Forum Replies Created
-
AuthorReplies
-
28.02.2006 at 12:42 #544978
Gígur Eyjafjallajökuls er vægast sagt mjög vafasamt svæði. Mér hefur því oft blöskrað kæruleysið í mönnum sem keyra um allan gíg stundum með alla fjölskylduna innanborðs. Þarna eru oft hundruðir bíla á góðviðrisdögum og slóðir bókstaflega alls staðar. Ég held að margir átti sig ekki á því að þeir eru að keyra á mjög, mjög stórum sprungum. Til að skilja hversu stórar þær eru er best að fara þarna um að sumar og haustlagi. Reyndar sést þetta oft glögglega í lágri sól að vetrarlagi. Í guðs bænum farið varlega þarna um það er engin góð leið þarna yfir, bara misslæmar.
Kv. Árni Alf.
06.02.2006 at 12:32 #541564Gott að fá nákvæmari upplýsingar og leiðréttingu frá Gumma. Ég er hins vegar vanur að tala um Guðnastein í sunnanverðum Jöklinum en Goðastein í norðvestanverðum gígnum. Ég held að ég hafi heyrt að þessi vél hefði farist sunnan við Guðnastein en ekki Goðastein. Þarna er stór munur á. Ég luma á lærðri grein um rétt nöfn þessara steina og kannski væri við hæfi að fá hana birta.
Kv. Árni Alf.
05.02.2006 at 18:30 #541554Má bæta við þetta að 10 manna B-17 bandarísk herflugvél fer 16. sept. 1944. Eina slysið sem skilaði mönnum lifandi aftur til byggða. 5 manna Albatross vélin (björgunarflugbátur frá varnarliðinu) 16. maí 1952. 1975 fórust bandarísk hjón í sunnanverðum jöklinum á lítilli einkavél. 15. desember 1953 fórst Neptune vél frá varnaliðinu með 9 manns á Mýrdalsjökli. Hún snjóaði í kaf eftir að þyrla náði einu líki úr vélinni. Hún kom fram haustið 1982 í sunnanverðum jöklinum.
Við leitina að Albatross vélinni þá varð flugslys neðan við bæina í Stóru-Mörk. Lítil Piper Cub ætlaði að lenda í Veitunni en Jarpur úr Hábænum stóð á miðju túninu og fipaði flugmanninn eitthvað. Vélin krækti stélhjólinu í gaddavírinn á Veitugarðinum og vélin lenti á hvolfi ofan í skurði. Flugmanninn sakaði ekki.
13.01.2006 at 10:39 #538592Alveg hárétt hjá Freysa. Þeir norðan Krossár þurfa að laga aðgengi fólks með bíla að tjaldstæðum, bæði í Húsadal og Langadal og nágrenni til að lokka fólk að. Þessu er vel hægt að breyta.
Þeir sem gista í skála eru hins vegar sjaldnast með tjald eða fellihýsi í eftirdragi. Með því að brúa allt heila klabbið breytir litlu nema að fækkka enn frekar gistinætum í þessum skálum.Þetta kemur kannski megin efni umræðunnar hér ekki beint við en tengist þó.
Kv. Árni Alf.
13.01.2006 at 00:05 #538582Rétt hjá Ofsa að benda á þetta. Ég hefði mátt orða þetta betur svo ekki kæmi upp misskilningur. Formaður ferðafélagsins Útivistar sem ég minntist á hér að ofan og skrifaði gegn uppbyggðum vegi inn á Mörk heitir Árni Jóhannsson.
Kv. Árni Alf.
12.01.2006 at 23:37 #538578Hér að ofan lýsa menn áhyggjum sínum að með uppbyggðum vegum þá missi ákveðnir staðir sjarma sinn og þar sjái enginn lengur ástæðu til að gista.
Guðbrandur minnist á að stilla saman strengi útivistasamtaka og að þessi mál hafi verið reyfuð innan Ferðafélagsins.
