Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
12.02.2009 at 13:52 #636554
Um mitt ár í fyrra skrifaði ég grein í tímaritið Útiveru um SPOT eftir talsverðar prófanir og er útdráttúr úr henni hér eftirfarandi sem mitt innlegg í umræðuna:
"Ég er búinn að vera með SPOT tækið í að ganga hálft ár og er það búið að vera afar áreiðanlegt og nokkuð nákvæmt jafnvel miðað við Garmin 60CSX tækið mitt. Í fimbulkulda á jöklum í vetur hefur tækið unnið án þess að hiksta enda er það vatnshelt og flýtur meira að segja. Spot tækið hefur einnig sannað sig í þröngum fjörðum og bröttum fjallshlíðum. Það ber þó að hafa í huga að GlobalStar gervitunglin ganga í boga norður og suður frá miðbaug og eru tunglin þar af leiðandi ávalt í suður, austur eða vestur af Íslandi en aldrei fyrir norðan. Á suðurhimni má gera ráð fyrir tunglum í um 23° halla frá sjóndeildarhring sem þýðir að norðurhlíðar brattra og hárra fjalla geta verið með takmörkuðu sambandi.
Ég prófaði Spot undir norðurhlíðum Tindastóls í sumar í Glerhallavík (GPS: N65 53.133 W19 45.955) og dró talsvert úr skilum á track skilaboðum við þær aðstæður enda snarbrattar hlíðar sem hylja suðurhimininn að mestu og allar líkur á að tungl í vestri hefði náð skilaboðunum. Í ljósi þessa er mikilvægt í neyðartilfellum að koma tækinu þar sem sem best sýn er á suðurhiminn. Ég hef heyrt af árangursríkum prófunum frá Hornströndum og Drangajökli og í sumar sigldi skútan Gógó alla leið norður að Scoresbysundi með Spot tæki í brúnni og skiluðu skeyti sér betur en von var á enda menn rúmlega 400 km norðan við skilgreint þjónustusvæði.
Tækið þarf að einnig að berast utan klæða t.d. í belti eða utaná bakpoka ólíkt GPS tækjum enda sendir tækið á mjög lágri orku og fatnaður getur dregið úr virkni tækisins. Jeppamenn geta haft tækið ofaná mælaborðinu í framrúðunni enda virkar tækið vel þar.
Í þröngum giljum getur tækið verið utan þjónustusvæðis en þar vinnur tíminn með tækinu því undir þröngu sjónarhorni á himininn getur tækið náð að senda neyðarboð jafnvel þó að ekki náist GPS staðsetning því til að fá GPS staðsetningu þarf Spot að sjá þrjú GPS tungl en aðeins eitt GlobalStar tungl til að senda neyðarboðin. Skiptir þá máli að láta tækið alltaf senda Track skilaboð þegar ferðast er til að björgunarmenn geti fundið síðustu þekktu staðsetningu sérstaklega ef menn ferðast einir.
Þegar neyðarboð eru send þá sendir tækið skeyti á 5 mínútna fresti þar til slökkt er á tækinu sem eykur líkur á að gervihnöttur nái skeytinu jafnvel undir þröngu sjónarhorni en það getur tekið tíma.
Eftir að hafa prófað tækið nokkuð vísindalega t.d. á Vatnajökli, Fjallabaki, Sprengisandi, Skagafirði, Austfjörðum og Vestfjörðum er ég sannfærður um að SPOT tækið henti vel á Íslandi. Samkvæmt útbreiðslumynd Globalstar gervihnattakerfisins eru Vestfirðir og hluti af Norðurlandi á ytri mörkum þjónstunnar. Miðað við mínar prófanir þá var talsvert um að skeyti væru ekki að skila sér eins reglulega og sunnar á landinu en lítið er betra en ekkert þegar líf liggur við.
Það er aðeins einn galli á Spot tækinu að mínu mati og hann er sá að engin staðfesting kemur á því hvort skilaboðin frá tækinu hafi farið alla leið, því tækið tekur á móti GPS merki en sendir á GlobalStar en tekur ekki á móti, en það er smávægilegur galli miðað við alla kostina.
SPOT er að mínu mati nauðsynlegt öryggistæki fyrir alla ferðamenn á Íslandi hvort heldur til sjávar eða sveita og líklega ein ódýrasta líftrygging sem í boði er í dag. Spot tækið kostar hér heima um 30.000 kr. og síðan er greitt árgjald fyrir þjónustuna sem er frá 100 evrum á ári."
09.09.2008 at 10:21 #202888Það er í gangi mjög skemmtilegt verkefni hjá Google þar sem verið er að kortleggja Ísland.
Verkefnið heitir Google Mapmaker og þar geta allir lagt sitt af mörkum við kortagerðina.
