Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
03.06.2013 at 11:01 #766301
Sem svar við vangaveltum Freys Þórssonar þá kostar aluzinkið með flasingum nálægt 220 þús og áætlaður byggingakostnaður er um 3 millj. eða eitthvað rétt undir því. Persónulega finnst mér líka að það geri ásýnd bygginganna betra að láta þær ekki vera mjög einsleitar, þ.e. láta skemmuna skera sig aðeins frá aðalbyggingunni. Hafa með öðrum orðum ekki allt mjög einsleitt. L.M.
01.06.2013 at 22:37 #766275Góði Sigurður farðu ekki að koma með svona afsakanir. Þetta mál er það nálægt þér að þú veist alveg hvað um er að ræða. Hérna, ef mér tekst að setja inn mynd er nærtækari mynd af því sem er raunverulega um að ræða. L.M.
01.06.2013 at 21:47 #766269Sigurður B ! EF þú ætlar að blanda þér í umræðuna um þetta með myndefni þá er það lágmarkskrafa að þú sýnir rétta mynd af útliti aluzinks. Þetta forljóta klæðningarefni sem þú ert að koma með myndir af hér eru kannski myndir af einhverskonar aluzinki en er ekki í nokkru samræmi við það sem við höfum ætlað okkur að nota. Það sem við höfum hugsað okkur að nota er í útliti venjulegs bárujárns sem er yfirborðsmeðhöndlað með aluzinki og ber því þetta nafn. Þetta sem þú ert að birta myndir af hér er nokkuð sem mér myndi ekki detta í hug að setja á húsið. Ef þú átt ekki myndir af venjulegu íslensku bárujárn i í liggjandi klæðningu á húsi þá skaltu sleppa því að birta myndir sem falsa það útlit sem kemur til með að vera á húsinu ef aluzink klæðning kemur til með að vera valkostur sem verður ofaná. L.M.
31.05.2013 at 15:48 #226150Sælir félagar.
Eins og flestum er kunnugt er nú farin í gang vinna við að smíða neyðarskýlið við Setrið. Verið er að setja saman einingarnar sem fluttar verða uppeftir og reistar síðsumars. Umræða hefur skapast meðal félagsmanna um utanhúsklæðningu hússins en eins og flestum er kunnungt er Setrið klætt með ljósri Steni klæðningu. Okkur, meirihlutanum í skálanefnd hefur blöskrað hvað Steniklæðningin kostar en þegar við fórum af stað í þetta verkefni á sínum tíma könnuðum við hvað Steniklæðning utan á húsið mundi kosta en á þeim tíma voru tveir framleiðendur að þessari vöru, Steni, sem Byko flytur inn og siðan Stoneflex sem Húsasmiðjan flutti inn. Í millitíðinni hefur það síðan gerst að Steni verksmiðjan keypti Stoneflex og er nú aðeins einn innflytjandi með þessa vöru. Verðið hækkaði um rúmlega helming eftir það. Okkur fannst því að kostnaður við þennan þátt byggingarinnar væri algjörlega farinn úr böndunum og leituðum því hófanna eftir öðrum kostum í utanhúsklæðningum. Eftir allmikla eftirgrennslan varð niðurstaðan sú að við mundum fara út í að vera með aluzink klæðningu á veggjum. Aluzink lítur í raun út eins og bárujárn en er með aluzink húð og er því mjög varanlegt. Ætluðum við að hafa klæðninguna liggjandi á veggjum, panta fimm plötur af Steni í rauðgula litnum sem er á þakkantinum á Setrinu og hafa þakkant hússins eins á litinn eins og er á Setrinu og mála svo þakið í sama lit og Setrið. Eini munur á útliti húsanna yrði því liggjandi bárualuzink á skemmunni á móti Steniklæðningu á Setrinu. Ekki gerðum við ráð fyrir að mála aluzinkið á veggjunum heldur láta það halda sínum gráa lit. Nú hefur skapast umræða meðal félagsmanna um þetta mál og eru ekki allir á eitt sáttir með þessa fyrirætluðu tilhögun okkar. Vilja sumir að farið verði í að versla Steni á húsið svo að það komi til með að líta eins út og skálinn. Við skálanefndarmenn höfum verið að horfa í kostnaðinn við þetta því munurinn á þessum tveimur kostum er í kringum 870,000,- sem það kostar meira að nota Steni en aluzink klæðningu. Þetta eru miklir fjármunir sem þarna eru í húfi og vera má að þeim sé betur varið í annað starf félagsins. Þess vegna viljum við nú vita vilja félagsmanna í þessum efnum og efnum nú til umræðu og skoðanakönnunar um þetta mál. Hvetjum við ykkur til að taka þátt í þessari könnun eftir að þið hafið kynnt ykkar málið frá öllum hliðum. Segið ykkar skoðun þér á þessum þræði en við verðum að hafa hraðann á vegna þess að það tekur tíma að panta Steni og fá það til landsins ef sá kostur verður ofan á. Settur verður linkur á skoðanakönnunina á sunnudaginn og vonandi hefur þá farið fram einhver umræða um málið og sjónarmið manna komið fram. Geta félagsmenn eftir það kosið um málið.
