Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
14.11.2003 at 01:44 #480382
Ég er einmitt að reyna að velja mér tæki til að nota í bílinn.
Valið stendur orðið á milli 3ja tækja, öll frá Garmin: Map76, GPS V deluxe og Map176.
Ég er nú ekki mikill snillingur þegar kemur að svona tækjum en helstu kostir hvers tækis sýnist mér vera:
Map76: Ódýrara en hin, létt og með sæmilegan skjá.
GPSV deluxe: Hægt að "velta" skjá og nota þannig hvort sem er í lóðréttri eða láréttri stöðu (gott ef maður þarf að vera með tækið fram í glugga þangað til maður splæsir í auka-loftnet).
Map176: Stærri skjár (á móti kemur að það er þyngra og stærra en hin).
Getur einhver sagt mér hvort þessi tæki eru misjöfn að öðru leiti? Eru betri kaup í einu tæki en öðru?
Vona að einhver snillingurinn geti hjálpað…
kv.
Einar
14.11.2003 at 01:21 #480480Vill maður ekki alltaf taka þátt í umræðum sem manni finnst að snerti mann sjálfan?
Ég hef starfað töluvert samhliða björgunarsveitamönnum í gegnum tíðina og ber ómælda virðingu fyrir þeim flestum og þeirra störfum. Án þeirra væri þjóðfélagið fátækara og ég get vottað að hróður þeirra er slíkur að ég hef oftar en einu sinni verið beðinn um það erlendis að skýra út fyrirkomulag íslenskra björgunarsveita og sögu að fyrra bragði.
Ég er sammála mörgu því sem hefur komið fram hér að ofan en finnst eftirfarandi standa uppúr:
1) Mér finnst sjálfsagt að greiða einhverskonar gjald (þó ekki væri nema olíuna) fyrir verðmætabjörgunarleiðangur. Ég þykist þó vita að ekki nærri allir björgunarsveitarmenn taka það í mál í dag. Kannski breytist það…
2) "Kostnaður" við verðmætabjörgunarleiðangra er líklega í flestum tilfellum mikið lægri en þegar kölluð er út leit. Mannskapur, tækjabúnaður og umsvif eru svo mikið, mikið minni og vonandi er björgunarsveitum það í sjálfval sett hvort þær leggja af stað eða ekki til að sækja bilaðan bíl. Þeir sem ég þekki mundu þó flestir vera lagðir af stað áður en símtalinu lyki.
3) Vanþekking og bjartsýni sums fólks þegar kemur að hálendisferðum er ótrúleg. Þátttaka í björgunarsveit eða skátastarfi kennir mörgum hvað þarf til, svo og auðvitað að ferðast með reyndu fólki eins og félögum í 4×4. Lumar einhver á góðri hugmynd til að dreifa þeirri þekkingu af meiri krafti?
4) Byrjum að spara fyrir flugeldum sem við ætlum að kaupa af björgunarsveitum! Að mínu mati er það 1000 sinnum mikilvægara málefni að styrkja en rekstur meistaraflokka íþróttafélaga.
Vona bara að það fari að snjóa…
Einar.
02.11.2003 at 21:14 #479530Getur líka farið á pústverkstæði Einars í Kópavoginum. Ég er með 91 4runner og hann tók á milli 50 og 60 þús fyrir að smíða í hann flækjur og setja í hann.
Ef þú hefur eitthvað þurft að standa í viðgerðum á gripnum, nú eða skipta um eitthvað, þá veistu að það er nokkurra þúsundkalla virði að fá aðra til að troða sér meðfram vélinni 😉
kv.
Einar (ekki pústkallinn samt…)
30.10.2003 at 18:46 #193094Kvöldið.
Það er kominn tími á smá blettun á bílnum. Var að spá í að gera það sjálfur en er eiginlega að hallast á að láta fagmenn um verkið. Getur einhver mælt með einum stað frekar en öðrum? Bæði hvað varðar gæði, þjónustu og verð (maður vill auðvitað fá allt fyrir ekkert)?
Kv.
Einar
26.10.2003 at 21:39 #193073Þori varla að viðurkenna að ég sé að spurja… en hefur einhver skoðað nýju XL-7 súkkuna með tilliti til breytinga? Er þetta bíll sem þolir íslenska breytingu og notkun?
