Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
23.01.2004 at 02:03 #485072
Ég fullyrði hér og nú að þessi skálagjaldamál séu í raun ástæða þess að félagasamtök séu farin að læsa fjallaskálum. Slæm umgengni og skemmdarverk eru undantekningar og eru varla hin raunverulega ástæða. Það er kostun á rekstri skálanna sem knýr þessa sorglegu þróun.
Það sem gerir þessa þróun enn sorglegri er að þetta erum við sjálfir sem um er að ræða. Þeir sem eru að ferðast á fjöllum (að vetri til) eru flestir í einhverjum af þeim félagasamtökum sem eiga skála á hálendinu.
Þessi umræða er algerlega botnlaus, og hún er sífelld. Trúlega hefur þessi punktur valdið meiri leiðindum innan félaganna en nokkur annar, einhver patent lausn virðist ekki vera til því miður.
Ég skil reyndar að hluta sum þau rök sem hafa verið týnd til hér gegn því að setja skálagjöld inn í félagssjöldin hjá 4×4. Ef maður lítur yfir sögu Setursins og alls þess starfs sem þar hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, þá þykir manni svolítið "smátt" af nýliðum sem þykir það alveg af og frá að taka einhvern þátt í rekstri þess. Á þeim forsendum að það sé ekki víst að þeir noti það nokkurntímann.
Kannski er það hið alvonda sósíalista hugskot í mínum haus sem kemur þessu ekki heim og saman. En ég hélt að frjáls félagasamtök, eða hagsmunasamtök jeppamanna snerust einmitt um að hver og einn greiddi sinn skerf í sameiginlegann sjóð, sem síðan væri úthlutað úr í misjöfn verkefni, burtséð frá beinum þörfum einstakra félaga hverju sinni. Ef við erum ekki tilbúnir að greiða í eitthvað sem við teljum að við notum sjaldan eða aldrei, þá má velta því fyrir sér hvað við erum að gera í félagsstarfi? Er þá ekki næsta mál að segja sig bara úr klúbbnum? Því að það er jú alltaf hætta á því að stjórnin ákveði að verja fé í einhver mál sem akkúrat ég sé mér engann hag af að taka þátt í!
Ef menn líta svona á málið þá gætum við eins arfleitt einhvern rekstraraðila að Setrinu.. t.d Ístak eða Íav.. næsti skáli á vegum 4×4 verður kannski boðin út í alútboði þar sem verktaki sér um reksturinn til næstu 15 ára??
Vissulega hef ég ekki áhuga á að greiða eldsneytið á jeppann hans Skúla sem skrifar marga ágæta pistla hér að ofan, en ég væri alveg til í að greiða hærri félagsgjöld í 4×4 til að reka skála félagsins, þó að það séu hverfandi líkur að ég noti þá á árinu. Jafnvel væri ég til í að rölta út í búð einu sinni á ári og gefa klúbbnum steikarpönnu eða pott, ef það mætti verða til þess að bæta þann skaða sem menn telja að hljótist af því að hafa fjallaskála ólæsta.
Ég geri mér samt grein fyrir því að Setrið er sér á báti hvað þetta varðar. Sem betur fer er það opið að hluta til ennþá. Ég get vel skilið að menn séu viðkvæmir gagnvart því að hafa Setrið allt opið og öndvert, það er jú einskonar mekka 4×4 klúbbsins og án efa sá skáli á hálendinu sem mest er í lagt.
Í raun er hér á ferðinni hlálegt smáura-vandamál, við erum að hafa okkur að fíflum með því að leysa ekki þessi atriði á almennilegann hátt í eitt skipti fyrir öll. Í samanburði við þann kostnað sem fylgir fjallaferðum fyrir félagsmenn þá eru rekstur skála 4×4 smáaurar. Hættum að reyna að stagla í handónýtt innheimtukerfi og smellum þessu í félsgsgjöldin, og hananú. Það erum einu sinni við sem notum skálana í miklum meirihluta.
Kv Óli
23.01.2004 at 01:59 #485070Ebbi : Ég sagði að almennt hefðu 4×4 félagar ekki áhuga á að greiða skálagjöld.. ef það er fjórði, eða fimmti hver sem greiðir held ég að sú fullyrðing standi alveg sæmilega. Ég sé ekki hvernig ég sný hlutunum á haus með því.