Í tvígang hef ég opinberlega með blaðagreinum reynt að fá fram afstöðu Ferðafélags Íslands til tilvonandi hraðbrautar inn á Þórsmörk. Ekkert svar hefur enn fengist tveimur árum síðar. Formaður Útivistar (samkeppnisaðila 4×4 klúbbsins að mati Verkfræðingsins) svaraði hins vegar strax á opinberum vettvangi og fordæmdi veglagninguna.
Ég þykist vita að rekstur skála Ferðafélgsins í Langadal gangi illa og er Krossá kennt um. Ég vil meina að þar blandist inn í ræfilsskapur nútíma jeppamanna sem ekki þora eða tíma að keyra yfir Krossá (kemur upp í hugann að það sem sagt hefur verið að klúbburinn þarf nauðsynlega að standa fyrir námskeiði í umgengni við straumvötn).
Ferðafélag Íslands getur varla tekið afstöðu gegn uppbyggðum vegi á einum stað en ekki öðrum eftir fjárhagslegum dyntum. Sama á við 4×4 klúbbinn. Félagsskapur sem hvorki þorir eða getur tekið afstöðu t.d. gegn virkjunum og uppbyggðum vegum þeim samhliða getur varla vænst þess að fá að hafa niðurgrafna jeppavegi í friði.
Mér sýnist að hér sé hver höndin upp á móti annarri. Þurfa menn ekki að vera samkvæmir sjálfum sér og taka afstöðu áður en það er of seint? Hér er ekki hægt að vera bæði með og á móti.
Kv. Árni Alf.
30.12.2005 at 21:02 #537232Bendi mönnum á að lesa fréttatilkynningu Landsbjargar á http://www.landsbjorg.is.
Þar er m.a. greint frá því að Bónus og Krónan hafi sýnt sína "mjúku hlið" og hætt sölu jólatrjáa vegna beinnar samkeppni við ýmis góðgerðarsamtök.
Gott að vita að hákarlarnir í djúpu lauginni hafi samvisku. Eða er þetta bara sölumennska eða syndaaflausn?
Þetta er hliðstætt dæmi við flugeldasöluna.
30.12.2005 at 17:04 #537224Græðgi einstaklinga þegar kemur að peningum er ekkert ný af nálinni. Í þessu máli hafa menn um tvennt að velja. Að styrkja einstakling t.d. bílasala eða að styrkja rekstur björgunarsveitar þar sem fólk vinnur í sjálfboðavinnu að miklu leyti af hugsjón.
Ef illa gengur hjá bílasalanum þá skiptir það hann litlu því hann græðir hvort eð er á bílasölunni. Björgunarsveitin getur hins vegar hæglega lognast út af.
Þetta er siðferðis spurning sem hver og einn verður að eiga við sjálfan sig.
Árni Alf.
18.12.2005 at 12:38 #533592Þegar gönguskíðakapparnir Óli Haralds, Halli og Ingþór komu heim eftir Suðurskautstúrinn þá minnir mig að tekið hafi verið á móti þeim eins og fegurðardrottningum (enda myndarlegustu menn).
Þó ég sé mikill áhugamaður um gönguskíði og afrek á því sviði þá finnst mér að Gunni eigi ekkert síður skilið að fá ámóta viðtökur hjá þjóðinni enda vel gert hjá honum og ekki minna afrek en að verða "miss world".
Kv. Árni Alf.
12.12.2005 at 19:19 #533558
23.03.2005 at 12:32 #519610Um páskana í fyrra var Hamragarðaheiðin illa útleikin eftir menn sem svifust einskis til að komast á Eyjafjallajökul. Þessi slóði var á sínum tíma lagður fyrir fé hreppsbúa (Vestur-Eyfellinga) og heyrir væntanlega núna undir Austur-Rangárþing og er því hreppsvegur. Hann var ekki auglýstur lokaður um páskana í fyrra eins og flestir fjallvegir í umsjá Vegagerðarinnar. Þó lítið eftirlit sé með opnun eða lokun á þessum vegi hvet ég menn til að sýna nærgætni, gerast betri menn og láta ekki það sama endurtaka sig og í fyrra.
Kv. Árni Alf.
