Óvenjulegir tónleikar á óhefðbundnum tónleikastað laugardaginn 16. apríl
Karlakór Kjalnesinga syngur í gíg Skjaldbreiðar
Fjallið Skjaldbreiður og fleiri lög, flest við kvæði Jónasar Hallgrímssonar, munu hljóma upp úr gígnum á toppi Skjaldbreiðar laugardaginn 16. apríl, í flutningi Karlakórs Kjalnesinga. Er þetta að því er best vitað í fyrsta sinn sem tónleikar eru haldnir á þessum stað.
Karlakór Kjalnesinga fagnar tuttugu ára starfsafmæli sínu á þessu ári og stendur af því tilefni fyrir tuttugu viðburðum á árinu, misjafnlega hefðbundnum. Tónleikarnir á Skjaldbreið eru haldnir í samstarfi við Upplit, menningarklasa uppsveita Árnessýslu.
Tónleikarnir eru tileinkaðir skáldinu og náttúrufræðingnum Jónasi Hallgrímssyni, sem ferðaðist um þessar slóðir sumarið 1841, fyrir 170 árum, og gerði þar merkar jarðfræðirannsóknir. Enn lifir kvæði hans, Fjallið Skjaldbreiður, sem er á sama tíma stórbrotin ferðalýsing og jarðfræðikenning um uppruna Þingvallasvæðisins. Þó að kenningin hafi í nokkrum atriðum verið hrakin lifir kvæðið – og verða öll ellefu erindin flutt í gígnum á laugardaginn.
Tónleikarnir hefjast kl. 13, í gígnum á toppi Skjaldbreiðar. Hentug leið til að komast þangað er frá Þingvöllum fram hjá Meyjarsæti, Lambahlíðum og Biskupsbrekkum að vegamótum Kaldadals og Uxahryggjaleiðar. Þaðan er haldið beint til austurs eftir línuvegi að rótum fjallsins að norðanverðu, þar sem fannir eru miklar og oftast fært sérútbúnum jeppum á toppinn.
Viðburðurinn er háður veðri og færð og því er ráðlegt að fylgjast vel með tilkynningum á vefsíðum Karlakórs Kjalnesinga og Upplits.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir – á eigin ábyrgð.