Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
15.02.2002 at 22:13 #458588
Sæll GO4IT.
Skiptu sem mestu út af þessu Ameríkudóti og settu japanskt í staðinn, það er sterkara og viðhaldsléttara.
Tek undir með þeim sem bentu þér á hásingar undan gamla hilux, þær eru hræódýrar og liggja út um allt (þrælsterkar). Ef þær eru of mjóar, þá leysir þú það bara með útvíðum felgum (þær þola það vel þó að Ameríkudótið þoli það ekki). Lausnin sem gummij er að benda þér á kostar ekki minna en 90.000 kr. (bara sæmilegir öxlar í aftur hásinguna) en ég trúi að þú fáir báðar Toy hásingarnar fyrir minni pening.
Ferðakveðja,
BÞV
15.02.2002 at 22:03 #459104Sæll Snake.
Gaman að heyra hvað þú ert ánægður með Mussoinn, þrátt fyrir að eiga eftir að prófa hann…
Gafstu upp á Fordaranum og bensínútgerðinni???
Það verður gaman að heyra eftir helgina hvernig græjan drífur.
Ferðakveðja,
BÞV
15.02.2002 at 21:48 #459120Sæll Finnur.
Þetta eru merkileg tíðindi, en þó ekki ný í mín eyru. Mér leikur forvitni að vita hvernig þetta hættulega efni fer með dekkin þín. Leka þau niður sem smér eða verða hörð og springa, eða eyðast þau bara upp þannig að það kemur á þau stórt gat???
Ég hef nefninlega oft velt því fyrir mér hvaða skelfing það er sem heltekur menn ef þeir aka með þessa lofttegund í dekkjunum sínum… aldrei verð ég var við neitt því líkt sem þú ert að lýsa. Það að CO2 sé "sýra" er eitthvað sem ég vissi ekki heldur… enda mundi ég aldrei setja sýru í dekkin mín og ráðlegg engum að gera það.
Hins vegar hef ég orðið var við að olíublandað loft eins og flestar Aircondition dælur senda frá sér (nema að menn hafi lagt í þeim mun fullkomnari hreinsibúnað), stórskaða gúmíið, gerir það að hálfgerðri drullu á yfirborðinu, þannig að mjög erfitt getur orðið að fá tappa til að tolla í götum.
Vonandi er ekki allt loft búið úr þessari umræðu…
Ferðakveðja,
BÞV
15.02.2002 at 13:24 #459114Sæll Stebbi.
Ég held að þetta séu tómar kerlingabækur, a.m.k. hef ég notað kosýru til fjölda ára án þess að verða vitni að því að það útaf fyrir sit fari illa með gúmíið.
Ferðakveðja,
BÞV
11.02.2002 at 15:23 #458834Sæll Óli.
Auðvitað skiptir máli þegar rekstrarkostnaður er til umræðu, að horfa heildstætt á málið, t.d. á ársgrundvelli (þungaskattsumræðan rekur málið einnig í þann farveg). Ég hef nú reyndar ekki heyrt neinn halda því fram að hann ferðist "frítt" jafnvel þótt á díesel sé, en þegar ég notaði þetta hugtak í fyrri pistli mínum átti ég að sjálfsögðu við þungaskattinn.
Þetta með að nota sparneytinn fólksbíl er umræða sem bensínmenn nota til að réttlæta bensíndrykkjuna í fjallaferðum. Má ég þá heldur biðja um fjallabíl sem hægt er að nýta einnig með sæmilegu móti í byggð, frekar en að híma í rasspútu eins og þú orðar svo skemmtilega. Reyndar hefur neyðin einnig kennt ykkur bensínkörlum í þessum efnum eins og nöktum konum; það þarf jú helst að eiga snattara með þessum bensínbílum, þar sem hestöflin eru iðulega búin að snúa og brjóta í sundur hjöruliði, drif, drifsköft eða eitthvað annað þegar í bæinn er komið og því er jeppinn óökufær fyrstu dagana eftir ferðir…
Að lokum er ekki úr vegi að dásama díeselinn þegar kemur að þungu færi, þar sem þarf að láta bílinn vinna í lausagangi eða á mjög lítilli gjöf. Þar koma yfirburðirnir hvað best í ljós. Meðan bensínkallarnir eru stöðugt að drepa á vélunum sínum, malla þessar "moðsuður" (eins og markir kalla olíubrennarana) eins og elskur og toga og toga alveg niður í 2-300 snúninga. Bensínkallarnir klára startarana á hálfum degi og allt í tómu tjóni…
Jæja, nóg í bili.