Kv.
Einar
26.10.2003 at 20:22 #479180Tek undir að dekkstu filmurnar eru leiðinlegar – líka í björtu því þær eru í raun ekki brúnar heldur eiginlega fjólubláar.
En fyrir barnið í framsætinu er kannski möguleiki að skoða svona hálf-gegnsæ spjöld með sogskálum. Þekki reyndar ekki hvort þau séu líka ólögleg fram í bílnum? Fást í öllum bílabúðum og víða þar sem barnavörur eru seldar. Það er hægt að fá þetta í ýmsum stærðum þannig að þau þurfa ekki endilega að hindra útsýni þitt…
Svo hef ég séð svona búta af filmum, sæmilega þykka og í ýmsum stærðum, sem er hægt að skella á rúðuna (eins og plast-jólamyndirnar sem maður setti á glugga í gamla daga) og taka af aftur – kannski hjálpar það.
Að lokum tel ég mig hafa rétt fyrir mér í því að þú mátt í raun hafa filmur í öllum rúðum, en þær sem eru fremst (framrúða, bílstjórahurð og sú á móti) mega ekki vera nema ákveðið dökkar.
Sú skygging er ekki mjög mikil – það sést vel inn í bílinn með þeim (sem er tilgangurinn með reglugerðinni) – en þær breyta þó ótrúlega miklu. Spurning hvort einhver sem er með svoleiðis filmur (þó þær séu kannski bara afturí) geti leyft þér að meta hvort þær dugi í þínu tilfelli?
Kv.
Einar
24.10.2003 at 00:31 #478964… án þess að ég meini neitt illt
24.10.2003 at 00:29 #478962Ég veit svo sem ekki hvort það var eitthvað sérlegt gáfnastökk að fara á 38 tommur, en það er nú ekki alltaf skynsemin sem ræður því hvað maður gerir í bílamálum.
Þeir sem hafa átt léttan bíl vita hinsvegar að stundum er það nóg til að komast lengra en aðrir…
…og þeir sem nenna að lesa sjá hvað maður skrifar.
kv.
Einar
23.10.2003 at 20:40 #478956Sæll.
Er sjálfur byrjandi í bílskúrsfræðum en átti í nokkur ár cherokee á 33". Get því svarað því til að hann fer lygilega mikið á þeim með úrhleypingum.Ég var með sjálfskiptan bíl með svona læsinga-millikassa (minnir að það heiti quadra-track eða eitthvað svoleiðis). Hann sat eftir í sumum tilfellum en í öðrum stakk ég 38" risana af. Þetta fer svo mikið eftir færi bara hvort það er nóg að vera léttur eða ekki.
…Ég endaði nú samt á 38" bíl… ef það segir þér eitthvað
Kv.
Einar
15.10.2003 at 19:00 #478104Af hverju hyggst lögreglan ekki aðhafast neitt frekar í málinu? Er kannski ekki um lögbrot og ræða þegar bílum er stolið? Eða strandar á því að eigandinn verður að kæra?
Maður verður að fara að sofa í bílnum…
08.10.2003 at 19:50 #477610Ég er með 4runner með 3ja lítra V-6 bensín vélinni. Fékk hann með ónýtum flækjum og öllum sem ég spurði bar saman um að einn staður væri öðrum fremri: Pústverkstæði Einars í Kópavogi.
Ég er alveg sáttur við flækjurnar, þær eru a.m.k. ekki dottnar í sundur enn, voru settar í í maí.
Hann nafni tók 56.000 fyrir þetta, sem er varla neitt gríðarlega mikið fyrir sérsmíðaðar flækjur á 6 strokka vél?
Ég athugaði líka hjá Toyota (eða AT öllu heldur…) og þar gat ég fengið flækjurnar (reyndar bara hluta af þeim minnir mig…) lítið eitt ódýrari – en þá er eftir að setja þær í.
Ég hef náttúrulega ekki samanburðinn við bílinn flækjulausan, en hann er á 38" og togar alveg þolanlega vel, er snöggur upp og svo skemmir hljóðið ekkert fyrir ánægjunni 😉
Vona að þetta gagnist eitthvað.
Kv.