Kv
Óli
20.01.2004 at 20:05 #485026Þetta er úr lögum klúbbsins, hvaða króna fer hvert veit ég ekki.
17. grein.
Landsbyggðadeild hefur sjálfstætt og aðskilið bókhald og fjárhald frá félaginu og getur því ekki skulbundið félagið fjárhagslega og gagnkvæmt. Hluti af árgjaldi landsbyggðadeilda fellur til félagsins og skal hann ekki vera hærri en sem nemur fjórðungi félagsgjalda fálagsins.
20.01.2004 at 19:42 #485022Nákvæmlega Skúli. Mér finnst þetta eitthvað svo öfugsnúið allt saman.
Menn stofna ferðaklúbb, byggja fínann skála fyrir sig, ákveða svo skálagjöld en tíma ekki að greiða þau sjálfir. Niðurstaðan er sú að menn spá í að læsa sig úti til að þvinga sjálfa sig til að greiða í skálann.
Kv
Óli
20.01.2004 at 17:39 #485012það má kannski skilja mig þannig að ég vilji ekki taka þátt í kostnaði við rekstur þeirra skála sem ég gisti, sú er þó ekki raunin. En mín persóna kemur þessari umræðu fremur lítið við, látum þras um hana eiga sig. Ef menn hafa almennt skilið mig þannig að ég vilji vísa kostnaði rekstri skálannna út í hafsauga hef ég ekki skrifað nógu og skýrt, eða menn lesið of hratt.
Dæmið um þúfuvatnaskálann var tekið til að vekja menn til umhugsunnar um umfang vandans í raun og veru. Þúfuvatnaskáli er ekki útópísk draumsýn mín vegna þess að þar er ekki krafist skálagjalda, heldur vegna þess að hann er ÖLLUM opinn, og þar er fólk boðið velkomið af sannri gestrisni. Andinn í því húsi markast ekki af eiginhagsmunapoti og sérhyggju.
Það sem ég er reyna að velta upp með þessum skrifum er hvort að það séu ekki til aðrar leiðir en að læsa fjallaskálunum. Að menn velti því fyrir sér hvort að það sé endilega rétta leiðin, og þá til hvers.
Í bakgrunni liggur líka sú staðreynd að það er orðið ómögulegt að byggja nýja skála á hálendinu. Það finnst mér setja einhverjar skyldur á herðar þeim sem þegar eiga og reka skála þar. Hálendið er fullt af einhverjum húsum í einkaeigu þar sem einungis útvaldir geta gist. Núna er verið að læsa húsunum sem eru í eigu félagasamtaka en hafa þó verið opin fram til þessa. Hver er stefnan?
S.l ár hafa menn verið að taka í fóstur hús frá afréttarfélögunum sem hafa staðið opin í áratugi. Eftir endurbætur og útlagðan kostnað setja menn punktinn með því að læsa húsinu. Hvaða skilaboð eru það? Er skálinn þá allt í einu orðinn að einkaskála þeirra sem fengu leyfi til að laga hann til ?
Það væri sannarlega ánægjulegt ef því væri við komið að allir sem gistu fjallaskála greiddu fyrir það uppsett verð. Ég bara sé ekki hvernig menn ætla að auka nettó innkomu fjallaskála með því að takmarka aðgengi að þeim. Ef fjallaskálar eru orðnir svo hlaðnir af búnaði og dóti að ekki er vogandi að hafa þá opna yfir veturinn þá má spyrja hvort að ekki sé of mikið í þá lagt.
Ég segi enn og aftur að talnalás í Setrinu skilar ekki auknum skálagjöldum. Halda menn virkilega að það séu ekki 4×4 félagar sem gista Setrið í miklum meirihluta yfir veturinn? Það þarf jú bara einn lykil (tölu) til að opna hús, eftirleikurinn hlýtur alltaf að ráðast af samvisku þeirra sem húsið gista, hvernig nú sem þeir komust inn.