Með góðviðriskveðju,
BÞV
08.02.2002 at 09:10 #458830Jæja… hvar eruð þið nú bensíndraugar???
Mig langar í meira af þessari umræðu, því þetta er eitt af því klassískasta sem hægt er að stæla um í þessari jeppamennsku (alltaf gaman af líflegri rökræðu…) Það er eitthvað af rökum með bensíni sem enn hafa ekki komið fram…
Kv. BÞV
07.02.2002 at 18:50 #458764Sæll Jói.
Þarna ertu að bera saman verð og rukkaða tíma miðað við "lágmarksbreytingu" hjá tveimur aðilum. Þetta hef ég ekkert kynnt mér.
Eru þessar "lágmarksbreytingar" sem þú nefnir sambærilegar? Eru menn að fá það sama í pakkanum? Eru hlutföll inni í slíkum pakka hjá báðum og bílunum skilað þannig að þeir drífi í snjó?
Án þess að ég sé að fullyrða neitt í þessu efni, þá játa ég að það kemur mér verulega á óvart ef það tekur skemmri tíma að hækka, klippa úr, færa afturhásingu, setja brettakanta, hlutföll, gangbretti og drullusokka á Pajero en LC 90. Hugsanlega þarf ekki að klippa eins mikið úr Pajero, en jafnvel þótt svo væri, þá skýrir það ekki þennan verðmun.
Er "lágmarksbreyting" á Pajero þannig að búið sé að brenna burtu og færa pönnur og bita undir bílnum þannig að hann drífi (eins og ég veit að þú gerðir á þínum bíl)?
Þetta með driflásinn og verðið á honum í LC 90 er auðvitað hárrétt. Slíkur búnaður er gríðarlega dýr miðað við aðrar lausnir á handvirkum læsingum í aðra bíla. Hins vegar drífa svona létt Toy svo vel að maður þarf varla læsingu 😉
Með ferðakveðju,
BÞV
06.02.2002 at 01:42 #458814Sæll klami.
Í öllum bænum áttaðu þig á því að óli er sjálfur "bensíndraugurinn" í þessari umræðu. Ég veit reyndar að þú ert ekki að velta þér uppúr þessu að ástæðulausu, enda hef ég heyrt menn sem áður voru hörðustu bensínkallar lýsa því yfir eftir að þeir voru komnir á diesel, að þeir hafi einfaldlega verið hættir að ferðast vegna þess að það var "meiriháttar ákvörðun" peningalega að skella sér í helgarferð til fjalla, slík var fjárfestingin í vökvanum dýrmæta.
Bendi enn og aftur á frábæra grein tækninefndar frá síðasta vetri í SETRINU, þar sem borin var saman virkni bensín- og díeselvélar á fræðilegan hátt.
Þetta með þungaskattinn hef ég afgreitt þannig: Í mínu tilfelli er hann kr. 140.000 pr. ár (vissulega mikill peningur). Ég er á bíl sem ég nota alla daga allt árið um kring. Ég fer u.þ.b. 20 fjallaferðir á ári, þar af 8-12 vetrarferðir. Höldum okkur við meðaltalið og segjum að ég fari 10 vetrarferðir á ári. Að meðaltali er ég að eyða 120-150 lítrum af diesel í hverri ferð. Þeir fáu sem ég þekki og eru að brenna bensíni í þeim ferðum ( 6 og 8 cyl bílar) eru að eyða 200-250 lítrum í sömu ferðum. Ef við förum milliveginn og reiknum með samanburði á milli þessara viðmiðunartalna, þá er munurinn u.þ.b. kr. 15.000 á eldsneytiskostnaði pr. hverja vetrarferð.
Skv. því, þá ek ég "frítt" hvað þungaskatt varðar allan annan akstur á hverju ári (sem er samtals omkring 30.000 km á ári undanfarinn áratug). Í mínu tilfelli þarf ég ekki annan eða flóknari útreikning í þessu efni.