F.h. skálanefndar. Logi Már.
13.05.2013 at 19:49 #765751Eigum við ekki að reikna með að "Skálanefndar Gráni" fái pláss á básnum hjá skálanefndinni? L.M.
12.05.2013 at 12:34 #765425Um leið og ég vil þakka fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og þeirra mikla framlag til klúbbsins þann tíma sem þeir hafa starfað vil ég fagna því nýja fólki sem tekið hefur við störum þeirra. Þarna eru komnir reynsluboltar, kraftmiklir einstaklingar sem ég vænti góðs af. En við hin, almennir félagsmenn verðum að vera tilbúin að hlaupa til aðstoðar þessu góða fólki þegar það kallar eftir því. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þetta fólk geti séð um alla þá vinnu sem inna þarf af hendi í rekstri félags af þessari stærðagráðu. Framundan er mikið starf í að koma innra starfi klúbbsins á sporið aftur því að til allrar ólukku hefur það setið á hakanum vegna hinnar miklu orku sem farið hefur í ferðafrelsismálin. Og við skulum gera okkur grein fyrir því að ferðafrelsisbaráttan er hvergi nærri búin, núna er bara hálfleikur í besta falli því að þeir sem vilja okkur út af hálendinu eru ekkert hættir og hætta væntanlega aldrei baráttiu sinni fyrir sínum málstað. Þar er m.a. við gríðarlega einsleitt embættismannakerfi við að eiga og nýjir ráðherrar sem í stólana setjast geta sjálfsagt átt í mesta basli með þann illkleifa vegg þrátt fyrir að vera allir af vilja gerðir til að koma fram með breytingar. Þess vegna þurfum við að vera á tánum og standa á bak við okkar fólk sem best við getum. Ég vil því hvetja alla félaga til að fylgjast vel með þessum málum og standa fastir fyrir. L.M.
18.04.2013 at 19:50 #764815Styð þetta. Sýnist sem svo að það sé valinn maður í hverju rúmi hjá tækninefndinni með þessari uppstillingu. Kv. L.M.
18.03.2013 at 21:57 #225779Sælir félagar. Um leið og viljum þakka ykkur fyrir samveruna í stórferðinni langar okkur að koma með nokkrar hugleiðingar um atburði ferðarinnar. Með hugleiðingum þessum er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á skipulag Túttugengisins, semokkur þótti til fyrirmyndar eða á störf þeirra annarra sem að skipulaginu komu. Þessum hugleiðingum okkar er fyrst og fremst ætlað að vekja okkur til umhugsunar um hvernig við getum undirbúið okkur undir svona ferð og verið fær um að takast á við það sem upp á getur komið og er alveg eins beint að okkur sjálfum eins og öðrum sem í ferðinni voru. Við erum reynslunni ríkari og við vonum að aðrir séu það líka.