Hví ekki að hækka bara félagsgjaldið þannig að unnt sé að reka Setrið án pex og leiðinda endalaus. Ég þori að veðja að þeir sem hafa verið þjófkenndir hér á spjallinu væru alveg til í að greiða einhverja þúsundkalla til að sleppa við svoleiðis bull.
Kv
Óli
20.01.2004 at 12:52 #485006Jú Sultarfit hefur verið endurbætt, og í kjölfarið er búið að læsa skálanum, sem mér persónulega þykir miður.
Ég veit ekki alveg hvað er hvað í þessari umræðu fyrst að kassinn í setrinu skilar 6-7 þúsund krónum frá því í águst s.l. Þetta segir mér einfaldlega að 4×4 félagar hafi almennt engann áhuga á því að greiða skálagjöld, svo einfalt er það. Hér er alltaf verið að vísa á fólk út í bæ, að það séu einhverjir einhversstaðar sem standi utan allra félaga og noti svo eigur þeirra án þess að greiða fyrir.
Hverjir eru það annars sem eru að ferðast á fjöllum frá því í águst og fram til dagsins í dag? Eru það ekki hinir almennu félagsmenn 4×4, Útivistar, LÍV, Ferðafélags Íslands, Jöklarannsóknafélagsins… ?? Eða eru það einhverjir vondir strákar sem standa utan allra félaga? Í alvöru held ég að við ættum að líta okkur nær í þessum efnum, og viðurkenna eigin breyskleika.
Auðvitað er þetta "óásættanlegt" ástand.. en hver hefur áhuga á því að gerast sjálfskipaður húsvörður í Setrinu með því að slá inn lykilkóðann sinn þar á föstudagskvöldi ? Hvað á hann að gera þegar skálinn fyllist af fólki eins og gjarnan gerist á þessum fjölfarna stað. Er viðkomandi þá orðinn skálavörður í Setrinu? Á hann að "bera ábyrgð" á því að allir greiði skálagjöld? Hvað svo þegar hann fer, á þá að rýma húsið? Sorry, en mér finnst þessi talnalausn lítt hugsuð í þá veru að afla skálagjalda umfram það sem er í dag. Hún er fremur tæknilegur draumur sem kemur til með að kosta peninga, en ástandið helst óbreytt hvað snertir skil á skálagjöldum.
Önnur pæling, Er ekki rekstarkostnaður Setursins í raun fasti óháð því hversu margir kjósa að gista þar? Ég á við, er skálinn ekki í notkun af einhverjum flestar helgar ársins og því kyntur, ljósavél látin ganga hvort um er að ræða einn eða 80 manns? Ef við förum þá leið að láta alla greiða fyrir notkun eins og þeim ber s.k.v hörðustu einstaklingshyggju, verður þá ekki að taka fast gjald fyrir Setrið per helgi, óháð mannfjölda?
Þeir borga sem þora
Kv
Óli
20.01.2004 at 02:36 #193508Það er eitt sem ég er að furða mig á þessa dagana, og langar til að vekja máls á hér. Þetta litla atriði kristallast ágætlega í könnuninni sem er í gangi hér á síðunni. Þar finnst mér persónulega vanta valmöguleikann að setrið verði einfaldlega haft opið.
Kannski er þetta út af því að ég ferðaðist talsvert með mínum ágætu félögum á árunum fyrir og kringum 1990 þegar það var svo dásamlega frjálst að fara til fjalla, allir skálar opnir og sjaldnast nein vandamál kringum gistingar.
Trúlega er ég líka einn af þeim seku sem hafa drýgt þann glæp að gista í fjallaskálum án þess að gera heiðarlega skil á skálagjöldum í einhver skipti. Já jafnvel mörg ef út í það er farið. Talsvert hef ég samt greitt af þeim þrátt fyrir allt.
Mér finnst alveg gríðarlega sorglegt ef 4×4 klúbburinn ætlar að taka upp harða læsinga stefnu á öllum sínum húsum, í kjölfarið á öðrum félagasamtökum. Vissulega eru til „gild og góð“ rök fyrir því að það einfaldlega verði að læsta öllum skálum á hálendinu. Þau sem ég hef séð eru helst: Slæm umgengni, þjófnaðir, skálagjöld ekki greidd, og e.t.v skemmdir á búnaði.