Vissulega á þetta kannski ekki við þegar um er að ræða "bensínleiktæki" sem aðeins eru gangsett í þrjár fjallaferðir á hverju ári. Ég vek þó líka athygli á því að kraftmiklar bensínvélar valda oft meira viðhaldi á bílum en "torkandi díeselvél" (hjöruliðir, öxlar, millikassar, driflokur o.m.fl.) Tvö brotin drif á hverju ári slaga hátt í þungakatt ársins þegar allt er talið (efni, vinna og hliðarkostnaður)
Annars er þetta umræða sem ekki er hægt að tæma.
En… ef skynsemin ræður, aka menn þó klárlega á díesel !!
Ferðakveðja,
BÞV
06.02.2002 at 01:04 #458760Mér finnst athyglisvert að lesa greinina þína og langar til að vita af hverju þú telur að "sennilega sé einfaldara að breyta pajero en LC 90". Ég verð að játa að ég fatta ekki alveg hvað þú átt við með þessu. Hvað er auðveldara í pajero en LC 90 að þessu leyti???
Bara til að það fylgi einnig með, þá er rétt að ég upplýsi að sérskoðaður LC 90 á "38 vegur 1.990 kg.
Annars veit ég að pajero hefur komið ljómandi vel út (eftir að honum hefur verið breytt á þann hátt sem þú hefur fundið út að virkar, m.a. að hreinsa hinn og þennan óþarfa undan honum…) og heyri að það er talsverð stemmning fyrir "38 breytingu á þessum bílum sem nú eru á fínu verði á eftirmarkaði. Mér finnst einnig rétt að taka fram að "stillanlega fjöðrunin" í pajero er hrein snilld, það hef ég sjálfur prófað á þínum bíl (eitthvað sem þú veist ekki…) og ég veit ekki betur en að sá búnaður hafi verið frír við bilanir.
Bið annars að heilsa og tek undir óskir um meiri snjó… sem nú er reyndar að hrynja úr loftinu í ómældu magni, okkur öllum til ómældrar ánægju…
Ferðakveðja,
BÞV
31.01.2002 at 11:19 #458730Sæll SkúliH.
Ég held að þetta sé ekki flóknara en það að senda vefstjóra svona textaskrá. Það er hægt nú þegar. Allar upplýsingar um netfangið hans eru á síðunni.
Auðvitað er það allra hagur að eiga sem mest af nýjum upplýsingum tiltækar.
Ferðakveðja,
BÞV
31.01.2002 at 07:57 #458726Sæll player1.
Það kom fram á félagsfundi hjá vefstjóra vorum fyrir skemmstu að það er einkum tvennt sem veldur því að þessi hluti vefsins hefur setið eftir.
Annars vegar hafa félagar verið mjög óduglegir við að senda inn leiðir og upplýsingar til að setja inn í grunninn og hins vegar er þetta svæði vefsins mjög lítið heimsótt, þannig að ekki virðist sem menn séu almennt að leita eftir þessum upplýsingum hjá okkur.
Skýringin á því kann að vera sú, að hjá nokkrum einstaklingum sem halda úti eigin heimasíðum eru mjög góðar upplýsingar um GPS og leiðir. Krækjur á þær síður eru á okkar síðu.
Ertu búinn að vera í þessu í tvö ár… og ekki enn orðinn félagi??? 😉
Ferðakveðja,
BÞV
31.01.2002 at 07:24 #458556Sæll Finnur.
Nú má ekki misskilja mig, en ég hef út af fyrir sig ekki slæma reynslu af CB og því síður er ég að hvetj menn til að henda þeim búnaði. Eins og ég hef áður sagt er bara verið að bera saman mjög ólíkan búnað (teygjubyssu vs. veiðiriffil). Þú drepur ekki fíl með teygjubyssu…
Einnig er rétt að geta þess að björgunarsveitirnar hafa fengið leyfi klúbbsins til að vera með okkar rásir í sínum stöðvum, þannig að það á ekki að þurfa CB til að ná sambandi við þær (reyndar eru sumir okkar félaga einnig með rásir björgunarsveitanna, þar sem þeir eru einnig félagar þar).
Ég tek heilshugar undir vangaveltur þínar um að margir eru að nota allskonar búnað (gömul loftnet og kapla), láta ekki stilla standbylgju o.fl. o.fl. þannig að CBið þeirra virkar aldrei eins og það gæti gert með réttum búnaði og vinnubrögðum.
