Laugardaginn 3. desember s.l. fór Litlanefnd ásamt nokkrum félögum úr hópstjóragenginu í dagsferð með félagi Heyrnarlausra. Nokkrir úr þeirra hópi voru á eigin bíl, reyndar aðeins 3 þegar til kom, en aðrir fengu far með okkar bílum. Stefnan var tekin á Kaldadal og Langjökul. Færið var gríðarþungt, mikið frost og snjór þjappaðist ekkert. Mjög erfiðlega gekk að komast upp brekkuna við Meyjarsæti. Þar höfðu 38″ bílar snúið frá í miðri brekku og beið okkar það hlutverk að komast þar yfir með óbreytta bíla. Okkur tókst að troða leiðina upp með 44″ bíl í 3-4 pundum og lóló. Smám saman tókst 38″ bílum að fylgja förunum, eftir að þeir höfðu hleypt niður í 0,5 – 2 pund eftir bílum. Reynt var að aka förin nokkrum sinnum til að þjappa og gekk það vel. Loks tókst að koma öllum upp, en þeir minnstu þurftu að þiggja spotta til að klára brekkuna.
Var næst haldið að línuveginum og þyngdist færið smám saman eftir því sem við nálguðumst gatnamótin að Skjalbreiðarvegi. Við gatnamótin var stoppað og bauð Félag heyrnarlausra þar upp á nesti og urðu allir saddir og sælir þar. Var ákveðið að freista þess að komast áfram eftir Kaldadalsvegi en eftir mikið nudd og hæga yfirferð var snúið við áður en hópurinn komst að neyðarskýlinu.
Einn okkar frábæru hópstjóra í Litlunefnd, Pétur Hans, er ættaður úr Skorradalnum og tók hann að sér að leiða hópinn á Uxahryggjaleið og þaðan yfir í botn Skorradals. Var leiðin nokkuð þung og farið var að dimma, en þessi óvænti útúrdur var í raun toppur ferðarinnar. Þegar komið var til byggða skammt innan Skorradalsvatns við bæinn Fitjar var pumpað í dekk og síðan haldið sem leið lá eftir þjóðveginum að Borgarfjarðarbrú. Þaðan var var svo ekið fyrir Hafnarfjallið, göngin og til höfuðborgarinnar.
Litlanefndin þakkar hópustjórum aðstoðina og ferðalöngum öllum samveruna.