Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
06.10.2012 at 22:57 #758431
Af landsfundi er það að frétta þessa stundina að fundurinn í dag gekk vel fyrir sig undir styrkri stjórn Björns Pálssonar úr Eyjafjarðardeild. Skipað var í umræðuhópa og hin ýmsu mál tekin fyrir í þeim hópum og skýrslur gefnar í lok fundar. Ýmsar athyglisverðar hugmyndir komu fram og voru færðar til bókar. Var fundi slitið um kl. hálf sex og tók þá við matargerð mikil og hófst borðhald um áttaleytið. Þessa stundina skála landsfundarfulltrúar, skiptast á sögum og syngja hástöfum undir taktföstum gítarleik Sveinbjarnar Halldórssonar sem lemur "saltfiskinn" af mikilli innlifun. Tónhæðir þátttakenda eru eitthvað á reiki en þó má greina einstaka lagstúf ef hlustað er grannt. Ekki er fyrirsèð þessa stundina hvenær menn ganga til náða en forsjálir skálanefndarmenn eru vel byrgir af magnyltöflum fyrir morgundaginn. L.
05.10.2012 at 23:23 #758429Hėr í Setrinu eru menn að tínast inn. Gummi "steri" og Sveinbjörn voru að koma í hús og urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að geta fylgt förunum eftir okkur sem á undan voru komnir. Annars væru þeir sennilega rammvilltir einhversstaðar í Illahrauninu og sennilega fastir í einhverjum af þeim gríðarlegu sköflum sem þar eru. Ómar olíumálaráðherra er búinn að dæla olíunni af kálfinum og yfir í tankana hér í Setrinu og situr hér þessa stundina og kýlir vömbina af miklum móð og brosir allan hringinn, einhver var að tala um að binda mætti munnvikin á honum í slaufu fyrir aftan hnakka, svo sæll er hann. Stebbi, sem kom í gær og svaf hér einn í nótt kvartar stórum yfir því að engin hljóð séu hér í húsinu. Getur ekki einhver sem er á leið í Setrið komið með draugahljóð á spólu svo að kallinn geti sofið vært í nótt? Og vefnefndin situr yfir tölfunni,,,,, so what else is new????? Einar Sól kvartaði stórum yfir því að þurfa að vera á eftir skálanefndarMussoinum sem var með olíukálfinn í drætti. Sagði sem svo að hann hefði þurft að keyra í hægðum sínum á eftir andskotans Mussoinum og þyrfti að bóna Strumpinn á morgun. Og Rúnar var að opna sinn fræga lopasokk, sem eins og allir sem til þekkja vita að inniheldur mjöð nokkurn sem brennivín heitir. Hýrnar nokkuð yfir honum þessa stundina. Sögustund og hlátrasköll færast í aukana. L.
05.10.2012 at 11:25 #758423Mér vitanlega er snjódýptarmælirinn í Setri bilaður þannig að þetta er kannski ekki alveg að marka. Höfum ætlað að reyna að fá hann í lag en ekki unnist tími til. L.
24.09.2012 at 20:32 #224465Sælir félagar.
Skálanefnd fór í vinnuferð um liðna helgi og var ætlunin að ná þeim áfanga fyrir veturinn að færa gáminn á sinn framtíðarstað inni í sökkli skemmunnar. Vitað var að það þyrfti tvo vörubíla með krana til að færa gáminn og var vörubíllinn sem flutti nýja olíutankinn uppeftir annar þeirra en svo fengum við Man bílinn úr Kerlingarfjöllum til brúks og þurfti að sækja hann upp í Reykholt. Fimm bretti af hellum þurfti einnig að flytja uppeftir og tók vörubíllinn með tankinn þær úr bænum en skildi fjögur bretti af þeim hellum eftir við skeiðaafleggjarann þar sem Man bíllinn tók þær á pallinn. Geiri í skálanefnd ásamt Magga Magnum og Steina Lödu fóru úr bænum seinni partinn og náðu í Man-inn og var Steini búinn að taka að sér að koma honum upp í Setur. Þeir lestuðu svo hellurnar og héldu upp Gljúfuleitaveginn. Hinn vörubíllinn hafði lagt af stað úr bænum um hádegi og var eltur af Stebba Baldvins sem var með Magga MHN með sér en hlutverk hans var að vera einskonar hirðljósmyndari atburðanna sem í vændum voru um helgina. Þeir náðu vörubílnum og eltu hann í rólegheitum