05.11.2004 at 12:37 #507622Sá að einhver að tala um hálku á Tungnárjökli. Hér í gamla daga járnuðu menn bara bílana þegar svo bar undir. Hvernig er þetta, á enginn keðjur lengur?
Kv. Árni Alf.
04.09.2004 at 12:11 #505318Getur ekki einhver snjallari en ég mælt eða slegið því upp hversu mikið bíll er að hækka eða lækka við dekkjaskiptingu. Þannig væri t.a.m. 30" dekk mælt frá gólfi og upp í miðja felgu (mitt felgugat). Með því að mæla svo allar dekkjastærðir fengjum við töflu samanburði á 29"-44"+.
Eðlilega er stendur bíll breyttur t.d. fyrir 44" breytingu mun hærra en óbreyttur bíll. Svona töflu væri samt gaman að fá til að sjá hversu mikið slíkur bíll er að lækka eða hækka við dekkjabreytingu. Þætti vænt að fá einhverjar uppl. um þetta ef þær eru tiltækar.
Kv. Árni Alf.
03.09.2004 at 23:10 #505316Gott að fá ábendingu um þennan þráð. Þarna er gróft reiknað út að bíllinn léttist um hátt í eitt tonn á 38" dekkjum, þó vissulega spili fleira inn í t.a.m. hæð undir hús, flot sem hús bílsins veldur, lögun húss eins og Izan bendir hér réttilega á.
Í miklum straumi þá hlýtur mikil þyngdarminnkun að skipta máli og bíllinn flýtur mun fyrr af stað. Fyrir allmörgum árum átti ég neon-grænan Willys á 40" dekkjum með talsvert þungri yfirbyggingu. Bíllinn lét einstaklega illa að stjórn í djúpu og straumhörðu vatni og fór mjög fljótlega á flot. Ég prófaði þennan sama bíl á ca. 32" tommu dekkjum og þrátt fyrir að vera eitthvað lægri þá fannst mér ég mun öruggari því bíllinn flaut mun síður upp, dekkin höfðu snertingu við botn og hægt var að stjórna hvert hann fór.
Ekki má skilja mig svo að menn eigi að setja einhverjar skurðarskífur undir fyrir Merkurferð heldur var ég upphaflega að benda á villandi umræðu á vefnum. Hugsanlegt er að þessi umræða hafi stuðlað að frétt í útvarpinu og grein í Morgunblaðinu sem sagði að aðeins væri fært bílum á 38" dekkjum eða stærri yfir Krossá. Þetta eru villandi og hættulegar upplýsingar fyrir þá sem þekkja lítið til vatnamennsku. Hvergi var minnst á að betra væri að hafa loftinntakið ofarlega.
Kv. Árni Alf.
03.09.2004 at 16:53 #194601Hér á annars líflegu vefspjalli, misgáfulegu á stundum, kemur reglulega upp sú spurning hvort fært sé inn á Þórmörk á hinni eða þessari dekkjastærðinni. Spurningin er heimskuleg og svarið getur verið mjög villandi.
Belgmikil dekk eru ókostur því bílinn flýtur mun fyrr upp en ella. Þegar slíkt gerist er erftitt að hafa nokkra stórn á bílnum, vatnið tekur völdin. Það sem skiptir máli er þyngd og hæð bílsins einkum hvað hátt vél stendur. Eðlilega stendur bíll á stórum börðum hærra en ella og hjálpar að því leyti til. 38″ bílar (svo einhver tala sé nefnd)eru hinsvegar mjög misháir og því er varasamt nota dekkjastærð sem eitthvað viðmið.
Bendi ég á mynd á http://www.landsbjörg.is af vatnavöxtum í Þórsmörk. Myndin sýnir Unimog frá FBSH í talsverðu vatni. Í útvarpinu heyrði ég að talað var um að bílinn hefði oft flotið upp þrátt fyrir að vera á 59″ belgmiklum dekkjum. Ástæðan fyrir að bílinn flýtur upp eru einmitt belgmikil dekk. Á original skurðarskífunum hefði þetta miklu síður gerst.