Það er aftur spurning hverju er fórnað með því að hefta aðgengi að skálunum!? Ég þori að veðja að allir sem einhverntímann hafa stundað fjallaferðir að einhverju ráði kannast við að hafa þurft að gjörbylta ferðaplani sökum veðurs og/eða færðar. Hverjir hér muna eftir því frelsi sem fólst í því að geta einfaldlega tekið 90° þverun á kúrsinn þegar aðstæður voru slæmar og stungið sér í næsta opna hús til gistingar ef svo bar undir. Vissulega bjóða þær lausnir sem menn eru að velta fyrir sér núna upp á mögulega aðlögun að þessu vandamáli, þ.e ef þær þá á annað borð virka. Tækni gizmo sem á að funkera í fjallaskála þarf að vera ansi skotheldur búnaður til að virka í raun.
Mér kemur til hugar einn skáli á hálendinu sem ég hef oft gist í og raunar síðast í sumar. Þar er miði á innri hurð sem býður alla velkomna í skálann og þess er óskað að gengið sé vel um, ekki er getið á um skálagjöld en þar má finna kassa fyrir frjáls framlög ef ég man rétt. Þar er gas og jafnvel eldiviður á tyllidögum ef ferðalangar hafa þá ekki nýtt hann allann með veru sinni. Þetta hús er í eigu fárra einstaklinga og stendur við Þúfuvatn. Þetta hús hefur staðið opið allann tímann síðan það var reist. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvenær það var byggt, en ég hef gist þar ótal sinnum síðan 1990 og aldrei greitt krónu fyrir eitt né neitt. Við höfum haft það fyrir reglu að nota ekki gasið í húsinu, og reynt að koma með umframbyrgðir af eldivið í hina stóru kabyssu sem þarna er að finna. Ég hitti fyrir stuttu eiganda að þessu húsi og þakkaði honum fyrir allar gistinæturnar sem ég hef átt í hans ágæta húsi. Svarið var eitthvað á þessa leið : minnstu ekki á það vinur vertu velkominn meðan húsrúm leyfir.
Í þessu húsi er borðbúnaður, pottar og pönnur, gaseldavél og ýmis búnaður. Ég hef komið að þessum skála illa lokuðum og þurft að byrja á því að moka út snjó. Ég hef einnig „lent“ í því að taka til eftir aðra ferðahópa sem hafa yfirgefið skálann á undan mér. Aðrir hafa fengið að taka til eftir mig þegar ég hef farið á undan þeim, bara eins og gengur í mannlegu félagi…….Ég sé ekki betur en þúfuvatnaskáli eldist bara vel hann er byggður á praktískann hátt, einfaldur, ekki of fínn og hefur verið umgjörð ótal ánægjustunda fyrir mig og vonandi mína samferðamenn.
Það er mín skoðun að það sé svolítið undarlegt ef félagsskapur sem telur þúsundir getur ekki rekið fjallaskála á svipuðum slóðum með svipuðum hætti og 3-4 einstaklingar gera. Mér vitanlega hafa nöfn eigenda Þúfuvatnaskála ekki prýtt forsíðu lögbirtings eða annara sorprita, þannig að fjárhag þeirra virðist ekki hafa verið stefnt í voða með athæfinu.
Umræðan um þessi mál hefur endurspeglast af smáborgaralegri umræðu um að einhverjir vitleysingar komist hjá því að greiða skálagjöld, þeir gætu stolið pottum, pönnum, koppum og öðru dótaríi sem kann að finnast í skálunum. Að ekki sé minnst á hina dýrmætu hráloíu sem þeir kunna að sóa við að kynda upp sinn kalda glæpamannakropp, og stöku kvendi sem gerist meðsekt í glæpnum með því að lúra hjá þeim án þess að greiða skálatollinn. Já, og ekki nóg með það heldur kunna þessi kvikindi ekki að taka til og þrífa. Jesús pétur sé oss næstur félagar.
