+húðun. Ál er oft notað líka. Ryðfrítt stál t.d er orðið ódýrt til smíða.
Hvað snertir olíutanka (diesel) þá tærast þeir mun minna en bensín þar sem olían skilur eftir sig þykkari filmu sem hindrar aðgang súrefnis að málminum á veggjum og botni tanksins. Smíðaðir diesel tankar úr járni virðast endast ansi lengi og yfirleitt vera vandræðalausir. Því sé ég ekki beina þýðingu á því að húða slíka gripi. Original tanka úr diesel bílum tekur varla að húða þar sem þeir tærast lítið, og meira að utan en innan. Kannski má þó lengja líftíma þeirra eitthvað með húðun!?
13.04.2003 at 01:14 #472210Lítill segulloki á olíulögnina tengdur með rofa á góðum stað í diesel (kannski of augljóst að rjúfa bara inn á spóluna í verkinu).
Rofi á straumlögnina inn á bensíndælu, eða kefli(n) í bensínbílum. Það má víða koma fyrir lás sem heldur aftur af reyndustu þjófum.
08.04.2003 at 02:52 #192459Eins og allir vita færist það í vöxt út í hinum stóra heimi að bílar séu framleiddir á stærri felgum en áður. Svo virðist vera að hin hefðbundna 15″ jeppafelga sé á undanhaldi. Menn hafa lengi barist við að koma 15″ felgum undir bíla hér á klakanum, nokkuð sem er „yfirstíganlegt“ vandamál þegar bremsubúnaður og annað í jeppunum er gert fyrir 16-16,5″ felgur. Núna þegar jeppar á 17″ felgum eru farnir að líta dagsins ljós versnar málið augljóslega og það er orðið talsvert verkefni að græja bremsur og annað fyrir 15″ felgur.
Ég gerðist svo frægur að skoða SEMA showið í Las Vegas s.l haust og þar var alveg greinilegt hvað er að gerast í tískunni þar vestra. Ég held að það megi segja að „stærri felgur, minna gúmmí“ lýsi þeirri þróun ágætlega. Það er greinilegt að jeppar framtíðarinnar verða á einhverju öðru en 15″ felgum að öllu jöfnu, 17″+ þætti mér líklegri stærð á jeppafelgum eftir fáein ár.
Kannski verður hægt að velja eitthvað um þetta fyrst um sinn og e.t.v bjóða framleiðendur áfram 15-16″ til ákveðinna markaðssvæða. Jafnvel það er þó lítil huggun fyrir okkar sérþarfir þar sem við teljumst varla af stærðargráðunni „markaðssvæði“ í þessum skilningi.
Nú virðast framleiðendur stórra jeppadekkja lítið hafa gert í að bjóða dekk fyrir annað en 15″ já eða 16,5″ eins og staðan er í dag. Vitaskuld verða þeir að bregðast við þróuninni á einhvern hátt, en spurningin er hvort að salan hjá þeim tengist á beinann hátt nýjum bílum, eða eru þeir að spá í allt annan markað sem tengist notkun ameríkana á þessum dekkjum.
Verður það næsta skref hjá Artic Trucks að þróa AT405 fyrir 17″ felgur? Voru þeir kannski of íhaldssamir að hanna dekkið ekki strax fyrir 16″? Hvernig sjá menn þessi mál fyirr sér í framtíðinni, verðum við að taka alla nýja jeppa sem skal breyta og umbylta bremsubúnaði (og jafnvel fleiru) til að geta notað undir þá dekk sem virka almennilega í snjó? Eða sér hinn erlendi markaður okkur fyrir lausnum á þessu, hvað segið þið um það?
Kv
Óli
07.04.2003 at 21:26 #472144Ég bara verð að benda þér á að hér fyrir austan fjallið stóra breyta menn bílum líka. Prófaðu að slá á þráðinn til Gunnars Egilssonar Icecoolmeistara. (http://www.icecool.is) Hann breytir bílum, og gerir það vel!
Síðan eru líka Ljónsstaðabræður öllum hnútum kunnugir í amerískudeildinni, en gera orðið lítið af því að breyta bílum raunar.
Kv frá Selfossi
Óli
07.04.2003 at 01:21 #471806Einhverjir fleiri sem lúra á þyngdartölum, alltaf gaman að spá í þetta. Eru jeppar á fjöllum almennt að þyngjast eða hvað?