Ert þú að nota VHF stöð í þinni ferðamennsku? Gaman væri að heyra frá fleirum sem nota slíkar stöðvar og hafa reynslu af þeim og endurvarpakerfi klúbbsins.
Ferðakveðja,
BÞV
30.01.2002 at 01:06 #458658Sæll lilli.
Í "gvöðanna bænum" láttu nú ekki blöffa þessu ameríkudóti inná þig… bara til að stórmenga Toyið þitt. Þótt menn eigi gott Toy, þá er alls ekki rétt að láta plata sig í að breyta því í Toy-let.
Ef þú vilt losna við þessa original 2.4 bensínvél, láttu þá skynsemina ráða og finndu þér góða dieselvél í bílinn. (ég mæli með japanskri 3ja eða 3,4 lítra turbo-intercooler vél í svona bíl). Í þessu sambandi bendi ég þér á hörkugóða grein frá fulltrúa okkar í tækninefndinni sem birtist í Setrinu sl. vetur (sjá á bókasafninu). => Þægilegri og átakaminni akstur, betra tog og síðast en ekki síst;) marfallt hagkvæmari ferðamáti (og buddunni líður miklu betur…).
Vona annars að bensínkallarnir gefi sig nú fram í þessa umræðu. Mér þætti gaman að taka þessa eldsneytisumræðu einu sinni almennilega á rituðu máli, enda veit ég að báðar fylkingar luma á ýmsum þrælgóðum punktum til að réttlæta sína ákvörðun í þessu efni. Hreint loft – burtu með bensínið !!!
Dieselkveðja,
BÞV
30.01.2002 at 00:51 #458534Sælir runar og maskin.
Ég get tekið undir pælingar ykkar í þessu þarfa umræðuefni.
Enn hefur þó enginn nefnt þá staðreynd að mörgum breyttum jeppum er ekið mun meira en meðal bifreið á ári hverju. Það er jú ein af meginástæðum þess að mörgum jeppamanninum finnst t.d. borga sig að gera út diesel bíl, að viðkomandi er að aka 20-60 þús. km. á ári.
Þetta verður enn ljósara þegar hafður er í huga allur sá fjöldi breyttra jeppa sem notaður er í túristakeyrslu allt árið um kring. Mér er kunnugt um að í þeim hópi þykja það eingin sérstök tíðindi þótt einstökum bílum sé ekið 40-60 þús. km. á ári.
Vissulega er líka nokkur fjöldi breyttra bíla sem er ekið mjög lítið á hverju ári (bensínbílarnir með stóru vélunum sem bara eru notaðir í ferðamennsku), þannig að þetta kann að jafnast út að einhverju leiti.
Mér fannst annars nauðsynlegt að ýta þessum þræði í gang aftur, þannig að sem flest sjónarmið um þetta mál fái að njóta sín.
Með ferðakveðju,
BÞV
30.01.2002 at 00:33 #458552Sæll Finnur.
Ég er þér sammála um að VHF stöð er mikilvægt öryggistæki og einnig að menn eigi að hafa stutt og hnitmiðuð samskipti á endurvarparásum, enda nást þær sumar tiltölulega víða um landið. Á þeim rásum eiga hópar alls ekki að hafa samskipti sín í millum (innan hópsins) nema að brýna nauðsyn beri til.
Mér og mínum félögum hefur hins vegar einnig gengið vel að nota VHFið sem "kjaftastöð" á milli bíla. Sá þáttur notkunarinnar hefur gengið vandræðalaust, enda hefur klúbburinn yfir að ráða (mig mynnir 10 eða 12 rásum) sem einungis eru ætlaðar sem beinar samtalsrásir á milli bíla. Samskiptin með þessum stöðvum eru á allt öðrum level en samskipti með CB hvað gæði snertir (engir skruðningar né aukahljóð, margfalt skýrara tal og miklu meiri drægni).
Með kaupum á VHF sameinar þú því kaup á öryggistæki og tæki til að halda uppi samræðum á milli bíla í hópi. Að mínu viti er CB því algerlega óþarft (nema auðvitað ef maður vill ná sambandi við alla þá sem eru með svoleiðis stöðvar en eru enn ekki komnir með VHF!).
