Um liðna helgi fór skálanefnd í fyrri af tveimur almennum vinnuferðum þessa sumars. Þátttaka var ekki mikil en þeir sem mættu uppeftir létu sitt svo sannarlega ekki eftir liggja og gekk því vinna helgarinnar framar vonum. Svo löng saga sé gerð stutt þá náðist að grafa fyrir fyrirhugaðri skemmubyggingu en það var reyndar ekki létt verk þar sem jarðvegurinn er mjög laus í sér og hrundi því mikið úr bökkunum jafnóðum og þurfti að margmoka uppúr skurðinum. En þetta hafðist á endanum og voru sökkulfætur steyptir upp á laugardeginum ásamt því að binda járnagrindur í súlurnar sem koma upp af sökkulfótunum og einnig í eitthvað af veggjunum sem koma ofan á súlurnar. Veggjamót voru einnig forsmíðuð. Eftir að sökkulfætur höfðu verið steyptir var grill að hætti skálanefndar og kláraðist ekki borðhald kvöldsins fyrr en um tíuleytið en þá fóru menn út, stilltu af súlur ofan á sökkulfæturna og fylltu upp í grunninn aftur og lauk því um hálf eitt um nóttina. Á sunnudeginum voru súlurnar svo skornar í rétta hæð og steypt í þær og gengið frá grunninum til bráðabirgða. Skurður var einnig grafinn fyrir nýjum rafmagnsheimtaugum og olíuleiðslu og því komið fyrir og fyllt í skurðinn og gengið frá þannig að þegar gámurinn verður færður verða allar rafmagns og olíuleiðslur komar á sinn stað og tilbúnar til tengingar. Í næstu almennu vinnuferð, helgina eftir verslunarmannahelgi er svo meiningin að stilla upp mótum fyrir sökkulveggina, járnabinda og klára steypuvinnu. Í september er svo stefnt að því að færa gáminn inn í sökklana en það getur reyndar oltið á því hvort olíutankamál leysast en þau eru í vinnslu í samráði við Skeljung þessa dagana. Við í skálanefnd viljum svo að lokum þakka þeim sem ljáðu okkur lið þessa helgina en það voru Árni og Hlynur Ómarssynir, Heiðberg, Tóti litlunefndarmaður, Steini „Lada“ sem sá um að stjórna gröfunni af mikilli röggsemi og svo Þórður Adolfsson og Sigrún kona hans, allt saman miklir dugnaðarforkar.
Með góðri kveðju.
Logi Már. Skálanefnd.