áleiðis upp í Setur. Við Rúnar komumst svo úr bænum um hálffimm leytið og var Mussóinn staðinn flatur á eftir Stebba og fyrri vörubílnum. Náðum við þeim þegar þeir áttu um það bil hálftíma eftir í skálann og varð að ráði að við brunuðum fram úr þeim til að byrja að kynda skálann. Komum við í skálann um níuleytið. Vörubíllinn kom svo rúmlega hálf tíu og var þá sest yfir snæðing. Þegar menn voru svo um það bil að taka á sig náðir um tólfleytið hringdi Sammi stjórnarmaður í okkur og tjáði okkur að Man-inn sem Steini var að keyra hefði lent í því, skömmu eftir að þeir komu yfir Sandafellið að vegkantur gaf sig og hann hafði farið út af og munaði minnstu að hann færi á hliðina. Hellurnar á pallinum höfðu við þetta skutlast út í hliðina á pallinum og gert ástandið enn verra. Báðu þeir um aðstoð en í fylgdarliði vörubílsins voru þegar hér var komið þeir Geiri og Maggi, Einar Berg á Mjallhvít og Sammi og Sólmundur. Báðu þeir um aðstoð og varð úr að við Rúnar lögðum af stað niður Gljúfurleit og vorum komnir til hinna um þrjúleytið. Þá var búið að hengja tvo jeppa í vörubílinn til að varna því að hann færi á hliðina, hengja bíl með spili fram í hann á ská og afferma allar hellurnar á handafli. Var nú spilið á Musso sett í framhásinguna og blökkað og tókst að láta vörubílinn keyra upp úr þessu með þessari aðstoð og náðist hann óskemmdur upp. Úr varð svo að við Rúnar fórum aftur upp í skála til að ná smá svefni því við þurftum að byrja að undirbúa flutning gámsins strax um morguninn. Hinir urðu eftir og komu hellunum á bretti og hífðu á pallinn aftur. Við Rúnar komum í skála upp úr fimm og náðum að sofa til átta en fórum þá strax í að undirbúa verk dagsins. Hinir komu í hús um hálf níu leytið um morguninn og fóru í koju. Fram að hádegi á laugardeginum náðist að aftengja olíuleiðslu og blása úr henni olíunni, aftengja rafmagn, dæla olíu milli tanka og undirbúa flutninginn. Eftir hádegi, þegar búið var að borða og menn voru vaknaðir var svo gámurinn dreginn upp fyrir sökkulstæðið og tekið til við að koma nýja olíutankinum inn í hann. Var hann síðan hífður inn í sökkulstæðið á sinn stað, rafmagn tengt af Árna Bergs, Samma og Sólmundi og fjarræsibúnaðinum komið inn í hús á nýjum stað. Nýja olíuleiðslan var tengd og gamli dagtankurinn fjarlægður af húshliðinni og verður hann ekki settur upp aftur fyrr en skemman er tilbúin. Einnig var efni keyrt í sökkulinn og hann fylltur og jafnað í honum til bráðabirgða. Um kvöldið var hefðbundið grill að hætti skálanefndar og menn voru glaðir með afköst dagsins. Sunnudagurinn var svo notaður í að ganga frá og taka til á svæðinu og lögðu síðustu menn af stað til byggða um fjögurleytið. Sammi og Sólmundur notuðu svo tækifærið á heimleiðinni og afmáðu ummerkin eftir vörubílinn frá föstudagskvöldinu. Það má geta þess að tveir menn komu færandi hendi í skálann en það voru þeir Einar Sól, sem kom með áprentaðar kaffikrúsir í tilefni 25 ára afmælis skálans á næsta ári og Stefán Balvinsson, sem færði skálanum forláta kolagrill sem hann hafði smíðað upp úr gömlu gasgrilli og er það skapara sínum til mikils sóma og nýttist vel um helgina. Eru þessum tveimur heiðurskörlum bornar hinar bestu þakkir fyrir. Þakkir fyrir vinnuframlag sitt og ómetanlega aðstoð fá þeir Heiðar og Bjarni á vörubílum, Steini „Lada“, Einar Berg, Sammi, Sólmundur, Maggi „Magnum“, Stebbi Baldvins, Maggi „MHN“ og Árni Bergs. Einnig fá „Kerlingafjallabændur“ bestu þakkir fyrir þeirra farmlag.Logi Már. Skálanefnd.
21.09.2012 at 13:59 #757515Yfirleitt erum við á rás 47, ég sjálfur er mest á skanninu þannig að ég á að heyra á öllum 4×4 rásunum. L.