Með ferðakveðju,
BÞV
29.01.2002 at 22:54 #458548Sæll eik. Þrátt fyrir áform mín um að svara ekki greininni þinni í samtali okkar um daginn, hef ég nú ákveðið að gera það, enda ekki aðrir til frásagnar um það sem okkur fór á milli í því samtali.
Mér finnst gæta grundvallar ósamræmis í samanburði þínum þegar þú berð saman sem valkosti, ódýrustu CB stöð sem hugsanlega er hægt að finna í USA, ólöglegri til notkunar á Íslandi og þar að auki smyglaðri til landsins og VHF stöð sem seld er hér á landi með öllum leyfum OG KOMIN ÍSETT Í BÍLINN.
Þegar þú nefnir 6.000 kr. vs. 50.000 kr., þá eru þetta valkostirnir. Þú hefur sjálfur lýst því að þessar CB stöðvar sem þú ert að mæla með séu óheimilar til notkunar hér á landi og því verður þeim varla komið inn í landið nema með ólögmætum hætti. Varla er því rétt af þér að tala um að pósturinn hafi "stolið" stöðinni sem þú reyndir að flytja hingað inn, því væntanlega hefur hún einfaldlega verið gerð upptæk sem ólögmætur varningur (skal þó ekki fullyrða um þetta).
Þegar ég er að mæla með VHF umfram CB, þá byggjast skoðanir mínar einungis á minni reynslu og minna ferðafélaga (ég hef haft VHF síðan snemma árs 1998). Það er því algjör óþarfi að dylgja með það að mér finnist betra að kaupa bara það sem dýrara er af því að það skipti mig ekki máli hvað hlutirnir kosta.
Ef menn vildu bera saman fordómalaust kostnað við kaup á VHF og CB stöðvum, þá er rétt að miða við sömu forsendur. Ef menn kaupa VHF í útlöndum og smygla þeim ólöglega til landsins, þá geta menn fengið stöðvar þar á 20-30.000 kr. Þá hins vegar er hins vegar mikil hætta á að menn séu með ólögmætan búnað, þó ekki sé hægt að fullyrða um það í öllum tilfellum. Þá er rétt að geta þess til upplýsingar fyrir þá sem ekki þekkja VHF, að þegar menn kaupa slíka stöð, þá eru engar rásir í henni tilbúnar til notkunar ens og t.d. er með CB. Menn verða að sýna þjónustuaðila skriflegar heimildir sínar til innsetningar á þeim rásum sem þeir vilja fá settar inn í stöðvarnar til að það gangi eftir. það getur því verið varasamt að standa eins og álfur með smyglaða stöð með engum rásum (ég geri ráð fyrir að innlendir þjónustuaðilar séu ekki sérstaklega að leggja sig fram um að setja rásir inn í ólöglegar stöðvar, enda er þeim það óheimilt). Jafnvel þótt menn með einhverjum ráðum komi inn tilteknum rásum um síðir, þá eru þeir samt með ólöglegan búnað og þurfa að pukrast með hann til að eiga ekki á hættu að hann verði gerður upptækur.
Í því sambandi er rétt að ég upplýsi það hér og nú að ég hef fregnir af því að fjarskiptaeftirlitið (Póst- og fjarskiptastofnun) sé nú að undirbúa að koma á virku eftirliti með þessum búnaði og þá má vænta þess að ólögmætur búnaður verði gerður upptækur ef til hans næst.
Hér á landi kosta góðar CB stöðvar frá u.þ.b. 12.000 kr. (President Harry sem þú nefnir að kosti 14.250 í Duty Free í Keflavík, kostar kr. 13.250 til félagsmanna hjá Aukaraf). Ég veit ekki hvað Midland stöðvarnar frá Radíóþjónustu Sigga Harðar kosta núna en síðast þegar ég keypti svoleiðis stöð var hún á milli 13 og 14 þúsund með skanner, rásahnapp í mikrafóni o.fl. Tilboð til félagsmanna á VHF stöð frá Radíóþjónustu SH, með loftneti, og ísetningu í bílinn er um 48.000 kr. Aukaraf mun að eigin sögn bjóða á næstunni stakar VHF stöðvar á 39.900 kr. til félagsmanna (ég held án loftnets og ísetningar). Ég veit að Hátækni og Nesradíó eru einnig að selja VHF stöðvar (hugsanlega fleiri aðilar) en ég hef ekki upplýsingar frá þessum aðilum á hraðbergi.