Einar Elí
25.09.2003 at 01:29 #476828Fín hugmynd að setja auka-alternator. Er einmitt í sama vanda með fartölvuna.
Er á 4runner með 3ja lítra bensínvél (já, þessari sparneytnu). Er einhver búinn að finna sniðuga lausn á því hvar maður bætir honum við?
Og annað: Er eitthvað vit í því að vera með sér geymi við þann alternator? Er maður þá ekki kominn með ALVÖRU auka-rafkerfi?
Enn og aftur: Reynslusögur vel þegnar.
kv.
Einar
01.09.2003 at 01:10 #475958Ég heyrði um það talað fyrir nokkrum dögum að þau tjón sem erlendir ferðamenn lentu í á bílaleigubílum hérlendis og tryggingar taka þátt í að greiða, hefðu jafnmikil áhrif á iðgjöld okkar og tjón hérlendra bílstjóra.
Er þetta rétt? Og ef svo er – er þetta eðlilegt?
Mér virðist það í besta falli ósanngjarnt að við berum skaðann af því þegar óvanir útlendingar skemma bílaleigubíla. Finnst í raun eðlilegra að bílaleigurnar beri tjónið – enda þeirra gróði en ekki okkar að bílarnir séu leigðir út.
Veit einhver ykkar meira um málið?
Er þessu farið eins og mér var tjáð?Kv.
Einar
R-3186
22.08.2003 at 15:07 #475756…takk fyrir góð svör.
kv.
Einar
21.08.2003 at 18:09 #475746Takk fyrir greinagóða skýringu Hjalti.
Ég var nú reyndar búinn að fatta muninn á talstöðvum og símum fyrir nokkru en líklega láðist mér að útskýra almennilega hvað það var sem mig langaði að vita.
Reyni aftur:
Segjum sem svo að ég sé með NMT síma og CB stöð í bílnum en ekki VHF stöð. Eins og fleiri þarf ég að forgangsraða á fjárhagsáætlun og er að spá hversu lengi maður kemst upp með að draga það að kaupa VHF stöð út frá þessum forsendum:Ef maður gefur sér að í sinni hreinustu og nauðsynlegustu mynd séu bæði tæki notuð til að kalla eftir hjálp. Nú átta ég mig á því að neyðarkall sem fer út á endurvarpakerfi getur t.d. náð til annarra bílstjóra sem eru nálægir og gætu þannig séð komið til hjálpar við minniáttar óhöpp og vesen, en ef við einblínum á að ná sambandi t.d. við Neyðarlínuna – hversu vel settur er maður þá án VHF stöðvarinnar en með NMT símann?
Mergurinn málsins er því, ímynda ég mér, hvernig dreifingin á VHF endurvörpum er í samanburði við NMT kerfið.
Við vitum að NMT kerfið nær ekki til allra staða, en býsna margra þó. Er það mat manna að með þessi not að leiðarljósi sé munurinn á dreifikerfunum það mikill að skilyrðislaust ætti að setja VHF stöð í bílinn líka eða er maður víðast hvar með NMT samband þar sem VHF skilyrði eru góð?
Vona að einhver geti lesið í gegnum þessa steypu…
Kv.
Einar
20.08.2003 at 15:37 #475736En eitt langar mig að vita – hvernig er dreifingin á VHF endurvörpum í samanburði við NMT?
Kemst maður upp með að sleppa VHF stöð ef maður er með NMT í bílnum? A.m.k. ef maður er ekki alla daga ársins inn í djúpum dal?
Kv.
Einar
15.08.2003 at 00:54 #475510Ég er alveg nýr í klúbbnum – hef ekki enn mætt á fund eða neitt, en mig langar samt aðeins að leggja orð í belg…
Fyrir mörgum árum, löngu áður en ég fékk bílpróf, var ég í heimsókn á lögreglustöð í hverfinu mínu. Þar fann ég bækling sem í þá daga hét "Off road driving in Iceland" og var ætlaður til upplýsingar fyrir erlenda ferðamenn.
Fyrsta setningin í þessum 6 bls. bækling hljóðaði á þessa leið"
"Off road driving is forbidden in Iceland"
Ég veit ekki hvað stóð meira í þessum bæklingi – mér fannst þessi eina setning duga, lokaði bæklingnum og setti aftur upp í hillu.