Kv
Óli (sem er ansi þungur)
03.04.2003 at 19:47 #471982Það að læsa bílnum er því miður lítil trygging fyrir því að ekki sé farið inn í hann, jafnvel þó lásar séu í lagi. Sæmilega handlaginn maður kemst næsta auðveldlega inn í flesta bíla á markaði hér. Þeir sem síðan gera út á að stela úr bílum komast inn í hvaða bíl sem þeim dettur í hug á svipstundu. Því miður er þetta bara svona, og því verður einfaldlega að taka þá hluti inn úr bílnum sem maður vill ómögulega missa.
02.04.2003 at 12:55 #471962Vissulega eru til þjófavarnir sem virka hressilega. Samt held ég að flestir verði pirraðir á þeim sem byggja á "fælni" þ.e varnir sem eru með skynjurum á hurðum, spennufalli ..e.t.c og væla svo í tíma og ótíma.
Ég hef lent í tveimur jeppum innfluttum frá þýskalandi þar sem þjófavarnarkerfi voru all öflug. Þau voru miðuð að því að bíllin virkar bara ekki nema vörnin sé opin. Þessar varnir rjúfa mikilvæga strauma og það á mörgum stöðum þannig að talsverla kunnáttu og ennfremur tíma þarf til að brjóta þær upp. Gallinn er sá við þessi kerfi að eins og allt annað þá eiga þau til að bila og þá er bíllinn kyrfilega stopp.
Trúlega kæmi einfaldur rofi sem rífur t.d straum að innspýtingartölvu, bensíndælu, olíuverki, eða einhverjum mikilvægum stað að sama gagni. Einn slíkann mætti fela á góðum stað til að gera mönnum erfiðara fyrir. Allavega ódýr lausn það.
Hvað með t.d að tengja draslið þannig að miðstöðin þyrfti að vera á 2 hraða til að hægt væri að starta bílnum :)?
Kv Óli
01.04.2003 at 00:11 #471792jú er ekki hleðsluöryggi framm í húddi einhversstaðar merkt "charge" ? Allavega svoleiðis í sparifatalandróvernum frá toy LC80, en það er kannski allt annað mál samt
01.04.2003 at 00:03 #471790þetta hefur blekkt marga, en það lýsir sér einmitt svona ef hleðslan er ekki með, þ.e að vírinn fyrir hleðsluljósið fær ekki straum frá alternator.
Hleðsluljósið fær jú svisstraum öðru megin, og alternatorinn gefur jörð þegar dautt er á og þá logar ljósið. Um leið og hann fer að snúast nægilega hratt til að framleiða þá hækkar spennan á hleðsluvírnum upp í þessi 12-14 volt sem eru á kerfinu og ljósið slökknar, enda með fulla spennu á báðum pólum en enga jörð.
Önnur viðvörunnarljós í mælaborðinu eru samtengd þessari rás og loga því ef vírinn fyrir hleðsluljósið er straumlaus. Reyndu að finna hann og prófaðu að setja straum inn á hann, þá slökknar á öllum ljósunum væntanlega.
Tékkaðu vel á öllum öryggjum og mældu þau, annaðhvort með prufulampa yfir þau eða taka þau úr og ohm mæla þau. Annars er ég kominn út á hálann ís því að ég man ekki hvað er af öryggjum fyrir hleðsluna í hálúx. Hef enda aldrei átt skíkann grip.
31.03.2003 at 23:54 #192429Mér leikur forvitni á að vita hver sérskoðunnarviktin er á nokkrum bíltegundum.
Toy LC80 á 38″
Patrol 3L á 38″ (eru þeir verulega þyngri en 2.8?)
Patrol 2.8 á 38″
Nýju pæjurnar á 38″Væri gaman að sjá þetta svona c.a, ég er að meina tóma vikt án farþega og útbúnaðar.
31.03.2003 at 23:38 #471782Ef ég man rétt þá kviknar á flestum viðvörunnarljósum í mælaborðinu í hálúx (og raunar mörgum toyota) ef hleðslan er ekki með. Sem sagt, hann einfaldlega hleður ekki, einbeittu þér að því alternator og spennustillinu. Það er ekkert annað bilað á ég við.
-
AuthorReplies