20.09.2012 at 20:07 #757511Engir krakkar svo vitað sé, L.
19.09.2012 at 18:06 #757497Miðad við veðurspá eru allar líkur á því að það verði farið um helgina já og gámurinn færður inn í sökkulinn. Að öllum líkindum verður farin Gljúfurleitarleið með vörubílana vegna þess að skaflar eru komnir í Illahraunsleið. Það mun allavega einn jeppi fylgja hvorum vörubíl og sennilega fylgjum við Rúnar bílnum sem fer með olíutankinn. Tímasetning er óljós ennþá, sennilega komumst við ekki af stað fyrr en fimm eða fimm plús.
Kv. Logi Már.
15.09.2012 at 19:55 #757491Sæl öll. Meðlimir skálanefndar og þeir fylgifiskar sem skálanefndarmönnum tókst að veiða í net sín fyrir helgina til að létta sér störfin eru nú að ljúka góðum kvöldverði eftir annasaman dag. Tekist hefur í dag að gera klárt "planið" inni í sökklinum sem gámurinn á að hvíla á og er nú allt klárt fyrir færslu gámsins um næstu helgi. Aukinheldur tókst að endurnýja lista í einum glugga og þurrka og kítta upp á nýtt. Þeir Árni Ómars, Bjarki Loga og Maggi "Magnum" eiga heiður skilið fyrir aðstoðina í dag og hefur allt gengið mun betur en við áttum von á. Þessa stundina erum við að fara yfir hluti sem við þurfum að hafa klára fyrir landsfundinn í október og er þar af nógu að taka. Næstu helgi verður svo gámurinn færður og allt tengt upp á nýtt. Snjóað hefur á svæðinu og dregið á nokkrum stöðum í skafla en mikið af snjófölinu sem var í gær hefur tekið upp í dag.
Kv. Logi Már.
13.09.2012 at 21:43 #757489Held að allt sem við þurfum að nota sé annaðhvort á staðnum eða þá að við komum með það sem þarf. Vinnuvettlingar og góður fatnaður er að ėg held svona að megninu til það sem helst þarf. Spáin gerir allavega ráð fyrir rigningu á laugardeginum. L.
31.08.2012 at 17:28 #757125Sæl öll. Ég skal ekki segja með afstöðu félaga minna í skálanefnd ferðaklúbbsins 4×4 en ef ég væri á annað borð á landinu (sem ég er ekki þessa stundina) mundi ég örugglega ekki mæta á þennan félagsfund. Segi eins og einhver hérna að ofan, "þetta hlýtur að vera grín". Róbert Marshall af öllum,,,,,,,,, L.
22.08.2012 at 11:12 #756851Stórt skarð er höggvið. Naut þeirrar gæfu að starfa með Freysa eitt ár í umhverfisnefnd Ferðaklúbbsins og kynnast honum lítið eitt og sjá hversu útsjónasamur og hugmyndaríkur einstaklingur var þar á ferð.
Hvíl í friði kæri félagi. Fjölskyldu og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð, megi allar góðar vættir fylgja ykkur á erfiðum tímum um alla framtíð.Logi Már.
12.08.2012 at 21:01 #756389Nú er lokið seinni almennu vinnuferð skálanefndar á þessu sumri. Í þessari ferð náðist að slá upp fyrir og steypa sökkulveggina undir skemmuna. Næsta skref er að flytja nýjan olíutank uppeftir, koma honum fyrir í gámnum og koma gámnum fyrir inni í sökklunum, tengja nýjar rafmagns og olíuheimtaugar og gera allt klárt fyrir landsfundinn sem að þessu sinni er fyrirhugaður í Setrinu. Er von okkar að það allt gangi upp en ef vid sjáum einhverja hnökra á því bíður gámafærslan næsta sumars. Skemman sjálf verður svo byggð í einingum í bænum i vetur og flutt uppeftir í einingum og reist næsta sumar. Í þessari vinnuferð voru þrettán manns, fimm úr skálanefnd en auk okkar voru þeir Steini "Lada", Helgi Ragnarsson, Arnþór gjaldkeri, Árni Ómars, Hlynur Ómars, Hjörtur "Jaki", Sigurður Bjartmar og svo auðvitað heimilskötturinn okkar, Einar Sól en það þarf nú vart að taka það fram. Hann er jú einskonar viðhengi við skálanefndina. Öllum þessum mönnum kunnum við bestu þakkir fyrir vinnuframlag þeirra þessa helgi því það var okkur ómetanlegt. Kerlingafjallamönnum kunnum við einnig bestu þakkir fyrir að ljá okkur traktorsgröfu og steypuhrærivél á meðan á framkvæmdum þessum stóð. Þess ber svo að geta að þegar Steini var á leiðinni með gröfuna yfir í Kerlingarfjöll í dag var farið í dálitlar vegabætur á Illahraunsleiðinni, m.a. eitt ræsi sett niður og vafasömum steinum í slóðanum fækkað nokkuð. Að lokum ber svo að geta þess að Logi Már varð eftir í Setrinu og ætlar að vera með skálavörslu þessa vikuna ef hann endist í einverunnni, rífa mótin og ganga frá ýmsu eftir steypuvinnuna. Síminn hjá honum er 893-6560 ef einhver þarf að komast í samband við Setrið.