Það fyrsta sem huga ætti að er fjöldi bíla í hóp. Það er ekki heppilget að hafa of marga bíla í hverjum hóp. Það er óhjákvæmilget að einhverjar tafir geti orðið á leiðinni og þá er betra að fáir tefjist en margir. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar raðað er saman í hóp fólki, sem ekki hefur ferðast saman áður. Það geta komið upp þær aðstæður að einhver úr hópnum getur þurft að leggja til óvinsælar ákvarðanir og taka hagsmuni heildarinnar fram yfir hagsmuni einstaklingsins eins og t.d. að skilja bíl eftir í þágu þess að hópurinn komist fyrr til byggða ef veður og aðstæður fara versnandi. Miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á jöklinum núna um helgina getur verið mikilvægt að taka ákvörðun sem þessa fyrr en seinna. Það verður aldrei of oft áréttað að menn séu undir það búnir bæði andlega og hvað varðar útbúnað að þurfa að dvelja um lengri eða skemmri tíma í ökutækinu vegna veðurs eða bilana. Mikilvægt er því að að hafa meðferðis nógu góðan búnað til að halda á sér hita s.s. góðan fatnað, svefnpoka sem ekki er ætlaður til sumarferða og álpoka.
GPS tæki eru grunnur að ferðamennsku á jöklum og eru skylda í þeim bílum sem taka þátt í svona ferð. Við skulum hafa í huga að ekki er nóg að hafa tækið í bílnum, við þurfum að geta notað það líka. Það eru grunnatriði að geta fært hnit í tækið og geta kallað fram eigin staðsetningu til að geta miðlað heni til björgunaraðila. Það voru dæmi þess að að ekki væru gefnar upp réttar staðsetningar þegar leitað var eftir þeim. Allir hljóta að sjá hversu mikilvægt þetta atriði er. Einföldustu aðgerðir á tækjunum verða flóknar þegar menn kunna þær ekki og á það sérstaklega við þegar menn standa frammi fyrir aðstæðum eins og þeim sem mynduðust á jöklinum um helgina. Tillaga til lausnar á þessu væri t.d. að þeir félagar sem hafa staðgóða þekkingu á gps tækjum gætu miðlað af þekkingu sinni á klúbbkvöldum, opnu húsi og slíku og væri slíkt auglýst á heimasíðu 4×4. Þá er miðað við að menn gætu komið með sín eigin tæki og fengið grunnleiðsögn á þau. Kunnátta í því að lesa saman kort og áttavita getur einnig komið sér vel ef svo illa fer að gps kerfið dettur út eða tækið bilar.
Að mörgu er að hyggja þegar bíll er undirbúinn í svona ferð. Loftinntök þurfa að vara þannig útbúin að ekki geti skafið inn á þau því það veldur því gjarnan að loftsíur stíflast og vélar hætta að ganga. Kveikikerfi bensínbíla þarf að vera vel rakavarið og gera þarf ráðstafanir í blöndugsbílum til að ekki frjósi í blöndungunum. Þessi tvö atriði geta skift sköpum þegar að því kemur að halda vélum gangandi og geta haldið hita í farþegarými.
Ferðaklúbburinn 4×4 hefur byggt upp gríðarlega öflugt VHF kerfi og er ekki ofsagt að það hafi gert gæfumuninn núna um helgina þar sem símasamband náðist ekki á svæðinu og verður þeim seint fullþakkað sem staðið hafa að uppbyggingu þess. Í ferðinni um helgina var nokkuð um það að menn töluðu inn í samtöl sem fóru á milli stjórnstöðvar á Höfn og þeirra sem voru aðmiðla upplýsingum til þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt að menn forðist að tala hver ofan í annan og hafi formleg samskifti t.d. að kynna sig með nafni til að auðvelda hjálparsveitum og stjórnstöðvum að hafa sambandi við tiltekna aðila aftur.
Enn og aftur viljum við taka það fram að við teljum Túttugengið hafa staðið vel að skipulagningu ferðarinnar og ekki síður í því að aðstoða fólk við að komast niður af jöklinum. Við viljum þakka Hornafjarðardeild Ferðaklúbbsins fyrir þeirra þátt í aðstoðinni, Björgunarsveit Hornafjarðar fyrir alla þeirra miklu aðstoð og stjórnstöðinni á Hornafirði fyrir góð samskifti. Ekki má gleyma Bjarna snjótroðarastjóra sem ruddi fyrir okkur brautina og gerði gæfumuninn í þvi að allir komust niður.