Myndin sýnir einnig hlut sem væntanlega skiptir mun meira máli en dekkjastærðin. Það er snorkelið. Ég undra mig oft á því hversu fáir hafa þennan mjög svo nauðsynlega búnað því ég hef horft upp á talsverðan fjölda bíla taka inn á sig vatn og eyðileggja bæði vél og annars skemmtilega ferð.Kv. Árni Alf.
06.07.2004 at 12:59 #504566Rútukostur landsins einkennsist nú að stórum hluta af mjög lágskreiðum rútum eingöngu ætlaðar fyrir malbik og slétta fleti. Þetta eru aðalflutningstæki ferðaþjónustunnar í dag. Þessir bílar lenda í vandræðum ef lítill lækur grefur sig þó ekki sé nema örlítið niður.
Dæmi: Sumarið 1997 var ég í vikutíma á ferðinni á Lödu 1200 fólksbíl oft á dag inn að Lóni (þegar verið var að hreinsa Jökulinn af Albatross flugvélinni). Það kom margoft fyrir að nokkrar svona malbiksrútur biðu í röð við einhvern lækinn meðan verið var að sækja traktorgröfu eða dráttarvél til að laga bakka sem eins hefði mátt laga með handskóflu. Að bíða í einhverjar klukkustundir við lítinn læk er eðlilega óásættanlegt fyrir farþega og bílstjóra meðan fólksbílar (m.a. subaru, lada, hiace o.s.fr.) rúlluðu þarna yfir. Þetta er ekkert einsdæmi.
Kvartanir frá þeim ferðaskrifstofum sem þessir farþegar tilheyra rignir yfir allt og alla m.a. Vegagerðina, Þingmenn, Sveitarstjórn og svo mætti lengi telja. Upphaflega krafan um uppbyggðan veg er því komin frá ferðaþjónustunni sem að mér skilst kvartar enn meira í dag.
Ferðaþjónustan verður einfaldlega að laga sig að aðstæðum og hafa rútukost sem hæfir aðstæðum.
Hitt atriðið vegur ekki síður þyngra að ferðaþjónustan vill komast þarna innúr og til baka á sem allra skemmstum tíma því útlendir ferðamenn stoppa hér í æ styttri tíma og hver mínúta dýrmæt. Ferðina verður því að vera hægt að fara á mettíma og helst allan ársins hring. Til að slíkt sé mögulegt þarf uppbyggðan veg helst malbikaðan.
03.07.2004 at 19:28 #504560Vegurinn inn á Mörk hefur nokkra sérstöðu sökum þess mikla vatns sem fellur á þessari stuttu leið og gerir ferðalagið örlítið sérstæðara fyrir vikið.
Fyrirhugaður uppbyggður vegur til handa ferðaþjónustunni m.a. til að ferja sem flesta farþega af skemmtiferðaskipum á sem skemmstum tíma þarna innúr er mál sem þarf að berjast gegn. Þetta fólk hefur engan sérstakan áhuga á Mörkinni heldur er því smalað í þúsundavís í rútur af "Íslenskum" ferðaþjónustuaðilum sem plokka um leið af því pening. Málið snýst því eingöngu um peninga ekkert annað.
Ég verð að taka undir með Jon að ?ég og mínir? eru ekki síður hagsmunaðili í þessu máli. Ísland er nefnilega líka fyrir Íslendinga.
Ef ein lítil blaðagrein hefur frestað þessum framkvæmdum þá er það gott en sýnir að menn verða að nota stílvopnið og halda áfram að berjast því enn er unnið af kappi við skipulagningu alls Merkursvæðisins eingöngu með hag ferðaþjónustunnar í huga.
Þessi veglangning er prófmál því ef ferðaþjónustan fær þessu framgegnt þá verða allir óbyggðanna vegir byggðir upp og malbikaðir.
19.05.2004 at 07:29 #194375Vegna fyrirhugaðrar ferðar inn á Mörk um helgina langar mig að benda á nokkur atriði fyrir þá sem áhuga hafa á umræðunni um uppbyggðan veg þarna innúr.
