Sælt veri fólkið.
Skálanefnd hefur staðið í ströngu undanfarið og farið upp í Setur í vinnuferðir þrjár helgar í röð. Höfum við félagarnir lengt helgarnar og verið að fara á fimmtudagskvöldum og náð tveimur heilum vinnudögum út úr helginni. Aðra helgina í júlí var farið í að mála þak og kláraðist það en mála þarf þakið á Setunni og verður væntanlega reynt við það í vinnuferðinni í ágúst. Einnig var byrjað að rífa innan úr vélarrými gámsins og byggja það upp að nýju. Þriðju helgina í júlí var haldið áfram með vélarrýmið og farið í að leggja miðstöðvakerfið fram á klósett og voru rafmagnsofnarnir sem þar voru teknir niður og venjulegir settir í staðinn og tengdir kerfinu frá kamínunni. Nokkuð mál var að koma bakrásinni fyrir og þurfti að taka hana undir húsið með tilheyrandi greftri og veseni en hafðist að lokum. Kerfið var einnig tæmt og kamínan var tekin í bæinn og yfirfarin inni í Funa og reykrörið frá henni lagfært. Um síðustu helgi var svo almenn vinnuferð en mæting almennra félagsmanna var mjög dræm og mætti einn með okkur á fimmtudagskvöldið og tveir komu seinnipartinn á laugardegi. Þó náðist að setja kamínuna upp og klára miðstöðvakerfið og koma hita á húsið aftur. Nýja rafstöðin okkar fór einnig uppeftir á fimmtudagsnóttina, við fengum hana afhenta eftir breytingu hjá fyrirtækinu Hafás milli átta og níu á fimmtudagskvöldið og var hún sett beint á klúbbkerruna og keyrð uppeftir. Var hún átta til níu vikum á eftir áætlun vegna tafa á afhendingu frá framleiðanda. Það ber að taka fram að Vélasalan kom einstaklega vel fram við okkur í þessu máli og kom vel til móts við okkur vegna tafanna sem þeir sjálfir áttu þó enga sök á. Hafist var handa við að koma vélinni inn í vélarrýmið á föstudagsmorgunn og var hún komin á sinn stað fljótlega upp úr hádeginu og byrjað að ganga frá staðsetningu og tengingum. Á laugardagskvöldið var svo tekið „test run“ á hana og virkaði allt sem virka þurfti, eftir er samt að fínstilla hlutina. Pústkerfi var tengt til bráðabirgða, eftir er að ganga endanlega frá því og einnig að ganga frá kælirörum sem annars vegar taka inn kalt loft og hins vegar taka heita loftið frá vélinni og koma því út. Þegar allt verður frágengið verður vélin keyrð í lokuðu rými þ.e. hurðin á gámnum skal höfð lokuð. Rýmið sem hún er í hefur nú einnig verið hljóðeinangrað svo sem tök eru á. Reiknað er með að gegnið verði frá því sem eftir er að ganga frá í vinnuferðinni tólfta til fjórtánda ágúst og þá verði vélin tilbúin til notkunar. Einnig má geta þess að sökkul skálans sem snýr að aðkeyrslu hans hefur nú verið klæddur með pallaefni og er nú ásjóna hússin öll önnur þegar komið er að því. Fyrirhugað er síðan að hafa opið hús í Setrinu og kynna félagsmönnum þær breytingar sem gerðar hafa verið á skálanum og bjóða upp á vöfflur að hætti hússins og fría gistingu en það verður auglýst nánar síðar. Við í nefndinni viljum þakka þeim aðstoðina sem þó hafa komið að starfinu með okkur í sumar.
Logi Már. Skálanefnd Seturs.