Ágæti frambjóðandi
Ferðafrelsisnefnd er vinnuhópur á vegum Ferðaklúbbsins 4×4, Skotvís, Skotreyn, Slóðavina, Jeppavina og fleiri aðila sem tengjast ferðalögum og útiveru.
Í ljósi aukinnar ferðamennsku og vaxandi samkeppni um nýtingu landsins á ýmsa lund, þá finnst mörgum landsmönnum að hætta sé á að verulega verði þrengt að frjálsri för landsmanna um óbyggðir landsins.
Í III grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ) er kveðið á um almannarétt, þ.e. rétt almennings til ferðalaga og nýtingar. Ákvæði um almannarétt er reyndar að finna í fornum lagabálkum, svo sem Grágás og Jónsbók.
Ferðafrelsisnefnd hefur íhugað hvort ekki væri rétt að binda í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands rétt almennings til ferða um landið og nýtingu á svipaðan hátt og tilgreint er í lögum um náttúruvernd.
Á þjóðfundinum sem haldinn var þann 6.nóvember 2010 kom fram vilji fundarins til að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt. Jafnframt kom fram sá eindregni vilji fundarins að almannahagsmunir væru ávallt í fyrirúmi og að stjórnarskráin skyldi vera fyrir fólkið í landinu. Við teljum að skýr ákvæði um almannarétt falli vel að þessum sjónarmiðum.
Því viljum við spyrja þig, ágæti frambjóðandi, um afstöðu þína til þessa.
1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?
2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?
Svör óskast send til ferðafrelsisnefndar á póstfangið, ferdafrelsi@f4x4.is
Virðingarfyllst