Það sem þó skiptir höfuðmáli í þessu öllu saman er þetta: Hér er einfaldlega alls ekki um sambærilegan búnað að ræða, þótt báðir hlutirnir falli undir heitið "talstöð",svo mikill er munurinn á virkni og gæðum þessara stöðva. CB er mjög skammdrægt með svo litlum styrk sem hér er í boði (sama hvort stöðin er smygluð eða ekki) og nýtist því ekki að ráði nema til samskipta milli bíla á tiltölulega stuttum vegalengdum. VHF er hins vegar langdrægur búnaður með hágæða samtalsflutningi. Reyndar skiptir máli hvort sæmileg sjónlína er til staðar á VHF eins og á CB (er þó alls ekki eins viðkvæmt og CB). Til þess að leysa það vandamál, hefur Ferðaklúbburinn 4×4 varið miklum fjármunum og vinnu í að byggja upp endurvarpakerfi á hálendinu (sjá nánar á heimasíðunni). Með tilkomu þess, er nú hægt að hafa samskipti á VHF um stóran hluta miðhálendisins og víða til byggða. Þar sem sólarhringsvöktun er á nokkrum stöðum í byggð og einnig á Hveravöllum, er VHF kerfið gríðarlega mikilvægt öryggiskerfi og á allt öðrum standard en CB. VHF stöðvarnar eru frábærar til samskipta milli bíla, algerlega truflanalaus samtöl. Ég gæti sagt þér margar sögur um ótrúlega góða virkni þessa kerfis en spara það þar til síðar. Samanburður á þessu tvennu er því með öllu óraunhæfur.
Eik, þú hefur sjálfur leiðrétt rangfærslur þínar vegna fullyrðinga um "101 Reykjavík", en hið rétt er að þar er hópum bannað að nota VHF til samskipta milli bíla nema að allir í viðkomandi hóp séu með VHF. Þarna er að mínu viti kjarninn í því vandamáli sem við er að etja; Það eru svo margir bara með CB að þeir sem eru með VHF verða líka að vera með CB til að ná til hinna. Það er hins vegar ekki af því að CB sé svo gott í sjálfu sér, heldur vegna þess að flestir ráðast fyrst í kaup á CB, enda ódýrari búnaður eins og margoft hefur komið fram.
Í samtali okkar um daginn eftir að þú skrifaðir á spjallið kom fram að þú hefðir ekki reynslu af notkun á VHF í jeppaferðum og þar með ekki af endurvarpakerfi Ferðaklúbbsins. Það er að sjálfsögðu staðreynd sem er til þess fallin að skýra skrif þín um kerfið bæði hér á síðunni og eins á þinni annars ágætu heimasíðu. Það er auðvitað óvarlegt að setja fram skoðanir sem byggjast ekki á reynslu eða þekkingu á því sem um er rætt.
Ég hef aldrei haldið því fram að þeir sem ekki séu með VHF eigi ekki erindi á fjöll. Dylgjur um það eru að því er mér virðist af sömu rót og dylgjur um það að það skipti mig ekki máli hvað hlutirnir kosta. Ég frábið mér slíkan ómálefnanlegan málfluting bæði í minn garð og annarra hér á spjallinu.
Að lokum vil ég þakka þér eik, fyrir frábært framtak ykkar félaga í umhverfisnefnd félagsins (sem ég þykist vita að þú hefur borið hitann og þungann af) við þá nýbreytni að bjóða félögum með í ferðir á netinu. Af samtölum mínum við félaga í klúbbnum heyri ég alla hæla þessu framtaki ykkar í hástert, enda virðist þessi háttur á að ná til manna virka vel og ferðirnar ykkar á Grímsfjall og á Langjökul hafa eftir því sem ég hef heyrt verið til mikils sóma.
Með ferðakveðju,
BÞV
25.01.2002 at 10:07 #458520Sæll Danman.
Ég fæ ekki séð að það skipti nokkru máli hvort svona hallapróf er gert með lyftara, krana, talíu eða einhverju öðru. Það sem uppúr stendur er að í svona prófi þoldu bílarnir jafnmikinn eða meiri halla en óbreyttir bílar. Það hlýtur að mínu viti að skipta máli hvort bíll er valtari/stöðugri eftir breytingu, en vissulega er það ekki bara það sem ræður aksturseiginleikum bílsins.