Það vantar sárlega fróða örnefnasérfræðinga til að koma sinni þekkingu á framfæri á þessum vettvangi og það má benda á það að það er hellingur af útlendingum að teikna upp vegi eftir loftmyndum og eru t.d. flestir þéttbýlisstaðir nær full unnir. Það er unnið í afar einföldu vefviðmóti og eftir að einfaldar leiðbeiningar hafa verið skoðaðar þá geta menn byrjað að bæta inn örnefnum og öðru sem þeir vilja að sé á kortinu. Það er „jafningjaaðhald“ (peer moderation) á Mapmaker og þeir sem eru duglegir að setja inn upplýsingar og einnig að kjósa um breytingar annarra geta um síðir farið að setja inn breytingar með hærri forgangi en nýliðarnir.
Það er hópur Íslendinga að dunda sér við þetta í frístundum en það er mikil þörf að fá fleiri í hópinn því það er oft smá tími sem líður þar til að breytingar eru samþykktar inn vegna fámennisins hér
23.07.2008 at 00:44 #202699Ég var að uppfæra Garmin Mapsource því ég var að lenda í vandræðum með að lesa track frá ferðavélinni minni inn á heimavélina. Við það að uppfæra í 6.14.1 úr 6.13.7 þá fór Íslandskortið í steik (teygðist lárétt eins og sjá má hér neðar) og teikningin á kortinu og öll vinnsla varð skelfilega hæg. Uppfærslan er síðan 18. júlí þannig að ég er með fyrstu mönnum að uppfæra væntanlega.
Það var ekki nokkur leið að bakka með uppfærsluna og þurfti ég því að henda Mapsource út og setja inn af upprunalega disknum aftur. Þegar ég síðan ætlaði að uppfæra í 6.13.7 (næst nýjustu útgáfuna) þá var hana hvergi að finna á Garmin vefnum. En eftir smá leit á Google fann ég uppfærsluna vel falda á vef Garmin.
Ég er með spræka vél með XP sem keyrði Íslandskortið hratt og örugglega áður en ég uppfærði en eftir uppfærsluna í 6.14.1 var kortið ónothæft með öllu. Ekki nóg með það að kortið sé illa teygt heldur urðu allir vegir gulir og hurfu inn í bakgrunninn auk annarra vandamála.
Af öllum sólarmerkjum er þessi nýjasta útgáfa (6.14.1) líklega ætluð fyrir tölvur með Vista stýrikerfi en Garmin tekur fram að XP sé enn stutt en ekki Windows 2000 og eldri stýrikerfi.
Hér er slóð á sama vandamál í UK. Skrollið niður á miðja síðu þar sem myndin af Englandi er. Þetta er ss. ekki vandamál sem ég einn er að lenda í heldur eitthvað víðtækara. Það væri gaman ef Garmin umboðið myndi prófa þessa uppfærslu bæði fyrir XP og Vista og kommentera á málið hér.
Til samanburðar við óskapnaðinn hér ofar má sjá hér fyrir neðan hvernig Ísland lítur út í útgáfu 6.13.7.
29.04.2008 at 13:00 #616764Prófaði SPOT tæki um helgina. Var með það í framrúðunni alla helgina.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá er tækið að senda staðsetningu á 10 mín fresti þangað til við komum upp á jökul. Þá datt tækið í það að senda ekki sjálfkrafa heldur þurftum við að senda "OK" skilaboð handvirkt. Veit ekki af hverju það gerðist.
[img:4yfgoplk]http://www.f4x4.is/new/files/photoalbums/6120/50857.jpg[/img:4yfgoplk]Það gæti verið að þetta sé stillingaratriði – þ.e. að við hefðum þurft daglega að ræsa "track" sendinguna. SMS sendingarnar virkuðu vel en það er galli að fá ekki staðfestingu til baka að sending hafi tekist. En þar sem við vorum meira og minna í GSM sambandi þá gátum við fengið staðfestingu í beinni. Mæli með þessu sem öryggistæki. Vona síðan að það komi ný útgáfa með næmari GPS, möguleika á að sérsníða skilaboðin og staðfestingu á mótttöku skilaboða.
07.03.2008 at 00:41 #613294Ég var lengi búinn að velta því fyrir mér hvernig mætti setja fartölvufestingu í bílinn án þess að hún tæki of mikið pláss. Lausnin var sú að setja Ram kúlu inn í mælaborð og sjóða hana fasta á röri.
Sjá myndir á: [url=http://www.f4x4.is/new/photoalbum/default.aspx?file=breytingar/5973:3l8w7lr6][b:3l8w7lr6]Fartölvufesting[/b:3l8w7lr6][/url:3l8w7lr6]
-
AuthorReplies