Rúnar Sigurjónsson R-2035
Logi Már R-3641
09.03.2013 at 11:38 #764257Takk fyrir þetta innlegg Jón. það er mönnum hollt að kynnast sögu klúbbsins frá upphafi og gera sér grein fyrir hvers vegna við erum komin hingað þar sem við erum í dag. Barátta frumkvöðlanna, þessara, á þeim tíma, meintu klikkhausa sem tóku að breyta bílum sínum fyrir akstur í snjó hefur skilað okkur miklum gjaldeyristekjum, atvinnu og umsvifum og væri gott að þeir menn sem gagnrýna okkur jeppaferðalanga hvað mest gerðu sér grein fyrir þessari staðreynd. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér, þetta hefur verið mikil vinna sem sjálfsagt hefur lagst á allt of fáar hendur. Og hér erum við i dag og erum enn í baráttunni sem núna snýst um ferðafrelsi. Við verðúm öll að standa saman og verja ferðafrelsi okkar með kjafti og klóm fyrir þeim sem vilja okkur út af hálendi Íslands, landssvæði, sem við eigum öll að hafa jafnan aðgang að, hvernig sem við kjósum að ferðast. Okkar upplífum er ekkert minni eða ómerkilegri en þeirra sem vilja ferðast á annan hátt en við viljum helst. Við verðum bara að taka tillit hvert til annars, þá ganga hlutirnir vel. L.M.
09.03.2013 at 08:29 #225714Sæl öll. Svo virðist sem þessi grein eftir Ólaf Magnússon fáist ekki birt í fréttablaðinu. Veit um tvær aðrar frá okkur sem virðast hafa verið settar í biðstöðu.
http://ferdafrelsi.valid.is/wp-content/themes/ferdafrelsi/enn_um_kortagrunn.pdf
Kv. L.M.
06.03.2013 at 14:06 #764193Vissulega rétt hjá þér Valur en við vitum hvernig ákvðinn hópur fólks grípur svona á lofti og gerir allt það versta úr því og blæs það sem mest upp til þess að ófrægja okkur sem allra mest. Þröskuldurinn er mishár hjá fólki. L.M.
06.03.2013 at 09:15 #764187Verð að segja að mér var ekki skemmt við lestur þessarar fréttar. Það er ekki til að hjálpa okkur í baráttunni að svona mál komi upp. Jákvæði hlutinn er sá að þetta er hægt að laga til og að ekki hafa orðið varanlegar gróðurskemmdir þarna. Réttast væri að senda þá sem þessu ollu og láta þá taka til eftir sig. L.M.
11.02.2013 at 20:36 #763485Sælir félagsmenn og aðrir þeir sem þetta kunna að lesa. Eins og fram hefur komið munum við sem stöndum að ferdafrelsi.is / áhugahópur um ferðafrelsi, afhenda undirskriftir þær sem safnast hafa á ferdafrelsi.is við Alþingishúsið kl.12:30 á morgun, þriðjudaginn 12 febrúar. Þetta er ákveðinn áfangi í baráttunni, sem þó er hvergi lokið. Við verðum áfram á vaktinni og verður undirskriftasíðan opin áfram þannig að við hvetjum fólk til að skrifa undir þó svo að þær undirskriftir sem komnar eru verði afhentar á morgun. Það er því bara af hinu góða að það bætist í undirskriftabunkann og fjarri lagi að við séum á endapunktinum í baráttunni.
Vil segja að lokum að við verðum þakklát hverjum þeim sem er til í að sýna okkur samstöðu með því að mæta á Austurvöll í hádeginu á morgun þegar við afhendum undirskriftirnar.
Með baráttukveðju f.h. áhugahóps um ferðafrelsi.
Logi Már.
27.01.2013 at 17:13 #76270322. , 23. og 24. grein. Tjöldun
Tjöldunarákvæðið er meingallað. Aðeins má nota tvær tegundir tjalda, „hefðbundið viðlegutjald“ og „göngutjald“. Önnur tjöld, jöklatjöld, tjaldvagna o.þ.h. má ekki nota nema á skipulögðum tjaldsvæðum. Sé rýnt í þessa grein má jafnvel lesa úr henni að ekki megi slá upp tjaldvagni á bílastæðinu heima hjá sér til þurrkunar, nema þar sé óræktarland. Reykvíkingar sem ekki hafa óræktarland hjá húsum sínum þurfa þá líklega að leita á tjalstæðið í Laugardal til þurrkunar á tjaldvagni sínum.