Þessi eina setning, ásamt því að eiga vant ferðafólk fyrir foreldra, er eiginlega það eina sem hefur kennt mér rétt frá röngu þegar einhver lítið ekinn "hliðarslóði" kitlar forvitnisgenin. Slíkur var máttur hennar á prenti.
Þrátt fyrir að á sínum tíma hafi verið starfandi 4×4 deild í mínum gamla heimabæ (og er sennilega enn) verð ég að viðurkenna að ég hef ekki tengt þennan áróður klúbbnum fyrr en ég byrjaði að heimsækja þessa vefsíðu (sem mér finnst þrusugóð!) fyrir nokkrum mánuðum. …held reyndar að 4×4 hafi komið að þessum áðurnefnda bækling en get þó ekki svarið fyrir það…
Ég styð því þá hugmynd að klúbburinn beiti sér fyrir því að gera landanum (og gestum hans) ljóst hvaða reglur gilda um umferð utan vega og á hálendinu.
Hvort útgáfa bæklinga sé rétta leiðin skal ég ekki fullyrða um, né hvort sniðugra sé að setja upp upplýsingaskilti á næstu árum við stærstu "inngönuleiðir" á hálendið, eða hvort áður umræddar sjónvarpsauglýsingar séu kannski áhrifamestar.
Kannski er þetta allt í prósess nú þegar? Ég verð að fara að kíkja á fund…
kv.
Einar
05.08.2003 at 00:09 #192766Alltaf hefur maður yfir einhverju að nöldra, en nú vil ég skipta um gír og hrósa góðri þjónustu.
Lenti í því á föstudagskvöldið í túr að alternatorinn í jeppanum gaf sig. Reif hann daginn eftir og sá að kolin voru í þokkalegu standi.
Hringdi í helstu verslanir sem mér datt í hug að væru með nýja alternatora en auðvitað var lokað hjá öllum um verslunarmannahelgi, meira að segja hjá Ljónsstaðabræðrum.
Komst eftir krókaleið í samband við partasala sem ég man því miður ekki hvað heitir. Hann átti ekki alternator fyrir mig en benti mér á að tala við Jamil við Rauðavatn.
Sló á þráðinn og fyrir einhverja lukku tók hann símann, fastur heima á hækjum með brotinn fót. Altarnatorinn fannst og ég gat fengið hann sendan með kunningja.
Vil hrósa Jamil fyrir að vera til þjónustu reiðubúinn og hinum partasalanum (ef þú lest þetta og kannast við að það sért þú) fyrir frábæra greiðvikni.
Einar Magnússon
21.07.2003 at 02:17 #474894Fór á Langjökul á laugardaginn. Hitti Guðbjörn hjá Activity Group og spurði hann út í jökulinn. Hann mælti ekki með Geitlandsjökli en sagði að bungan fyrir ofann skálann þar væri í góðu lagi og óhætt væri að fylgja förunum eftir MAN-trukinn sem þeir eru með þarna (og vegur líklega á við nokkra tugi 4-runnera…).
…Sem við og gerðum og fórum langleiðina að Skálpanesi þar sem við eyddum deginum. Vegna sólar var mjög mikil hláka á leiðinni til baka, en við náðum að fylgja gps-trakki og kynntumst ekki nema einni lítilli sprungu (Ofsalega var ég feginn að vera með driflæsingu að aftan þá stundina!).
Sumsé: Jökullinn er að mestu fær, erfiðastur neðst og breytist hratt í sólinni.
Vona að það nýtist einhverjum.
Kv.
Einar
18.07.2003 at 12:08 #474888Smá bakþankar: Ætla fleiri að stefna á Langjökul um helgina? Var bara að spá í hversu snjallt það væri að vera einn að þvælast þarna…
Í öðrum fréttum: Borgaði gíróseðilinn í dag og reikna því með að ég sé orðinn fullgildur meðlimur í klúbbnum. Þarf því að fara að sýna mig og sjá aðra – eru fimmtudagsfundirnir í Mörkinni líka í gangi yfir sumartímann, meðan mánudagsfundirnir liggja niðri?
Kv.
Einar
-
AuthorReplies