Án þess að fella sleggudóma (varúð það er einmitt það sem ég er að gera) þá skil ég vel að þeir sem standa í skálanefndum séu ergilegir. Það þarf að berja saman budget, laga þetta og hitt og reka skálann. Þeir þurfa að sinna viðhaldi og endurbótum líka… það er verulega auðvelt fyrir menn sem hafa af áhuga og krafti sinnt starfi fyrir klúbbinn að setja hnefann í borðið og kvarta sáran yfir skilum á skálagjöldum slæmri umgengni og svo fram…. Þegar maður heyrir kvartanir frá slíku fólki fyllist maður réttlátri reiði í garð slóðanna sem eru að malbikla yfir „óeigingjarnt sjálboðaliðastarf þeirra sem sinna skálunum“. Spurningin er kannski, hversu óeigingjarnt er starfið ef menn lenda í þessum skotgröfum.
Mig langar að velta upp eftirfarandi pælingu. Hversu hræðilegt er það þó að einhver fífl gisti fjallaskála án þess að greiða skálagjöld. Getur verið að menn séu á rangri leið ef fjallaskálar þurfa að vera undir sérstöku eftirliti vegna þess hversu fínir þeir eru og hversu dýran búnað er að finna innan veggja þeirra. Hvaða máli skiptir fyrir 4×4 batteríið þó að það hverfi x-hundruð lítar af olíu? Hvaða máli skiptir þó að það þurfi að endurnýja borðbúnað, potta og pönnur, koppa og kirnur? Hversu stór er þessi fórnarkostnaður? Hvað er mikið mál að taka til í einum fjallaskála eftir eitthvað „lið“ sem hefur gengið illa um.. Til hvers er barist í raun? Hvar er félagsandinn í þessum klúbbi eiginlega, eru sérhagsmunir búnir að valta yfir allt sem heitir umburðarlyndi?
Maður veltir því fyrir sér hversu rismikill félagsskapur 4×4 klúbburinn kærir sig um að vera. Ætlum við að verða félagsskapur sem sinnir engu nema þröngum sérhagsmunum, eða höfum við áhuga á því að hlúa að lifandi ferðamennsku á fjöllum fyrir okkur sjálfa og aðra sem gaman hafa að slíku.
Í mínum huga er hér á ferðinni prinsippmál, ég nenni ekki að leita uppi lykla að 3 fjallaskálum fyrir eina gistinótt, þ.e einum fyrir áfangastaðinn og tveimur til vara. Pantanir á gistirými eru misnotaðar líka. Það er ekki eins og öll mál séu leyst með aðgangstýringum eins og umræður hér bera vitni.
Kv
Óli
18.01.2004 at 01:03 #484676Það er spjald í loftflæðiskynjaranum sem stjórnar dælunni. Umrætt stykki er góður klumpur með rafmagnstengi sem er inn á lögninni frá lofthreinsara inn á vél. Tékkaðu hvort að spjaldið er ekki bara frosið fast. Það hefur ósjaldan stoppað bensíndælur í hilux og trúlega sama dæmi í nefndum 4-runner.
Blessaður settu á þig hanska og hafðu ælupoka við höndina áður en þú ferð að gramsa undir húddinu á þessu drasli
Kv
Óli
10.01.2004 at 01:38 #483506er sú að almennt slitna demparar ekki. Svo einfalt er það. Margt hefur mér dottið í hug að smíða gegnum tíðina, en sá dagur er enn ókominn að mig langi til að fara að setja stroffur á hásingar, það er hægt að smíða svo margt annað sniðugt og þarft áður en maður snýr sér að slíkum verkefnum.
09.01.2004 at 16:40 #483502eru jafn misjafnir hvað þetta snertir og þeir eru margir, allavega þekki ég mörg dæmi þess sem nefndar stroffur hafai ekki verið notaðar í torfæru og þeirra ekki saknað að ráði.
En ef mönnum líður betur að hafa þennan búnað er alveg sjálfsagður hlutur að láta það bara eftir sér.
09.01.2004 at 12:09 #483496Ég mótmæli því að það sé eitthvað að akstursmáta manna þó svo að jeppar sleppi hjólum! Hitt væri frekar að menn ækju allt of hægt ef tútturnar fá aldrei að sjá upp úr snjónum. Skortur á vélarafli kemur upp í hugann. Enda er það ekki vandamál í sjálfu sér þó að bílar sleppi hjólum, vandamálin byrja við lendinguna.
