Laugardaginn 18. febrúar s.l. lögðu um 30 bílar á vegum Litlunefndar frá Stöðinni við Vesturlandsveg. Skeljungur bauð 10 kr. afslátt af eldsneyti í tengslum við þessa ferð og erum þeim færðar bestu þakkir fyrir. Hópnum var skipt í þrennt. Tveir hópar vorum með bíla frá 35″ upp í 46 sá stærsti, en síðasti hópurinn samanstóð af óbreyttum eða mjög lítið breyttum jeppum.
Haldið var yfir Mosfellsheiði á Þingvelli, þaðan yfir Lyngdalsheiði á Geysi en þar var stoppað, því þar var síðasti möguleikinn á eldsneyti áður en haldið var til fjalla. Síðan var ekið upp á Kjalveg og þar sem malbikinu sleppti var mýkt í dekkjum og ekið áfram. Varla vorum við lögð af stað eftir úrhleypingar fyrr en Kerlingarfjallamenn höfðu samband og lýstu leiðinni og erfiðleikum sem hægt væri að búast við. Einnig buðust þeir til að koma á móti okkur og leiðbeina yfir Blákvísl, því venjulega vaðið væri ófært. Þeir eru Öðlingar í Kerlingarfjöllum. Fyrsta hindrun var í gilinu við Grjótá, skafl sem þó var búið að gera í för og reyndist því vera auðveldara en á horfðist í fyrstu. Stærri hóparnir fóru þetta nokkuð létt og upp að Beinakerlingu á Bláfellshálsi. Litli hópurinn var aðeins lengur á leiðinni og þurfti svolítið að kippa í stöku bíl. Frá Bláfellshálsi að Hvítá var svell á veginum og mikil hálka þrátt fyrir frostið, en á milli voru góðir skaflar. Þegar komið var yfir Hvítárbrúnna var fljótlega ekið út af veginum enda allt frosið og góður, þéttur snjór yfir öllu. Ekið var nánast í beinni línu að Fremriskúta og þaðan nánast í beinni línu að Innriskúta í afbragðsgóðu færi. Minni bílarnir áttu þó í heldur meira brasi, en komust þó inn til móts við Árbúðir þar sem þeir fundur góða brekku til að leika sér í, áður en þeir tóku ákvörðun um að snúa við.