Með skálanefndarkveðju.
Logi Már. Skálanefnd.
23.07.2012 at 22:09 #756051Það var umræða um þetta á Bylgjunni í dag, Reykjavík síðdegis við Ólaf Guðmundsson hjá F.i.b. Hann var ekki par sáttur við þetta og skildi engan undra. Þetta er eitthvað það vanhugsaðasta umferðamannvirki sem ég hef séð og er þó af löngum lista af taka. Keyrði fram hjá þessu um helgina og vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. L.
23.07.2012 at 12:06 #755923Sælir félagar. Nú styttist í vinnuferðina um næstu helgi og ennþá vantar okkur vinnufúsar hendur. Það er nokkuð augljóst að við klárum þetta ekki einir og sér, skálanefndarmennirnir þannig að endilega látið okkur vita ef þið getið ljáð okkur lið um helgina. Kv. Logi Már.
18.07.2012 at 16:16 #223910Sælir félagar. Nú fer að líða að fyrri almennu vinnuferð skálanefndar Seturs á þessu sumri. Hún verður sem sagt helgina 27-29 júlí og er þá meiningin að grafa fyrir sökklum skemmunnar, slá upp mótum eins og hægt er og grafa fyrir og leggja nýjar heimtaugar frá ljósavél og olíuleiðslu frá aðaltank sem staðsettur verður í skemmunni. Okkur vantar frískar hendur í þessi verk ásamt fleiru því sem hægt er að tína til. Sameiginlegur matur verður á laugardagskvöldið.
Kveðjur. Logi Már / Skálanefnd.
17.07.2012 at 22:23 #223907Sælir félagar. Þá fer að líða að fyrri vinnuferð skálanefndar Seturs í sumar. Hún verður sem sagt helgina 27-29 júlí og þá er meiningin að grafa fyrir sökklum skemmunnar og slá upp mótum fyrir undirstöðum. Okkur vantar vaskar hendur til starfa og eru þeir sem geta ljáð okkur lið beðnir um að skrá sig hérna i spjallþráðinn. Sameiginlegur matur verður á laugardagskvöldið. Gerum nú góða mætingu og látum hendur standa fram úr ermum.
Kv. Logi Már. Skálanefnd.
05.07.2012 at 18:52 #755547Búinn að athuga neðri demparafestinguna? L.
05.07.2012 at 17:40 #755633Finnst vera spurning um hvort alternatorinn er að ná að halda geyminum í fullri spennu. Hefur þú látið mæla hvort alernatorinn er að hlaða eðlilega? L.
04.07.2012 at 10:19 #755541Setja klafann í skrúfstykki, losa rærnar báðum megin og taka skinnurnar burtu, hita klafann utanum fóðringarnar með gasi, kósanhitari dugar, og þá geturðu slegið öxulinn í gegn án vandræða. L.
03.07.2012 at 17:32 #755535Skoðaðu efri klafafóðringarnar, gætu verið orðnar slitnar og þá á þetta til að banka svona. Annað, sem ég get svo sem ekki séð fyrir mér að leiði upp í stýri er að boltinn í neðri demparafestingunni hafi losnað og sé farinn að skrölta í gatinu á festingunni og jafnvel búinn að rýma gatið þannig að það sé orðið sporöskjulaga, þá skröltir leiðinlega í þessu þegar ekið er í ójöfnum eða holóttum vegi. Enn einn möguleikinn er að festingar sem halda bremsukalíberi séu orðnar slitnar og að það sé að valda þessu skrölti en mér finnst það reyndar langsóttara en hitt. L.
-
AuthorReplies