Hvað snertir þessa umræðu, þá man ég ekki eftir að strappaleysi sé vandamál. Síður en svo. Séu menn að lenda í því að tína loftpúðum og gormum vegna þess að demparar slitni bendir það einfaldlega til þess að eitthvað sé að hönnun og eða smíði fjöðrunnarinnar. Slitþol á dempara sem á annað borð telst vera í lagi er yfirdrifið til að taka við hásingunni og átaki frá gormum/loftpúðum.
Séu demparar ónýtir þannig að sundurslag þeirra er orðið máttlaust geta þeir e.t.v slitnað enda hættir að hægja á hreyfingu hásingarinnar niður á við. Skökk afstaða á augum, pinnum á móti festingum getur aftur á móti hæglega brotið endana af dempurum, en það er í raun annað mál.
Kv
30.12.2003 at 23:37 #482948Það besta sem ég hef séð er hvítt nylon. Það hefur mikla teygju og er meðfærilegt. Splæsa báða enda, gæti verið sniðugt að hafa eitthvað utanum kaðalinn í lykkjunum til að hlífa honum við mari og skemmdum. 25mm er nokkuð seigt, en 32 mm ætti að vera staðalbúnaður í jeppa yfir 2.5 tonn. Þetta er til bæði hefðbundið og "fléttað" sem er liprara. Lengdin ætti að vera hiklaust 10 metrar, helst meiri.
Allir hnútar veikja mikið svona kaðla, pelastikk er þó trúlega skástur. En það er á tæru að ef það er hnútur á svona kaðli, þá slitnar hann þar ef hann á annað borð slitnar, það segir sína sögu.
Mér hefur dottið í hug hvort ekki væri snjallt að vera með létta línu (12mm) bundna í kaðalinn c.a 2 m frá enda og festa hana við bílinn líka, þó helst ekki í sama krók og kaðalinn. Við slit myndi slíkur spotti vonandi taka mesta aflið úr bakslagi kaðalsins.
29.12.2003 at 20:10 #482992Þú skalt yfirfara lögnina frá túrbínu og inn á soggrein vandlega. Á þeirri leið eru hosur sem eiga það til að rifna, eða jafnvel renna af stútunum. Ef þú ert með Intercooler þarftu að skoða allar hosurnar vandlega. Smá leki á þessari leið gerir það að verkum að þrýstingurinn fellur niður.
29.12.2003 at 03:44 #476460Það getur e.t.v virkað þannig. Ef pedallinn tifar við ástig er samt líklegra að diskur/skál sé ekki rétt, eða sitji ekki rétt. Lausar hjóllegur geta líka virkað með ýmsu móti á bremsur, sjaldnast þó þannig að skjálfti myndist.
Kv
Óli
28.12.2003 at 18:22 #476454Það er auðvelt að vera vitur eftirá.. en feiti í kúplingsdiski gerir það að verkum að hann grípur harkalega. Þ.e kúplingin hnökrar þegar hún er að taka og skapar skjálfta. Svipað dæmi og að fá feiti í bremsur, þá læsir hjólið gjarnan við litla hemlun. Hvaðan kom feitin í diskinn? Aftur úr vélinni, eða framúr gírkassanum?
26.12.2003 at 06:30 #481540Vissulega er þessi klúbbur stofnaður utanum ferðalög á jeppum. Þetta er hagsmuna/áhugamannafélag íslenskra jeppamanna og vonandi kvenna einnig. (jájá.. konur eru líka menn, þetta er bara spurnig um rithátt). Hvað varðar hagsmuni íslenskra jeppamanna gagnvart breytingum – þeim reglum sem eru í gildi í dag- hefur klúbburinn sannað sig og gert ómetanlegt gagn fyrir okkur sem kjósa að fikta í jeppum og nota þá til fjallaferða.
Sem betur fer ber klúbburinn keim af því að vera áhugamannafélag, en ekki einhverskonar trúfélag. Innan klúbbsins rúmast vonandi mismunandi skoðanir, mismunandi jeppapólitík og líka mismunandi húmor.
