Nú er undirbúningur fyrir jarðarförina á ferðafrelsinu í Vonarskarði næsta laugardag kominn á fullt. Prentaðir hafa verið auglýsingaborðar um þetta verkefni sem þurfa að fara á alla bíla hjá félögum í Ferðaklúbbnum 4×4. Þetta er fljótleg og örugg leið til að vekja athygli á þessum merka viðburði. Borðana er hægt að nálgast á verkstæði Jóns Snælands sem er Vagnhöfða 7 á Ártúnshöfðanum (sama bílaplan og hjá Stál og stansar) og hann getur aðstoðað við að setja þetta á bílinn. Það eru tvær stærðir til (60×20 cm og 45 x15 cm) og fólk getur valið hvaða stærð henti. Gert er ráð fyrir að setja borðana á afturrúðu, en fyrir þá hörðustu geta þeir líka sett á hlið bíla beggja megin. Þetta er tækifæri hins almenna félagsmanns til að koma skilaboðum til fjöldans. Það ætti enginn félagsmaður að aka um bæinn án þessa borða.