Á 4 km kafla frá Steinsholtsá inn að Hvanná hafa allir lækir utan lækurinn úr Stakkholtsgjá verið settir í ræsi. Þetta voru fyrir skemmstu stórir pollar á veginum sem gaman var að láta gusa yfir bílinn og skola rykið af. Ræsin eru vandlega falin og meir að segja búið að tyrfa að því fyrsta sem er lækurinn við Fagraskóg. Á þessum kafla hefur verið borið mikið í veginn og er hann því nánast uppbyggður á köflum. Allt í lagi að bera í veginn en hvers vegna að eyðileggja skemmtunina af því að láta gusast yfir bílana?
Kominn er 700m langur grjótvarinn varnargarður út frá Stakki. Svona fyrirbæri kostar pening. Hvers vegna svona langur garður?
Vegagerðin staðhæfir að ekki eigi að gera vegabætur eða breyta í nokkru veginum fyrir innan Lón. Hvað er þá að gerast þarna? Hvers vegna þessi feluleikur með ræsin?
Í fréttabréfi Vegagerðarinnar 3. maí sl. segir: ?En það getur ekki verið aðferð við takmörkun á gestafjölda að aðeins þeir sem eigi stærstu jeppana hafi greiðan aðgang inn á svæðið.?
Ég túlka það svo að það eigi að brúa allar ár að lokum enda er slíkt auðvelt nema þá Hvanná. Hvernig ætla menn að réttlæta það að skilja eftir 2-3 ár eftir óbrúaðar þegar komin er rennivegur sitthvoru megin við?Takið einnig eftir því hvert núverandi uppbyggður vegur stefnir þar sem hann endar. Hann stefnir upp í Hellissel langt upp í hlíðina fyrir ofan núverandi veg. Markarfljótið á augljóslega ekki að ná að narta í dýrmætan veginn.
Nú á næstunni er fundur hjá Vegagerðinni og hagsmumunaðilum á svæðinu (FÍ, Útivist, Austurleið-Kynnisferðir (sem þykjast ekkert vita af þessum framkvæmdum eða hvað?). Hvaða fyrirsláttur kemur af þeim fundi verður gaman að heyra.
Ég vona að menn eigi ánægjulega helgi þarna innfrá og vona að þetta bölsýnistal skemmi ekki fyrir.
Kv. alfur
19.04.2004 at 23:10 #498405Bendi mönnum á ágætis grein í Mogganum í dag (mánudaginn 19. apríl) eftir þriðja Árnann sem skrifar um þetta mál.
Kv. alfur
18.04.2004 at 18:18 #498372Eftir því sem dýpra er kafað í málið kemur meiri skítur upp. Útivist er eina félagið sem hefur lagst hálfopinberlega gegna framkvæmdum. Ferðafélagið og Austurleið þegja um málið. Ég skil afstöðuna ekki öðruvísi en þessir aðilir styðji því þennan óskapnað.
Það eru hins vegar fleiri fletir á málinu sem munu birtast í Mogganum á næstu dögum. Viðhald á veginum kostar árlega um 5 milljónir króna, að sögn Vegagerðarinnar. Viðhald á uppbyggðum vegi verður hins vegar margfalt dýrari.
Þegar beðið er um upplýsingar eru svörin fátækleg og lítið eða ekkert til á blaði. Margir vilja láta sig hverfa en hvað hafa þessir menn að fela?
Finna þeir kannski hvernig þrýstingurinn vex um að þessi óskapnaður verði ekki að veruleika.Ég hvet alla til að reyna að afla upplýsinga og sérstaklega þeirra sem þekkja til innan hagsmunaaðila inn á Þórsmörk og annarra þeirra sem geta haft hag af Hraðbrautinni, sérstaklega hjá rútufyrirtækjunum.
Með samstilltu átaki ætti að vera hægt að koma í veg fyrir þetta þjóðinni til heilla.Kv. alfur
P.S. Lítið á heimasíðu Útivistar (http://www.utivist.is)
-
AuthorReplies