Vafasamt er hvernig farið er með tjöldun þegar um er að ræða t.d. þorpshátíðir, knattspyrnumót eða ættarmót heima á eigin jörð eða túni. Það má nefnilega bara tjalda á þar til gerðum tjaldstæðum.Þetta er bara eitt af mörgu og kannski það léttvægasta. Tel sjálfur að almannaréttarákvæðin séu alvarlegust. Hvet þig til að fara inn á ferdafrelsi.is og skoða linkinn undir "samantekt" sem er þar. Það ætti að upplýsa þig um það sem við erum að gera athugasemdir við. Síðan eru þarna líka athugasemdir annara hagsmunahópa sem þú getur kynnt þér ef þú hefur tíma, nennu og áhuga til. Þú mátt ekki taka því þannig að við séum á móti frumvarpinu sem slíku, margt er gott í því en það er margt þarna mjög illa uppsett og jafnvel þannig að ekki er hægt að fara eftir því. Og kannski er jafnvel reiknað með að ekkert eigi að fara eftir því en til hvers þá að vera að semja lög um þessa hluti? Betra að vanda sig meira og semja lög sem hægt er að fara eftir og gera það í samráði við þá hagsmunahópa sem eiga svo að fara eftir þeim. Illa samin lög gera ekkert annað en að skapa enn frekari óvirðingu fyrir lögum og er það, að mínu mati að bera í bakkafullann lækinn. L.
22.01.2013 at 11:32 #762791Erum að vinna í þessum málum og á félagsfundinum á morgun, sem auglýstur er á forsíðunni verður farið yfir þessi mál og það sem við erum komnir með í gang. L.
18.01.2013 at 19:46 #225401Góðan dag til allra viðtakenda þessa pósts.
Við undirritaðir viljum vekja athygli á því að nú standa yfir umræður á alþingi um ný náttúruverndarlög og er stefnt að því að koma þeim í gegnum þingið fyrir þinglok. Það styttist því óðum tíminn sem við náttúruunnendur höfum til að sporna við þeirri þróun sem búin er að vera í gangi og mun óhjákvæmilega skerða ferðafrelsi okkar allra. Það er á vitorði allra þeirra sem á annað borð vilja vita að allt tal af hendi umhverfisráðherra um samráð við útivistarhópa er bara hjómið eitt, athugasemdir sem gerðar hafa verið við frumvarpið af hendi útivistarfélaga og annarra þeirra sem hafa skoðanir og athugasemdir um málið hafa engan hljómgrunn fengið og í ráðuneytinu þar sem tekið er við þeim er þeim dreift á starfsmenn ráðuneytisins til yfirlestrar og þar sofna athugasemdirnar. Þegar svo þeir sem standa fremstir í flokki ferðafrelsismála funda með forsvarsmönnum ráðuneytisins finna þeir fyrir þvi að þeir (ráðuneytisstarfsmennirnir) hafa ekki hugmynd um innihald þeirra athugasemda sem komið hafa inn á borð ráðuneytisins og koma af fjöllum þegar bent er á stóra ágalla í frumvarpinu sem t.d. varða ákvæðin um tjöldun. Og það eitt og sér er bara eitt atriði af mörgum. Því miður er það tilfinning undirritaðra að ráðuneytið og umhverfisráðherra hafi aldrei ætlað að hlusta á þessar athugasemdir yfirleitt. Það er því dagljóst að ef við ætlum að láta rödd okkar heyrast og ætlum ekki að láta umhverfisráðherra og allt hans lið valta yfir okkur í eitt skifti fyrir öll verðum við að grípa til aðgerða. Umhverfisráðherra hefur verið gefinn allt of mikill friður í þessu máli, friður, sem hún hefur nýtt sér til að geta lamið enn frekar á okkur sem ekki erum á sama máli og hún í þessum efnum.