Það efni sem einstaka félagsmenn skemmta sér við að senda hingað inn endurspegla ekki nema að hluta til "anda" eða "stefnu" klúbbsins. Klúbburinn er jú bara samansafn af fólki sem hefur kosið að innrita sig í hann. Efni síðurnnar er síðan mengi af póstum landsmanna og endurspeglar varla skoðanir klúbbsins enda er öllum heimilt að pósta hér inn sem betur fer, 4×4 félögum sem öðrum.
Kosturinn við svona vefsíður er að maður getur einfaldlega sleppt því að lesa yfir þræði sem manni líkar ekki. Oftast nær sér maður það fljótt hvort að efni þeirra höfðar til manns eða ekki… Eftir smá þjálfun er alger óþarfi að þjást yfir efni þráða hér, og vonandi lærist það fljótt. Þó að einhverjar mannvitsbrekkur láti gamminn geysa á þessum vettvangi er óþarfi að láta sér mislíka það. Hver er sjálfum sér næstur í því efni. Misgáfulegir póstar ættu ekki að hrella neinn sem á annað borð hefur fundið sína línu í jeppamennskunni. Drottinn blessi tjáningarfrelsið.
PS ( síðasti fávitinn er ekki fæddur enn.. það hjálpar stundum að hafa þessa línu yfir í huganum þegar maður notar umburðarlyndið á póstara hér á 4×4 )
Jólakveðjur
Óli
04.12.2003 at 21:57 #482050Algengasta orsök fyrir því að drif brotna er íslensk snilligáfa.
Það virðist vera sama við hvern maður talar, allir vita hvernig á að gera þetta, og margir eru að taka þetta að sér fyrir aðra. Það er afar óheppilegt því að oft á tíðum hafa menn ekki hugmynd um að þeir séu að gera tóma vitleysu. Að vera bifvélavirki, vélvirki, læknir eða trésmiður er engin trygging fyrir því að viðkomandi hafi grun um hvernig skal standa að þessu. Að stilla inn drif er vandaverk og krefst góðrar þekkingar og tækja. Fáir hafa það sem til þarf, það er bara þannig.
Eftir að hafa skoðað allt of mörg skemmd drif vegna rangrar stillingar mæli ég hiklaust með því að menn fái einhvern sem raunverulega kann þetta, og hefur natni til að gera það almennilega. Sparnaður hér er óheppilegur.
12.11.2003 at 20:17 #480312"gamli" Bronco kom aldrei með 8.8 að aftann, svo að það sé á tæru .
12.11.2003 at 20:15 #480310Mikið rétt hjá Emil hér að ofan.
66 bronco var með 9" Ford að aftan og Dana 30 að framan. 8.8 fordhásingin er miklu yngri. Auðvelt er að þekkja muninn, þar sem drifköggullinn boltast framan í hásingarhúsið á 9".. þ.e laus köggull. 8.8 hásingin er ekki með slíkum búnaði, heldur með hefðbundnu drifloki að aftanverðu.Það sem menn brutu helst í gamla bronco með D30 var mismunadrifið, sem og öxlar. Það ætti að vera auðvelt að finna D44 bronco framhásingu t.d undan 74 árg. Þeir voru þó enn með skálabremsum. Það eru samt margir möguleikar við að koma diskabremsum á þær.
Ég mæli með því að þú hugir að diskabremsum af fullri alvöru, þessir bílar eru stórvarasamir í akstri með skálabremsunum. Eftir vatnasull eru þeir nánast algerlega bremsulausir svo dæmi sé tekið. Því miður fóru allt of margir þessara bíla á toppinn í den. Ástæður þess eru meðal annars misjöfn hemlun, ásamt því að stýrið er mikið dobblað, þ.e margir hringir borð í borð… þetta gerir það að verkum að erfitt er að ná aftur stjórn á bílnum t.d í hálku ef hann byrjar að "dansa".. sem aftur gerðist talsvert einmitt vegna þess að bremsur tóku skakkt.
25.09.2003 at 02:59 #476840Hann er örugglega með cyclone og K&N lofsíu, sennilega sparneytinn fyrir vikið líka! Gott ef hann er ekki líka með svona segul á eldsneytislögninni…
Annars sýndist mér hann lúra rétt yfir 12 sek í þessari spyrnu, en endahraðinn var hinsvegar 119,78 mph.
Flottur!
-
AuthorReplies