Sælir félagar. Um liðna helgi var farið í fyrstu vinnuferð skálanefndar Seturs. Markmið þessarar fyrstu ferðar sumarsins var að ná að helluleggja gólf neyðarskýlisins. Náðist það markmið með glans, þökk sé vöskum hópi skálanefndarmanna og ættingjum þeirra ásamt heimiliskettinum og málara nokkrum sem hann dró með sér og reyndist betri en enginn. Aukinheldur var unnið í vatnskerfi og rafkerfi skálans og ýmislegt í þeim efnum fært til betri vegar. Undirbúningur vegna vinnuferðarinnar um næstu helgi var einnig inntur af hendi og verður þá dagtankur kamínu settur upp á sinn stað og tengingar kláraðar endanlega. Olíutankurinn sem hefur séð skálanum fyrir olíu verður því tekinn endanlega úr umferð og verða þá öll olíumál skálans komin á einn stað og vonandi í endanlegt horf. Á planinu er einnig að huga að brunastigum. Sökkulveggir neyðarskýlisins verða slípaðir og gerðir klárir fyrir veggjauppsetningu. Önnur tilfallandi verkefni eru háð þáttöku félagsmanna.
Þökkum að lokum þeim er létu verk af hendi rakna í síðustu vinnuferð.
F.h. skálanefndar. Logi Már.