Okkur undirrituðum hefur um langa hríð fundist að öll umræða um þessi mál hafi farið fram innan einhverrar girðingar og hafi ekki komist út fyrir hana þrátt fyrir ötula vinnu ýmissa einstaklinga sem gefið hafa mikið af tíma sínum í þessi ferðafrelsismál. Þessu þarf að breyta, við þurfum að láta í okkur heyra, láta almenning í landinu vita með háum rómi hvað er verið að gera í að skerða ferðafrelsi almennings í landinu og hvað þessi nýju lög í raun og veru gera. Það virðist vera sem svo að þegar rætt er við fólk úti í bæ um þessi mál þá kemur það af fjöllum, umræðan hefur einfaldlega ekki náð eyrum þess. Við viljum því leggja til aðgerðir, sem miða að því að láta þjóðina vita hvað er í gangi. Við leggjum því eftirfarandi til!
Undirbúinn verði blaðamannafundur þar sem málið verði reyfað, allar staðreyndir látnar koma fram og málið verði rætt almennt, fyrirspurnum svarað, dregið fram það sem jákvætt er í lögunum og um málið í heild fjallað með jákvæðum tón, jafnvel neikvæðu atriðin í frumvarpinu. Fram þarf að koma hvernig farið er með athugasemdirnar sem gerðar voru, hvernig þær eru teknar fyrir innan ráðuneytisins og hvort þessar athugasemdir yfirleitt eru látnar ná eyrum ráðherra umhverfismála. Óréttlæti í meðferð mála innan Vatnajökulsþjóðgarðs verði látið koma fram. Leggja fram allar atugasemdir sem sendar voru inn og gera þær opnar fyrir augum almennings og pressunnar. Benda á efnið sem Bandaríkjamennirnir komu með hingað og kynntu á fundum með okkur útivistarfólki. Gera ráðamönnum þjóðarinnar heyrinkunnugt að Ísland sé nógu stórt fyrir okkur öll, ekki bara fyrir sérhagsmunahópa. Margt fleira mætti týna til og fróðari menn en við geta bætt við.
Í tengslum við blaðamannfundinn verði skipulagður hópakstur í gegnum Reykjavík, byrja mætti á Korputorgi, aka niður Sæbraut og enda niður í miðbæ, blaðamannafundurinn gæti verið haldinn í Iðnó og ætti því mótmælaflaut þátttakenda bæði að ná eyrum blaðamanna og þingmanna.
Virkja mætti klúbba úti á landi til samræmdar þáttöku, t.d. hafa samsvarandi blaðamannafund og hópakstur á Akureyri og aðrir minni klúbbar gætu tekið þátt í þessu og sniðið stakk að vexti. Virkja mætti félagasamtök eins og Samút til að koma að þessu með okkur og værum við þá að ná til mikils hóps útivistarfólks. Aðalatriðið er samræmdar aðgerðir, helst um allt land. Pressan mundi örugglega taka eftir þessu og vonandi yrðu forsvarsmenn ferðafrelsis kallaðir í viðtöl í fjölmiðlum og best væri og sennilega mesti sigurinn ef þeir væru kallaðir inn á teppið hjá ráðherra.
Með von um góðar undirtektir.
Rúnar Sigurjónsson
Logi Már Einarsson(Bréfritarar eru meðlimir skálanefndar Seturs, fjallaskála Ferðaklúbbsins 4×4)
14.01.2013 at 11:56 #762099Það ég man Birkir, sem er nú kannski ekki mikið er að brennivínið hafi klárast um níuleytið þetta kvöld. Eftir það drukku menn bara pisservasser. L.
05.01.2013 at 23:30 #762083Verð að segja, "Birkir, you asked for it",,,,, :):):) Ekki hægt að toppa þetta Agnar. L.
11.12.2012 at 19:30 #760693Hef nú eiginlega ekki séð betri auglýsingamynd fyrir Thule. Bööööööörrp. L.
02.12.2012 at 13:19 #761207Þetta er alveg kórrétt hjá þér Jón. Ég ætla því að nota tækifærið hér og biðja þá sem ætla í Setrið að bíða með að láta bílana sína bila þar til næsta vetur. Þá verður skemman væntanlega risin og menn geta farið að komast inn til að gera við í bunkum. Það er nefnilega ekkert gamanmál að gera við úti í kolbrjáluðu veðri þarna uppfrá. Komst að því um daginn þegar ég var úti við gám að skifta um drifloku í "Skálanefndar Grána", hefði gjarnan viljað vera laus við það. L.
-
AuthorReplies