Fyrr í dag barst völdum aðilum F4x4 tölvupóstur frá Umhverfisstofnun. Þar sem alltaf er gott að fá uppeldislegar leiðbeiningar frá „stóra bróður“, er ekki annað en sanngjarnt að deila póstinum með öllum félögum F4x4. Pósturinn er á þessa leið:
Góðan daginn
Umhverfisstofnun hefur borist ábending um árshátíð 4×4 í Setrinu þann 29.janúar -1.febrúar 2010. Umhverfisstofnun vill árétta að akstur utan merktra slóða í friðlandinu Þjórsárverum er bannaður og vísar í 4. tölulið auglýsingar um friðlandið í Þjórsárverum þar sem segir:
„Umferð ökutækja er óheimil utan merktra ökuslóða og skal merking háð samþykki ráðgjafarnefndar (Þjórsárveranefndar). Þó skal heimilt að nota snjóbíla og vélsleða á jökli og einnig á snjó og hjarni þegar gróðri stafar ekki hætta af“
Virðingarfyllst
Fyrir hönd Umhverfisstofnunar
Að þessu sögðu ber að ítreka að við félagar í F4x4 berum ómælda virðingu fyrir landinu okkar allra. Við förum í einu og öllu eftir náttúruverndarlögum þegar ekið er í friðlandinu sem og á leiðum utan friðlands inn til Setursins og hvar svo sem við ferðumst. – Við áréttum að Setrið er enn utan friðlands.
Í náttúruverndarlögum stendur m.a. að það sé bannað að keyra á vélknúnum ökutækjum utan vega. En leyfilegt að keyra á jöklum, snjó utan þéttbýlis þegar snjór er yfir og jörð frosin. (sjá nánar í 17. gr. náttúruverndarlaga nr.44 frá 1999 hér)
Við viljum þakka Umhverfisstofnun ábendingarnar, þær eru dásamlegt innlegg og glænýr vinkill í umræðuna um akstur á breyttum jeppum. Við reiknum með því að í framtíðinni fáum við að heyra frá Umhverfisstofnun í hvert sinn sem farið er í ferðir sem þessa og teljum að umræddur póstur sé liður Stofnunarinnar að byggja upp gott og virkt tengslanet.
Sjá spjallþráð https://old.f4x4.is/index.php?option=com_jfusion&Itemid=228&jfile=viewtopic.php&f=5&t=19209