Mér finndist fengur í því ef þú eða aðrir sem vit hafa á, gætu upplýst menn um leiðir til að mæla á vísindalegan hátt getu bílanna (aksturseiginleika) fyrir og eftir breytingu. Mér finnst að við eigum ekki að gera lítið úr þeirri viðleitni manna að rannsaka tiltekna þætti (eins og stöðugleika), því við höfum öll hagsmuni af því að fá sem flest próf og athuganir á þessum málum til þess að raða saman í heildarniðurstöðu (ef hún fæst nokkurntíman).
Margir Breytingaaðilar hafa velt fyrir sér leiðum til að kanna þetta heildstætt. Hins vegar eru ýmsar leiðir mjög dýrar (t.d. ef fórna þarf bílum í þágu rannsóknanna), þannig að allar vel ígrundaðar ábendingar um leiðir eru vel þegnar og ég veit að ekki skortir viljann hjá þessum aðilum.
Með ferðakveðju,
BÞV
24.01.2002 at 19:07 #458514Það að fullyrða að breyting á jeppa leiði í öllum tilfellum af sér verri aksturseiginleika er ekkert annað en fordómar sem byggjast á vanþekkingu. Ef breyting á jeppa er vel útfærð, getur hún þvert á móti gert bílnum gott frá því sem var í upphafi.
Í þessu efni langar mig að nefna "33 og "38 breytingu á LC 90. Það vill svo til að það hafa verið gerð veltupróf á þessari gerð jeppa og "33 breyttur bíll hefur 2 gráðum hærri veltustuðul en original bíll (þ.e. er stöðugri eftir breytinguna) og "38 breyttur bíll hefur sama veltustuðul og original bíll. Breiddaraukning bílanna vegur semsagt að fullu (og gott betur á "33 bílnum) upp þá hækkun sem verður á þyngdarpunkti bílanna við breytinguna. Þá eru held ég allir sammála um að færsla á afturhásingu á þessari gerð bíla (eins og framkvæmd er við "38 breytingu) leiðir af sér mun skemmtilegri fjöðrun, þ.e. bíllin "jafnfjaðrar" í stað þess að steypa stömpum í miklum ójöfnum.
Annars er ég alveg sammála því að það skortir miklu meiri rannsóknir á aksturshæfni og getu þessara bíla til að menn geti byggt umræðuna á málefnanlegum rökum.
Driflás á LC-90 er ekki hægt að setja á nema að bíllinn sé í fjórhjóladrifinu, en mér er ekki kunnugt um aðra bíla.
Vona annars að þessi umræða verði á málefnanlegum nótum og án upphrópana eða fordóma.
Með ferðakveðju,
Björn Þorri.
24.01.2002 at 00:31 #458536Sæll.
Svona CB stöð hérna heima kostar ekki nema 10-15 þúsund kall ný. Borgar sig að standa í innflutningi á þessu dóti sjálfur? Hvað kostar svona stöð heim komin með öllum gjöldum og VSK?
Annars mæli ég frekar með fjárfestingu í VHF, enda CB að detta út að stórum hluta, þar sem þeir sem hafa VHF hætta að nenna að tala í CB með tímanum (tómir skruðningar og vesen og heyrist ekki nema örfáar bíllengdir). Ef þú ætlar ennþá í þetta CB dót, passaðu þig þá á því að stöðin sé allavega með AM mótun (FM er í lagi en er ekki gott eitt og sér).
Allir í VHF!!!
Ferðakveðja,
BÞV
20.01.2002 at 14:07 #458482Sæll.
Ég átti svona bíl fyrir nokkrum árum, díesel án túrbó. Hann var ekinn u.þ.b. 200 þús þegar ég seldi hann. Síðast þegar ég vissi var búið að keyra hann yfir 350 þús km. án þess að farið væri að líta á mótor eða kassa.
Að mínu viti er lang skynsamlegast að boddylifta um 3-4 tommur, ég sé að þú ert að fara í "36 og þá eru "12 felgur temmilegar.
Ég myndi ekki fara að skrúfa bílinn upp að framan, með því fórnarðu fjöðrunareiginleikum bílsins (sundurslættinum).
Gangi þér vel að breyta.
Ferðakveðjur,
BÞV
-
AuthorReplies